Hárrétt hjá Jóhönnu að nota túlk.

Ég heyri að einhverjir eru á bloggi og víðar að hnýta í Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir að nota túlk í viðtölum sínum við útlendinga í dag og gefa í skyn að það sé lítillækkandi fyrir han og landið að hafa forsætisráðherra sem ekki teysti sér til að tala reiprennandi erlend mál og brillera þannig í samskiptum við útlendinga.

Þessu er ég alveg ósammála og finnst viðhorf af þessu tagi lýsa óþarfa minnimáttarkennd. 

Þvert á móti hafa margir íslenskir ráðamenn gert þau mistök að ræða um viðkvæm mál við útlendinga án þess að gera það á þeim jafnréttisgrundvelli að báðir fái að tala móðurmál sitt en ekki bara annar aðilinn. 

Oft hefur niðurstaðan orðið broslegur misskilningur en líka hætta á mistökum sem ekki verði bætt. 

Íslenska þjóðin hefur ekki efni á misskilningi og ójafnræði í viðræðum við útlendinga nú um stundir.

Það getur að sjálfsögðu verið akkur í því að fulltrúar okkar í samskiptum við útlendinga nýti afburða tungumálafærni í þágu þjóðarinnar. En margir erlendir kollegar Jóhönnu stilla sig um að tala til dæmis ensku í slíkum tilfellum þótt þeir geti það svosem. 

Jóhanna er í góðum félagsskap þegar hún notar túlk. Þetta gerðu Stalín, Krústjoff, Bresnéf, De Gaulle, Mitterand og aðrir leiðtogar helstu stórvelda heims.

Aðeins einu sinni minnist ég þess að mistök túlks hafi valdið vandræðum. Það var þegar Krjústjoff notaði rússneskt orðalag og sagði við Bandaríkjaforseta um samkeppni Bandaríkjanna og Sovétríkjanna: "Við munum grafa ykkur!"

Þetta reitti Bandaríkjamenn og Vesturlandabúa til reiði en túlkurinn hafði gert þau mistök að þýða orð Krjústjoffs eftir orðanna hljóðan en ekki eftir hinni raunverulegu meiningu.

Þetta mun hafa verið hliðstætt því að íslenskur ráðamaður segði: "Við eigum eftir að baka ykkur!" eða "Við eigum eftir að steikja ykkur!" og túlkurinn þýddi þetta sem allra nákvæmast með því að segjai: "Við eigum eftir að brenna ykkur lifandi!"

Slík mistök og misskilningur geta verið slæm en þó er mun minni hætta á slíku með því að nota túlk heldur en þegar verið er að reyna að bjarga sér á öðru máli en eigin tungumáli gagnvart viðmælanda sem er á heimavelli eigin móðurmáls.  


mbl.is Birgitta kaus í Hagaskóla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurveig Eysteins

Og ekki má gleyma Kanslara Þýskalands og Frakklandsforseti talar bara á sínu móðurmáli, það eru bara við Íslendingar sem sjáum eitthvað athugavert við að nota túlk, ég efast stórlega að erlendu fréttamennirnir hafi tekið eftir þessu.

Sigurveig Eysteins, 25.4.2009 kl. 21:05

2 Smámynd: Sævar Einarsson

Það var alveg hárrétt hjá henni að nota túlk, sumir ráðherrar og þingmenn halda að þeir séu svo æðislegir í sinni grunnskólaensku/dönsku að þeir geti talað og skilið hana líkt og þeir væru að tala á sínu móðurmáli en annað hefur nú komið á daginn og margir misskilið þá sem á hana hlýddu og þeir misskilið þá sem hana töluðu.

Sævar Einarsson, 25.4.2009 kl. 21:16

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Æ hóp jú vill komm bakk!", sagði Geir Hallgrímsson við erlendan ráðamann.

Hann kom ekki aftur.

Þorsteinn Briem, 25.4.2009 kl. 21:16

4 Smámynd: Sævar Helgason

Glæsilegt hjá Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra.  Nú er hún komin í hóp þeirra leiðtoga sem tala tungu þjóðar sinnar og láta túlka mál sitt fyrir erlenda gesti. Það er reisn yfir forsætisráðherra okkar og til fyrirmyndar...

Sævar Helgason, 25.4.2009 kl. 21:27

5 Smámynd: Jóhannes Guðnason

Sammála þér Ómar,þetta er hárrétt hjá Jóhönnu minn,svo er þetta líka atvinnuskapandi,og bókað mál að engin misskilið neitt,við erum búinn að fá nó af því,(Forsetinn okkar er oft misskilin,HA HA HA)  Góður pistill hjá þér Ómar,Gleðilegt sumar.

Jóhannes Guðnason, 25.4.2009 kl. 21:29

6 identicon

"Jóhanna er í góðum félagsskap þegar hún notar túlk. Þetta gerðu Stalín, Krústjoff, Bresnéf, De Gaulle, Mitterand og aðrir leiðtogar helstu stórvelda heims." Ómar

Þú tekur dæmi af Rússum frá þeim tíma er þeir voru erkifjendur "okkar". Á þeim tíma hefði kannski þótt stórhneyksli í Rússlandi ef ráðamaður þar talaði ensku. Og svo lönd eins og Þýskaland og Frakkland, sem börðust fyrir því að þeirra tungumál yrði heimsmálið, í stað ensku.

En mikið hefur breyst síðustu ár. Nú þykir allt í lagi í Frakklandi t.d. að tala ensku, og maður getur bjargað sér t.d. í París á ensku. Það er mikil breyting bara á rúmlega einum áratug eða svo.

Nú kann ég ágætlega við Jóhönnu, og þykir það leitt ef hún verður fyrir skítkasti á einhverjum bloggum.

En ég tek undir það að það er ekki alveg í lagi að ráðamenn þjóðarinnar séu ekki sleipir í ensku. Þetta er nú bara lágmarkskrafa, ætti ekki að vra neitt stórmál. Held að tími sé kominn til að við gerum meiri kröfur til stjórnmálamanna okkar. Í dag finnst mér stundum að þetta séu eins og börn í klónum á erlendum stórfyrirtækjum, og svo alþjóðastjórnmálum.

magus (IP-tala skráð) 25.4.2009 kl. 21:29

7 identicon

Undir þetta tek ég heilshugar.

Í því sambandi má benda á að jafnvel langt og strangt nám í Englandi, í tilteknu fagi, gerir þig ekki endilega hæfan til að tjá sig um hvað sem er.  Það gerir reyndar löng búseta erlendis ekki heldur.

Á sama hátt; ef Englendingur kemur til Íslands og nemur dýrafræði - og verður nokkuð öruggur í íslenskum orðaforða sem tengist því fagi - þýðir það ekki þú getir rætt við hann um viðskipti svo vel sé.

Viðskiptaenska er sérfag sem tekur ár að tileinka sér svo vel sé.

Jóhanna virðist gera sér góða grein fyrir hvar hæfileikar hennar liggja - og hvar hún þarf aðstoð.  Það tel ég til mikilla mannkosta.

baldur mcqueen (IP-tala skráð) 25.4.2009 kl. 21:34

8 Smámynd: Marteinn Unnar Heiðarsson

Ómar eitt skil ég ekki.Ég hef alltaf haft miklar mætur á þér sem náttúrisinna og einn af mönnum Íslands en hvað breyttist hjá þér????Nú styður þú flokk sem vill færa okkar sjálfstæði til Brussel og eftir það er hægt að kaffæra landið í lónum fyrir rafmagn eða virkjanir einsog þeir skipa fyrir og við gætum ekkert gert nema segja já!!! Hvað meinar þú Ómar?????

Marteinn Unnar Heiðarsson, 25.4.2009 kl. 21:50

9 Smámynd: Guðrún Þóra Hjaltadóttir

Hún lætur ekki aðra hafa áhrif á sig hún Jóhanna, auðvitað á hún að nota túlk, ekki var nú klúðið hjá Árna Matt, glæsilegt.

Guðrún Þóra Hjaltadóttir, 26.4.2009 kl. 00:17

10 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ef ESB myndi kaffæra Ísland í lónum, af hverju beitti bandalagið sér ekki fyrir því að Finnar, sem eru í ESB, lykju við að virkja allt vatnsafl sitt eftir að þeir gengu í ESB?

Af því að stjórnarskrárákvæði Finna, sem koma ESB ekkert við, gera þetta illmögulegt plús það að ESB hefur ekkert með ákvarðanir Finna í þessum málum að gera annað en að gera þeim erfiðara að ganga gegn þeim umhverfiskröfum sem bandalagið gerir. 

Þvert á móti því sem haldið er fram, myndi aðild að ESB verða mikill akkur fyrir íslensk unhverfismál. 

Vegna þess að við erum utan ESB hefur okkur tekist að komast upp með það að vera einir þjóða í okkar heimshluta sem ekki hefur viljað undirrita svonefnt Árósasamkomulag sem er sprottið af viðleitni ESB til að láta Austur-Evrópuþjóðir sem vilja inn í ESB láta af heimsfrægum umhverfissóðaskap sínum. 

Við Íslendingar höfum stefnt sjálfir að því og viljum herða á þeirri stefnu án nokkurrar íhlutunar ESB að fórna með dyggum þrýstingi frá Bandaríkjamönnum mestu verðmætum landsins, einstæðri náttúru þess, svo að Bandaríkjamenn geti varðveitt verðmæti á borð við Yellowstone, sem þó standa hliðstæðum íslenskum náttúruverðmætum langt að baki.

Hvað Jóhönnu snertir þá nefndi ég ekki aðeins rússneska ráðamenn sem notuðu túlka, heldur einnig Frakklandsforseta og get þess vegna bætt við þýskum, ítölskum og spænskum ráðamönnum við og sleppt þeim rússnesku.

Ég fellst ekki á þau rök að einu þjóðarleiðtogarnir sem nota túlka geri það eingöngu af fjandskap við viðmælendur sína.  

Ómar Ragnarsson, 26.4.2009 kl. 02:48

11 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég vil líka bæta því við að auðvitað tala einstaklingar ensku á ferðalögum sem best þeir geta og láta skeika að sköpuðu. Mér er kunnugt um að Jóhanna getur gert það og hefur gert það eins og við hin.

Þegar hins vegar getur staðan verið þannig að hvert orð hafi gríðarlega mikla þýðingu og vægi fyrir fjölda fólks og heilar þjóðir. Þá horfir málið öðru vísi við. 

Setjum sem svo að kanslari Þýskalands eigi mikilvægar og viðkvæmar viðræður við æðsta ráðamann Kína. Á þá þýski kanslarinn að tala kínversku vegna þess að níu sinnum fleiri tala kínversku en þýsku? 

Auðvitað ekki. Málið snýst um að viðmælendur njóti jafnræðis þannig að annar þeirra þurfi ekki að nota framandi tungumál á sama tíma og hinn notar eigið móðurmál. 

Það skiptir ekki máli hversu mörgum sinnum færri jarðarbúar tala íslensku en önnur tungumál. 

Þess vegna er fólgin viðurkenning og reisn yfir því að sigrast á þeirri minnimáttarkennd að íslenska sé talað af svo fáum að það sé of ómerkilegt tungumál til að vera nothæft á sama hátt og önnur tungumál. 

Ómar Ragnarsson, 26.4.2009 kl. 03:00

12 Smámynd: Billi bilaði

Góður pistill.

Billi bilaði, 26.4.2009 kl. 03:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband