27.4.2009 | 01:10
Tvær tölur utan skekkjumarka. Óþarfa yfirlýsingar.
Allar tölurnar í síðustu skoðanakönnunum fyrir kosningar voru innan skilgreindra skekkjumarka nema tvær, fylgi VG og fylgi Framsóknar hjá Fréttablaðinu.
Ætli það teljist bara ekki furðu gott.
VG hefur alltaf fengið minna í kosningum en í könnunum en skekkjan var öllu meiri nú en venjulegt hefur verið.
VG var með nokkuð stöðugt fylgi lengst af í könnunum. Skýringin gæti verið sú að flokksmenn höfðui vit á að rugga bátnum ekki neitt og sigldi framboðið að því leyti til lygnari sjó en hin framboðin.
Í eina skiptið sem bátnum var ruggað gerðist það með yfirlýsingum Kolbrúnar Halldórsdóttur um Drekann og andsvari Steingríms J. Sigfússonar auk sterkrar yfirlýsingar hans um ESB á síðasta degi baráttunnar.
Það var í eina skiptið sem rót komst á þau í kosningabaráttunni og athyglin beindist sérstaklega að vandræðagangi og misræmi í þeirra röðum. Úr því að vel gekk fram að því skil ég ekki hvers vegna var farið að koma róti á umræðuna um flokkinn svona seint í baráttunni.
Engin brýn þörf var á þessum yfirlýsingum, nema þá viðbrögðum Steingríms við orðum Kolbrúnar um Drekann. Sú yfirlýsing var nauðsynleg, einkum með tilliti til fylgis hans í eigin kjördæmi.
Ég hitti fylgismenn VG á Akureyri daginn fyrir kosningar og þeir voru slegnir eftir þessa óvæntu uppákomu. Með sterkum yfirlýsingum sem ekki var brýn þörf á, var tekin óþarfa áhætta, miðað við hagsmuni framboðsins, hvort sem það var skýringin á þessum fylgismismun eða ekki.
Þeir sem andmæla því að þetta hafi haft að segja, benda á stöðugleikann í Norðausturkjördæmi. En það kjördæmi hafði algera sérstöðu allan tímann hvað það snerti að persónufylgi Steingríms J. stóð þar eins og klettur úr hafinu og með andsvari sínu við yfirlýsingu Kolbrúnar setti hann undir hugsanlegan leka þar.
Kannanir langt frá kjörfylgi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ég kaus VG en var mjög ósáttur við orð Kolbrúnar og taldi að hún hefði skemmt f. VG á seinustu metrunum. Hún segist reyndar hafa verið misskilin á visir.is
http://www.visir.is/article/20090426/FRETTIR01/785886163/-1
en ég veit ekki, orð hennar sem hún staðfestir sjálf eru alla vega samt úr takti við raunveruleikann. Við búum nú í olíuhagkerfi og munum gera það í talsverðan tíma og það er hreinlega ekki hægt að vera nokkuð á móti olíuborun neins staðar þar sem við höfum ekkert sem kemur í stað f. olíu (sem er raunverulegur kostur, allir þessir smærri orkugjafar eru ágætir til síns brúks en ná ekki að vega upp á móti olíunni á stóra sviðinu). Kolbrún notar væntanlega bíl og flýgur með flugvél, hvernig í ósköpunum getur hún sett sig á móti olíuleit og vinnslu að nokkru leyti.
Ari (IP-tala skráð) 27.4.2009 kl. 01:44
Sæll Ómar.
Það er alveg öruggt að Kolbrún skemmdi fyrir með þessu heimskulega útspili sínu um Drekasvæðið. Henni var refsað fyrir.
Jens Sigurjónsson, 27.4.2009 kl. 02:00
Þegar ég sá á nafn kolbrúnar í kjörklefanum velti ég vöngum yfir því hvort að ég ætti að stroka nafn hennar út en að endingu þá kaus ég Borgarahreifinguna því ég vil fá breytingar sem fyrst á núverandi stjórnskipulagi sem fyrst. Orð Kolbrúnar höfðu án nokkurs vafa neikvæmtt vægi ... því ef hún væri ekki á listanum hefði ég væntanlega kosið VG. það þurfti ekki mikið til.
Brynjar Jóhannsson, 27.4.2009 kl. 02:35
Er fólk að segja og hvetja til þess að þessi flokkur eigi ekki að setja fram skoðanir sínar og stefnu fyrir kosningar til þess að fá fleiri atkvæði ?
Og sér einginn neitt athugavert við það ?
Óheiðarleiki virðist vera normið í stjórnmálum á Íslandi, því er ákaflega brýnt að losa okkur við flokksræði og fá í staðin lýðræði með virku aðhaldi.
Jon J. Bjarnason (IP-tala skráð) 27.4.2009 kl. 04:11
Þannig vill til að ".þessi flokkur", VG, er ekki sammála um olíuleitina og æskilegra hefði verið að hann hefði viðrað mismunandi skoðanar flokksmanna fyrr.
Ég met baráttu, hugsjónir og þekkingu Kolbrúnar Halldórsdóttur á umhverfismálum mjög mikils. Ég sagði í grein í Morgunblaðinu að vafi léki á að nokkur annar þingmaður hefði aflað sér eins mikillar þekkingar hefði jafn mikla og langa vinnu að baki til að sinna starfi umhverfisráðherra vel. Við það stend ég.
Einn hinn stærsti af mörgum kostum Kolbrúnar að mínu mati er óbilandi hugsjónaeldur og hreinskilni. Það er gott og blessað en stundum þarf þó að gæta þess þegar lið er að spila saman á vellinum að taka tillit til aðstæðna og ólíkra skoðana samherjanna.
Kolbrún kvartar yfir því að ummæli hennar hafi verið mistúlkuð. Ef hún hefði sagt þetta fyrr hefði gefist meiri tími í umfjöllun um það.
Svona eldfim mál sem þar að auki eru umdeild í hennar eigin flokki eru hættuleg þegar þau eru sett fram svo nálægt kosningum að ekki gefst tími til að vinda ofan af hugsanlegum misskilningi og mistúlkun.
Það er dómur þeirra vísindamanna sem best þekkja, að vinnsla og notkun jarðefnaeldsneytis valdi ógn vegna hlýnunar andrúmsloftsins. Þess vegna hlýtur það að vera sameiginlegt markmið jarðarbúa að minnka vinnslu og notkun jarðefnaeldsneytis.
Raunveruleikinn er hins vegar sá, og hann blasir við í öllum áætlunum um minnkun notkunar jarðefnaeldsneytis, að hraðinn á mögulegri minnkun þessarar notkunar er takmarkaður og ekki verður séð að hægt sé að útrýma notkun þess, heldur verður að nota það áfram í bland við notkun annarra orkugjafa en í minnkandi mæli og ná þannig markmiðum um minni loftslagshlýnun.
Mér er ekki kunnugt um að nokkur önnur þjóð ætli að afsala sér rétti til að leita að og finna olíu og gas. Málið er þannig vaxið að í sameiginlegum potti orkugjafa jarðarbúa verði öll sú orka sem finnanleg og vinnanleg er og það síðan samningsatriði hvernig unnt verði að að hægja á vinnslunni.
Ég get nefnt hliðstæðu: Ég er alger bindindismaður og fékk að gjöf einkanúmerið "Edrú" á bíl minn. Ég vildi óska þess að engin fíkniefni, áfengi né annað, sé í notkun.
En ég viðurkenni að þessi ósk mín er ekki framkvæmanleg og þá verður að leita annarra ráða til að stemma stigu við skaðanum af notkun áfengis og annarra vímugjafa úr því að ekki er hægt að útrýma þeim.
Ómar Ragnarsson, 27.4.2009 kl. 12:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.