Fáfræði og óskhyggja um stefnuskrár í umhverfismálum.

Umsagnir fréttamanna og bloggara í dag sýna magnaða fráfræði og óskhyggju um stefnuskrár stjórnarflokkanna í umhverfismálum. Fréttamenn spyrja hvort SF þurfi ekki að gefa eftir gagnvart kröfum VG í umhverfismálum.

Jóhönnu Sigurðardóttur tókst að skjóta því að á ská í lok viðtals í dag að Samfylkingin legði líka mikinn áhuga á umhverfismál. Það hafði engin áhrif á bloggara sem áfram telja um mikinn stefnumun að ræða.

Hvernig væri nú að frétta- og blaðamenn og bloggarar létu af þrálátu áhugaleysi sínu á umhverfismálum og kynntu sér stefnuskrár þessara tveggja flokka? Enginn hafði áhuga á því eftir landsfund SF en nú er áhugi á að blása upp ímyndaðan stefnumun.

Ég starfaði í umhverfisnefnd SF á nýlegum landsfundi hennar. Samþykkt stefna Samfylkingarinnar hefur grænkað. Við fengum tekið upp að stefna að grænu hagkerfi og jafnrétti kynslóðanna (öðru nafni sjálfbær þróun).

Þetta er mjög mikilvægt. Sjálfbær þróun er þróun (starfsemi, framkvæmdir nýting) sem ekki sviptir komandi kynslóðir frelsi um að velja sér sína þróun. Sem sagt: Engin óafturkræf umvhverfisspjöll. Samþykkt var að hætta ágengri orkuöflun. Það þýðir í raun byltingu í nýtingu háhitans.

Felld var tillaga virkjanasinna um að Ísland sækti um undanþágu frá mengunarkvótum svo að hægt væri að reisa fleiri álver. Fulltrúar frá íslandshreyfingunni og Framtíðarlandinu lögðust þarna á sveif með öflugum grænum samherjum í SF og réðu með þeim úrslitum í þessu mikilvæga máli.

Samþykkt var viljayfirlýsing um að Vatnajökulsþjóðgarður yrði stækkaður til suðvesturs allt að Mýrdalsjökli svo að allt hið ósnortna eldvirka svæði norðan Suðurjökla yrði friðað. Það fellir sjálfkrafa út einar 5-6 fyrirhugaðar virkjanir á því svæði, Markarfjótsvirkjun, Reykjadalavirkjun, Torfajökulsvirkjun, Bjallavirkjun, Skaftárveitu og jafnvel Hólmsárvirkjun. Enginn fréttamaður tók eftir þessu.

Að sumu leyti gengur nýsamþykkt stefna SF lengra í græna átt en nýsamþykkt stefna VG.

Ég hef tekið eftir því að margir innan VG tóku ekki eftir þessu, en þetta er mjög mikilvægt fyrir VG.

Þá segja menn: En SF gaf eftir varðandi Fagra ísland og gefur aftur eftir núna.

En ég spyr á móti: Eftir hverjum á SF að gefa núna? Kröfum VG um fleiri álver?

Í ríkistjórninni 2007 gerði Sjálfstæðisflokkur stóriðjuna að úrslitaatriði. Samfylking gaf eftir því að Sjálfstæðismenn gátu hvort eð er ráðið þessu í krafti meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks á þingi.

Formaður Framsóknar setti strax ofan í við Kolbrúnu Halldórsdóttur á fyrsta starfsdegi hennar í minnihlutastjórinni og gerði það ljóst að meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks réði í raun úrslitum í stóriðjumálum, þar með talið í Helguvíkurmálinu.

Hingað til hefur meirihluti þessara gömlu slímsetuflokka ráðið úrslitum í stóriðjumálum, sama hvaða stjórn hefur setið að völdum.

Nú er 86 ára tímabili lokið þar sem annar hvor eða báðir þessara flokka stóðu að öllum stjórnarmyndunum.

Það er eins og margir hafi enn ekki áttað sig á því hve óhemju mikilvægt þetta er.

Þegar fréttamenn elska að benda á ósætti og átök um stefnur stjórnarflokkanna verða þeir að gæta sín á því að stefna flokkanna sé mismunandi í raun.

Hún er það ekki núna og því um ekkert ágreiningsefni að semja um varðandi umhverfismál. Eða það skyldi maður ætla.


mbl.is Áframhaldandi viðræður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Alltaf frábær nýr Ómar flokksbróðir

fer (IP-tala skráð) 28.4.2009 kl. 22:50

2 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

" Engin óafturkræf umvhverfisspjöll". Ég er ekki viss um að fólk sem setur þetta í stefnuskrá sína, hafi nokkra glóru um hvað þetta þýðir í raun. Þetta er dæmt til þess að verða "svikið".

Gunnar Th. Gunnarsson, 29.4.2009 kl. 10:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband