30.4.2009 | 12:28
Misjafn ávinningur.
Það eru bæði jákvæðar og neikvæðar hliðar á því að halda í gamla bíla til daglegs brúks og fer mjög eftir stærð bílanna, hvað snertir mengun og eyðslu.
Gallar nýrra bíla:
Það fylgir bæði kostnaður og mengun að framleiða nýja bíla. Afskriftir eru stór útgjaldaliður og oftast er fjármagnskostnaður miklu meiri. Sú starfsemi sem þarf að fara fram til að standa undir þessum útgjöldum getur út af fyrir sig kostað mengun.
Kostir nýrra bíla:
Nýir bílar eyða minna, menga minna og eru öruggari en gamlir bílar af sömu stærð.
Gamlir bílar eru fjarri því að vera eins. Sumir eru stórir, eyðslufrekir, viðhaldsfrekir, menga mun meira og eru ekki eins öruggir og nýrri bílar. En svo finnast aðrir sem eru litlir, sparneytnir, menga ekki mikið og standast sumir hverjir furðu miklar öryggiskröfur.
Gallar gamalla bíla:
Viðhaldsfrekari en nýir bílar. Menga meira. Eyðslufrekari. Minna öryggi.
Kostir gamalla bíla:
Minni afskriftakostnaður og í fleiri tilfellum minni fjármagnskostnaður. Spara mengun og kostnað við að framleiða bíl í staðinn. Skapa meiri atvinnu vegna viðhalds.
Ég hef farið mína leið í þessu efni. Ég ek að jafnaði um á ódýrasta bíl landsins, átta ára gömlum bíl sem kostaði þegar ég keypti hann fjögurra ára gamlan í Póllandi, 60 þúsund krónur og 110 þúsund krónur kominn á götuna hér.
Bíllinn var á sinni tíð ódýrasti, einfaldasti og sparneytnasti bíllinn á Evrópumarkaðnum og er enn einn af sparneytnustu bílum sem eru í umferð. Getur samt tekið fjóra í sæti.
Þegar bíllinn var hannaður sem arftaki Fiat 500 var hann þyngdur um 100 kíló með ýmsum styrkingum til þess að hann stæðist strangar öryggiskröfur og hefur staðið sig furðu vel í árekstraprófunum allt til þessa dags.
Þegar Pólland var á leið inn í ESB var hinni ofursmáu vél sem er aðeins 650 cc og 24 hestöfl, breytt til þess að koma menguninni niður úr öllu valdi. Bíllinn getur þó náð 115 kílómetra hraða.
Ég reynsluók nýlega eina helgi Toyota iQ, sem er næst stysti nýi bíllinn á markaðnum, aðeins 2,98 metra langur, en getur samt tekið fjóra í sæti og er jafn breiður og meðalstórir bílar.
Þessi bíll mengar langminnst allra bensínbíla, 99g/km og stenst fremstu öryggiskröfur. Getur náð 150 km hraða.
Ég ætla að greina betur frá honum síðar. Gallinn við nýja bíla um þessar mundir er hins vegar sá að þeir eru svo dýrir, kosta tvær milljónir og þaðan af meira.
Á meðfylgjandi myndum af þessum tveimur ofangreindu smábílum og sjá má einkanúmerið "EDRÚ", sem mér var gefið þegar ég varð sextugur. Í númerinu felast skilaboð sem vísa til margra sviða þjóðlífsins og eiga vel við fréttina sem þetta blogg tengist við.
Gömlu bílarnir lifa lengur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Eitt sinn keypti ég notaðan Ford Fiesta af KA á Akureyri. Hann eyddi frekar litlu og bilaði nánast ekkert.
Sonurinn sat í aftursætinu, tveggja ára gamall, kunni ekki enn að lesa en þuldi þó upp bíltegundirnar fyrir framan okkur á götunni: "Volvo, Benz, Toyota tákn um gæði, ...."
Vegna auglýsinganna í sjónvarpinu hélt hann að tegundin héti Toyota tákn um gæði.
Þorsteinn Briem, 30.4.2009 kl. 13:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.