30.4.2009 | 14:34
Ábyrgð íslenskra Titanic-skipstjórnenda.
Ég heyrði ekki alla umræðu foringja stjórnmálaflokkanna í sjónvarpinu en rætt var eftir á um þau ummæli Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, þegar Jóhanna Sigurðardóttir bar íslenska bankahrunið saman við Titanic-slysið að það slys hafi ekki verið hönnuðum skipsins að kenna.
"Það er ekki hægt að kenna hönnuðum Titanic fyrir það hvernig fór" sagði Sigmundur og átti við það að ekki sé ekki hægt að kenna Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki um það hvernig fór fyrir því hagkerfi sem þeir hönnuðu í tólf ára slímsetu sinni í stjórn.
Sigmundur Davíð virðist hafa verið látinn sleppa við það að ræða málið betur og er það miður. Það vill nefnilega þannig til að það voru sömu aðilarnir sem hönnuðu hið íslenska Titanic-efnahagskerfi og stjórnuðu skipinu í tólf ár á leið þess til endaloka þess.
Davíð Oddsson stóð fyrst við stýrið í brúnni lengi vel og síðan var Halldór Ásgrímsson meira að segja skipstjóri í eitt ár áður en Geir Haarde tók við og var skipstjóri þegar skipið sökk í október 2008 eftir að hafa rekist á ísjaka útlánafrosts á hinu alþjóðlega hafsvæði fjármálanna.
Í maí 2007 var skipstjórnarmönnum Framsóknar refsað af kjósendum fyrir glannalega og ábyrgðarlausa siglingu spillingar, bruðls og ójafnaðar, en Sjálfstæðismenn sluppu við það og héldu stjórninni áfram eftir að vaktaskipti höfðu orðið og hluti áhafnarinnar kom frá Samfylkingunni í eitt ár og fjóra mánuði fyrir hrunið.
Berum saman Titanic-slysið og hrun íslenska efnahagskerfisins.
Titanic var smíðað sem stærsta og fullkomnasta skip veraldar árið 1912.
Íslenska bankakerfið átti að verða fjármálalegt Titanic.
Titanic var hannað 1912 með loforði um að það gæti ekki sokkið.
Fjórum mánuðum fyrir íslenska Titanic-áreksturinn, í maí 2008, fullyrti Davíð Oddsson enn og aftur opinberlega að íslenska bankakerfið gæti ekki sokkið þótt hann vissi betur. Geir, Ingibjörg og Þorgerður sungu sama söng.
Sparað var í gerð Titanic með þynnra og lélegra stáli og alltof fáum björgunarbátum. Þess vegna brotnaði það í tvennt þegar það reis upp á endann þegar það sökk.
Á hinu íslenska Titanic á árunum 2004-2008 var ekki talin þörf á að auka gjaldeyrisvarasjóðinn íslenska og grípa til róttækra fyrirbyggjandi ráðstafana.
Titanic átti að setja hraðamet yfir Atlantshaf og því var ekkert slegið af og ekki beygt af leið þótt hættumerkin blöstu við og varað hefði við hættulegum ísjökum á fyrirhugaðri leið.
Íslenska fjármálakerfið sigldi á methraða 2008. 2007 skrifar Hannes Hólmsteinn að það sé orðið fjórfalt stærra en landsframleiðslan og æskilegt að auka vaxtarhraðann enn.
Allar aðvaranir um yfirvofandi hættu voru hunsaðar.
Fjölmiðlarnir löptu það upp og allt var gert sem hægt var til að telja almenningi trú um óskeikulleika Titanic-glæframannanna 1912 og 2006-08.
Fyrirfram var gefið út að hraðamet yrði sett í siglingu yfir Atlantshaf, og þótt vitað væri að skip hefðu rekist áður á ísjaka á siglingaleiðinni, skipti það ekki máli, Titanic átti ekki að geta sokkið. Tæknin að baki þess væri einstök og ekki af neinum öðrum að læra.
Viðskiptaráð á Íslandi gaf það út 2006 að íslenska fjármálaundrið væri einstakt og að íslendingar hefðu enga ástæðu til að leita fyrirmynda og ráða hjá norrænu þjóðunum, af þeim væri ekkert að læra, - "þær standa okkur svo langt að baki" var sagt.
Þegar Titanic hafði rekist á ísjakann var farþegum gefið í skyn að ekkert væri að óttast. Fyrstu björgunarbátarnir fóru því hálftómir frá borði og þeir forsjálustu björguðu sér.
Þegar hafa verið rakin mörg dæmi um hvernig fjármálamenn, sem sáu hið íslenska Titanic nálgast ísjaka efnahagshrunsins 2008, björguðu eigin skinni með öllum tiltækum ráðum á meðan almúginn var róaður niður og sagt að "aðgerðarleysið bæri árangur."
Hljómsveit Titanic spilaði eins og ekkert væri í veislusal Titanic eftir áreksturinn við ísjakann og prúðbúnir gestir nutu lífsins í glæsilegum sölum og vistarverum.
Á Alþingi Íslendinga vorið 2008 svaraði fjármálaráðherrann aðfinnslum um skipstjórn Geirs Haarde með því að hrópa yfir þingheim: "Sjáið þið ekki veisluna, drengir?!"
Það tók drjúgan tíma að skoða þá ábyrgð sem menn báru á siglingu Titanic 1912 og klára það mál.
Hvað verður um ábyrgð hinna íslensku skipstjórnarmanna á siglingunni síðustu árin fyrir hrunið 2008?
Þung ábyrgð að bera | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Mjög góð úttekt og uppsetning á samsvörun þessara tveggja ólíku stórslysa. Það er þó hæpið að kalla síðari atburðinn slys, þar sem hann hafði verið fyrirséður um tíma og við honum varað.
Axel Jóhann Hallgrímsson, 30.4.2009 kl. 15:54
Mistök voru gerð við stjórnun skipsins en Titanic slysið var hönnuðinum að kenna því hann gerði ekki ráð fyrir þeim möguleika að byrðingurinn gæti rifnað með þeim hætti sem varð og flætt gæti inn í mörg hólf í einu. Hönnuðurinn var um borð til að fylgjast með jómfrúarferðinni en var ekki skipsstjórnandi. Hann hélt að þetta gæti ekki gerst.
Stefán Benediktsson (IP-tala skráð) 30.4.2009 kl. 16:13
Ég gleymdi þeirri samsvörun hvernig almenningur og fjölmiðlar 1912 og 2007 gleyptu við öllu því glæsilega, frábæra og fullkomna, sem Titanichönnuðir og stjórnendur þessara tveggja afhoða báru á borð.
Ómar Ragnarsson, 30.4.2009 kl. 16:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.