30.4.2009 | 16:39
Varnarsigrar og sigurvegarar kosninga.
Oft er talað um að framboð í kosningum vinni "varnarsigra" og að sigurvegarar í kosningum séu þau framboð sem bæta mest við sig.
Gengur þetta nú upp?
Tökum hliðstæðu úr knattspyrnunni. Íslendingar tapa 2:14 fyrir Dönum. Spila aftur við þá og tapa 6:10. Eru Íslendingar þá sigurvegararnir? Unnu þeir "varnarsigur"? Höfðu aldrei áður skorað eins mörg mörk í landsleik.
Annað dæmi: Handboltalið tapar 15:30 fyrir öðru liði.
Liðin mætast aftur og þá verða tölurnar 20:30. Er liðið sem skoraði 33% fleiri mörk en síðast þá sigurvegari?
Athugasemdir
Eða segjum sem svo að í leik tveggja liða leggi annað liðið mörk þriðja liðs sem ekki er að keppa við eigin mörk í síðari hálfleik. Liðið skoraði 10 í fyrri hálfleik en gat reiknað sér 12 í síðari að viðlögðum mörkum þriðja liðsins! Stóð það sig betur í síðari hálfleik? Ég tala nú ekki um ef andstæðingur var að spila virkilega, virkilega, virkilega illa í síðari hálfleik, en ekki þeim fyrri?
Já maður spyr sig.
Drengur Óla Þorsteinsson (IP-tala skráð) 30.4.2009 kl. 17:06
Íslenska karlalandsliðið í fótbolta er í 90. sæti í heiminum.
Samt hefur það aldrei tapað.
Og mun ekki gera það.
Í 14:2 leiknum gegn Dönum skoraði íslenska landsliðið tvö mörk, sem er fleiri mörk en það skorar yfirleitt.
Sá leikur var því varnarsigur íslenska landsliðsins.
Þorsteinn Briem, 30.4.2009 kl. 18:04
Hefði ekki verið einfaldara að hafa tölurnar þannig að allir skilji:
Ef Íslendingar tapa 9:18 gegn Dönum í einum leik, en í næsta leik tapa Íslendingar "bara" 14:20.
Vann þá Ísland seinni leikinn?
Nei, auðvitað ekki.
Ekki frekar en að stjórnmálaflokkur sem fær 14 þingmenn gegn öðrum sem fær 20.
20 er alltaf betra en 14, jafnvel þó að síðast hafi munurinn verið 18 gegn 9.
Þessvegna er Samfylkingin sigurvegari kosninganna. Þessvegna mun Samfylkingin leiða næstu ríkisstjórn.
Evreka (IP-tala skráð) 30.4.2009 kl. 19:19
Sögð var í kaldastríðinu sú saga að Bandarísk bifreið og Rússnesk bifreið hefðu reynt með sér í kappakstri.
Hvernig fjallað var um kappaksturinn austan hafs og vestan sýnir hvernig hægt er að snúa hlutum á haus án þess beinlínis að ljúga neinu.
Ekki þarf að fjölyrða um úrslitin en í Bandarískum fjölmiðlum var sagt að Bandaríska bifreiðin hefði sigrað en sú Rússneska hefði orðið síðust.
Í Rússneskum fjölmiðlum var greint frá því að Rússneska bifreiðin hefði orðið önnur en sú Bandaríska næst síðust.
Axel Jóhann Hallgrímsson, 30.4.2009 kl. 19:33
Setti glæsilegt Íslandsmet þegar hann varð aftastur í sínum riðli !
Já, Ómar, það er endalaust hægt að leika sér með tölur
Hildur Helga Sigurðardóttir, 30.4.2009 kl. 20:45
Hárrétt Ómar. Þess umræðuhefð að miða úrslit kosninga (raungildi) alltaf við eitthvað "vænt gildi" sem þá annað hvort er niðurstaða síðustu kosninga eða niðurstöður skoðanakannanna síðustu daga fyrir kosningar er svolítið skrítin. Síðan er árangurinn alltaf metinn sem munurinn á þessu tvennu, þ.e. raungildinu og vænta gildinu (því sem fjölmiðlamennirnir ákváðu að væri líklegt gildi af þeirra mati). Af hverju er raungildið ekki bara skoðað sem slíkt, þ.e. niðurstöður kosninganna án þess að þær séu alltaf bornar saman við hin svonefndu væntu gildi? Eins og þú bendir á er þetta t.d. ekki gert í íþróttum og á klárlega enn síður við í kosningum.
Í kosningunum um daginn komst Sjálfstæðisflokkurinn til dæmis "á pall" og náði "silfri" í þessari keppni um atkvæði kjósenda þrátt fyrir 18 ára stjórnarsetu, bankahrun, ofurstyrki og fleira. Ólíkt Framsóknarflokknum sem virkilega hrundi og var vart hugað líf eftir síðustu kosningar þá fannst mér Sjálfstæðisflokkurinn í raun koma ótrúlega vel út úr þessu. Hann var auðvitað ennþá stærri í síðustu kosningum en hann fékk vissulega næst flest atkvæði í þessum sem þýðir að næst flestir Íslendingar völdu hann til að stjórna sínum málum. Út frá lýðræðinu er því meiri stuðningur við að Sjálfstæðisflokkurinn fari í stjórn heldur en t.d. VG þar sem lægra hlutfall kjósenda kaus þá til stjórnarsetu.
Ég tek það fram að ég kaus ekki Sjálfstæðismenn og tel að þeir eigi að hvíla í einn eða tvo hringi en það breytir ekki því sem fram kemur hér að ofan.
Túlkunin um stórsigur Samfylkingarinnar finnst mér líka svolítið frjálsleg. Flokkurinn er stærstur í dag vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn minnkaði umtalsvert en ekki vegna þess að Samfylkingin jók svo mikið fylgi sitt (3%). Hins vegar vann flokkurinn vissulega athyglisverðan varnarsigur, hafandi verið stjórnarflokkur í hruninu.
Þá er sama frjálslega túlkunin í gangi þegar talið berst að ESB. Talað er um skýra afstöðu kjósenda gagnvart inngöngu í ESB. Ég get ekki með nokkru móti séð það út úr þessum kosningum. ESB flokkurinn fékk 30% fylgi en hinir 70%. Sá flokkur sem var mest á móti ESB (í síðustu viku), VG, jók mest fylgi sitt milli kosninga.
Hvernig stendur á því að fjölmiðlamennirnir halda þessum túlkunum á lofti? Ég get skilið af hverju stjórnmálamennirnir gera það, þeir hafa hagsmuni af því, en ég get ekki skilið af hverju fjölmiðlafólkið gerir það - nema þeir hafi einhverja hagsmuni af því.
Sigurður Viktor Úlfarsson, 30.4.2009 kl. 22:52
Sigurður Viktor:
Þú gleymir því að bæði Framsókn og Borgarahreyfing voru með það á sínum stefnuskrám að sækja beri þegar í stað um aðild að Evrópusambandinu - greiða beri þjóðaratkvæði síðan eftir að samningur liggir fyrir en ekki fyrirfram, enda gengur sú hugmynd engan veginn upp og gerir ekkert nema skaða okkar hagsmuni.
Sem sagt, það er meirihluti á Alþingi fyrir því að sækja um aðild strax, 33 gegn 30 í það minnsta. Raunar mun fleiri því nokkrir sjálfstæðismenn hafa komið fram og sagt að þeir styðji þá tillögu, m.a. Þorgerður Katrín og Ragnheiður Ríkharðsdóttir. Líklega eru um 40 þingmenn sem styðja þetta.
Það er því alrangt hjá þér að segja að 30% sé með en 70% á móti. Þessu er alveg öfugt farið. Annars myndu stjórnmálaskýrendur ekki setja það þannig fram!
Evreka (IP-tala skráð) 30.4.2009 kl. 23:02
Það má bæta því við, að Framsókn og Borgarahreyfing höfðu ESB-umsókn ekki aðeins á sinni stefnuskrá fyrir kosningar, heldur hafa leiðtogar þeirra ítrekað þessa afstöðu sína eftir að úrslit lágu fyrir, í nokkrum sjónvarpsumræðum. Jafnvel gengið svo langt að bjóða Samfylkingunni að mynd ESB-stjórn.
Þannig að þessi túlkun andstæðinga ESB-umsóknar - að reyna að halda því fram að aðeins 30% fylgi sé á bak við umsókn að Evrópusambandinu - stenst enga skoðun.
Evreka (IP-tala skráð) 30.4.2009 kl. 23:07
Ef við lítum nú aðeins á úrslitin í samræmi við stefnuskrár flokkanna sem lagðar voru fram fyrir kosningar þá er ekkim minnst einu orði á ESB í sterfnuskrá Borgarahreyfingarinnar þó svo að talsmenn hreyfingarinnar hafi á síðustu metrunum fyrir kosningar sagst vilja ganga til viðræðna við ESB.(sjá stefnuskrána hér: http://www.borgarahreyfingin.is/stefnan/ ) Framsóknarflokkur sagðist vilja inngöngu í ESB að því tilskildu að við fengjum undanþágu frá sjávarútvegsstefnunni (það vita allir sem vilja vita að það verður aldrei). VG voru á móti, D var á móti og S með.
Ef við tökum þetta saman þá er það þannig að við höfum 20 þingmenn S fylgjandi, 30 þingmenn VG og D á móti, og 13 þingmenn B og O óákveðnir. Þannig að túlka úrslit kosninganna sem sigur ESB sinna er í besta falli frjálsleg ef ekki beinlínis röng.
Það sem hins vegar er augljóst og ekki þarf að deila um er að úrslit kosninganna eru á þann veg að þjóðin krefst vinstri stjórnar.
Varðandi það sem Evreka skrifar um að leiðtogar bæði O og B hafi sagt í sjónvarpsumræðum eftir að úrslit lágu fyrir hefur að sjálfsögðu enga meiningu fyrir úrslit kosninganna, því eins og Evreka segir, þetta var sagt eftir kosningar og menn segja ótrúlega margt eftir kosningar ef þeir telja að það geti auðveldað þeim að komast í ríkisstjórn.
Hjalti Finnsson (IP-tala skráð) 1.5.2009 kl. 06:59
Langaði aðeins að bæta við þar sem mér finnst þetta skemmtileg pæling. Mér finnst hins vegar vera smá hugsanafeill i þessari uppsetningu vegna þess að það er reginmunur á íþróttum og pólitík. Munurinn er nefnilega sá að í pólitík þá hefst leikurinn ekki fyrr en úrslitin liggja fyrir....
Hjalti Finnsson (IP-tala skráð) 1.5.2009 kl. 07:13
Í kosningum fer kjósandi inn í kjörklefann á ákveðnum tímapunkti og velur sér stjórnvald fyrir næsta kjörtímabil. Það hvað hann velur á þeim tímapunkti þarf ekki að hafa neina tengingu við það sem hann valdi síðast þótt tölfræðilega sé hann líklegri til að velja það sama aftur.
Það að öll túlkun á kosningunum taki mið af niðurstöðum kosninganna á undan en einblíni ekki fyrst og fremst á núverandi kosningar, þótt til hliðar sé auðvitað í góðu lagi að skoða þróun milli kosninga, er í besta falli einkennilegt.
51,5% kjósenda kaus vinstri flokkanna þannig að það er rétt hjá þér Hjalti að meirihluti kjósenda vildi vinstri stjórn þar sem fyrir kosningar var alveg ljóst að það væri fyrsti kostur þessara flokka. Sá meirihluti er nú ekki mjög stór og því kannski vel í lagt að halda því fram að "þjóðin krefst vinstri stjórnar" þar sem 48,5% þjóðarinnar kaus eitthvað annað, en vissulega er meirihluti fyrir henni.
Sigurður Viktor Úlfarsson, 1.5.2009 kl. 08:43
Fulltrúar Borgarahreyfingarinnar voru spurðir um afstöðu til ESB á fyrsta blaðamannafundinum sem haldinn var í Iðnó 4. mars sl. Þar var lýst yfir þeirri afstöðu að eina raunhæfa leiðin væri að sækja um aðild og fara í aðildarviðræður, einfaldlega til þess að gera fólki kleift að taka upplýsta ákvörðun í þjóðaratkvæðagreiðslu að loknum aðildarviðræðum. Það hefur aldrei mér vitandi verið hnikað frá þessari stefnu síðan þá, hvað svo sem væntanlegur landsfundur mun ákveða.
Sigurður Hrellir, 1.5.2009 kl. 09:54
Alveg hárrétt hjá Sigurði Hrelli og einfaldlega útúrsnúningur hjá Hjalta að halda öðru fram. Einsog ég nefndi áður þá hafa allir þingmenn Borgarahreyfingarinnar lýst þessu yfir, bæði fyrir og eftir kosningar, og því liggur þetta alveg ljóst fyrir. Þó að ESB-málin hafi ekki ratað inní þeirra helstu stefnumál í fyrstu (sem Hjalti vísar í), þá tók hreyfingin mjög ákveðna afstöðu í kosningabaráttunni þegar eftir því var leitað. Hreyfingin er því hvorki óákveðin né klofin í þeirri afstöðu.
Sem sagt, ef lögð yrði fram þingsályktunartillaga á Alþingi um að hefja aðildarviðræður við Evrópusambandið, þá yrði ríflegur meirihluti fyrir því að þingi. Raunar eru fleiri þingmenn á bakvið slíka tillögu en þeir sem styðja núverandi stjórn, ef út í það er farið.
Kunna menn ekki að telja?
Þar fyrir utan, þá kaus þjóðin auðvitað vinstristjórn, sem er í sjálfu sér sögulegt. 51,% gegn 48,5% er talsverður munur, þó að Sigurður Viktor eigi erfitt með að sætta sig við það. Slíkar tölur þykja öruggur sigur í bandarísku forsetakosningunum, svo dæmi sé tekið.
Evreka (IP-tala skráð) 1.5.2009 kl. 11:49
Hjalti:
Þú virðist ekki hafa lesið fyrri færslur mínar vel. Þar nefndi ég að forystumenn Borgarahreyfingarinnar hefðu lýst þessari stefnu bæði fyrir og eftir kosningar - en alls ekki bara eftir kosningar. Þetta var mjög skýrt á öllum framboðsfundum í öllum kjördæmum. Skýrara getur það ekki verið!
Auk þess þá telur þú alla þingmenn VG og D á móti. Samkvæmt því sem Þorgerður Katrín og Ragnheiður Ríkharðsdóttir sögðu sl. sunnudag, þá eru þær fylgjandi því að sækja um strax í sumar, en leggja svo endanlegan samning í þjóðaratkvæði. Fjölmargir þingmenn sjálfstæðisflokksins hafa ekki verið spurðir en fastlega má gera ráð fyrir því að nokkrir myndu bætast við í þennan hóp og enn aðrir myndu líklega sitja hjá.
Alltént er það staðfest frá þingmönnum þriggja framboða - S, B og O - að það er þingmeirihluti fyrir þessari tillögu. Það er býsna sögulegt og var sannarlega kominn tími til að íslenskir þingmenn stigu skref nær nútímanum.
Evreka (IP-tala skráð) 1.5.2009 kl. 11:56
Ósanngjarnt og ósmekklegt að líkja lýðræðislegum kosningum við íþróttaleik.
Elvar Geir Sævarsson (IP-tala skráð) 1.5.2009 kl. 13:04
Það er ekki hægt að fullyrða um úrslit mála á þingi með því að vitna eingöngu í stefnuskrár og ályktanir landsfunda.
Þrátt fyrir að í lögum flokka sé sagt að aðalfundir eða landsfundir séu æðsta vald flokkanna, er raunveruleikinn sá að í samsteypustjórnum verða þingflokkar að víkja frá einstökum atriðum í stefnunni til þess að ná samkomulagi í stjórnarsáttmála eða í úrslausnum ýmissa mála.
Ef tveir flokkar sem eru í stjórn, eru með samhljóða stefnu frá landsfundi, þarf væntanlega ekki að semja um frávik frá þeim. Þannig er til dæmis nú um meginatriði stefnusrkáa SF og VG í umhverfismálum.
Borgarahreyfingin tók þann pól í hæðina í upphafi að hafa stefnuskrána mjög afmarkaða. Það var skynsamlegt fyrir nýja hreyfingu, sem hafði knappan tíma til að kynna sig og stefnu sína.
Hins vegar kom fram í máli talsmanna hreyfingarinnar að hún væri hlynnt því að láta reyna á það að ganga til samninga um inngöngu í ESB og kjósa síðan um niðurstöðuna í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Með tilvísun til þess úrslitavalds sem hver þingflokkur hefur, tel ég að yfirlýsingar þeirra, sem síðar voru kosnir á þing fyrir Borgarahreyfinguna, jafngildi í raun stefnulýsingu hreyfingarinnar þegar menn meta stefnu þingmanna hennar.
Ómar Ragnarsson, 1.5.2009 kl. 13:17
Góð grein og líflegar umræður.
Ég er reyndar ekki sammála því að einungis stærsti flokkurinn geti talist sigurvegari kosninga. Hægt er að nefna fjölmargar hliðstæður úr heimi íþróttanna.
Til dæmis, ef Manchester United tapar 2-1 fyrir Arsenal í Meistaradeildinni næsta miðvikudag, þá eru þeir samt sigurvegarar í einvíginu.
Betri líking fæst samt með því að bera saman kosningar og golf.
Úrslitin eru þá mjög klár án forgjafar, 1. S, 2. D, 3. V, 4. B, 5. O.
En úrslitin með forgjöf eru allt önnur.
Þar er klárt mál að Sjálfstæðisflokkurinn endaði langneðstur, en menn geta lengi þrætt um nákvæma forgjöf hinna flokkanna og þ.a.l. hvernig þeir raðast í hin sætin.
Mitt persónulega mat er þó að Framsóknarflokkurinn hafi spilað langt undir forgjöf og endað kirfilega í 4. sætinu hér líka.
Allt tal um varnarsigur Framsóknar finnst mér skringilegt. Myndum við kalla það varnarsigur að ná jafntefli við Liechtenstein í knattspyrnu, bara af því að við biðum sögulegt afhroð gegn þeim síðast? Held ekki.
Stefán Jónsson, 2.5.2009 kl. 10:07
Við megum heldur ekki blanda saman stefnu flokkanna og síðan skoðunum einstakra þingmanna þar sem það er vægast sagt mjög sjaldgæft at þingmenn gangi á móti stefnu flokka sinna þó svo að það þekkist að sjálfsögðu. Varðandi það sem ég sagði um stefnuskrá Borgarahreyfingarinnar þá má vera að menn hafi tekið afstöðu í sjónvarpsviðræðum, en eftir stendur að þetta er ekki í stefnuskrá flokksins og því erfitt fyrir fólk eins og mig sem býr erlendis að átta sig á stefnu flokkanna ef þeir ekki setja stefnu sína fram í stefnuskrá.
Bý í einu af þessum dásemdarríkjum ESB og verð að viðurkenna að ég er enn að vona að þegar ég er búinn í mínu námi að ég geti flutt aftur til lands sem stendur utan þessa ólýðræðislega bákns sem á höfuðstöðvar í Brussel. Tek sem dæmi að nú er kosninar til Evrópuþingsins framundan (Minnir að það sé 6. júní) og hér er reiknað með að kosningaþáttaka gæti mögulega komist UPP Í 20%!!!
Varðandi Framsóknarflokkinn þá hafa þeir gefið upp að þeir séu aðeins hlynntir aðildarumsókn ef fáist undanþága frá sjávarútvegsstefnunni og það erum við nýbúin að fá staðfest af Joe Borg sem fer með sjávarútvesmálin í framkvæmdastjórn ESB að lausn á sjávarútvegsmálum Íslendinga yrði að vera innan marka sameiginlegrar sjávarútvegsstefnu ESB svo þeir eru ef litið er raunsætt á málið ennþá óakveðnir.
Ef við þá bætum þingmönnum O við þá sem eru meðfylgjandir þá er staðan þannig: 24 með, 30 á móti og 9 óákveðnir. Það er jú ekki persónukjör heldur eru lagðir fram flokkslistar og því má ekki fara að tína til afstöðu einstakra þingmanna þegar verið er að túlka úrslit kosninga, úrslitin byggja á framlögðum stefnumálum flokkanna, ekki á afstöðu einstakra þingmanna flokkanna.
Mér finnst eins og fólk haldi að maður geti bara aðeins rekið inn nefið hjá ESB og kíkt á hvað er í boði svona eins og maður kíkir í kjötborðið í Hagkaup og svo ákveðið sig. Málið er ekki þannig, maður þarf að sækja um aðild að sambandinu til að aðildarviðræður (það heita aðildarviðræður, ekki samningaviðræður) geti átt sér stað með tilheyrandi tilkostnaði. Held að við þurfum á öllum okkar fjármunum og ekki síst mannauði og tíma að halda til að koma þjóðarskútunni á flot á ný áður en menn fara að skoða skrifræðisbáknið í Brussel, það bjargar engu í stöðunni eins og hún er í dag.
Hjalti Finnsson (IP-tala skráð) 2.5.2009 kl. 12:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.