11.5.2009 | 20:18
Berlusconi gleður íslenska framfarasinna.
Þeir sem hafa hafa verið á móti því að friða "kofadrasl" eins og Bernhöftstorfuna og slík hús hafa fengið öflugan bandamann, sem hefur borið hróður framfarasinnaðra nýbyggingasinna og skömm íslenskra húsfriðunarsinna á öldum ljósvakans um allan heim, ef marka má frétt í útvarpinu nú í kvöld.
Frétttin sem nú flýgur um heiminn greinir frá því að Berlusconi hafi sagt á fundi með páfanum að það væri nú munur að sjá allar glæsibyggingarnar í Róm samanborið við kirkjuræksnið í Finnlandi sem hann hefði verið ræstur að morgni til að skoða í margra klukkustunda ferðalagi.
Sagði Berlusconi að ef kirkjukofi þessi hefði verið á Ítalíu væri fyrir löngu búið að rífa hann og mátti af fréttinni ráða að ítalska mikilmennið hefði þótt næstum móðgandi að láta sig eyða mörgum klukkustundum í að skoða kofadrasl og grjót.
Finnar komu af fjöllum,fóru í rannsóknarblaðamennsku og fundu út að Berlusconi hafði ruglað saman Finnlandi og Íslandi og að kirkjuræksnið að tarna hefði ergt hann í Þingvallaferð með Davíð Oddssyni.
Þar með hefur fréttaflutningur þessi erlendur beint skömminni frá Finnum að Íslendingum og sitjum við nú heldur betur í súpunni.
Ekki fylgir sögunnni hvort þingstaðurinn sjálfur á Þingvöllum hafi verið nokkuð skárri í endurminningu Berlusconis í samanburði við glæsihallir rómverskra ráðamanna en miðað við það hvað þessi ferð ergði hann er ekki ólíklegt að honum hafi fundist lítið til koma svo nöturlegs samkomustaðar valdamanna örþjóðar miðað við hin rómversku höfðingjasetur.
Er ljóst að íslenskir framfarasinnar hafa nú fengið öflugan bandamann til þess að gangast fyrir niðurrifi Bernhöftstorfu, Viðeyjarstofu og bygginga á Bessastöðum og reisa í staðinn nokkra glæsi-glerturna á borð við þann sem nú hefur stolið frá mér og allmörgum öðrum útsýni til Snæfellsjökuls, sem auðvitað stenst engan samanburð við Etnu.
P. S. Nú bíður maður eftir frásögn Clintons af skúrræflinum sem hann neyddist til að kaupa sé pylsu í hér um árið í stað þess að farið væri inn á mannsæmandi veitingastað. Skömm Íslendinga á þessu sviði er kannski rétt á byrjunarreit.
Athugasemdir
Rómverskur er sá róni,
og rindill er Berlusconi,
fann hér að öllu á Fróni,
og fórnaði peði sá dóni.
Þorsteinn Briem, 11.5.2009 kl. 22:01
Og Jón Baldvin þeirra Finna gleður mig með því að skammast yfir Berlusconi
http://www.hs.fi/english/article/Former+Foreign+Minister+Erkki+Tuomioja+launches+scathing+attack+on+Berlusconi/1135245860047
Það er nú annars "leiðinlegt" að framfarasinnar fengu ekki að gera hraðbraut í gegnum kofaskriflin í Grjótaþorpinu ;)
Ari (IP-tala skráð) 12.5.2009 kl. 11:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.