12.5.2009 | 23:24
Öfgafyllri fótalyftingar óhollar.
Ég hef einfalt viðmið um hollustu. Það sem var best fyrir frummanninn, sem við höfum öll fengið genin okkar frá, er best fyrir okkur. Frummaðurinn stundaði ekki himinháar fótalyftingar eins og rannsókn sýnir að ballettdansarar hyllast æ meira til að framkvæma.
Frummaðurinn hljóp ekki tugi kílómetra í einum rykk á hörðu malbiki, jafnvel dag eftir dag En hann varð endrum og sinnum að hlaupa eins hratt og hann gat, ýmist við að elta bráð eða forða sér sjálfum. Og stundum þurfti hann að hafa úthald í svona hlaupum. Því held ég að sprettir og hlaup á víðavangi, sem líkist gresjum og söndum, séu í lagi í hófi.
Besti millivegalengdahlaupari veraldar um og eftir 1940, Svíinn Gunder Hagg, notaði það sem hann kallaði "fartlek", eða hraðaleik til að ná árangri. Hann hljóp á fjölbreytulegu undirlagi, mestan part úti í náttúrunni, líkt og frummaðurinn gerði. Setti met í 1500 og míluhlaupum sem stóðu í mörg ár.
Síðar komust menn lengra með öfgafyllri æfingum en ég held að kominn sé tími til að innleiða hraðaleikinn aftur og spara malbikshlaupin, jafnvel þótt árangurinn í blóma lífsins verði ekki eins mikill.
Fyrir sex árum fékk ég svonefnt tábergssig vegna tilbreytingarsnauðra hlaupa á hörðu undirlagi. Læknar sögðu mér að þetta væri kallað "hlauparaveikin." Hin síendurteknu hörðu högg neðan á iljarnar yllu því að beinin í fætinum sigju niður og færu að lokum út um þófann.
Um svipað leyti fór að hrjá mig svonefnt samfall í neðstu hryggjarliðunum með tilheyrandi verkjum, máttleysi og náladofa út í fæturna.
Nálarstungusjúkraþjálfari, alger kraftaverkamaður, innti mig eftir hreyfingavenjum mínum. Í ljós kom að ég hljóp mikið á hörðu undirlagi og hafði unun af að spila innanhússfótbolta. Hann setti hvort tveggja á bannlista og sagði mér að finna aðra leið til þrek-, úthalds- og snerpuæfinga sem ég og gerði.
Hann vildi fá að vita um allar staðæfingar mínar og svitnaði þegar ég sagði honum frá einni þeirra sem fólst í því að hoppa í kyrrstöðu og lyfta fótunum ofurhratt hátt upp, ýmist bognum eða beinum hundrað sinnum í röð á einni mínútu og tíu sekúndum.
Hann fórnaði höndum þegar ég greindi honum frá annarri æfingu þar sem legið er flatur á bakinu á gólfinu, og fótum og höndum síðan lyft beinum eldsnöggt upp svo að tær nema við fingurgóma tíu sinnum í röð þegar líkaminn myndar stafinn V eitt andartak.
Hann sýndi mér á líkani af hrygg og taugakerfi hvernig þessar öfgafullu hreyfingar ofreyndu taugarnar, sem lágu út í fæturna, svo að taugarnar urðu smám saman bólgnar. Í kjölfarið reyndu aðrar sinar, taugar og vöðvar að taka álagið á sig uns allt færi í hnút.
Ég fór eftir ráðleggingum hans og smám saman stórbatnaði ástandið. Hef ekki þurft að fara til hans í tvö ár.
Auk hlaupanna á malbikinu og malarvegunum spilaði ég um þrítugt innanhússfótbolta í nokkur ár á steingólfi í ókláruðu íþróttahúsi.
Frummaðurinn gerði aldrei neitt þessu líkt enda hef ég nú farið í aðgerðir með bæði hnén, sem verða aldrei jafngóð eftur svona meðferð þegar maður var ungur og hugsaði ekkert um það að það þyrfti að greiða svona vitleysu dýru verði síðar.
En, - ég verð samt að viðurkenna það, - það var alveg rosalega gaman í fótboltanum ! Bara að hann hefði nú ekki verið spilaður á steinsteypunni.
Öfgafyllri fótalyftingar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Meðalaldur fólks fyrir 10-40 þúsund árum var bara þrjátíu ár.
En þá voru líka allir í ballet.
Þorsteinn Briem, 13.5.2009 kl. 00:10
Ágætar pælingar hjá þér, Ómar, og gott að þér batnaði eftir að hafa aðlagað æfingarnar. Margt sem við ættum að spá í varðandi hegðun okkar og lífsstíl og munur á okkur og frummanninum.
Samt held ég að hjólreiðar til samganga sé eitthvað sem hægt sé að mæla með, þó að frummaðurinn hafi ekki lagt stund á hjólreiðar. Enda hafa stórar rannsóknir með þúsundir manna yfir tugi ára bent á það að menn sem hjóla til samgangna lífa lengur og hafa betri heilsu en þeir sem ekki gera það. Jafnvel meðal þeirra sem stunda íþróttir nokkuð stíft. (Lars Bo Andersen et al, 2000, og fleiri rannsóknir)
Morten Lange, 13.5.2009 kl. 00:24
Ég mæli með hjólreiðum, sund, gönguferðum og leik með börnum sínum.
Úrsúla Jünemann, 13.5.2009 kl. 12:45
Þetta eru hárréttar athugasemdir hjá þér Ómar. Þessi endalausu hlaup eins og fjöldi fólks stundar er bara hræðilega sorgleg áráttuhegðun – fyrir utan hvað það er ljótt að horfa á þetta, en það er önnur saga. Þá getum við gengið að því sem vísu að enginn hleypur maraþon vegna dugnaðar - heldur einhvers konar fíknar sem dregur viðkomandi eftir malbikinu.Við erum m.ö.o að tala um sjúklinga sem þurfa á andlegri aðstoð að halda frekar en nokkru öðru. Hér þarf sem fyrst að grípa inní með fræðslu áður en í óefni er komið sem endar á heilbrigðiskerfinu. Sama viðhofsbreyting þarf að eiga sér stað varðandi brettahlaupin á líkamsræktastöðum. Þar er fólk í umvörpum sem ekki ræður við matarfíkn sína að leita lausnar á henni með því að misbjóða stoðkerfinu. Ef þetta er ekki að hafa endaskipti á hlutunum þá veit eg ekki hvað.
En það sorglegasta sem maður sér á líkmasræktarstöðvunum, þar sem ég hef eitt ófáum árum, eru fyrrverandi afreksíþróttamenn. Þeir eru allir gatslitnir og þekkjast á því að þeir kjaga eins og endur er þeir færa sig á milli tækja - og með nokkra skurði, ýmist á hnjám eða öxlum. Afreksmenn eru sér kapituli. En verra er að almenningur virðist ekki gera sér nokkra grein fyrir því hvar heilbrigð uppbygging endar og áníðsla byrjar. Það þarf kannski að byrja á því að endurskilgreina hugtakið “að vera góður við sjálfan sig.
Atli Hermannsson., 13.5.2009 kl. 21:13
Ef brettin á líkamsræktarstöðvunum fjaðra nógu vel ættu hlaup á þeim í hófi að vera í lag. Ég bara veit það ekki, hef aldrei prófað þau.
Ég hljóp talsvert á fjaðrandi gólfi í Ræktinni á Nesinu áður en hún brann. Ef einhver veit um svipaðan sal annars staðar myndi ég fara þangað, í hófi auðvitað, þá daga sem illmögulegt er að skokka á grasi úti við.
Ómar Ragnarsson, 13.5.2009 kl. 23:46
Gagnlegar athugasemdir fyrir Örþreytta Langhlaupara.
Einn þáttur, sem við aðgættum ekki á árum áður, voru skór með mjúkum, fjaðrandi sóla. Hóf sjálfur götuhlaup/skokk haustið 1980 og fyrsta æfingin var á gangstéttinni við Ægissíðu; skótauið voru eins konar handboltaskór, með grjóthörðum, flötum botni. Ég var nokkra daga að jafna mig af bakverknum sem ég fékk! Stuttu seinna rakst ég á hlaupaskó af gerðinni Puma Easy Rider.
Ég er ennþá að, fimmtíu og átta ára gamall. Að vísu leitast ég við að fara út á grasrima meðfram hjóla- eða gangstígum hvenær sem þeir gefast. Maður þarf að hlusta á líkamann og hafa þá viðmiðun að þetta sé gaman!
Flosi Kristjánsson, 14.5.2009 kl. 11:07
Þetta snýst allt um hinn gullna meðalveg.
Ég held reyndar að undirrótin á þessari heilsuáráttu í fólki sé áherslan sem er lögð á að allir eigi að veramjóir, ungir og fallegir, fallegir eins og plasthúðaður hollywood-leikari það er að segja. Það að vera heilbrigður í dag telst vera það að geta lyft x - mörgum kg eða hlaupið x marga km og helst að blása ekki úr nös eftir maraþonið og líta út eins og klipptur út úr photoshop-uðu tískublaði. Allt þetta á fólk auðvitað að gera með bros á vör á meðan það eignast börn, elur upp börnin á fullkomin hátt, er alltaf með hreint og fullkomið heimili auk þess sem það vinnur 14 tíma á dag minnst til að sýna fram á hversu svakalega orkumikið, hraust og gáfað það er. Frummaðurinn gerði sér þó grein fyrir því að þeir þurftu að hjálpast að til að lifa af og það væri vitleysa að vera að burðast með meira en hann þurfti til að geta lifað af.
Rósa (IP-tala skráð) 14.5.2009 kl. 21:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.