13.5.2009 | 22:56
Megi það besta vinna.
Oft er það svo að aukaatriði hafa áhrif á úrslit í keppni, og gildir þá einu hvort það er Evróvision eða pólitískar kosningar. Vonandi verður það ekki svo í Evróvisionkeppninni núna þótt fréttir heyrist af ýmsum atriðum, sem talið er að geti haft áhrif, en koma gæðum lags eða flutningi þess ekkert við.
"Ég vil góða og drengilega keppni, gangi ykkur vel og megi sá betri vinna" eru síðustu orðin sem þekktur hnefaleikadómari segir við keppendur áður en þeir hefja bardagann. Því miður hefur klíkuskapur á milli vina- nágranna- og frændþjóða oft litað Evróvisionkeppnina og eru Íslendingar og Norðurlandabúar þar ekki með hreinan skjöld.
Það væri synd ef einhvert atriði, sem tínd eru til og koma lagi og flutningi þess ekkert við, hafa áhrif á úrskurð dómnefnda og kjósenda í keppninni að þessu sinni.
Enn sem komið er stend ég við þá persónulegu skoðun mína sem ég lét í ljós strax þegar ég heyrði norska lagið á kosninganótt, að það lag sé best. Nú heyrir maður að haft sé á móti Rybak að hann sé alltaf skælbrosandi og hitti ekki rétta fólkið fyrir keppnina, þ. e. ekki rétta fólkið að dómi kjósenda.
Hvernig sem allt veltist vil ég samt taka mér orð hnefaleikadómarans: Ég vil góða og drengilega keppni, gangi öllum vel og megi besta lagið bera sigur úr býtum.
P.S. Og vonandi heyrir maður ekki einu sinni, einu sinni enn: Hann sigraði keppnina. Það yrði svo leiðinlegt fyrir keppnina að tapa fyrir sigurvegaranum.
Rybak hrifinn af Jóhönnu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.