14.5.2009 | 20:17
Tómlæti um flottasta foss Íslands.
Í öllum fréttaflutningnum af Norðlingölduveitu og áhrifum hennar á umhverfið hefur það verið viðburður ef þess hefur verið getið, að með veitunni er ekki aðeins sótt að Þjórsárerum, heldur vatni veitt burt frá fossaröð í Efri-Þjórsá sem veitir fossaröðinni í Jökulsá á Fjöllum harða keppni um mögnuðustu fossaröð Íslands.
Þegar hafa tvær stórar fossaraðir verið eyðilagðar vegna Kárahnjúkavirkjunar, í Jökulsá á Fljótsdal og Kelduá, en hinar eru næstar á aftökulistanum. Til er áætlun um virkjun Dettifoss þegar friðun verður aflétt af ánni, en það verður ekki síður auðvelt en affriðun Mývatns og Laxár og stórs hluta Kringilsárrana.
Með Norðlingaölduveitu hverfa þrír fossar, Gljúfurleitarfoss, Dynkur og Hvanngiljafoss. Tveir þeir fyrrnefndu eru á stærð við Gullfoss en það virðist litlu skipta fyrir þjóðina, því að þeir eru afskekktir og kostar mikla fyrirhöfn að komast að þeim.
Þegjandi og hljóðlaust hafa 30-40% prósent af orku þessara fossa verið tekin í fimm áföngum með Kvíslaveitu, án þess hafi nokkru sinni verið getið. Sjálfur flutti ég með myndum fjölda frétta af þessum framkvæmdum án þess að gera mér eða þjóðinni grein fyrir því hver umhverfisáhrifin yrðu.
Þetta bitnar sérstaklega á Dynk, sem er einstakur og hef ég ekki séð annan slíkan því að hann er safn um 20 fossa sem falla um sama fossstæðið. Á engan foss sem ég þekki hefur vatnsminnkun eins mikil áhrif því að við það fækkar fossunum um allt að helming og flestir verða að hljóðlitlum bunum.
Vegna þess hve fossarnir sem mynda Dynk eru margir, verður hávaðinn af honum meiri en af öðrum fossum, og hans annað aðalsmerki, en hitt er fjölbreytni fossasafnsins sem hann er mynaður af.
Enginn vandi væri að bæta aðgengi að þessum fossum án mikils kostnaðar, en á því er engin áhugi hjá stóriðjuþyrstri þjóð sem virðíst ekki vilja vita sannleikann um umgengni sína við landið.
Vatnsréttindi ríkisins ekki fallin niður | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ómar, þú minnist á affriðun Mývatns og Laxár. Til hvers er þá Umhverfisstofnun að ráðast í svona:
http://www.ust.is/media/fraedsluefni/pdf-skjol//verndaraaetlun_290409_low.pdf
Læt það ógert hér að rita mína skoðun á þessu plaggi, í bili að minnsta kosti.
Jóhann (IP-tala skráð) 14.5.2009 kl. 20:39
Fór að Dynk f. svona 5 árum minnir mig, 1 klst ganga held ég frá veginum. Mikið svakalega var hann flottur. Auðvitað hefði mátt vera meira í honum (var ekki einhverri á veitt frá honum svo að hann minnkaði, hvernig er það Ómar.... og ef svo er hvaða ár var hann "fullvatnaður" áður)
Ari (IP-tala skráð) 14.5.2009 kl. 23:19
Þakka þér fyrir að standa vaktina Ómar, alltaf.
Þór Saari, 14.5.2009 kl. 23:32
Ómar minn, hvar finn ég mynd af Dynk?
Ragnheiður Elín Clausen (IP-tala skráð) 15.5.2009 kl. 00:19
Á síðasta aldarfjórðungi hefur Dynkur verið rændur öllum kvíslum, sem falla í Þjórsá úr austri og efsta hluta Þjórsár sjálfrar að auki. Þessar kvíslar hafa ellefu nöfn.
Nafnalistinn er þessi. Svartá, Þúfukvíslar, Þúfuverskvísl, Eyvindarkvíslar, Hreysiskvísl, Háumýrarkvísl, Fjórðungskvísl, Háöldukvísl, eystri hluti Þjórsárkvísla Laugakvísl, Bergvatnskvísl Þjórsár og EFSTI HLUTI ÞJÓRSÁR.
Hart hefur verið sótt í það að bæta við Kvíslaveitu 6, sem felst meðal annars í lóni skammt frá Hofsjökli á miðjum Sprengisandi, sem á að fyllast af auri sem annars myndi setjast í lón Norðlingaölduveitu neðst í Þjórsárverum.
Setlónin eru auðvitað ekki tákn um endurnýjanlega orku heldur bera þau þess vitni að lónin fyllast af auri og að einhvern veginn verður að vinna það upp að Sultartangalón fyllist hratt upp og verður orðið fullt af auri eftir nokkra áratugi.
Ómar Ragnarsson, 15.5.2009 kl. 12:25
Ég vil geta þess að fyrsta kvikmyndin sem þjóðin fékk að sjá af Dynk, var tekin í ferð Páls Benediktssonar fréttamanns að fossinum, um 1990- að ég hygg vegna ábendingar Jóns Benediktssonar, kvikmyndatökumanns og fréttaritara RUV eystra.
Fréttin var sýnd sem "skúbb", nánast enginn hafði áður haft hugmynd um þennan stórkostlega foss.
Þöggunin yfir þróun mála á þessu svæði hvað snertir náttúruverðmæti var alger nema bara hvað snerti Þjórsárver, sem góðir menn á borð við Scott og Finn Guðmundsson reyndu að kynna fyrir þjóðinni.
Ég var svo fákunnugur mörgu þarna eystra þrátt fyrir mikinn landafræðiáhuga, að mér fannst það bara flott hugmynd þegar hún kom fyrst fram að sökkva öllum Þjórsárverum og sýndi í máli og myndum hverja einustu Kvíslaveitu, alls fimm, án þess að gera mér grein fyrir áhrifum þeirra framkvæmda á Þjórsá og fossa hennar.
Ríkjandi hugsun var: Þjóðin verður að lifa í landinu, sama hvað það kostar.
Síðar áttaði ég mig á því að þjóðin geti lifað betur í landinu án núverandi ofvirkjunarstefnu.
Ómar Ragnarsson, 15.5.2009 kl. 12:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.