Aðeins verksmiðjur geta "bjargað þjóðinni."

Það er sama hvar gripið er niður í umræðu um það sem geti "bjargað þjóðinni" eins og það er kallað. Alls staðar eru settar fram þær forsendur að reist verði álver. Annars verður kreppan verri, gott ef ekki óviðráðanleg

Einu virtist gilda þótt strax fyrstu vikuna eftir hrunið opnuðust nýir möguleikar í ferðaþjónustu vegna gjörbreyttra og bættra skilyrða og að eftirspurn eftir Íslandsferðum stórykjust. Þetta virðist ekki koma til greina til að "bjarga þjóðinni" eins og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sagði að Siv Friðleifsdóttir hefði gert þegar hún leyfði Kárahnjúkavirkjun.

Á ferðum úti á landi rekst ég á algert vonleysi um neitt nema álver. Sagt er við mig að engir ferðamenn vilji koma hingað vegna kulda og myrkurs á veturna þótt hundruð þúsunda fari í meira myrkur og kulda lengri leið til Lapplands, einmitt til að upplifa myrkur, þögn, kulda og ósnortna náttúru.

"Það rignir stundum í Mývatnssveit og jörð getur orðið auð stundum á veturna" er sagt við mig þar um slóðir.

Ef ég segi að aðeins tíu kílómetra akstur sé eftir heilsársvegi, malbikuðum, upp á hálendið norðan sveitarinnar þar sem snjórinn er, er sagt að þar komi stundum hríð. Rétt eins og aldrei snjói í Lapplandi þar sem landslag er flatt og tilbreytingarsnautt, ólíkt hálendinu norðan Mývatns, sem býður upp á hvers kyns gíga og hraunmyndanir sem fólk getur komist í tæri við í nánast hvaða veðri sem er.

Síðan er því bætt við að það þýði ekkert að reyna ferðaþjónustu úti á landi vegna þess að fyrirtæki í Reykjavík undirbjóði heimamenn og gróðinn fari suður.

Engin áhrif hefur þegar ég bendi á þá mótsögn hvernig "þeir fyrir sunnan" geti "grætt" á undirboðum sem geri starfsemina útilokaða fyrir heimamenn sem maður hefði þó ætlað að hefðu hagræði af aðstöðunni á staðnum.

Ég er búinn að mynda mér tilgátu um það hvers vegna aðeins verksmiðjur komo til greina í hugum þjóðarinnar.

Ástæðan hlýtur að vera sú að kynslóð eftir kynslóð í næstum öld hefur sú mynd orðið einráð í hugum fólks eftir að nógu oft hefur verið staglast á því, að því aðeins sé hægt að "bjarga" landsbyggðinni og þar með þjóðinni, - og því aðeins sé hægt að lifa í landinu, að þingmenn "útvegi" verksmiðjur sem framleiði eitthvað sem hægt er að mæla í tonnum.

Kynslóð fram af kynslóð þekkir ekkert annað en að þingmenn "útvegi" álver, frystihús, rækjuvinnslu, kísiliðju o. s. frv. Allt annað er álitið fyrirfram vonlaust og kemur ekki til greina.

Hagstæðasta gengi í veröldinni fyrir erlenda ferðamenn virðist engu breyta. Þvert á móti verður slíkt tilefni til fyrirsagnar fréttarinnar, sem þetta blogg er tengt við: "Ísland á útsölu." Er það ekki agalegt að slíkur markaður hafi opnast?


mbl.is Ísland á útsölu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Snorri Hrafn Guðmundsson

"... kynslóð eftir kynslóð í næstum öld hefur sú mynd orðið einráð í hugum fólks eftir að nógu oft hefur verið staglast á því, að því aðeins sé hægt að "bjarga" landsbyggðinni og þar með þjóðinni, - og því aðeins sé hægt að lifa í landinu, að þingmenn "útvegi" verksmiðjur sem framleiði eitthvað sem hægt er að mæla í tonnum."

Og helst mengi í tonnum líka þar sem loftið hér er allt of hreint. :o)

Snorri Hrafn Guðmundsson, 16.5.2009 kl. 03:28

2 Smámynd: Björn Heiðdal

Upptaka evru og hagstætt ferðamannagengi fer ekki saman.  Ómar vill ESB og evru en líka lágt gengi :)  Heimska eða vitleysa nema hvort tveggja sé.  Ómar fellur hér í "stóriðjugryfjuna" sem landsbyggðin lítur á sem sitt heimili.  Ómar Ragnarsson er sönnun þess að sumir sjá ekki skóginn fyrir trjánum þó þeir þekki öllu trén í skóginum með nafni! 

Björn Heiðdal, 16.5.2009 kl. 07:44

3 Smámynd: Ásgeir Rúnar Helgason

Ræktun náttúrulyfja með hjálp jarðvarma og fallvatnsorku er lýtt kannaður möguleiki sem gæti ef vel er á haldið orðið að mikilli atvinnugrein sem gæfi stórar tekjur inn í þjóðarbúið og veitti mikla atvinnu. Auðvelt er að tengja slíkar ilræktarstöðvar við ferðamennsku og bjóða uppá vetrarferðir ferðir milli ilræktarvinja.

Ásgeir Rúnar Helgason, 16.5.2009 kl. 09:23

4 identicon

Ómar, mikið innilega er ég sammála þér með hugarfarið á landsbyggðinni. Ég þekki það vel verandi frá bæjarfélagi sem hefur raunverulega möguleika á að gera snjóinn bókstaflega að féþúfu en vegna skammsýni og undirgefni við fólkið "að sunnan" virðist hreinlega ekki mega nefna það. Einn áberandi einstaklingur mínu uppeldissveitarfélagi sagðist fyrir tæpum 30 árum vilja selja útlendingum hafgoluna, enn í dag er hlegið að því en samt er það þegar  byrjað með bæði hvalaskoðun og sjóstangveiði.

Ferðamannaiðnaður á Íslandi mislukkast vissulega að hluta til vegna miðstýringar "að sunnan" en það er bara vegna þess að aðilar víðs vegar um landið gera lítið í að markaðssetja sig sjálfir utan Íslands. Ferðaþjónustuaðilar geta auðveldlega nýtt sér flugvellina á Akureyri og Egilsstöðum til að fljúga með ferðamenn beint þangað í stað þess að fara alltaf í gegnum Keflavík og Reykjavík.

Ferðaskrifstofur um alla Evrópu eru endalaust að leita að nýjum ferðamannastöðum og tækju slíkum möguleikum opnum örmum. Ég veit um dæmi í Póllandi þar sem markaðssetning á ferðamannastað fór algjörlega fram í gegnum fax til ferðaskrifstofa í Vestur Evrópu. Með internetinu og tiltölulega lágum prentkostnaði væri vel hægt að gera það sama á bæði Norður og Austurlandi. Það er allt til staðar á báðum svæðum, það eina sem vantar er að láta fólk vita að aðstaðan er til og útvega leið til að komast þangað.

Gulli (IP-tala skráð) 16.5.2009 kl. 10:10

5 Smámynd: Teitur Haraldsson

Takk fyrir góða grein.
Viljum við virkilega að ísland verði ferðamanna paradís af því efnahagurinn hér er í rúst og krónan verðlaus?

Hvað ber vega kerfið á íslandi mikið af ferðamönnum án þess að við þurfum að setja stórkostlegar upphæðir í þá gapandi peninga holu?
2+2 vegur í kringum ísland?

Síðast þegar ég vissi voru þjónustu störf þau lægst launuðu á Íslandi (með slæman vinnutíma þar að auki), viljum við virkilega reyna að byggja upp láglauna störf? 

Ef svínaflensan hefi náð sér á eitthvað „flug“ hefði ferðamanna iðnaðurinn algjörlega lagst af, sérstaklega hérna á Íslandi. Það þarf mikið meira til að það komi svo stórt högg á verksmiðju framleiðslu.

Teitur Haraldsson, 16.5.2009 kl. 17:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband