"Ekki missa af..."

Eitt lúmskasta slagorð auglýsinga á okkar tímum er setningin: "Ekki missa af...", - þ. e. ekki missa af þessum viðburði, þessu tilboði, þessari vöru o. s. frv....

Slagorðið getur verið jákvætt í sjálfu sér. Okkur er ætlaður takmarkaður tími hér í jarðlífi og því mikilvægt að nota þann tíma vel.

Hin neikvæða hlið er hins vegar sú að maður megi ekki missa af neinu, heldur verði að öðlast allt og megi ekki þekkja nein takmörk, - þaðan af síður forgangsraða hlutum.

Þegar sú eftirsókn er orðin algild og ræður öllu fylgir því óþol, streita og óhamingja.

Í dag er dýrðarveður og ég sé fram á það að missa af ýmsum hlutum. Ég hefði viljað þiggja boð um að marsera með Heimsgöngufólki undir tónlist og baráttulagi, sem ég á hlut að.

Ég hefði viljað þiggja boð um að verða viðstaddur opnun sýningar í Listaháskólanum þar sem mynd, sem mér er skyld, er til sýnis.

Ég hefði viljað fara í flugferð yfir Mýrdalsjökul, sem hefur verið lengi í undirbúningi.

Ég gat ekki hugsað mér að missa af endurfundum þeirrra, sem í gærkvöldi minntust þess að tíu ár eru liðin síðan við fórum yfir Grænlandsjökul. Það var yndisleg samkoma og kannski meira virði vegna þess að ég þurfti að hafa svolítið fyrir því að koma austan af austurhálendinu til þess að fara síðan aftur núna þangað og reyna að ná myndum, sem hugsanlega verða ekki teknar aftur vegna þess hve hlutir breytast þar hratt.

Við eigum að gleðjast yfir því að eiga margra kosta völ, þegar svo ber undir, og láta hugsunina "ekki missa af..." ekki gera okkur óánægð með þá stóru gjöf að fá að vera til.

"Ekki missa af..." var hugsunin á bak við "gróðærið" sem leiddi til hruns. Hugsunin var svo alger að það var pottþétt að við "misstum ekki af" hruninu þótt við hefðum viljað.

Kannski vel ég skakkt með því að fara þessa ferð í stað þess að missa af hugsanlegum samverustundum með mínum nánustu. Slíkar stundir eru það dýrmætasta í lífi hvers og eins.

En ferðin austur verður að eiga sér stað. Hún er afrakstur af þeirri hugsun þjóðarinnar að hún "megi ekki missa af" svipuðu fyrirbæri og gróðærið var, - ekki nóg að tvöfalda rafmagnsframleiðsluna og síðan ekki nóg að fjórfalda hana og síðan ekki nóg að tífalda hana.

Einn bankastjóranna lýsti í tímaritsviðtali á meðan allt stóð sem hæst hugsuninni á bak við hegðun þjóðar okkar þannig: "Við, kynslóðin sem ræður nú mestu, - við vorum alin upp við það að þekkja engin takmörk!"


mbl.is Veðurblíða um helgina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Góður pistill hjá þér Ómar.

Já það er alveg hárrétt hjá þér "Ekki missa af" er einmitt eitt lúmskasta slagorð auglýsingamennskunnar á okkar tímum.

Þetta slagorð notar einmitt ESB elítan á Íslandi alveg mikunnarlaust til þess að reyna nú í flaustri að reka þjóðina uppí ESB hraðlestina eins og þeir kalla þetta. Við erum alltaf alveg að missa af lestinni, þannig er hræðsluáróðurinn rekinn ! 

Þessi söngur nýtur dyggrar aðstoðar og stöðugs fréttaflutnings Elítunnar frá yfirlýsingaglöðum áróðurs- og útbreiðslustjóra ESB Mr. Olle Rehn sem aftur og aftur blandar sér í áróðursskyni með freklegum hætti inní viðkvæma innanlands umræðuna hér í einu mesta deilumáli Íslandssögunnar.

Það er rétt þetta er lymskulegasta auglýsingamennska sem um getur á okkar tímum ! 

Gunnlaugur Ingvarsson (IP-tala skráð) 16.5.2009 kl. 10:00

2 Smámynd: Brattur

Mjög góður pistill og gott veganesti inn í þennan fallega dag... það er gott að hafa val og maður reynir af bestu getu að velja rétt á hverjum tíma... við getum ekki bæði sleppt og haldið... en svo ef maður er sífellt að hlaupa út um allar trissur til að missa ekki af neinu, þá missir maður af bestu stundunum... að vera heima hjá sér, slá garðinn og setja niður kartöflur...

Brattur, 16.5.2009 kl. 10:19

3 Smámynd: Haraldur Hansson

Ég hef svo oft tekið eftir þessu í dagskrárauglýsingum Stöðvar 2. "Ekki missa af ..." segir Bo með sinni prýðilegur þularröddu. Og Bylgjan notar þetta líka óspart: Ekki missa af Reykjavík síðdegis!

Eins og Gunnlaugur bendir á hér að ofan er þetta slagorð nú notað grimmt af þeim sem vilja "ekki missa af ..." hraðlestinni til Brussel. Þá gætum við þurfti að bíða í tíu ár. Hugsa sér!

Mikið hvað ég vona að við missum af þeirri lest og gleðjumst yfir því að eiga margra kosta völ. Úti um allan heim! Ekki bara lestarferð inn í nýtt "góðæri" og evrópska einangrun sem býður upp á annars konar hrun.

Haraldur Hansson, 16.5.2009 kl. 17:45

4 Smámynd: Jón Valur Jensson

Ég tek undir þetta með Gunnlaugi og Haraldi: "Ekki missa af EB-hraðlestinni!" hrópa glóparnir í Samfylkingunni.

Olli Rehn spilar nú á það sama: "passið ykkur að verða ekki á eftir Króatíu!"

En Ómar Ragnarsson á margt óútskýrt, maðurinn sem hefur elskað Ísland og birt okkur margar myndirnar af ásjónu þess og var burðarásinn í flokki sem hét hvorki meira né minna en Íslandshreyfingin, en er nú horfinn með það lið að miklu leyti inn í þá Samfylkingu, sem ætlar sér að leggja yfirráðin yfir löggjafarvaldi þessa lands í hendur herranna í Brussel og Strassborg, dómsvaldinu í hendur EB-dómaranna í Lúxemborg og yfir sjávarauðlindunum í hendur kommissaranna í Brussel og nýtingarrétt í hendur margra á meginlandinu, fyrir utan ýmislegt annað.

Er þetta ekki afturför hjá gömlum þjóðernissinna í beztu merkingu þess orðs?

Jón Valur Jensson, 16.5.2009 kl. 18:05

5 identicon

Góður pistill.  Hvað Evrópuhraðlestina varðar get ég tekið undir með Gunnlaugi, Haraldi og Jóni Val.

EE elle (IP-tala skráð) 16.5.2009 kl. 19:10

6 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég hef ekki farið fram á annað en að þetta mál verði nú loks afgreit beint af þjóðinni sjálfri.

Norðmenn lögðu samning tvívegis í þjóðaratkvæði og ég vil norsku leiðina, hvort sem samningur yrði samþykktur eða honum hafnað.

Skúli Thoroddsen og Hannes Hafstein fóru til Kaupmannahafnar til að sjá, hvað hægt væri að fá út úr samningum við Dani.

Annar studdi samninginn, hinn lagðist á móti.

Ég mun gera endanlega upp hug minn þegar ég hef í höndunum það sem taka þarf endanlega afstöðu til og tel mig ekki vera landráðamann með því að vilja reyna samninga frekar en Skúli Thoroddsen var á þeim tíma sem hann sigldi til Köben til samninga við Dani.

Ómar Ragnarsson, 16.5.2009 kl. 20:03

7 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þakka þér fyrir svarið, Ómar.

En ertu ekki að snúa þessu heldur betur við?

Skúli Thoroddsen og Hannes Hafstein fóru til Kaupmannahafnar til að heimta úr greipum danska valdsins fullveldisréttindi aftur til Íslands, en þín Samfylkingarforysta virðist reiðubúin að skila til evrópsks yfirvalds fullveldisréttindum, löggjafarvaldi og yfirráðum og þar af leiðandi nýtingarrétti yfir auðlindum okkar.*

Er þetta ekki tvennt ólíkt?

En einna síðastur kæmir þú sjálfur upp í hug mér, ef ég ætti að fara sjá fyrir mér þá landráðamenn sem mig uggir að eigi eftir að vinna að lægingu Íslands og undirgefni undir erlent vald.

*Þetta virðist nokkuð augljóst þeim, sem vita, að Rómarsáttmálinn og landbúnaðar- og sjávarútvegsstefnan gilda í öllu Evrópubandalaginu og "engin frávik" (O. Rehn) leyfð í því efni.

Jón Valur Jensson, 16.5.2009 kl. 20:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband