6.6.2009 | 11:17
Það sem ekki er til bilar aldrei.
Henry Ford aftók það með öllu að sett yrði vatnsdæla í Ford T þótt þessir bílar væru frægir fyrir að það syði á kælikerfi þeirra. Ekki kom heldur til greina að setja bensíndælu í bílinn. Meðan hann lifði vor allir Ford-fólksbílar með gamaldags einföldum þverfjöðrum og hélst svo í 14 ár eftir að keppinautarnir settu fullkomnari og betri sjálfstæða fjöðrun undir bíla sína.
"Það sem ekki er í bílnum bilar aldrei" sagði Ford.
Flókin tölvukerfi og sjálfvirkni eru dásamlegar uppfinningar, auka stórlega öryggi meðan allt leikur í lyndi, létta vinnuálag og streitu og minnka hættu á þreytu og mistökum.
Sjálfvirka tölvukerfið í Airbusþotum tekur ráðin af flugmönnum sem ætla að fljúga út fyrir öryggismörk vélanna, kemur í veg fyrir að þeir fljúgi of hægt eða of hratt eða ofgeri vélinni á annan hátt.
En þótt allt sé gert sem unnt er til að hægt sé að fljúga vélunum ef kerfin bila segir lögmál Murphys að ef eitthvað geti farið úrskeiðis muni það gerast fyrr eða síðar.
Athyglisvert flugslys varð í Bandaríkjunum á tíunda áratugnum. Douglas- þota sem var í flugtaki náði aldrei flugi og fórst handan við flugbrautarendann. Rannsókn leiddi í ljós að vængflapar voru ekki niðri en án þeirra er útilokað að ná svona þotu á loft. Samt héldu flugstjórarnir löngu flugtaksbruni áfram í opinn dauðann.
Ástæðan reyndist vera lúmsk oftrú á tækninni, sem hafði grópast djúpt í undirmeðvitund flugstjóranna.
Í vélinni var sjálfvirkt kerfi sem setti vængflapana niður fyrir flugtak ef flugstjórarnir gleymdu því. Það var greypt í huga hinna þrautreyndu flugmanna að þetta gæti ekki farið úrskeiði og að vélin leiðrétti þá ávallt ef þeir gleymdu þessu eða gerðu önnur mistök, sem þeir þar að auki voru manna ólíklegastir til að gera.
Þar að auki var þetta á gátlista og í huga þeirra var auk þess útilokað að svo reyndir, góðir og farsælir flugstjórar gerðu slík grundvallarmistök.
Nokkrum dögum fyrir hið örlagaríka flug bilaði þessi sjálfvirki búnaður og flugstjórarnir voru látnir vita af því, en ætlunin var að gera við þessa bilkun síðar, enda vélin vel flughæf.
En hið ótrúlega gerðist að þeir gleymdu að setja flapana niður fyrir þetta síðasta flugtak, og nú var enginn búnaður til að leiðrétta mistök þeirra. Líkurnar á að þetta gæti gerst einmitt þegar svona var ásatt tímabundið voru nær engar en samt gerðist það.
Þegar flugritinn var kannaður eftir slysið heyrðist, að þeir undruðust getuleysi þotunnar í síðari hluta flugtaksbrunsins og leituðu ákaft alls kyns skýringa á því, hvort hreyflana skorti afl, hvort ís væri á vængjum o. s. frv. en fundu ekki hina raunverulegu skýringu.
Það var grópað í undirmeðvitund þeirra að útilokað væri að þeir hefðu sjálfir gert arfamistökin, sem voru orsökin, og sá inngreypti vani að færni þeirra með sjálfvirkni sem bakhjarl tryggði að svona gæti ekki gerst, varð orsök mannskæðs flugslyss og kostaði þá lífið.
Eftir þetta slys var brýnt fyrir flugrekendum að sjá til þess að flugmenn væru reglulega látnir handfljúga flugvélum upp á gamla mátann og forðast hina lúmsku ofurtrú á sjálfvirknina, sjálfvirkni sem myndi aldrei bila ef hún væri ekki til.
24 villuboð frá flugvélinni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þýskir verkfræðingar leituðust við að hafa sem fæsta íhluti í Trabant þegar þeir hönnuðu hann á sínum tíma með það fyrir augum að minka líkur á bilunum.
Þýski flugherinn er svo í tómum vandræðum með nýjustu Eurofighter þoturnar sínar sem þeir fengu afhendar fyrir skömmu. Í æfingaflugi hafa tölvuskjáir, sem hafa tekið yfir hlutverk hefðbundinna mæla alveg dottið út. Upplýsingar um stefnu, hraða og hæð voru því ekki lengur til staðar og varð flugmaðurinn að reiða sig á eigin skynfæri við lendingu. Vélarnar hafa ekki verið kyrrsettar en ungum og lítt reyndum flugmönnum er ekki leyft að fljúa þessum nýjustu eintökum og mega þær svo aðeins fara í lofið að degi til ef atvikið skyldi endurtaka sig. Vonast er til að hugbúnaðaruppfærsla leysi vandann en sú lagfæring á víst eftir að taka drjúgan tíma á verkstæði.
Helgi Viðar Hilmarsson, 6.6.2009 kl. 12:59
GPS notkun íslenskra einkaflugmanna hefur leitt vissa hættu yfir þá.
Trabantinn er kannski ekki besta dæmið um gildi einfaldleikans því að vélin í honum var bilanagjörn.
Einfaldleiki hans stafaði mest af þeim hindrunum, sem bílafjandsamleg stjórnvöld settu.
Tvígengisvélin var að vísu einföld en mengaði mikið, entist illa og sagt var að eigendurnir þyrftu að hafa kerti, platínur og verkfærasett við hendina að staðaldri.
Ég ek á Fiat 126 sem er ákaflega einfaldur, enda var hann minnsti, einfaldasti, sparneytnasti og ódýrasti bíllinn í Evrópu áratugum saman. Vegna þess að vélin er fjórgengisvél endist hún betur en Trabantvélin og mengar minna.
Upprunalega Volkswagen bjallan er besta dæmið sem ég þekki um vel heppnaðan einfaldleika bíla.
Þegar hann kom fyrst á markað var því haldið rækilega á lofti að í honum væru helmingi færri hlutir en í öðrum bílum.
Í honum var enginn bensínmælir, heldur hani, sem skrúfað var frá til að opna streymi úr varageymi.
Ekki lok á hanskahólfi, ekkert vatnskælikerfi sem gat lekið eða soðið á o. s. frv.
Indverski bíllinn Nano er framleiddur með sömu heimspeki.
Það, og vandvirkni og notkun góðra hráefna gerðu það að verkum að þessir bílar náðu fyrst og fremst hylli fyrir það hvað þeir voru áreiðanlegir og traustir.
Ómar Ragnarsson, 6.6.2009 kl. 22:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.