6.6.2009 | 21:47
Betra að fjölga "djúpum" mönnum og spila "hátt."
Ég hélt að knattspyrnuvellir væru nokkurn veginn láréttir og að menn spiluðu ýmis framarlega eða aftarlega. En það er greinilega ekki nógu viturlegt af mér að tala svona. Með því að gera það kem ég upp um fáfræði mína í nútimaknattspyrnu.
Í lýsingu og viðtölum vegna leiks Hollendinga og Íslendinga var ítrekað rætt um að aðeins einn leikmaður Íslands hefði verið "djúpur" í fyrri hálfleik og það hefði breytt mjög gangi leiksins í seinni hálfleik að fjölga "djúpum" mönnum og leika með tvo "djúpa" menn í þeim síðari. Síðan var rætt um að spila "hátt" á vellinum.
Greinilega var ekki verið að tala um hávaða í leikmönnum og vegna þess að þeir eru ekki vængjaðir var ómögulegt fyrir vesaling minn að skilja hvað átt væri við.
Ég velti því síðan fyrir mér hvort níu leikmenn Íslendinga hefðu verið "grunnir" í síðari hálfleik, hvort sumir hefðu verið meðaldjúpir og aðrir grunnir og hvort þeir hefðu verið lágt á vellinum eða hátt.
Ég er norður við Mývatn og heyrði þetta í útvarpinu. Þess skal getið að aðalþulur í lýsingunni var Bjarni Felixson sem aldrei talaði um djúpa menn eða grunna og því síður um það að vera hátt eða lágt á vellinum.
Ég þakkaði Guði fyrir að Bjarni er enn að og ber enn höfuð og herðar yfir aðra í knattspyrnulýsingum þótt í þjóðfélagi æskudýrkunarinnar ætti hann að hafa unnið sér það til óhelgis að vera kominn á eftirlaunaaldur.
Bjarni lýsir á kjarnyrtri og góðri íslensku á þann hátt að allir skilja hvað er að gerast á vellinum.
Bjarni notar enn orð eins og "teigur" í staðinn fyrir "boxið", sem aðrir tönnluðust á um skeið og þóttust með því slá um sig og sýna hvað þeir væru fróðir um knattspyrnu og góðir í ensku.
Hollendingar á HM eftir sigur gegn Íslandi, 2:1 | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Nú kannast ég við minn mann og mikið assgoti er ég sammála þér.
Jón Steinar Ragnarsson, 6.6.2009 kl. 22:41
Áfram Bjarni...því miður missti ég af lýsingunni og leiknum nema smá stund...
Halldór Jóhannsson, 7.6.2009 kl. 01:11
Djúpu mennirnir eru úr Ísafjarðardjúpi.
Háu mennirnir eru yfir 1,90 m.
Steingrímur Thomsen (IP-tala skráð) 7.6.2009 kl. 15:06
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.