Góð stund í Friðlandi að Fjallabaki.

Það var ánægjulegt að vera viðstaddur hugljúfa athöfn í Friðlandi að Fjallabaki í dag þegar afhjúpaður var minnisvarði um það þegar Guðmundur Jónasson fann bílfært vað á Tungnaá árið 1950 og opnaði þar með leið fyrir almenning frá sunnanverðu landinu inn á miðhálendi landsins.

P1010094

Minnisvarðinn var gerður í tilefni af aldarafmæli Guðmundar.

Hann stendur skammt frá vegamótum leiðarinnar frá Sigöldu suður í Landmannalaugar og slóða sem liggur að vaðinu, sem nefnt var Hófsvað og um Svartakrók að Ljótapolli.

Allt þar til virkjanir komu í Tungnaá var þetta vað sú leið sem menn fóru inn á hálendið.

Þessi skipan mála varði í hartnær aldarfjórðung.  

Í heimildamyndinni "Ísland - eyjan sjóðandi" sem Svisslendingurinn Hans Nick tók 1965 er frábær mynd af vaðinu.

P1010093

 

Í myndinni sést hvernig jeppi Svisslendingsins er settur upp pall stórs trukks af Studebaker-Reo gerð og selfluttur yfir ána.  

 

 

Guðmundur Jónasson var þekktastur svonefndra fjallabílstjóra á sinni tíð og afkomendur hans reka öflugt rútufyrirtæki sem sinnir ferðum af fjölbreyttu tagi.

 

 

P1010095

 Við athöfnina í dag mátti sjá fjórar kynslóðir aðstandenda Guðmundar og velunnarra og hjálparmanna hans.  

Flestir brautryðjendanna eru horfnir til feðra sinna.

Þó er rétt að nefna að enn er á lífi í hárri elli Páll Arason, sem var einn af þeim þekktustu og stóð meðal annars fyrir því að fara á fjallabíl sínum, "Pálínu", alla leið til Rómar auk þess að nota hann til hálendisferða hér heima.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband