14.6.2009 | 22:58
Nokkuð um vatnsaflsvirkjanir?
Hversu hátt og vítt hugsa menn þegar mótuð er sameiginleg umhverfis- og orkustefna?
Líklega fara menn eins stutt og þeir komast af með.
Ef sameiginleg yfirstjórn væri yfir virkjanamálum á Norðurlöndum myndu menn líta yfir sviðið og sjá að á tveimur Norðurlandanna, Íslandi og Noregi, er álíka mikil vatnsorka óvirkjuð að magni til og að þetta eru einu löndin í Evrópu þar sem svo háttar til.
Íslendingar réttlæta sínar fyrirhuguðu virkjanir með því að hlutfallslega eigi þeir þrefalt meira óvirkjað en Norðmenn.En Noregur er þrefalt stærra land en Ísland og þegar staðið er álengdar og málið skoðað er rangt að nota prósenttölur af misstórum heildum heldur á magnið í sjálfu sér að vera lagt til grundvallar.
Ef virkja ætti vatnsafl og taka tillit til náttúruverðmæta sem fórna þyrfti vegna virkjananna sæist fljótt að umhverfisspjöllin á Íslandi yrðu í flestum tilfellum margfalt meiri en í Noregi.
Í öllum hugsanlegum viðbótarvirkjunum Noregs er um að ræða hreint vatnsafl, sem ekki myndar set í miðlunarlónum heldur er ígildi eilífðarvélar líkt og Sogsvirkjanirnar á Íslandi.
Í aurugum jökulám Íslands fyllast hins vegar miðlunarlón af seti eins og þegar má sjá í Sultartangalóni og Hálslóni.
Sultartangalón verður á nokkrum áratugum ónýtt til miðlunar vegna þessa.
Set hér með tvær myndir af slíkri uppfyllingu Kringilsár í Hálslóni eftir aðeins tvo vetur, en þar sem myndin sýnir flatar jökulleirur núna, var djúpt gil fyrir tveimur árum.
(Hægt að skoða þær betur með því að smella á þær í tveimur áföngum og láta þær fylla út í skjáinn)
Það að auki eru margar fyrirhugaðar vatnsaflsvirkjanir á Íslandi á því svæði, sem skilgreint er sem eitt af helstu náttúruundrum heims, þ. e. hinn eldvirki hluti Íslands.
Norska hálendið, þar sem hætt hefur verið við stórvirkjun í svipuðum stíl og Kárahnjúkavirkjun er, er ekki slíkt undur.
Á hinum Norðurlöndunum, þeirra á meðal í Noregi, er tími nýrra vatnsaflsvirkjana liðinn. Hins vegar ekki hér.
Þetta er á skjön við samræmda heildarstefnu og því þurfa virkjanafíklar ekki að óttast að sameiginleg stefna á þessu sviði líti dagsins ljós að þessu sinni. Íslendingar munu að sjálfsögðu ekki ýja einu orði að sameiginlegri stefnu Norðurlanda á þessu sviði, því miður að mínu mati.
Norræn stefna í umhverfismálum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Er einhver orkugjafi er æskilegri en rafmagn frá vatns eða gufuaflsvirkjunum ? Við hljótum að eiga að nýta okkar fallvötn hóflega eins og aðrar náttúruauðlindir.
Gísli Gíslason, 14.6.2009 kl. 23:26
Þá er næsta spurningin bara hvað sé hóflegt, þú gætir fengið 5 mism. svör frá 5 mism. einstaklingum um það. ;)
Ari (IP-tala skráð) 15.6.2009 kl. 02:06
Vatnsaflsvirkjanir eru í rauninni "þyngdaraflsvirkjanir", þ.e. þær virkja áhrif þyngdaraflsins á vatn, sem hvort sem er er á leið til sjávar og geta framleitt orku án nokkurrar minnstu mengunar í aldir og árþúsundir með smávægilegu viðhaldi og endurnýjun tækja. Þær eru í rauninni sólarorkuvirkjanir og geta haldið áfram að snúast meðan sólin fær vatn til að gufa upp úr höfunum, sem síðan fellur aftur til jarðar. Þær framleiða alls enga loftmengun, ólíkt jarðvarmavirkjunum, sem senda gífurlegt magn af brennisteins- og flúorsamböndum út í andrúmsloftið auk koldíoxíðs (sem alls ekki er "mengun"). Einu "umhverfisáhrifin" eru, að stundum verða til ný stöðuvötn í landslaginu, sem einungis er til prýði (sbr. t.d. Elliðavatn)
Þú talar mikið um setmyndun. Þetta er að mestu eða öllu leyti ímyndun ein, en ef set skyldi verða til vandræða eftir einhverja áratugi eða (frekar) aldir, er til afar einfalt ráð við því: Einfaldlega má senda dýpkunarpramma út á lónin og dæla setinu upp eins og gert er í höfnum víða um heim. Sums staðar, svo sem í Rotterdam eru margir slíkir í notkun allan sólarhringinn allt árið og halda höfninni hreinni, en þar er setið margfalt, margfalt meira en það sem hér er um að ræða. Það sem upp kemur má nýta, ef menn vilja, en lang einfaldast virðist að dæla því einfaldlega aftur út í ána fyrir neðan stíflu, svo setið geti haldið áfram leið sinni til sjávar.
Ég endurtek: Virkjum þyngdaraflið!
Vilhjálmur Eyþórsson, 15.6.2009 kl. 02:33
Sæll Ómar.
Ég skil ekki einhliða einblýni þína í umhverfisvernd hér á landi varðandi vatnaflsvirkjanir og er þá með í huga aðferðafræði framleiðsluatvinnuveganna sem er enn úti í móa hvað sjálfbærni varðar.
kv.Guðrún María.
Guðrún María Óskarsdóttir., 15.6.2009 kl. 02:37
Ef ég man rétt, þá eru Norðmenn mun lengra komnir í nýtingu endurnýjanlegrar orku en við Íslendingar. Hlutfallið er 40%- /Ísland, 70%- /Noregur
Gunnar Th. Gunnarsson, 15.6.2009 kl. 03:02
Myndirnar með pistlinum sýna það sem ég hef skoðað með eigin augun síðustu tvö vor, að aurburðurinn í Hálslón er ekki "að mestu leyti ímyndun ein."
Nú er hlýnunarskeið og aurburðurinn vafalaust talsvert meiri en reiknað var með.
Í mati á umhverfisáhrifum er talið að 10 milljón tonn af auri berist í lónið á ári, en þar af verði 8-9 milljón tonn eftir í lóninu, sökkvi þar til botns. Þetta er birt á margra ára mælingum en það þýðir lítið að rökræða við menn sem vísa því á bug og telja þessar tölur vísindamanna "að mestu leyti ímyndun eina."
Nú þegar sést hvernig aur er að fylla upp Sultartangalón og það er því ekki hægt að afgreiða það sem "ímyndun." Er þó aurburðurinn í það lón tíu sinnum minni en aurburðurinn í Hálslón.
Vilhjálmur stingur þó upp á einfaldri lausn málsins, sem sé þeirri að dæla aurnum jafnharðan upp úr lóninu.
Engan stað er hægt að finna fyrir allt þetta gríðarlega magn af auri nema þá að aka honum niður á strönd Héraðsflóa og sturta honum þar í sjóinn á þeim slóðum þar sem hann skilaði sér að mestu leyti áður en áin var virkjuð.
Ekki er hægt að nota "Búkollu"trukka til þess því að þeir eru of stórir fyrir vegakerfið.
Ef við segjum að notaðir yrðu venjulegir vörubílar sem bæru 15 tonn hver í ferð, væru 4 klst í hverri ferð (vegalengdin fram og til baka er 300 km) og unnið væri á þremur vöktum á sólarhring flytti hver bíll um 15 þúsund tonn á ári.
Til þess að afkasta þessu þyrfti því um 600 vörubíla flota sem 1800 bílstjórar ækju.
Um er að ræða atvinnu fyrir á þriðja þúsund manns að minnsta kosti þegar öll þjónusta við þennan bílaflota er tekin með í reikninginn. Ekki amalegar tillögur um fjölgun starfa á Austurlandi!
Ómar Ragnarsson, 15.6.2009 kl. 07:45
Í athugasemd númer eitt er talað um "hóflega" virkjun orkugjafa á Íslandi. Nú þegar framleiðum við fimm sinnum meira rafmagn en við þurfum til venjulegra nota okkar sjálfra og stefnum í að framleiða tvöfalt meira en það.
Stefnt er að því að virkja allan Reykjanesskagann sundur og saman í jarðvarmavirkjunum og þyrma engu, ekki einu sinni þeim litla hluta þessarar orku sem náttúruverndarfólk vill þyrma.
Pumpa á upp allt að þrefalt meiri orku en svæðin bera til langframa í þessum "hóflegu" virkjunum.
Með álverum í Helguvík og á Bakka er stefnt að virkjun Neðri-Þjórsár syðra og Skjálfandafljóts og Jökulánna í Skagafirði nyrðra ef þessi álver eiga að ná þeirr hagkvæmu stærð sem krafist er.
Á landsfundi Samfylkingarinnar var naumlega felld tillaga um að reisa öll þau álver sem mögulegt væri að reisa á landinu og sækja um undanþágu til losunar til þess.
Þessi "hóflega" stefna myndi krefjast allrar orku landsins og afraksturinn yrði störf í álverum sem næmi 2% vinnuaflsins.
Hófleg nýting það? Ég spyr: Hvernig getur "orkufrekur iðnaður" verið hóflegur?
Ómar Ragnarsson, 15.6.2009 kl. 07:53
"að aurburðurinn í Hálslón er ekki "að mestu leyti ímyndun ein."
Það hefur enginn málsmetandi maður haldið því fram að aurburðurinn í Hálslón væri ímyndun ein. Menn hafa hins vegar dregið í efa fullyrðingar náttúruverndarsinna að aurinn verði óviðráðanlegt vandamál. Ekker bendir enn til þess að heimsendaspádómarnir muni rætast, en það er skiljanlega andstæðingum Kárahnjúkaverkefnisins til mikilla skaprauna.
Gunnar Th. Gunnarsson, 15.6.2009 kl. 15:57
Ég held að við verðum á hverjum tíma að bera saman þörfina á nýjum störfum og verðmætasköpun á móti þeirri hugsanlegu "fórn" sem felst í virkjunum.
Sem burtfluttum austfirðing þá hef ég ávallt glaðst yfir þeim viðsnúningi sem varð í fjórðungnum við tilkomu Kárahnjúkavirkunar og álvers Alcoa. Eftir að hin svokallaða skuttogarabylting varð, þá hnignaði fjórðungurinn stanslaust, fólk flutti og eignir urðu verðlausar og jafnvel var maður farinn að sjá yfirgefin hús í þessum fallegu fjörðum. Þetta var ekki góð þróun og enginn virtist geta snúið þessu við. Kannski eru til aðrar lausnir en ég hef ekki séð þær.
Þó 4-500 störf í álveri eins og Alcoa, fyrir utan afleidd störf, séu ekki mörg sem hlutfall á 160 000 manna vinnumarkaði á Íslandi, þá eru þetta mikilvæg störf í fjörðungi sem hefur vinnumarkað sem telur kannski 6000 störf. Við hljótum alltaf að eiga að nýta auðlindir okkar hóflega og umræðan um hvað er hóflegt verður sífellt að vera lifandi.
þannig dáist ég oft af stefnufestu Ómars í þessum málum, þó svo að ég sé ekki endilega alltaf sammála honum.
Gísli Gíslason, 15.6.2009 kl. 23:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.