16.6.2009 | 00:01
Þarf ekki að finna upp hjólið.
Þegar ferðast er um þjóðgarða og ferðamannaslóðir í öðrum löndum sést strax hve langt við Íslendingar höfum verið á eftir öðrum í að læra það, hvernig best er að standa að þjónustu við ferðamenn og umgengni við náttúruna.
Þegar komið er í inngangshliðin að amerískum þjóðgörðum kaupir maður sig inn en fær í staðinn góðan fræðslubækling um það helsta sem er að sjá og þarf að gæta að í þjóðgarðinum.
Í þjóðgarðinum er þess vandlega gætt að ferðamenn geti séð allt það helsta sem er að sjá, án þess að skemma nokkuð.
Víða ganga ferðamenn um mjög viðkvæm svæði en fara þá eftir sérstökum göngupöllum svipuðum þeim sem eru á Þingvöllum. Pallarnir hvíla á mjóum hælum þannig að hvaða kynslóð framtíðarinnar sem er getur fjarlægt þá ef hún vill án þess að þeir skilji eftir sig rask.
Ferðamenn eru vanir því að borga fyrir sig á svona stöðum og því algerlega ástæðulaust að halda að aðgangseyrir á vissum stöðum hér á landi muni fæla frá. Þar með er ekki sagt að ástæða sé til gjaldtöku alls staðar, - það fer eftir aðstæðum.
Að baki fyrikomulagi á ferðamannaslóðum erlendis liggur mikil og löng reynsla og vinna kunnáttufólks.
Þar sést að jafnvel á viðkvæmum svæðum er hægt að haga málum þannig með stýringu að milljónir ferðamanna valdi ekki átroðningi eða skemmdum.
Sums staðar er aðsókn svo mikil að göngu- og siglingaleiðum að ferðamenn eru rændir þeirri upplifun sem þeir sækjast eftir, kyrrð og friði úti í náttúrunni. Á slíkum er einfaldlega ítala og kvóti á fjöldanum, sem fær að ganga eða sigla um þessar slóðir.
Banff-þjóðgarðinum í Kanada er til dæmis skipt niður í fimm tegundir af svæðum eftir því hve ósnortin náttúran er og hve mikið næði og kyrrð ferðamenn geta fengið. Í hæsta flokki þar eru svæði þar sem örfáir koma á ári hverju, þrátt fyrir milljónirnar sem fara um þjónustusvæðin og útivistarsvæðin nálægt leiðinni inn í þjóðgarðinn.
Í stað þess að Íslendingar séu að rembast við að finna upp hljólið þarf að gera gangskör að því að besta þekking og reynsla erlendis nýtist okkur við að skipuleggja og stýra ferðamennskunni hér á landi.
Vilja gera landnýtingaráætlun fyrir ferðamennsku | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Tek undir það með Ómari að það er engin þörf á því fyrir okkur að finna upp hjólið varðandi stjórnun á nýtingu lands. En til þess að geta nýtt sér þau úrræði og lausnir sem aðrar þjóðir s.s. Bandaríkjamenn og fleiri hafa notað í áraraðir þurfum við nauðsynlega að fá fram heildstæða landnýtingaráætlun. Við þurfum að fá fram hvar á að borga, hvar á að takmarka fjölda, hvar þarf að byggja stíga, bílastæði, skilti o.s.frv. og inn í þessa landnýtingaráætlun þarf auðvitað að koma líka hvar og hvernig ætlum við að virkja, leggja vegi, raflínur, landbúnaður og svona mætti lengi telja. Um leið og slik landnýtingaráætlun liggur fyrir er hægt að taka í notkun þekkt verkfæri og lausnir annarra þjóða.
Vil að lokum benda á að ég hef alla vega ekki ennþá komið neins staðar þar sem ég hef þurft að borga "gón"gjald heldur eingungis þjónustugjöld. Það er að segja þegar byrjað er að selja aðgang að einhverju svæði þá hefur þegar verið unnið í uppbyggingu á svæðinu í formi bílastæða, göngustíga, merkinga eða þess háttar.
Vona svo að farið verði sem fyrst í að útbúa landnýtingaráætlun fyrir allt Ísland þannig að hægt verði að vinna að þessum málum af einhverju viti og minni á að náttúruvernd er líka nýting á náttúru þó að sumir vilji gleyma því í hita leiksins.
Hjalti Finnsson (IP-tala skráð) 16.6.2009 kl. 09:58
Mæl þú manna heilastur Ómar. Náttúruverndaryfirvöld hafa nú rætt gjaldtökumál í meira en mannsaldur en aldrei látið af verða vegna hræðslu við að gjaldtaka myndi fæla frá og draga úr ferðamennsku, þótt hvergi sjáist merki um réttmæti slíks ótta. Það væri auðvelt að rukka á Þingvöllum, Snæfellsjökli og Skaftafelli en örlítið flóknara í Gljúfrum. Eins mætti hugsa sér að "Hálendis- og Verndarsvæðapassi" væri seldur á bensínstöðvum, í verslunum, á flugvöllum og ferðaskrifstofum og eftirlitsmenn tékkuðu á að fólk væri með slíka passa þar sem við ætti.
Stefán Benediktsson (IP-tala skráð) 16.6.2009 kl. 16:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.