24.6.2009 | 19:53
Skítur á myndum, - leynd hætta.
Nú eru liðnir nokkrir mánuðir frá því að ég fór að birta ljósmyndir hér á blogginu. Hefði mátt byrja á því fyrr því að orðtakið að ein mynd geti sagt meira en þúsund orð hefur stundum fullt gildi.
Ég ákvað því að bíta á jaxlinn og fá mér sæmilega myndavél með nógu góðri upplausn, þetta 10-12 milljón pixla, til þess að þær nýttust fyrir fjölmiðlun. Fyrir valinu varð lítil og handhæg myndavél með 12 milljón pixla upplausn.
Um daginn kom hins vegar babb í bátinn. Í ferð austur á hálendið, sem var snævi þakið, komu í ljós gráir og dökkir flekkir og dílar á myndunum. Við þetta mátti ekki við búið standa því þessar myndir voru ónothæfar og hluti dýrrar ferðar ónýttist.
Skoðið þið myndina hér við hliðina og sjáið dökka blettinn neðst við jaðar Sandfells við Hálslón og þrjá flekki efst til vinstri.
Það þarf ekki einu sinni að stækka myndina með því að smella á hana í tveimur árföngum til að sjá þetta, svo áberandi eru þessar skemmdir.
Ég hóf því að kynna mér málið og ná mér í upplýsingar um hverju þetta sætti. Niðurstaðan varð þessi:
Venjulegar vasamyndavélar eru ekki vatns- eða rykþéttar. Með tímanum sest skítur á myndflögurnar og koma fram flekkir og dílar á þeim flötum myndanna sem eru sléttir, svo sem bláum himni eða hvítum snjó.
Ef fólk er á ferðinni í rykmettuðu lofti getur þetta gerst furðu fljótt. Líka ef myndavélin er í skítugum vasa.
Hægt er að láta hreinsa þennan skít af flögunum, en þá er myndavélin ekki í notkun á meðan og þetta getur kostað allt að tíu þúsund krónur í hvert skipti.
Kannski geta kunnáttumenn lagað myndirnar eftirá en mér finnst þetta ekki viðunandi.
Flestir láta þetta ekki skipta sköpum við myndatökur við venjulegar aðstæður þegar flekkirnir hverfa í myndflötinn eða virkja eins og skuggar af skýjum eða einhverju öðru. En síðan koma aðstæður þar sem þetta er stórskemmd á myndunum.
Hins vegar eru til litlar myndavélar sem eru vatnsheldar og rykheldar, þola meira að segja að fara niður á þriggja metra dýpi.
Mín lausn fólst því í að fá mér slika myndavél en gjarnan hefði ég viljað vita það fyrirfram að svona væri í pottinn búið.
Síðan er hins að geta að stærri myndavélar eru flestar með svonefndum sjálfhreinsibúnaði. Miðað við fjárfestinguna í slíkri vél verður kaupandinn að ganga úr skugga um að svo sé.
Einnig má geta þess, að upplausnin, sem gefin er upp, svo sem 10 milljón pixlar, segir ekki nema hluta sögunnar af því hver gæði viðkomandi myndavél býður upp á.
Linsur og önnur atriði svo sem stærð vélarinanr skipta meira máli, sem sést á því að margar af bestu stafrænu myndavélunum undanfarin ár hafa aðeins boðið upp á ca 10 milljón pixla.
Ég tel að sölumenn myndavéla eigi að fræða kaupendurna um þau atriði sem hér hafa verið reifuð.
Athugasemdir
Sæll Ómar
Hef lent í svipuðu - og það er meira ef ljósopið er hátt .
En nú er ég með vél sem er með sjálfhreinsibúnaði --- .
Einnig eru seldir burstar og loftdæur ,til að blása eða þurrka af nemanum.
Halldór Sigurðsson, 24.6.2009 kl. 20:06
Sæll Ómar
Keypti mér einmitt líka litla og handhæga vél sem er vatns- og rykþétt. tek hana með mér í sund. hún getur verið í vatni í 2 klst og farið niður á 4 metra.
Pentax Optio W60 heitir hún og hefur 5x optical zoom, og 10 m.pix.
mæli með henni
Birnir Hauksson (IP-tala skráð) 24.6.2009 kl. 20:24
Þetta vandamál er ekki til staðar í filmuvélum, þar sem skipt er um
skynjarann við hverja nýja mynd. Fyrir utan alla þá kosti sem fylgja því að
varðveisla myndanna er ekki háð duttlungafullum tölvubúnaði.
Gunnar Hinriksson (IP-tala skráð) 24.6.2009 kl. 20:57
þetta er mismunandi eftir tegundum. Eini framleiðandinn sem virðist hafa náð tökum á þessu er Olympus. Ég á 5 ára gamla vél sem hefur aldrei þurft að hreinsa... :)
(Já, ég er myndavélanörd)
Jón Ragnarsson, 24.6.2009 kl. 22:42
Eina sem ég vil sega er að myndin er flott hjá þér Ómar.
S. Lúther Gestsson, 25.6.2009 kl. 01:34
Skuggarnir eru óviðunandi ef maður vill skýrar ljósmyndir. Skugginn sem er þarna ´milli´ fjallanna gæti kannski orðið túlkaður sem draugur?!
EE elle (IP-tala skráð) 25.6.2009 kl. 08:37
Gott að vita þetta Ómar. Ég vil einnig benda fólki á að gæði myndavéla fara mikið eftir ljósnæmi þeirra; þannig getur há pixla-upplausn gefið grófar myndir þegar tekið í í hálfrökkri á vél sem ekki er góð hvað ljósnæmi varðar.
Þór Ludwig Stiefel TORA, 25.6.2009 kl. 10:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.