9.7.2009 | 21:46
Þjóðsagan um dýru jöklajeppana.
Ég endurbirti hér þennan bloggpistil frá því í sumar vegna beiðni frá SÍS, Sambandi íslenskra Súkkueigenda um að hafa aðgang að honum. Hefst þá pistillinn:
"Jöklaferðir eru bara fyrir ríkt fólk á rándýrum jeppum."
Svona fullyrðing er alger misskilningur, sem byggist á því að fólk sér fyrir sér stóra breytta jeppa sem kosta á bilinu 6-20 milljónir króna.
Síðari upphæðina, 20 milljónir, miða ég við uppgefið verð á Toyota Landcruiser í FÍB-blaðinu, sem konstar rúmar 17 milljónir óbreyttur.
Hér við hliðina er mynd af því þegar minnsti jöklajeppi landsins fær loft á loftpúðafjöðrun sína hjá Frey Jónssyni í vorferð Jöklarannsóknarfélagsins.
Síðan við hjónin urðum að selja Hiluxjeppann, sem ég notaði í fréttaferðum og kvikmyndagerð á árunum 1995-2001 vegna kostnaðar við kvikmyndagerðina, hef ég notast við jeppa sem hafa komist um jökla en þó ekki kostað meira en nokkur hundruð þúsund krónur.
Fyrst var þetta gamall Hi-lux sem keyptur var á 150 þúsund krónur og dugði í tvö ár, fór tvær ferðir á Mýrdalsjökul og eina á strandstað á Meðallandsfjöru.
Þá tók við 36 ára gamall Range Rover með jafngamalli Nissan Laurel dísilvél og á 38 tommu dekkjum.
Hann hefur verið til taks inni í girðingu við Útvarpshúsið í fimm ár og kostaði 220 þúsund krónur.
Á myndinni sést gamla Laurel-dísilvélin sem krafðist tveggja rafgeyma en aðeins einn var í bílnum þegar ég fékk hann.
Auðleyst mál. Fundinn var geymir sem passaði í gagnstætt horn án nokkurra sérstakra festinga og tengt á milli með startköplum sem fást á bensínstöðvum !
KISS ! Keep It Simple, Stupid !
Þennan bíl tel ég vera ódýrasta Range Rover jöklajeppa á landinu.
Undir nafninu RANGE ROVER á vélarhlífinni má sjá vír, sem kemur í gegnum grillið og kippt er í til að opna vélarhlífina.
Aftur KISS !
Ég fór eina ferð á honum vegna kvikmyndagerðar milli Langasjávar og Landmannalauga 2005. Þar lentu jepparnir í ferðinni í miklum hremmingum þegar þeir fóru niður um ís á Tungnaá.
Kostnaður vegna skemmdanna á hinum jeppunum skiptu hundruðum þúsunda króna, en ég slapp með 20 þúsund krónur plús einn spraybrúsa hjá Bílanausti.
Vinstri framhurð var ónýt en aflóga hvít hurð vestan úr Búðardal leysti það eins og sést þegar dyrnar eru opnaðar !
Splæsi bráðum í annan brúsa til að mála hurðarfalsið.
Í vetur fór ég á þessum bíl í vetrarferð norðan Mývatns í fylgd stórs ofurjeppa til að vera ekki einbíla.
Hann bilaði tvisvar en sá gamli aldrei ! Þessi gamli Range Rover er aðeins notaður þegar ekkert annað kemur til greina.
Það liðu þrjú ár á milli þessara tveggja ferða.
Því er nauðsynlegt að slíkur bíll sé fornbíll svo að ekki þurfi að borga ósanngjarnar álögur þann tíma sem hann stendur.
Nú síðast greip ég í hann til að draga stóran tjaldvagn fyrir dóttur mína og fjölskyldu hennar, sem þau höfðu fengið lánaðan til að fara með á mót afkomenda Láru Sigfúsdóttur og Jóhanns Jónssonar.
Síðan kemur kannski langt hlé sem hans verður ekki þörf.
Til að draga Örkina á austurhálendinu fékk ég mér vorið 2006 150 þúsund króna Toyota Hilux pallbíl árgerð 1989 fyrir 150 þúsund krónur.
Með lítilsháttar breytingum varð hann að minnsta Toytoa jöklabíl landsins og hefur dugað stórkostlega vel og er til taks fyrir austan frá því í júní fram í nóvember.
Hann er svo léttur (1620 kíló) að 35 tommu dekk, læsingar og lágt drif nægja. Ég hækkaði ekki einu sinni körfuna á grindinni.
Hann fór eina vetrarferð á snjó þegar Örkin var dregin á sinn stað í apríl 2006.
Ég vildi hafa undir höndum sparneytinn og lítinn jöklajeppa sem notaður væri sem oftast.
Þá varð Suzuki Fox SJ 410, árgerð 1986, fyrir valinu.
Hann hef ég notað í jöklaferðum þegar það hefur verið gerlegt og fór á honum í tvær vorferðir Jöklarannsóknarfélagsins um Vatnajökul, 2005 og 2009.
Hér til hliðar sést hann uppi á Vatnajökli á leið í Kverkfjöll með Herðubreið í baksýn.
Vegna mistaka fór sama myndin inn tvisvar.
Ég fékk mér raunar fyrst Súkkujeppa 1999 sem kostaði 20 þúsund krónur og þegar hann andaðist annan svartan í staðinn sem fékkst á 80 þúsund.
Hann hef ég notað síðustu sjö ár á austurhálendinu og hann komst í National Geographic sem svefnstaður minn á hálendinu þegar fjallað var í því tímariti um Kárahnjúkavirkjun.
Kvikindið hefur reynst afar vel en er ekki á númerum sem stendur.
Súkkan sem ég notaði í Jöklarannsóknarferðunum var upphaflega með 970cc vél, sem var aðeins 45 hestöfl.
Mennirnir sem seldu mér hann, settu í hann Suzuki Swift 1298cc GTI vél, sem er 101 hestafl og settu undir hann loftpúðafjöðrun.
Gerðu hann að algerri rakettu !
Þeir gáfust hins vegar upp á bílnum vegna þess að vélin tók rými, sem annars þurfti í miðstöð og því var bíllinn miðstöðvarlaus.
Vinur minn á Suzukiverkstæðinu leysti málið með örlítilli miðstöð sem blæs bara upp á framgluggana.
En rýmið í bílnum er svo lítið að það skiptir ekki máli.
Loftpúðafjöðrunin er ágæt til að hækka og lækka bílinn en hentar ekki á svona léttum bíl, því að hann hoppar og skoppar á henni eins og smábolti.
Þegar komin voru 32ja tommu dekk undir bílinn nægði það samkvæmt burðar/flot/formúlu minni til að gefa bílnum sama flot og jöklajeppum, sem eru þrisvar sinnum þyngri.
Súkkan er aðeins 950 kíló.
Af því að dekkin eru þó ekki stærri en þetta þurfti ekki brettakanta.
Drif, millikassi og gírkassi fyrir 45 hestafla vélina gerðu bílinn lággíraðan í besta lagi, lægsta deiling með þessum dekkjum í fyrsta gír á lága drifinu samsvarar 1:47 á 38 tommu bílum.
Ferðin 2005 gekk ótrúlega vel en ég var fyrirfram efins um hvort ég ætti að leggja í að fara með þennan litla jeppa ferðina í vor þar sem mig grunaði að mikið krap gæti verið neðst á Tungnaárjökli og orðið erfiðara fyrir hann en stóru jeppana.
Þetta reyndist raunin og ég þurfti að láta draga þann litla í gegnum versta krapkaflann.
En dæmið snerist við þegar ofar kom og komið í lausan snjó.
Tvívegis festist þungur jöklajeppi sem var samferða mér á leið uppeftir og lausnin var að sá litli kippti í þann stóra !
Helsta vandamál þessa jeppa og Range Rover jeppans er hve vatnið hitnar mikið þegar lötrað er í þungu færi á lágum gír með miklu álagi. Þetta getur raunar verið vandamál á nýjum og stórum jeppum.
Einkum er þetta vandamál þegar ekið er upp í móti undan vindi.
Á leiðinni upp á Grímsfjall greip ég til þess ráðs að opna vélarhlífina og láta hana liggja upp að framglugganum en stinga hausnum út og aka þannig!
Þetta gafst vel og morguninn eftir fór ég í það með aðstoð Freys Jónssonar og Jónasar Elíassonar prófessors að leysa dæmið betur.
Það fólst í því að taka hlífina af og setja hana inn í bílinn og festa tryggilega eins og myndirnar sýna.
Jónas sýndi í lokin verkfræðisnilli sína með því að finna út hvernig hlífin ætti að standa upp á rönd inni í bílnum eins og sést á myndinni sem tekin er framan á bílinn.
Hann fann síðan tvær spýtur sem pössuðu nákvæmlega sem stoðir undir hlífina.
Freyr sagði að nú væri Súkkan bæði vatnskæld og loftkæld því að loftið sem léki um bera vélina gæfi öfluga kælingu og útgeislun.
Ég er búinn að finna aðferð til að setja vélarhlíf Range Roversins upp á þakbogana í sams konar tilfelli.
Í ferðum í Kverkfjöll, Gjálp, á Bárðarbungu og að Skaftárkötlum nutu bestu eiginleikar Súkkunnar sín, - mikið afl miðað við þyngd og ekki síður að stundum markaði varla í snjóinn eftir hana þar sem stóru jepparnir sukku í djúp för eins og sjá má á meðfylgjandi myndum.
Á myndinni hér við hliðina sést rauði jeppinn vera að kippa í þann dökkbláa, en Súkkan stendur hjá og markar varla fyrir förum hennar.
Fyrir neðan eru myndir af samhliða förum eftir þessar tvær stærðir jöklajeppa.
Á þeirri efri eru Súkkuförin vinstra megin en á þeirri neðri ofar á myndinni.
Í lokin varð ég samferða Snæbirni Pálssyni og Jónasi Elíassyni niður af jöklinum og þá lentum við á ný í miklu krapi.
Snæbjörn varð einu sinni að kippa í mig en síðan kom að því að ég varð að kippa í hann eins og sést á neðstu myndinni.
Í þessari ferð þar sem allir hjálpuðust að varð útkoman að lokum því 3:3, hvað snerti það að draga eða vera dreginn !
Guðmundur Eyjólfsson, sem nú ekur ferðir með fólk um jökla á Land Rover, byrjaði feril sinn á Súkkum á 33ja tommu dekkjum, og varð mér einu sinni samferða í Grímsvötn og Kverkfjöll.
Þá sá ég hvað hægt er að gera á ódýran og einfaldan hátt á þessu sviði og gefa þjóðsögunni um dýru og stóru jöklajeppana langt nef.
Athugasemdir
Þetta eru engir slyddujeppar.
Þessir rándýru jeppar, fara þeir nokkurn tímann á fjöll? Ég hef alltaf staðið í þeirri meiningu að það væri ekki hægt að fara á fjöll á þessum tugmilljónkrónajeppum án þess að rústa þeim og því væru þeir bara notaðir á malbiki.
Þínir jeppar eru greinilega ætlaðir til notkunar
Margrét Birna Auðunsdóttir, 9.7.2009 kl. 22:17
Benni fór með porche sportbíl og keyrði hann uppá jökli. En ég er sammála þessu með allar milljónirnar, í túristabransa má bíllinn ekki fara mikið yfir 7 milljónir þá er erfitt að láta dæmið ganga upp.
Annars er lífið bara eintómir skaflar og torfærur endalaust út um allt.
Jónas Jónasson, 9.7.2009 kl. 22:41
Ég segi nú bara: Snillingur ertu !
Eiður Svanberg Guðnason, 9.7.2009 kl. 22:52
Alveg stórskemmtilegt. Ekki býrðu svo vel að eiga efni í "heimildarmynd" um Súkku eftir þessa ferð? Ekki það að áhuguamálið sé tengt þessu en annað eins hefur verið matreitt ofaní okkur. Það væri meira að segja gaman að nudda sumum dellu köllunum svolítið upp úr slíkri ræmu.
Sindri Karl Sigurðsson, 10.7.2009 kl. 00:34
Rétt er að halda því til haga að fyrir þá sem vilja gera jöklaferðir að atvinnu eða hálfatvinnu er betra að vera á nýjum bílum. Og helst ekki einn á ferð þótt á því kunni að vera undantekningar.
Í fyrri vorferð Jöklarannsóknarfélagins varð ég að fara einn upp á jökulinn eftir að leiðangursmenn höfðu farið kvöldið áður.
Mér var hins vegar kunnugt um að vinur minn ætlaði upp á jökul átta klukkustundum á eftir mér og myndi koma mér til hjálpar ef eitthvað bjátaði á.
Í þetta skiptið var krapið neðst á Tungnaárjökli hins vegar viðráðanlegt og ég komst því hjálparlaust alla leið upp í Grímsvötn þótt færið væri erfitt á köflum.
Síðustu árin mín á Stöð tvö notaði ég nýjan breyttan bíl af gerðinni Toyota Hi-lux á 38 tommu dekkjum í eigu fyrirtækisins í svaðilferðir mínar fyrir fréttaöflun og þáttagerð.
Við hjónin fengum okkur síðan alveg eins bíl þegar ég hóf störf hjá Sjónvarpinu enda stóðu og féllu þáttagerð mín og fréttaöflun með því að hafa umráð yfir slíkum bíl og óheftan aðgang að flugvél.
Fyrir öll venjuleg not af jöklabíl hentar Hi-lux eða svipaðir jeppar einna best.
Hins vegar veit ég um að Suzuki Jimny, sem er smájeppi, hefur verið breytt í býsna öflugan jöklajeppa með því að fá í hann lægri drif og jafnvel læsingar, hækka körfuna á grind og klippa bretti og hafa undir honum 35 tommu dekk.
Ef skyggnst er um á bílasölum landsins eða í smáauglýsingum má stundum sjá að hægt er að krækja sér í furðu öfluga jöklajeppa fyrir lítinn pening. En þá verður að huga mjög vel að ástandi slíkra bíla og miða notin við það.
Ómar Ragnarsson, 10.7.2009 kl. 05:26
Bróðir minn fékk cherooke laredo "95 á 300 þúsund (1-2 mánaðarlaun verkamanns ).Man þegar menn voru að kaupa 15-20 ára willysjeppa í kringum "80 þá kostuðu þeir mörg mánaðarlaun svo að notaðir góðir jeppar eru á góðu verði núna,hefur aldrei verið hagstæðara.Ég myndi aldrei þora að leika mér á 7milljón krónu jeppa myndi keyra hann bara á malbiki mjög varfærnislega.
Hörður Halldórsson (IP-tala skráð) 10.7.2009 kl. 08:06
Þetta er einhver skemmtilegasta bloggfrásögn sem ég hef lesið árum saman!
Hlynur Þór Magnússon (IP-tala skráð) 10.7.2009 kl. 10:48
Og Ómar ekki gleyma einu sem þessir ódýru jeppar hafa fram yfir þá dýru og nýju það er rafmagnskerfið,dýru jepparnir eru hlaðnir tölvum og heilum sem nánast ógerlegt er að gera við á fjöllum en þessir ódýru eru bara með + og - engar tölvur og einfaldara að bjarga sér.
Marteinn Unnar Heiðarsson, 10.7.2009 kl. 10:49
takk fyrir mjög svo skemtilega frásögn sem og allar þessar góðu ábendingar
Jón Snæbjörnsson, 10.7.2009 kl. 13:52
<Sæll frændi, ég veit að þetta er ekki beinlínis, skv. umfjöllunarefninu, en ég tel þetta svo mikilvægar upplýsingar, að ég sendi þær samt inn>
Ég hvet alla, til að lesa, nýjustu hagspá Framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins:
http://ec.europa.eu/economy_finance/publications/publication15487_en.pdf
Spá Framkvæmdastjórnarinnar, er að:
Ég þarf ekki, að segja meira. Lesið þetta sjálf.
Hvað þýðir þetta fyrir Íslands? Augljóslega, gerir þetta það minna 'attractive' að ganga í ESB. Einnig, þ.s. ESB kaupir mest af því sem við flytjum út, þarf að reikna niður væntingar, um efnahagsþróun hérlendis.
Núgildandi spár, eru greinilega allt og bjartsýnar; sem gera ráð fyrir að hagvöxtur fari af stað af krafti, þegar á næsta ári.
Kv.
Einar Björn Bjarnason, 10.7.2009 kl. 14:29
Þetta er snilldar frásögn.
Sjálfur er ég með Trooper á "35
Hræódýr, en góður- og því tímir maður að bjóða honum ýmislegt.
Drullugepill (IP-tala skráð) 10.7.2009 kl. 15:35
Takk fyrir skemmtilega færslu Ómar.
Það er oft erfitt að vera umhverfisvænn.
Þannig er að jeppar eyða olíu eða bensíni í snjó í öfugu hlutfalli við dekkjastærð og réttu hlutfalli við þyngd. stór dekk lítil eyðsla. Þungur jeppi mikil eyðsla. Af þessu leiðir að jeppar sem eru notaði í snjó eru því umhverfisvænni sem þeir eru léttari (minni) og á stærri dekkjum. Því gerist það ósjaldan á ferðum um hálendið í snjó að jeppar með nýjustu gerð af einbunu dísilvél, eru að eyða jafnvel mörgum sinnum meira en 20 ára gamlir villisjeppar á 38 tommu dekkjum.
http://www.youtube.com/watch?v=Nol_doqQStU
Guðmundur Jónsson, 10.7.2009 kl. 16:25
Áthyglisverð ábending, Guðmundur, en orðin "mörgum sinnum meira" kannski ofmælt.
Ástæðan fyrir því að ég nota litlu Súkkuna nær eingöngu í ferðum sem krefjast torfærueiginleika er lítil eyðsla hans. Hann er með mjög sparneytna Suzuki Swift GTI vél, sem er aðeins 1298 cc og með beinni innspýtingu og því mjög umhverfisvæn og fullkomin, miðað við þann tíma sem hún var smíðuð.
Um jöklakeyrsluna er síðan það að segja að heildarkílómetrafjöldinn sem lagður er að baki í slíkum akstri jeppamanna er svo örlítið brot af heildar eldsneytiseyðslu í þjóðfélaginju að það er áreiðanlega langt innan við einn þúsundasti (0,02)
Ég ek þessum jöklajeppum ekkert í almennu snatti, heldur minnstu og sparneytnustu bílum landsins og tel að það eigi helst ekki að aka slíkum bílum í daglegu snatti.
Ómar Ragnarsson, 10.7.2009 kl. 17:39
Takk fyrir upplýsingarnar, frændi. Þrátt fyrir upplýsingaöld og allan lærdóminn, sem menn telja sig hafa öðlast í efnahagsmálum siðustu áttatíu ár virðist svipað ætla að gerast nú og upp úr 1930.
Á áratugnum 1930-40 fór tvö stórveldi, Ítalía og Þýskaland þá leið að stórauka hervæðingu sína og útþenslustefnu.
Í bókinni "Nazism at war" er athyglisverð greining á því að uppsveiflan í Þýskalandi 1934-39 hefði sprungið í loft upp eins og íslenska "gróðærið" ef friður hefði haldist.
Þjóðverjum tókst að viðhalda þenslunni til 1942 með því að þenja ríkið út með landvinningum en lengra komust þeir ekki.
Eitt gleggsta dæmið um útþensluna sem hafði landvinninga að forsendu sá ég í sunnanverðri Eþíópíu á ferðum mínum þar.
Mussolini lét leggja mörg hundruð kílómetra langan þráðbeinan og upphækkaðan veg frá vestri til austurs eftir landinu.
Í dag er hægt að skrönglast við illan leik á jeppum eftir leifum þessa vegar, en á stórum köflum verður að aka meðfram honum!
Thatcher-Reagan-tímans verður minnst fyrir það að uppgangur hans byggðist á stóraukningu lánsfjár og viðskiptahalla, ýmist annars hvors eða beggja, og að þetta gekk svo lengi, að fólk var farið að trúa því að þetta gæti enst áfram.
Nú horfa menn fram á óhjákvæmilegar afleiðingar þenslu sem skorti innstæðu.
Ómar Ragnarsson, 10.7.2009 kl. 18:21
Það er ákveðin, kaldhæðni í þessu.
Eftir af við gengum í EES, þá minnkaði smám saman útflutningur, af fiski á Ameríkumarkað.
En, ef gert er ráð fyrir, að hagspá Framkvæmdastjórnar ESB rætist, þá ætti á næstu árum, verð á Ameríkumarkaði, að verða miklu betri.
Bandaríkin, byrja væntanlega í hagvexti, á næsta ári. Kreppan, þar er búin, að ná botni þár. En, botninn á kreppunni í Evrópu, kemur ekki fyrr en á næsta ári.
Síðan, ef nýja hagspáin er rétt, virðist vera nær öruggt að við taki einhver fjöldi ára, með hægari hagvexti en við meigum venjast, og á sama tíma einnig með meiri fjölda atvinnulausra.
Síðan, ætti Evrópa, smám saman, að rétta úr kútnum. En, vandinn er sá, að í ofanálag, er svokallað 'demographic bomb' að skella á þeim. Eftir 2020, er spáin að hámarks hæfni hagkerfis Evrópu til hagvaxtar, muni lækka í cirka 1,5%.
Þetta þýðir, að Evrópa, er í raun og veru búin, eins og Japan hefur verið, og það hefur ekki breyst, síðan 1989.
Ég held, að við verðum að íhuga þessar upplýsingar, af mikilli alvöru.
Það, má vera - að akkúrat núna, væru það einmitt mistök, að halla sér í enn meira mæli að Evrópu. Þvert á móti, virðist vera, að skynsamara, væri að halla sér í hina áttina, enda er engin 'demographic bomb' í Ameríku.
Geta, hagkerfis Bandaríkjanna til hagvaxtar, er ekki að minnka, á næstu árum. Þannig, að hagvaxtar bilið, sem verið hefur þarna á milli, mun sem sagt breikka, og síðan að halda áfram að gera það, hreinlega um alla fyrirsjáanlega framtíð.
Ég veit, að þetta hljómar eins og and ESB áróður, en upplýsingarnar, koma frá sjálfu ESB apparatinu, Framkvæmdastjórninni. Það er ljóst, að hún er áhyggjufull, og er sennilega ekki síst, að setja fram þessa dökku spá, til að hreyfa við ríkisstjórnum landanna, að reyna að stöðva þessa, annars, fyrirsjáanlegu þróun.
En, þeir myndu ekki setja hana fram, ef ekki væri raunveruleg ástæða, að hafa þessar áhyggjur.
Kv.
Einar Björn Bjarnason, 10.7.2009 kl. 19:41
Mörgum sinnum meira er langt því frá að vera ofmælt Ómar.Það er nefnilega þannig að jeppi sem drífur ekki eyðir óendanlega miklu eldsneyti.Jeppi sem drífur illa getur því auðveldleg eytt margfalt á við jeppa sem drífur vel.Þetta er nokkuð sem menn sjá oft illa, því jeppinn sem drífur best er oftast á unda og hinir í förum á eftir og þessi munur kemur því illa fram innan hóps. En ég oftar en einu sinni séð meira en þrefaldan eyðslumun á milli þessa 20 ára gamla hvíta jeppa á myndbandinu og nýmóðins “ofurjeppa” með einbunu díselvél.
Guðmundur Jónsson, 10.7.2009 kl. 20:02
Jepparnir sem þú sýnir þarna eru allir meðal þeirra léttustu á fjöllum. Ég giska á að Cherokkee jeppinn sé á milli 1700 og 1800 kíló og Willysarnir á svipuðu róli.
Á 38 tommu dekkjum hafa þeir yfir 100% flotgetu samkvæmt flotformúlu minni, en til samanburðar má geta þess að margir af nýjustu jeppunum eru á bilinu 2400 til 2600 kíló og því með 70-80% flotgetu.
Súkkan mín er með 92% flotgetu.
Cherokkee jeppinn er með sérstaklega hagstæð þyngdarhlutföll, ca 60-40, en það kemur sér einstaklega vel í brekkum og þegar menn þurfa að ná sér upp úr festum.
Toyota Hi-luxinn minn er með þyngdarhlutföllin 60-40 og 76% flotgetu, eða svipað og nýjustu jepparnir á 38 tommu dekkjum hafa.
Ómar Ragnarsson, 10.7.2009 kl. 21:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.