Gamlar minningar ljóma.

Hjólreiðakeppnin frá Reykjavík til Akureyrar vekur upp gamlar og góðar minningar í huga mér frá þeim árum þegar ég var gagntekinn af hjólreiðum.

Ég fékk mér snemma hjól með tveimur gírum og vegna þess að mamma mín var hrædd um að ég bryti gafalinn þegar ég var að hjóla sem óður væri á holótum malarvegunum fékk ég mér sérstakan gaffal með höggdeyfum.

Fyrsta langa hjólreiðin var þannig að við fórum þrjú í heimsókn til ömmusystur minnar að Sandhóli í Ölfusi og var hjólið haft aftan á palli vörubílsins sem við notuðum. Þá var ég tæplega fimmtán ára.

Ég hjólaði síðan af stað að austan og þau fóru af stað rúmri klukkustund síðar og hugðust taka mig upp í á leiðinni, áttu ekki von á að ég yrði kominn langt því að þá var vegurinn grófur malarvegur. Einkum voru Kambarnir hlykkjóttir, brattir og grófir.

Skemmst er frá því að segja að þau náðu mér aldrei og urðu mjög hrædd um að eitthvað alvarlegt hefði komið fyrir mig úr því að ég var gersamlega horfinn.

Þeim létti ósegjanlega þegar þau hittu mig á tröppunum heima, en mér hafði tekist að hjóla þessa 50 kílómetra á tveimur klukkustundum, eða á 25 kílómetra meðalhraða á klst.

Síðar um sumarið heimsótti ég Birni Bjarnason vin minn sem var í sveit að Glitstöðum í Norðurárdal og einsetti mér að hjóla 20 kílómetra á klukkustund að meðaltali. Þá var þetta tæplega 160 kílómetra leið eftir misgóðum malarvegi og Hvalfjörðurinn býsna erfiður.

Mér tókst að hjóla þetta á 7,5 klukkustundum en þá var ég búinn með allan matinn sem ég hafði fyllt töskurnar á bögglaberanum með. Erfiðast var að hjóla síðustu 20 kílómetrana upp Norðurárdalinn.

Mamma hafði tekið af mér loforð um að ég hjólaði aðeins aðra leiðina og það loforð átti ég erfitt með að efna, því að í bakaleiðinni var komin strekkings norðanvindur sem hefði getað hjálpað mér til að ná mun betri tíma niður í móti í meðvindi en á leiðinni upp eftir.

Ég sat svekktur í rútunni og varð að láta ímyndunina eina nægja.

Ég óska sigurvegurunum í hjólreiðakeppninni til hamingju og lifi mig gersamlega inn í það sem þeir voru að gera.


mbl.is Hafsteinn og Pétur langfyrstir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Morten Lange

Takk fyrir þessa sögu, Ómar   !  

Skil vel að keppnin hafi vakið upp minningar  :-)

Spurning hvort  hjólreiðafélögin mundu ekki hafa áhuga á að  "varðveita" söguna, og fleiri ef þú átt.  Netföng nokkur þeirra : hfr@hfr.is (Hjólreiðafélag Reykjavíkur),  ifhk@fjallahjolaklubburinn.is  (Íslenski Fjallahjólaklúbburinn) ,   LHM@islandia.is (Landssamtök hjólreiðamanna )

Morten Lange, 9.7.2009 kl. 10:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband