11.7.2009 | 11:31
Alþingishús og setning og slit þings á Þingvöllum.
Við fjórar innkeyrslur í Yellowstone-þjóðgarðinn í Bandaríkjunum stendur þessi áletrun á steinbogum hliðanna: "For the joy and benefit of the people" sem útleggst: Til ánægju og hagsbóta fyrir fólkið (þjóðina).
Hér á landi myndi orðið "hagsbóta" vera útlagt sem skipun um að virkja gríðarlega jarðvarma- og vatnsorku þjóðgarðsins en í Yellowstone var stofnaður þjóðgarður til að gera þveröfugt: Að varðveita dýrlegt sköpunarverk náttúrunnar sem ósnortnast, þjóðum heims til ánægju um ókomna tíð.
Tvær milljónir manna koma til Yellowstone á hverju ári. Til að þjóna þessu fólki eru til reiðu mörg hótel rétt utan við mörk þjóðgarðsins nálægt hliðunum að honum. Innan þjóðgarðsins er þess gætt að fólk fái þjónustu á örfáum allra fjölförnustu stöðunum.
Þar eru ekki hamborgarasjoppur á hverju horni í Yellowstone eins og Siv Friðleifsdóttir hefur haldið fram. Um garðinn liggur net 1600 kílómetra langra gönguleiða sem eru með ítölu og eftirliti svo að þeir sem þar ganga upplifi kyrrð og dýrð ósnortinnar náttúru.
Gefinn er kostur á mjög takmörkuðu gistirými á 2-3 stöðum en meginreglan er að þjóðgarðsgestir gista utan þjóðgarðsins. Í þjóðgarðinum er ekki alþjóðaflugvöllur eins og haldið hefur verið fram af sumum.
Nú er gullið tækifæri til endurskipulagningar á Þingvöllum. Þar sem Hótel Valhöll stóð er hægt að reisa snotra og fyrirferðarlitla ferðamannamiðstöð sem jafnframt er Alþingishús í lágmarksstærð með sal sem rúmar þingmenn við þingsetningu og þingslit.
Í húsinu verði lítið safn og upplýsingamiðstöð þar sem með bestu tækni er hægt að lofa fólki að kynnast sögu staðarins og sérstöðu.
Fornmenn reistu sér búðir á Þingvöllum og þar stóð lengi hús þar til niðurlægingartímabil staðarins hófst um 1800. Það er í samræmi við sögu staðarins sem þingstaðar að þar standi lítið og fallegt Alþingishús í stíl við það sem stendur við Austurvöll.
Hótel, sem rúmar þá sem vilja gista sem næst þinghelginni mætti síðan reisa utan hennar. Um það er ég sammála Birni Bjarnasyni.
Hótelrekstur á ekki að vera í þinghelginni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Mér finnst Þingvellir og Yellowstone fjarri því að vera sambærileg dæmi. Aðdráttarafl Þingvalla helgast ekki bara af svokallaðri "ósnortinni náttúrunni" heldur líka (og kannski miklu frekar) af sögunni og mannlífinu. Það á að vera stanslaust og iðandi mannlíf á Þingvöllum.
Ísland er stórt og það er næga kyrrð að finna annarsstaðar.
Bjarki (IP-tala skráð) 11.7.2009 kl. 12:07
Til gleði og góðs fyrir þjóðina.
Ég er ekki viss um að neitt eigi að byggja þar sem Valhöll áður stóð.
Eiður (IP-tala skráð) 11.7.2009 kl. 13:48
Ég hef "söguna og iðandi mannlífið" í huga með tillögunni um lítið Alþingishús sem yrði minna en Valhöll var.
Ég get bætt því við að þjóðin ætti að halda stóra þjóðhátíð á Þingvöllum á minnst tíu ára fresti til að efla samkennd og þjóðernisvitund sína.
Ómar Ragnarsson, 11.7.2009 kl. 14:24
Ferðamannamiðstöð??? Nei takk, Ómar minn. Salur já, fyrir alls kyns samkundur hljómar mjpg vel. En þegar þú segir ferðamannamiðstöð, þá finnst mér skotið framhjá þjóðlega blænum sem felst í látlausari húsum. Þjónusta við þá sem koma til að skoða svæðið er númer eitt, með upplýsingum um gönguleiðir og slíkt. Hótel og kaffistaður er líka afbragð.
Endurreisum hótelið í svipaðri mynd, með aukinni þjónustu við ekki bara rútuliðið.
Ólafur Þórðarson, 11.7.2009 kl. 14:29
Þingvellir eru merkilegir fyrir að þar var Alþingi sett árið 930. Það eru mannaverk felld inn í fallegt náttúruverk, svo það er fyllilega viðeigandi að mannaverk líðandi stundar séu til staðar. Fjölskylduvænt og útiveruhvetjandi.
Ég vil benda á að Yellowstone er stærri en Vatnajökull, eða um 9,000 ferkílómetra þjóðgarður, gerður af náttúrunnar hendi og hefur því allt annað gildi.
Vonandi koma aldrei 2 milljónir manns á Þingvelli, en í staðinn geti börn komandi kynslóða komið þar farið á bát, hjólað, skoðað svæðið til fróðleiks og þjóðarmeðvitundar í rólegheitum burt frá ferðamannaiðnaði. Og afi og amma sofið í hótelinu með barnabörnum og öll fengið sér hamborgara ef þau vilja. Það er bara flott. Það er svo annar handleggur að setja upp hamborgarabúllu.
Ólafur Þórðarson, 11.7.2009 kl. 14:41
Ég vil fá súludansstað og spilavíti á Þingvelli!
Sigurður Þór Guðjónsson, 11.7.2009 kl. 16:30
Mér lýst ágætlega á hugmyndina um þinghús sem væri hægt að nota við setningu Alþingis. Lykilatriðið í mínum huga er að Þingvellir séu notaðir. Mikið og reglulega. Þeir eiga ekki að vera eins og helgigripur í glerkassa sem má bara skoða en ekki snerta.
Það er engin ástæða til að bannfæra veitinga- og gistiþjónustu langt út fyrir þægilega göngufjarlægð frá helstu merkisstöðunum.
Bjarki (IP-tala skráð) 11.7.2009 kl. 17:30
Þingvellir eru einnig stórmerkilegir frá sjónarhóli jarðfræðinnar.
Nú þegar eru mun fleiri en tvær milljónir manna búnar að koma til Þingvalla. Nær allir Íslendingar hafa komið þangað og sumir þeirra mörgum sinnum. Um hálf milljón erlendra ferðamanna koma til landsins árlega og flestir þeirra fara til Þingvalla, Gullfoss og Geysis.
Ég hef gist á hótelinu á Þingvöllum og snætt þar silung í boði Sigga Hall og það var einstök upplifun. Umhverfisspjöll í algjöru lágmarki vegna þessara atriða.
Bygging sumarbústaða á Þingvöllum hefur valdið miklu meiri umhverfisspjöllum en ferðamennirnir þar, hefði ég haldið. Ég tala nú ekki um hávaðamengunina frá þyrlunum sem fluttu byggingarefni í bústaðina á víkingatímanum hinum síðari.
Þorsteinn Briem, 11.7.2009 kl. 17:44
Ég vil minna á að byggðasöfnin á Íslandi og önnur slík söfn svo sem Vesturfrasafnið á Hofsósi og Sildarminjasafnið eru fyrir ferðamenn.
Á því svæði þar sem Valhöll var, verður að vera lágmarksaðstaða fyrir gesti og gangandi. Þaðan er of langt upp í ferðamannamiðstöðina á Hakinu.
Aðalatriðið í mínum huga er að þetta verði Alþingishús sem geti hýst hátíðarsamkomur þingsins, þingsetningar og þingslit. Og húsið á helst að vera minna en Valhöll var.
Ómar Ragnarsson, 11.7.2009 kl. 18:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.