Í gamalkunnar skotgrafir?

Búsáhaldabyltingin ól af sér ýmislegt. Stjórnin, Fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn urðu undan að láta og farið var í kosningar sem færði meiri nýliðun inn á þing en dæmi eru um í marga áratugi.

Á meðal nýliða eru fjórir þingmenn Borgaraflokksins og skipt var um forystu í öllum flokkunum, sem báru ábyrgð á stjórn landsins í aðdraganda bankahrunsins.

Vitað var að klofningur var meira eða minna hjá stuðningsmönnum allra flokka í ESB-málinu og að nýliðunin á þingi gæti gefið færi á að slíkt kæmi fram í atkvæðagreiðslu um það stóra mál, enda vitað að flokkslínur réðu ekki öllu í persónulegum skoðunum einstakra þingmanna á því.

Fyrir nokkru sagði Ögmundur Jónasson að hann myndi fylgjast vel með því hvernig stjórnarandstaðan færi fram í hinum stóru málum og hafa það til hliðsjónar þegar hann greiddi að lokum atkvæði.

Ögmund grunaði það sem nú virðist vera að gerast að flokkar hlaupa í skotgrafir í málum eins og því sem á að greiða um atkvæði á morgun og þá skiptir það máli í hugum margra þingmanna hvernig stjórn eða stjórnarandstöðu reiðir af.

Mér sýnist margt benda til þess að nýliðunin á þingi muni ekki koma í veg fyrir að þetta gerist.

Stjórnarþingmenn annars vegar og stjórnarandstöðuþingmenn hins vegar gruna hvorir aðra um að ætla að þjappa sér saman, og þar með tekur hræðslan við það og afleiðingar þess hugsanlega yfirhöndina hjá báðum fylkingum.

Yfirlýsingarnar um að hver þingmaður greiði atkvæði eftir því einu hvernig málið liggur fyrir í sjálfu sér, eiga á hættu að gufa upp í atkvæðagreiðslunni á morgun, því miður.

Hætta er á því að möguleikinn á því að ríkisstjórnin lendi í hremmingum verði ofarlega í hugum margra.

Gamalkunnugt ástand bankar að dyrum þrátt fyrir allar væntingarnar um að hinn forni skotgrafahernaður tíðkaðist ekki lengur.  

 


mbl.is Niðurstaða um ESB á hádegi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Já, það er hálf ömurlegt að fylgjast með þessu. Af hverju breytist aldrei neitt í vinnubrögðum stjórnmálaflokka? - jafnvel nýr og óspjallaður þingflokkur lætur höfuðandstæðing sinn teyma sig í öngstræti hrossakaupa og verður ómarktækur á eftir.

Minnst sex þingmenn Sjálfstæðisflokksins töluðu fyrir kosningar fyrir þeirri leið sem ríkisstjórnin vill fara; að sækja strax um aðild að Evrópusambandinu, reyna að ná sem hagstæðustum samningi og leggja hann svo í dóm þjóðarinnar.

ALLIR 9 þingmenn Framsóknarflokksins töluðu á sömu lund, enda var skýr flokkssamþykkt fyrir því og flokkurinn náði að hala inn aukafylgi í lok kosningabaráttunnar með því að hamra á því að hann væri þessarar skoðunar. Minnti sífellt á að Samfylkingin væri ekki ein með þetta mál á dagskrá.

Nú virðist sem allir fyrrnefndir sjálfstæðismenn ætli að ganga á bak orða sinna, nema hugsanlega Ragnheiður Ríkharðsdóttir. Pétur Blöndal gerðist svo málefnalegur að biðja hana vinsamlega um að yfirgefa flokkinn, ef hún vogaði sér að mæla fyrir ESB-umsókn. Þá ætla 2/3 framsóknarmanna að gerast ómerkingar eigin kosningaloforða. Mér er reyndar kunnugt um að þungavigtarfólk í flokknum liggur í símanum og reynir að telja þeim hughvarf. Sjáum hvað setur í því.

Mest á óvart koma þó 3/4 þingmanna Borgarahreyfingarinnar, því hreyfingin sú hafði talað fyrir nýjum vinnubrögðum á þingi. Ætlaði að skera upp herör gegn hverskyns klækjastjórnmálum og bellibrögðum og mynda sér skoðun í hverju máli fyrir sig, óháð öðrum og óháð flokkslínum. Strax eftir kosningar ítrekaði þinghópurinn einróma, að hann styddi aðildarumsókn sem fyrst, án sérstakrar atkvæðagreiðslu um þá ákvörðun.

ALLIR fjórir þingmenn Borgó voru þráspurðir um afstöðu til aðildarumsóknar að ESB fyrir kosningar og voru þau á einu máli. Þór Saari lýsti þessu svona og tóku þau hin ÖLL undir það í umræðuþáttum:

"Stefna Borgarahreyfingarinnar í Evrópumálum er að ekki sé hægt að taka afstöðu til málsins nema að undangengnum aðildarviðræðum.  Að þeim loknum mun aðildar samningurinn verða kynntur öllum landsmönnum með beinum kynningum um allt land og með víðtækri umræðu og fjölmiðlaumfjöllum í allt að sex til tólf mánuði ef með þarf.
Að þeirri kynningu lokinni yrði svo samningurinn borinn undir þjóðaratvæði."

Þetta er nákvæmlega tillagan sem liggur fyrir þinginu, en þrír af fjórum þingmönnum ætla samt að svíkja kjósendur sína, ganga í lið með höfuðandstæðingi sínum, Sjálfstæðisflokknum, og styðja hann í að reyna að komast til valda á því.

Verði þetta niðurstaðan, er það skyndilegasta og óvæntasta kúvending nokkurs stjórnmálaafls í þingsögunni. Mjög erfitt verður fyrir slíka hreyfingu að bjóða sig fram að nýju, en það var kannski aldrei ætlunin...

Ps. Af hverju eru ummæli allra þessara þingmanna í tugum framboðsfunda fyrir kosninga ekki sýnd aftur í fréttatímum? - annað eins hefur nú verið gert...

Þorfinnur (IP-tala skráð) 16.7.2009 kl. 00:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband