Verður Noregur "eitrað peð" fyrir Ísland?

Áhugavert gæti verið að velta því fyrir sér hverju það gæti breytt í aðildarviðræðum Íslendinga við ESB að Íslendingar er ekki eina Norðurlandaþjóðin sem stendur fyrir utan ESB heldur er Noregur utangarðs líka.

Það getur verið spurningin um það hvort samningamenn ESB þori ekki að ganga eins langt í tilslökunum gagnvart sjávarútveginum íslenska og ef Ísland væri eitt eftir. 

Þeir gætu óttast að of mikil eftirgjöf gagnvart Íslandi gæti gefið fordæmi fyrir hugsanlegar aðilarviðræður Norðmanna síðar meir þar sem Norðmenn myndu vilja fá það sama fram og Íslendingar fengu. 

Hlutfallsleg stærð sjávarútvegsins á Íslandi er að sönnu margfalt meiri en í Noregi en engu að síður gætu miklar tilslakanir ESB varðandi Ísland gefið fordæmi gagnvart norskum aðildarsamningum sem teldist vera erfitt fyrir samningamenn ESB að veita. 

Óvissan er líka talsverð varðandi fyrirhugaða endurskoðun á sjávarútvegsstefnu ESB, en slík endurskoðun gæti breytt aðstæðunum ef hún verður í þá átt að veita einstökum ríkjum almennt meira vald í sjávarútvegsmálum. 

Áhugi Dana, Svía og Finna á því að Ísland og Noregur komi inn í ESB er mjög skiljanlegur. Þessi lönd sjá fyrir sér að samanlagður styrkur Norðurlandanna innan bandalagsins myndi aukast mjög við það að öll Norðurlöndin væru þar innanborðs og styrkur Íslands þar hlutfallslega mun meiri miðað við fólksfjölda landsins en annarra landa. 

Í mín eyru sagði danskur ráðamaður að Norðurlöndin ásamt Eystrasaltsþjóðum gætu náð meira vægi en einstök stórveldi innan sambandsins. 

Það er ekki einsdæmi að klofningur ríki varðandi aðildarumsókn að ESB. Verkamannaflokkurinn norski var klofinn í málinu þegar Gro Harlem Brundtland sendi inn 28 orða aðildarumsókn Norðmanna. 

Það er heldur ekki einsdæmi í íslenskri sögu að innan raða þeirra sem eiga aðild að viðræðum sé ósætti. Þannig tók Skúli Thoroddsen þátt í samningaviðræðum Íslendinga og Dana um sambandsmál 1908 og lagðist gegn niðurstöðunni. 

Ég man ekki lengur glöggt hvernig Skúli bar sig nákvæmlega að í viðræðunum en áreiðanlega hefur hann unnið að heilindum og lagt sig fram um að samninganefndin, sem hann var í, næði fram eins góðri niðurstöðu og unnt. 

Í lokin mat hann niðurstöðuna hins vegar þannig að ekki hefði fengist nóg fram og skrifaði ekki undir samningsuppkastið, einn nefndarmanna. 

Mér sýnist Jón Bjarnason geta lent í svipaðri stöðu og Skúli. 

 

P. S. Í svari við athugasemd hér að neðan varpaði ég fram spurningu um það af hverju væri ekki hvalveiðisafn í Noregi. En svona getur maður gleymt hlutum. Sjálfur hafði ég með konu minni komið til Sandefjord í einni af níu Noregsferðum okkar og tekið myndir af hinu stórkostlega hvalveiðiminnismerki í Sandefjord. Hér er ein slík.  

180px-Sandefjord_Hvalfangstmonumentet

 


mbl.is Hefur ótvíræð áhrif í Noregi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Svíjar hafa beitt sér hvað harðast gegn hagsmunum Íslands í hvalveiðum.

Sigurður Þórðarson, 17.7.2009 kl. 06:06

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Hægt væri að opna hvalveiðisafn við Ægisgarð í Reykjavík.

Nú kemur hálf milljón erlendra ferðamanna til landsins á ári. Ef þeir myndu allir skoða hvalveiðiskipin, fá greinargóðar upplýsingar í máli, myndum og kvikmyndum um hvali hér við land og hvernig hvalveiðar hafa verið stundaðar hér, gæti árlegur aðgangseyrir að þessu hvalveiðisafni verið 250 milljónir króna, einn milljarður króna á fjórum árum, miðað við einungis 500 krónur á mann.

Þorsteinn Briem, 17.7.2009 kl. 11:24

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Af hverju er ekkert svona hvalveiðasafn í Noregi? Af hverju bara frábær stríðsminjasöfn og bíósalir og söfn um þjóðgarða þeirra?

Ómar Ragnarsson, 17.7.2009 kl. 11:55

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

Við Íslendingar yrðum langstærsta fiskveiðiþjóðin í Evrópusambandinu. Danir yrðu í öðru sæti og Spánverjar í því þriðja. Norðmenn voru tíunda stærsta fiskveiðiþjóðin í heiminum árið 2005 en Íslendingar 14. stærsta, og við erum í samkeppni við Norðmenn á erlendum fiskmörkuðum.

Um 80% af heildarverðmæti útfluttra sjávarafurða héðan fóru til Evrópusambandslanda árið 2007 en árið 1995 var þetta hlutfall 65%.

Íslensk fiskiskip halda að sjálfsögðu áfram að veiða á Íslandsmiðum. Erlend skip fá að veiða hér fisk sem gengur inn og út úr fiskveiðilögsögunni, rétt eins og íslensk skip hafa fengið að veiða úr slíkum flökkustofnum (deilistofnum) í fiskveiðilögsögu annarra ríkja, til dæmis loðnu- og norsk-íslenska síldarstofninum.

Og íslensk skip fá áfram aflakvóta í þessum stofnum í samræmi við svokallaða veiðireynslu sína. Sjávarútvegur í Evrópusambandslöndunum hefur fengið ríkisstyrki en slíkt hefur ekki verið uppi á teningnum hér og það er hagur Evrópusambandsins sem heildar að fiskur, sem íbúar sambandsins neyta, sé veiddur á eins hagkvæman hátt og unnt er. Það er einnig hagur neytenda í Evrópusambandinu að þeir geti keypt tollfrjálsan fisk frá Íslandi.

Íslendingar eru sérfræðingar í sjávarútvegi, selja fisk um alla Evrópu og hafa til dæmis átt útgerðarfyrirtæki í Þýskalandi og fiskvinnslufyrirtæki í Bretlandi. Við munum því örugglega eiga ríkan þátt áfram í uppbyggingu sjávarútvegs í Evrópu.

Fiskafli ESB og Íslands árið 2005

Landssamband íslenskra útvegsmanna - LÍÚ


Fiskistofa - Úthafsveiðar og fiskveiðistjórn

Þorsteinn Briem, 17.7.2009 kl. 14:24

5 Smámynd: Heimir Tómasson

Nákvæmlega. Spánverjar, Pólverjar og Portúgalir hafa nefnilega svo fína reynslu í að fara eftir lögum og reglugerðum varðandi fiskveiðar. Ef að til eru sjóræningjar á höfum heimsins um þessar mundir þá er það fiskveiðifloti ESB. Spyrjið Skota.

Heimir Tómasson, 17.7.2009 kl. 14:44

6 Smámynd: Þorsteinn Briem

Evrópunefnd Sjálfstæðisflokksins undir forystu Kristjáns Þórs Júlíussonar og Árna Sigfússonar:

„Sjávarútvegsstefna ESB er í endurskoðun og á að vera lokið fyrir árið 2012.

Margt bendir til að endurskoðunin færi stefnuna nær þeirri íslensku.

Svæðisbundin stjórnun verður aukin og hagsmunaaðilar hafðir með í ráðum varðandi aflamark. Reglum um brottkast breytt í takt við íslenskar reglur.

Barátta gegn ólöglegum og óskráðum veiðum í takt við stefnu Íslands. Minni floti og samdráttur í styrkjum. ESB hefur litið til Íslands og Noregs í auknum mæli við framkvæmd og þróun eigin sjávarútvegsstefnu.

Ísland er risi á sjávarútvegssviðinu í samanburði við ESB.“

Þorsteinn Briem, 17.7.2009 kl. 15:46

7 Smámynd: Jón Gunnar Bjarkan

Norðurlönd og Eystrarsaltsríki myndu hafa margfalt vægi innan ESB en einstakar stórþóðir eins og Þýskaland. Aðal völd ESB eru hjá þjóðarleiðtogum og Ráðherraráðinu, Þessar þjóðir væru með 8 ráðherra gagnvart einum Þjóðverja til að taka dæmi, og myndu leiða ESB leiðtogasætið 8 sinnum oftar(nú í höndum Svíþjóðar). Fræðilega séð eiga þó til dæmis ráðherrarnir að vinna sína vinnu með heildarhagsmunal ESB í huga en ekki heimalandsins en þetta er auðvitað svolítið málum blandið.

TIl að taka dæmi um hversu hátt smáþjóðir kýla yfir sína vigt innan ESB þá hefðu til dæmis Færeyjingar og Grænlendinar samanlagt jafnmikið að segja og Danmörk, enda þótt samanlagður íbúafjöldi þeirra sé aðeins um 120.000 gegn 6 milljónum Dana.

Jón Gunnar Bjarkan, 17.7.2009 kl. 17:25

8 Smámynd: Karl Ingólfsson

Það er áhugaverður punktur að ESB styrki fiskveiðar.

Ef Ísland bætist í hópinn hlýtyur það að vera tromp að hér sé útgerð án beinna opinberra framlaga. 

Getum við gert þá kröfu að ríkisstyrkir til fiskveiða verði aflagðir hjá ESB þar sem það skekki samkeppnisstöðu okkar veiða? Ekki geta Spánn og Portúgal talist jaðarsvæði þegar kemur að fiskveiðum! 

Það er hægt að setja fram þau rök að með aflagningu veiðistyrkja megi ná fram á einu brettu aukinn hagkvæmni ásamt verndun fiskistofna.....

Það eru fleiri fletir á ESB samningunum en þeir að Ísland þurfi sértækar undanþágur vegna veiða og landbúnaðar. Sérstaða okkar í fiskveiðum er þess eðlis að við eigum þar sterkt spil og ESB virðist jafnvel viljugt til að gera breytingar á sinni veiðistýringu. Styrkjakerfi þeirra og langvarandi offveiði ætti að gefa okkur sóknarfæri.

Karl Ingólfsson, 17.7.2009 kl. 17:26

9 Smámynd: Jón Gunnar Bjarkan

Þetta er mjög athyglisverður punktur Karl Ingólfsson og það þarf að kíkja á þetta mál. Það er hinsvegar spurning hvort að fiskveiðarnar séu styrktar af hverju landi fyrir sig eða ESB sameigilegum sjóði eins og til dæmis CAP. Íslenska samninganefndin þarf að hamra á þessu máli hvernig sem það er, ef ESB styrkir sjávarútveginn sameiginlega, þá heimtum við styrki ef að útgerðir annarsstaðar eru styrktar. Ef að lönd hver um sig styrkja sína útgerðir, þá hljótum við að eiga heimtingu á því að þeir styrkir verði annaðhvort felldir niður(sem gefur okkur yfirburðasamkeppnisstöðu gagnvart erlendum útgerðarfyrirtækjum) en ef þeir vilja ekki fella niður styrkina, þá kemur ekkert annað til greina en að ísland fái undanþágu með sína fiskistofna frá sameiginlegri fiskveiðistefnu ESB. Góður punktur.

Jón Gunnar Bjarkan, 17.7.2009 kl. 17:33

10 Smámynd: Óskar Þorkelsson

Hvalveiðisafn er að ég held örugglega í Sandefjord Ómar.  skal athuga það nánar til að vera viss..

Óskar Þorkelsson, 17.7.2009 kl. 19:09

11 Smámynd: Óskar Þorkelsson

mikið rétt ..

http://www.hvalfangstmuseet.no/default.aspx?cat=4

og svo eru þeir með leikrit sem fjallar um hvalveiðar .. leitið undir "activities"

http://www.visitsandefjord.com/en/

Óskar Þorkelsson, 17.7.2009 kl. 19:13

12 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Ómar:

Ég hef nú ekki dvalið mikið í Noregi á undanförnum árum, en var þar heilmikið á árunum 1987 - 1998, en þá var móðir mín þar búsett með fóstra mínum, sem er 1/2 Norðmaður.

Fiskveiðar vigta kannski ekki mikið í þjóðarframleiðslu Norðmanna, en þær vigta mjög mikið í huga Norðmanna og það er engin leið að þeir gefi eitthvað eftir í þeim efnum. Það var einmitt á grundvelli fiskveiða, sem þeir höfnuðu aðild á sínum tíma. Reyndar byggðist ágreiningurinn á því að fiskistofnarnir, sem um ræddi, voru deilifiskistofnar með ríkjum ESB. Hvað íslenska fiskistofna varðar eru þeir flestir staðbundnir og frekar gott samkomulag um skiptingu deilistofnanna, nema hvað varðar makrílinn.

Af þessum sökum met ég þetta þannig, að Íslendingar og Norðmenn gætu snúið bökum saman og krafist breytinga á fiskveiðistefnunni, sem Joe Borg, fiskveiðistjóri ESB, hefur reyndar boðið. Joe Borg talaði um að kalla Íslendinga til ráðgjafar um það mál, sem er enn líklegra núna þegar við höfum lagt inn aðildarumsókn. 

Guðbjörn Guðbjörnsson, 17.7.2009 kl. 19:57

13 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Guðbjörn, það er með eindæmum hvað Evrópusambandsþráhyggjumenn eru fúsir, jafnvel ólmir, til að láta hagsmuni Íslands víkja fyrir hagsmunum Evrópu og telja það göfugt.

Ef ég skil þig rétt vilt þú glaður fórna sjávarútvegi á Íslandi vegna þess að Íslendingar og Norðmenn geti síðar orðið hinum Evrópulöndunum til gagns með fiskveiðiráðgjöf.  Þetta er kannski fallega hugsað gagnvart EB ríkjunum sem í millitíðinni verða búin að eyðileggja þessa atvinnugrein á Íslandi en hverju eiga Íslendingar að lifa af þangað til?   

Sigurður Þórðarson, 17.7.2009 kl. 20:56

14 Smámynd: Þorsteinn Briem

Það er nú ekki nýtt að Íslendingar kvarti undan Norðmönnum:

„Í Noregi eru ríkisstyrkir í sjávarútvegi meiri en hjá nokkurri annarri þjóð. ... Aðeins 5-6% af þjóðarframleiðslu Norðmanna eru sjávarútvegur. Helstu rök Norðmanna fyrir ríkisstyrkjum til sjávarútvegs eru byggðastefnan. Í Noregi skiptir litlu hvert er markaðsverð fiskjar. Hið eina sem skiptir máli fyrir sjómenn og útgerðarmenn í Noregi er hvað ríkið styrkir þá mikið. ...

Á þessu ári fær norski sjávarútvegurinn samtals 1375 millj. n. kr. eða samtals um 6,2 milljarða ísl. kr. Samsvarar þetta því að norska ríkið greiði um 60% af öllu fiskverði þar í landi.“

Ríkisstyrkir Norðmanna til sjávarútvegs

Þorsteinn Briem, 17.7.2009 kl. 21:53

15 Smámynd: Þorsteinn Briem

Alþingi hefur sett lög sem takmarka erlenda eign í íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum þannig að útlendingar geta óbeint átt allt að 49,99% í fyrirtækjunum en afar lítið er um erlenda fjárfestingu í íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum.

Þorsteinn Briem, 17.7.2009 kl. 23:36

16 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þakka athugasemdina, Óskar, því að athugsemd þín minnir mig á að ég og konan mín fórum einmitt niður að höfn í Sandefjord í einni Noregsferð okkar en ég man bara ekki vel hvort það var hvalveiðisafn þar eða hvað það var annað sem tengdist fornum hvalveiðum þeirra þar. Við skulum fletta þessu upp og hafa þetta á hreinu.

Ómar Ragnarsson, 17.7.2009 kl. 23:57

17 Smámynd: Óskar Þorkelsson

Þeir eru með 22 metra langa Steypireið í loftinu á þessu safni.. ég hef komið þarna fyrir mörgum árum en fór ekki á safnið sjálft heldur sá auglýsinguna um það.

Óskar Þorkelsson, 18.7.2009 kl. 00:01

18 Smámynd: Þorsteinn Briem

Skuldir íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja voru um 300 milljarðar króna í árslok 2007, eða innan við 2% af heildarskuldum íslenskra fyrirtækja, sem þá voru 15.685 milljarðar króna. Og tekjur sjávarútvegsfyrirtækjanna eru í erlendri mynt, þannig að þær eru einnig meiri en ella vegna gengishruns íslensku krónunnar.

Í mars síðastliðnum voru brúttóskuldir sjávarútvegins hér 458,589 milljarðar króna en nettóskuldir 324,357 milljarðar króna.

(Seðlabanki Íslands og Landssamband íslenskra útvegsmanna - LÍÚ.)

Þorsteinn Briem, 18.7.2009 kl. 01:51

19 Smámynd: Þorsteinn Briem

Tollar af öllum íslenskum sjávarafurðum í Evrópusambandslöndunum yrðu afnumdir við inngöngu Íslands í sambandið.

Íslendingar flytja út mikið af óunnum fiski til Evrópusambandslandanna en tollar á honum eru um 10%. „Tollar á unnum vörum eru í kring um 20-30%, þannig að tækifæri okkar til að fullvinna sjávarafurðir til að skapa atvinnu í fiskvinnslu á Íslandi munu aukast,“ segir Aðalsteinn Leifsson, lektor við Háskólann í Reykjavík, en hann starfaði áður hjá Evrópusambandinu, EFTA og Utanríkisráðuneytinu.

ESB og sjávarútvegurinn

Þorsteinn Briem, 18.7.2009 kl. 02:31

20 Smámynd: Jón Gunnar Bjarkan

Þakka fyrir þær upplýsingar nafni Frímann. En eins og mér heyrist á þér, þá er þetta bara "eftir síðustu áætlun" og því langt í frá að það sé öruggt. Samninganefndin þarf að hamra á þessu með styrkina.. Einnig lýsi ég því yfir að ég sé ósáttur við Icesavesamninginn og samþykkjum hann ekki strax(enda þótt við neyðumst á endanum að gera samning, og skiljanlega eftir að hafa rænt þessu fé).

Allt sem að við erum ósátt við eigum við að hamra á. Undanskot um lagaklækja undanfarna daga eigum við að nýta okkur í viðræðunum enda þótt þeir séu með öllu siðlausir og ábyrgðarlausir. Við eigum að labba á fund samningarnefndar helst með Icesave samninginn alveg hundfúl. síðan að verða næstum móðursjúkk með fiskiniðurgreiðslurnar annarstaðar í ESB, gera allt brjálað inn í samningsherberginu. Þannig að samningsviðmælendur okkar geri sér alveg fulla grein um að við göngum ekki þarna inn án þess að hér verði einhverju verulegu fórnað af þeirra hálfu. 1-2% vextir á Icesave er til dæmis sanngjarnt að mínu mati þar sem þeir halda utan um prentvaldið á þessum gjaldmiðlum, ef að þeir geta ekki drullast til að hjálpa okkur með það, þá verður eitthvað annað að koma til, verulegar undangjafir í sjávarútvegsstefnunni til dæmis. En ég hafna því algerlega eins og hefur komið upp í umræðunni undanfarna að fá einhverja sérlausn fyrir bændur nema aðeins heimskauptalandbúnaðarákvæðið. Í svona ástandi getum við ekki haldið heimsmetinu í að niðurgreiða bændur. Þeir verða einfaldlega að taka sig á og minni ég þá á það að það verðar þegar felldir einhverjir tollar á þá hvort eð er út af alþjóðlegum samningum okkar við til dæmis alþjóðaviðskiptastofnunina.

Jón Gunnar Bjarkan, 18.7.2009 kl. 07:02

21 identicon

Mér þykir með eimdæmum skrítið að það eina sem fólk hérna á klakanum sjái eingöngu galla vegna sjávarútvegsins og landbúnaðar. hefur einhver skoðað hvað annað er að hrjá aðrar esb þjóðir sem eru ekki risaveldi???

einsog vegaframkvæmdir, og mannvirkjagerðir. þekki nú nokkra trukkabílstjóra úr heiminum og kvarta þeir sáran undan vegum. lítið sem ekkert viðhald á vegum á spáni og svíþjóð sem dæmi og ekkert má byggja á vegum ríkisins nema fá leyfi frá esb.

þannig það er fullt annað sem þarf að hafa áhyggjur af enn þessi anskotans fisk kvóti okkar. 

 og já ef við förum í esb. eftir því sem mér skilst þurfum við að borga hellings peninga af landsframleiðslu okkar til ESB og þar af leiðandi minna sem við meigum missa og munum ekki geta gert upp ICESAVE Lánið nema fá fullt verð fyrir eignir gömlu bankana.

 einnig get ég ekki betur séð enn að ef við göngum í ESB séum við að gefa meirihluta þessarar blessuðu olíu á DREKASVÆÐINU til ESB. sem mér persónulega út í hött þar sem mér skilst á nokkrum ráðamönnum hérna heima að sé hluti þess sem sé reiknað með að hjálpi okkur úr þessari skuldasúpu sem þessir Blessuðu Útrásarvíkingar hafa komið okkur í. !!!!

 og vil ég að allt í sambandi við ICESAVE og aðild að ESB komi á borðið og okkur sem erum ekki í þessari blessuðu ríkisstjórn fáum að skoða þessa samninga í heild sinni þó að við skiljum örugglega ekkert mikið af þessu lögfræði bulli sambandi við samningana þá ættum við að fá að skoða þetta og halda þjóðar atkvæðagreiðslu 6-12 mánuðum eftir að það sé hægt að skoða þessa samninga þannig að almennur ríkisþegn geti skoðað þessa samninga sem eru örugglega nokkuð hundruð blaðsíður.

takk takk.

Baldur Kristmundsson (IP-tala skráð) 18.7.2009 kl. 17:48

22 Smámynd: Óskar Þorkelsson

Baldur segir að lítið sem ekkert viðhald sé á vegum td á spáni og svíþjóð.. jahérna.. ekki þekki ég til á spáni en svía þekki ég vel enda bjó ég þar um árabil og ók um svíþjóð þveran og endilangan.. það er leitun að betri vegum en þar amk á norðurlöndum.  viðhaldi á vegum í svíþjóð er til fyrirmyndar.. annan en hægt er að segja um olíuþjóðina noreg.. svo dæmi sé tekið þótt utan ESB sé..

Óskar Þorkelsson, 18.7.2009 kl. 18:10

23 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

ég held einmitt að það sé ekki tilfellið. ESB líti heldur á Ísland sem beitu fyrir Noreg og að landa Íslandi inn í sambandið muni einangra norðmenn frekar og flýta fyrir inngöngu þeirra. Fiskveiðar eru svo mun mikilvægari fyrir íslendinga en norðmenn, sm hafa olíuna. Því geti ESB réttlætt sértækar tilslakanir til handa íslendingum sem norðmenn getti ekki farið fram á.

Brjánn Guðjónsson, 21.7.2009 kl. 00:48

24 Smámynd: Jón Gunnar Bjarkan

Baldur Kristmundsson.

Vegir eru almennt miklu betri í ESB ríkjum en á Íslandi. Kannski má finna einhver ríki í Austur Evrópu þar sem vegir eru í verra ástandi en hér á landi en ég efast eiginlega um það. Og hvað helsteypu ertu að tala um að það megi ekki byggja neina vegi nema með leyfi ESB? Svo máttu heldur ekki kenna ESB um allt og ekkert, sem þeir hafa ekkert vald yfir. Bretland gæti svo sem ákveðið upp á sitt eigið einsdæmi að byggja enga nýja vegi og láta núverandi vegi sína hrörna niður, en það væri þeirra ákvörðun en þú myndir þá auðvitað kenna ESB um það. 

Framlag okkar til ESB kemur að miklu leyti til baka í styrkjum til dreifbýla, landbúnaða, hátæknirannsóknir og svo framvegis. Framlag okkar umfram það sem við borgum þegar til EES er að mig minnir eitthvað um 800 milljónir á ári, sem er lítið brotabrot af Icesave skuldbindingum okkar, og meira segja lítið brotabrot af árlegum vaxtagreiðslum Icesave.

Varðandi Drekasvæðið. Þú vilt kannski bara frekar sækja um í OPEC? Andstæðingar ESB aðildar tala alltaf eins og að olíupeningarnir af drekasvæðinu séu bara komnir í bankann enda þótt við höfum ekki fundið neinn einasta dropa ennþá. Auðvitað væri flott ef við finnum gas og olíu en ekki má gleyma því að Grænlendingar og Færeyingjar voru alveg handvissir um að allt væri stútfullt af gasi og olíu í kringum þá en eitthvað minna hefur orðið úr því. AUK ÞESS ÞÁ SKIPTIR EKKI NOKKRU MALI HVORT VIÐ FINNUM OLIU EÐA EKKI, henni yrði aldrei deilt með ESB. Þú getur nánast fundið gas eða olíu í hverju einasta ESB ríki en ekki eitt af þeim hefur deilt neinu af þessum auðlindum með ESB, það hefur aldrei verið þannig og mun aldrei verða þannig. Ísland er nánast sér á báti í Evrópu hvað varðar olíu eða gas í þeim skilningi, að við eigum ekki einn einasta dropa. En nú er íslendingar bara farnir að láta eins og við séum jafn fyrirferðamiklir og Rússar, Sádar eða Norðmenn í orkuútflutningi og því sé allir með "alla" olíuna okkar á heilanum. Alveg furðuleg umræða.

Svo heyrir maður líka mikið í umræðunni að ESB geri ekkert annað en að sitja í reykfylltum bakherbergjum og plotta hvernig sé hægt að ræna jarðvarma og fallvatnsorkunni okkar. Við höfum aldrei flutt neina orku út til ESB, ekki eitt batterí, og afhverju í ósköpunum ætti þá ESB ríki að vera eitthvað meira umhugað um að seilast í orkuauðlindir okkar, frekar en skósólaverksmiðju í Slóveníu eða bílaverksmiðju í Svíþjóð. 

Jón Gunnar Bjarkan, 21.7.2009 kl. 13:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband