17.7.2009 | 23:48
Örlar á þessu hér.
Stórkarlalegar fréttir af skæðri drepsótt sem sé að leggjast yfir eru ekki einskorðaðar við Bretland.
Dæmi um þetta var í síðustu hádegisfréttum Bylgjunnar sem fjallaði um allar þúsundirnar sem gætu dáið á Íslandi í svínaflensunni ef hún yrði jafn skæð og spánska veikin var.
Byggt var á útreikningum sem höfðu verið gerðir við upphaf svínaflensunar til að meta aðstæður og afleiðingar eftir því hve skæð hún yrði.
Þegar fréttin hafði síðan verið sögð öll kom fram að á þessu væru engar líkur vegna bólusetninga og annarra úrræða læknavísindanna og að sennilega myndu ekki ýkja fleiri deyja en í venjulegum flensufaraldri.
Dæmin eru fleiri:
Er yfirvofandi eldgos á næstu árum við Tungnaá sem eyðileggur virkjanirnar? Þetta datt sumum í hug sem sáu og heyrðu fyrirsögn og upphaf fréttar á Stöð tvö fyrir nokkrum árum þar sem sagt að vísindamenn teldu slíkt geta gerst innan fárra ára.
Þegar fréttin síðan rann sitt skeið kom í ljós að allt eins væri líklegt að slíkt eldgos kæmi ekki fyrr en eftir 100 ár ! Fréttin byggðist nefnilega á því að miðað við það að stór eldgos hefðu orðið þarna fyrir þúsund árum og síðan aftur 500 árum síðar væri ekki útilokað að svona gos kæmi þarna á 500-700 ára fresti.
Það gæti komið gos eftir nokkur ár og það gæti líka dregist í meira en öld eða jafnvel ennþá lengur.
Enn er í minni þegar fréttamaður stóð á Skeiðarársandi þegar Gjálpargosið var byrjað og sagði að það væri eins gott að flýja sem hraðast áður en flóðbylgjan kæmi undir jökulinn og æddi fram á sandinn !
Þó var vitað að slíkt gæti ekki gerst fyrr en eftir nokkrar vikur !
Og þannig fór það.
Fréttaflutningur af H1N1 gagnrýndur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ger'ei að því grín,
og gæta mikið sín,
forðast flensusvín,
og Fríska drekka mín.
Þorsteinn Briem, 18.7.2009 kl. 01:18
"Dæmi um þetta var í síðustu hádegisfréttum Bylgjunnar sem fjallaði um allar þúsundirnar sem gætu dáið á Íslandi í svínaflensunni ef hún yrði jafn skæð og spánska veikin var"
Hvenær varð þúsund kvenkyns?
Sigurjón Pálsson (IP-tala skráð) 18.7.2009 kl. 01:55
:O)
loveTinnsl
tinnsl (IP-tala skráð) 18.7.2009 kl. 02:54
Upttyppingar líka, minn kæri Ómar. Blaðrið er botnlaust, En eitt veit ég. Sem er að dóttir mín 5 ára hlustar mikið á barnalögin þín og þau eru stór hluti í að fá hana til að skilja Íslensku. Það er nú ekkert smá-mál fyrir okkur sem búum í útlöndum.
Ólafur Þórðarson, 18.7.2009 kl. 04:16
Ef fólk á að lifa í óþarfa ótta þá eykst líka sala á kvíðalyfjum sem eru stórhættuleg og vanabindandi. Kallað læknadóp!
Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 18.7.2009 kl. 10:55
Þörf athugasemd hjá þér Ómar, nægur er kvíðinn í samfélaginu þó ekki sé verið að ala á svona hrakspám. Mér brá við að sjá þessa frétt og fann hvernig maginn herptist saman í kvíða!!!
Sigríður Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 18.7.2009 kl. 11:19
Og nú í dag eru tveir fréttamiðlar með fréttir af skjálftum í Eyjafjallajökli. Mogginn segir að ekkert bendi til þess að gos sé að hefjast en Stöð tvö gerir að aðalatriði að svona skjálfar geti verið upphaf eldgoss.
Báðir segja rétt frá en matreiða fréttina ólíkt. Annar leggur áherslu á að gos geti verið yfirvofandi, hinn ekki.
Ómar Ragnarsson, 18.7.2009 kl. 13:28
Gos getur komið eiginlega hvar sem er hvenær sem er. Það er staðreynd. En þau munu kannski hafa einhvern smáfyrirvara. En það gera Heklugos ekki og Heimaeyjagosið var með dags fyrirvara sem enginn skildi að vísu þá. Gos á Tungnaársvæðinu eru allra gosa mest og þau munu aftur verða. Mér finnst allt í lagi með allar þessar fréttir. Það má alveg gera þá kröfu til viðtakenda fréttanna að þeir gefi þeim gaum. Í þessum fréttum kom skýrt fram að gos gæru orðið fljótlega en líka eftir mörg ár. Það er ekkert í þeim til að vekja panik ef menn meðtaka innihald þeirra í heild.
Sigurður Þór Guðjónsson, 19.7.2009 kl. 14:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.