22.7.2009 | 11:22
"...varð fyrir beinbrotum..."
Ný rökleysa og málvilla færist nú í aukana í frásögnum af óhöppum. Það hlýtur að vera rökleysa að fólk geti "orðið fyrir bílveltum og orðið fyrir beinbrotum".
Í frétt á mbl. í morgun segir: "Maðurinn varð fyrir beinbrotum."
Ég spyr: Rigndi beinunum yfir manninn?
Þetta er nýjasta afurð nafnorðasýkinnar sem hefur getið af sér hina síendurteknu frétt "bílvelta varð" þegar rökrétt og styttra er að segja "bíll valt."
Það hefur verið málvenja fram að þessu að segja: "Maðurinn beinbrotnaði."
En nafnorðasýkin, skilgretið afkvæmi Kansellístílsins, virðist nú vera að breyta þessu.
Sögnin að beinbrotna er ekki nógu fín. Það verður að vera nafnorðið beinbrot, jafnvel þótt það kosti tvöfalt lengri setiningu þar sem þarf að bæta inn í orðunum að verða fyrir.
Við sprengingu getur fólk orðið fyrir sprengjubrotum en ég bara skil ekki hvernig beinbrotum getur rignt yfir fólk.
Næsta skref í þessari vitleysu er sú að fólk verði fyrir krabbameini eða verði fyrir sykursýki.
Íslensk rökrétt málvenja hefur verið þessi: Fólk beinbrotnar, lendir í bílveltu, deyr úr krabbameini eða sykursýki.
Hingað til hefur verið sagt: Banamein hans var krabbamein, - eða - hann lést úr krabbameini.
Er það ekki nógu skýrt? Að hvaða leyti væri það skýrara og betra að segja: Hann varð fyrir krabbameini?
Er ekki nógu skýrt að segja: Maðurinn beinbrotnaði? Maðurinn handleggsbrotnaði?
Eða er það svo að einhver hendi broti úr handlegg í annan mann svo að hann verði fyrir handleggsbroti?
Í umræddri frétt valt bíllinn sem maðurinn var í. Í frétt um daginn var sagt að fólk hefði orðið fyrir bílveltu.
Með nýju orðanotkuninni gæti orðið til svohljóðandi frétt:
Maður varð fyrir bílveltu í gær. Hann varð fyrir útkasti úr bílnum og varð síðan fyrir harkalegri lendingu í urð þar sem hann varð fyrir beinbrotum. Þar varð hann fyrir meðvitundarleysi.
Af hverju er ekki lengur hægt að orða þessa frétt svona?
Maður velti bíl í gær og kastaðist út úr bílnum. Hann lenti harkalega í urð, beinbrotnaði og missti meðvitund.
Athugasemdir
Hann varð þar fyrir voðaskoti,
og vitlausu einnig beinbroti,
kransæðastíflu og krabbameini,
og kramdist undir stórum steini.
Þorsteinn Briem, 22.7.2009 kl. 12:12
Þegar menn skrifa um slys þá finnst þeim mögulega sem fólk hafa lent í einhverju frekar en að hafa gert hlutina. Hann velti ekki bílnum viljandi, skulum við gera ráð fyrir. Kannski hefur það áhrif á hvernig menn segja frá. Mögulega líka til gera lífið ekki erfiðara fyrir aðstandenda og öðrum nátengdum.
Þetta er samt góður punktur hjá þér. Og það er ekki gott að tala í sífellu um slys eins og ættum við enga möguleika á að forðast þeim. Til hvers að læra af slysunum ef þau gerast bara, og menn lenda í þessu og hinu. Hvernig er hægt að læra af þeim án þess að spá í tildrög slysa ?
Að sjálfsögðu sit ég annars í glerhúsi hvað varðar íslenskt málfar, og vil örugglega oft ofnota nafnorðin, og beygja vitlaust
Morten Lange, 22.7.2009 kl. 12:31
þetta er mjög þörf umfjöllun hjá þér Ómar og sem betur fer eru margir sem ýta undir aðhald Íslensks rit og talmáls hér á blogginu - betur má ef duga skal og þætti mér nauðsyn til að auka fræðslu um viss mál í fjölmiðlum, má þar nefna tungu og ritmál okkar, sem og umferðarmenningu og umgengni fólks við þjóðvegina og fleiri vegi - minnist ég þess að þú varst með þátt í sjónvarpi fyrir mörgum árum, þar sem þú fórst með myndavél útá vegi landsins og hirtir upp ruslapoka sem hafði verið fleygt útúr bíl - þú stoppaðir viðkomandi, réttir honum pokann og sagðir "þú misstir þetta" - þetta atriði kom fram í þættinum þínum og mér fannst þetta hrein frábært hjá þér, svona lagað væri ég sko alveg til í að sjá meira af í fjölmiðlum okkar og þá málvöndunin meðhöndluð með einhverjum svipuðum hætti.
Eyþór Örn Óskarsson (IP-tala skráð) 22.7.2009 kl. 13:12
fyrirgefðu en það átti að vera "t" í endanum á orðinu "hreint" frábært
Eyþór Örn Óskarsson (IP-tala skráð) 22.7.2009 kl. 13:16
Sæll Ómar.
Ég hef tekið eftir þessu líka sem þú fjallar um hér í þessum pistli.
Þetta er allveg hroðalegt á köflum, sem að maður sér á prenti eða heyrir.
Ég velti því fyrir mér. Er engin íslenskukunnátta hjá blaðamonnum í dag , eða hvernig á að setja upp frétt, svo skiljist.
Kveðja.
Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 22.7.2009 kl. 14:08
Íslenska er sagnorðamál en t.d. enska er nafnorðamál. Svo einfalt er það. Meðal annars þess vegna er svona kauðslegt að snúa öllu yfir í nafnorðastílinn á íslensku. Málfarið verður ósannfærandi og flatt auk þess að virka hreinlega rangt.
Lára Hanna Einarsdóttir, 22.7.2009 kl. 15:58
Skyldi enn vera leitað að stúlkubarninu "sem fór fyrir borð"?
Ragnhildur Kolka, 22.7.2009 kl. 17:43
Þessi ritsóði á Mbl.is gefst ekki upp:
„Bílvelta varð á Reykjanesbraut á milli álversins í Straumsvík og Hafnarfjarðar um klukkan fjögur í dag.“
Bílvelta á Reykjanesbraut
Mbl.is:
Fréttastjóri: Guðmundur Sv. Hermannsson, gummi@mbl.is, sími 569 12 69
Aðstoðarfréttastjóri: Guðrún Hálfdánardóttir, guna@mbl.is, sími 569 13 60
Prófarkalestur: lestur@mbl.is
Ritstjórn: ritstjorn@mbl.is
Þorsteinn Briem, 22.7.2009 kl. 17:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.