22.7.2009 | 20:29
James Bond, barnamyndir fyrir fullorðna.
Um alllangt skeið höfum við hjónin gert það að fastri venju að horfa saman á myndirnar um James Bond, sem sýndar eru á Stöð tvö á fimmtudagskvöldum. Ekki vegna þess að þessar myndir í lengstu kvikmyndaseríu allra tíma séu svo góðar.
Sumar þeirra er beinlínis lélegar, brelluatriðin illa gerð og börn síns tíma og leikurinn ekki alltaf til að hrópa húrra fyrir.
Sumt beinlínis fer í taugarnar á manni eins og þegar í síðustu mynd var sett reykspólshljóð á malbiki þegar bílar spóluðu í snjó og hálku. Og Lasenby sem lék Bond í þetta eina sinn, lék hann einu sinni of oft. Alveg glataður í þessu hlutverki og það var synd, því að mörg tilsvörin voru gráglettin og góð.
Snjóflóðsatriðið í þeirri mynd af tæknilega glatað alveg eins og þegar Bond bjargaði sér frá drukknun í annarri mynd með því að sjúga í sig loft úr hjólbörðum bíls í kafi með því að stinga hjólbarðaventlunum upp í sig.
Plott klikkuðu krimmanna sem vilja ná heimsyfirráðum eru oft vægast sagt hæpin. Ég get haldið áfram að tína til langsótt, misheppnuð og hallærisleg atriði en læt staðar numið.
Og þá vaknar spurningin: Hvers vegna í ósköpunum er maður þá að horfa á þessar myndir? Jú, líklega af sömu ástæðu og börn vilja heyra sögurnar um Rauðhettu og Hans og Grétu aftur og aftur þótt þær séu aldeilis makalaus della.
Þegar horft er á myndirnar um Bond vakna minningar frá þeim tímum sem þær eru teknar, allt frá Doktor No í Tónabíó 1962 til dagsins í dag. Tíska hvers tíma, bílar hvers tíma, andrúmsloft hvers tíma spretta fram í hugann.
Stundum spyr maður sjálfan sig: Fannst manni þetta virkilega svona vel gerð og góð mynd á sínum tíma?
En það skiptir ekki máli. Maður bíður eftir hinu fasta atriði að heyra setninguna "Nafn mitt er Bond. James Bond" og ekki síður eftir tilskildum bólferðum Bonds, hversu heimskulegar sem þær eru. Og svo framvegis.
Rétt eins og maður varð að fá sinn skammt af því í þáttunum um Colombo þegar hann kvaddi hinn seka eftir heimsókn til hans og fór út frá honum, en sneri síðan við og barði að dyrum hjá honum til að gera honum lífið leitt.
Nú er Roger Moore búinn að skrifa ævisögu sína, 82ja ára gamall. Í síðustu Bond-myndum hans var skiljanlega orðinn ansi ellilegur að sjá og ósannfærandi að því leyti.
Sean Connery finnst mér bera höfuð og herðar yfir alla Bondana þótt sá nýjasti sé ans sleipur.
Það sést að í síðustu myndunum er reynt að auka á hraðann og æsinginn í myndunum og mér finnst kominn tími til að fara að hægja og fá í bland undirliggjandi og þrúgandi spennu í einstöikum köflum í staðinn fyrir hasar þar sem brellumeistarar virðast vera í kapphlaupi við setja ný met í látum og hamagangi.
Mörg lögin í Bond-myndunum, eins og Live and let die, eru klassík, enda gaf sú mynd mestu tekjur allra Bond-myndanna.
Niðurstaða: Alla ævi blundar barnið í manni, sú löngun að heyra sama stefið og sömu söguna aftur og aftur.
Myndirnar um James Bond eru því barnamyndir fyrir fullorðna.
Athugasemdir
Vel skrifað Ómar og skemmtileg íhugun.
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 22.7.2009 kl. 21:17
Barnalegar bólfarir,
og býsna allt skammt varir,
enda þótt Bondinn á farir,
eru betri hér barir.
Þorsteinn Briem, 22.7.2009 kl. 21:32
Ég hef alltaf verið aðdáandi Bond myndanna og á allt safnið og skoða annað veifið. Þegar horft er á myndirnar verður, eins og þú segir Ómar, að hafa í huga hvenær þær eru gerðar.
Tvær síðustu myndirnar hafa þó ekki ekki heillað mig eins og þær fyrri. Hraðinn og sveiflan á myndatökunni í hasaratriðunum er orðin þvílík að ekki er nokkur vegur að greina hvað fram fer, allt rennur saman í eina allsherjar hreyfingu.
Axel Jóhann Hallgrímsson, 22.7.2009 kl. 23:57
Aðalatriðið er að hafa gaman af...... Góður pistill.
Halldór Egill Guðnason, 23.7.2009 kl. 04:13
Hugmyndin er góð í grunninn; að ríkið eigi einhverskonar ofur-njósnara sem getur reddað öllum málum ef á þarf að halda; í staðinn fyrir að fórna mörg þúsund landgönguliðum að þá er miklu sniðugra að senda bara þann "fremsta meðal jafningja" til að leysa málið.
Heimurinn þarf líka að eiga einhverskonar fyrirmynd
=Að hinir góðu séu að berjast við hina vondu og hafi betur.
Ég er sammála nr. 3. Að tvær nýjustu myndirnar hafa verið of líkar venjulegum hasarmyndum þar sem hraðinn og sprengingarnar hafa verið á kostnað "séntilmanna-húmorsins".
Mr. Jón Scout Commander (IP-tala skráð) 23.7.2009 kl. 07:01
Það kom fram hugmyndir um framtíðar tækni í myndunum sem er mjög skemmtilegt .Einhverskonar GPS tæki bregður fyrir í Aston Martin bíl Connerys í einni myndinni en hryfingarnar á leitarpunktinum var eins og á frægu leikfangi frá þessum árum Etch A Sketch teiknisjónvarpi þ.e tveir snúningstakkar hreyfðu teikninál.
An Etch A Sketch is a thick, flat gray screen in a plastic frame. There are two knobs on the front of the frame in the lower corners. Twisting the knobs moves a stylus that displaces aluminum powder on the back of the screen, leaving a solid line. The knobs create lineographic images. The left control moves the stylus horizontally, and the right one moves it vertically
hörður halldórss.. (IP-tala skráð) 23.7.2009 kl. 08:12
Nei Ómar! Nú er ég ÓSAMMÁLA. George Lazenby er einn af bestu Bondunum eftir Sean Connery. Myndin sem Lazenby lék í er bara feikigóð mynd og miklu betri en sumar verstu myndirnar með Roger Moore. Mér fannst hún ekkert sérstök fyrst enda leikarinn bara í einni mynd og maður vanur að hafa "gamla kunningja" á skjánum í hlutverki Bonds. En ef maður lítur fram hjá því og horfir á myndina og Lazenby "at face value" þá uppgötvar maður að þetta er feiknagóð mynd og synd að George skyldi ekki fá að leika í fleiri myndum, en það er að mig minnir hans eigið klúður og agentins hans. Það helsta sem dregur þessa mynd niður er þessi setning: "This never happened to the other fellow."
En mínir Bondar eru (besu til verstu):
1. Sean Connery
2. Daniel Craig
3. George Lazenby
4. Roger Moore
5. Timoty Dalton
6. David Niven
7. Barry Nelson
8. Pierce Brosnan
Set Brosnan síðast vegna þess að Die Another Day var svo hrikalega léleg. Versta myndin í seríunni og þurfti stórleikara eins og Daniel Craig til að lífga hana við svo um munar.
Jonni (IP-tala skráð) 24.7.2009 kl. 10:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.