4.8.2009 | 10:22
Vanmat á almenningi.
Yfirleitt eru Íslendingar seinþreyttir til vandræða. Við erum stundum eins og samansafn af ættingjum Ragnars Reykáss, - nöldrum og höfum allt á hornum okkar, en gerum svo lítið eða ekkert í málunum og lendum í mótsögn við okkur sjálf.
Hvað eftir annað kemur þó í ljós vanmat á því sem við eigum þó til.
Fáa grunaði þegar birt var uppkast að sambandssamningi Danmerkur og Íslands fyrir rúmum 100 árum að andstaða eins nefndarmanna myndi breytast í þjóðarsamstöðu um að fella þingmennina sem samþykktu uppkastið í næstu kosningum.
Fáa grunaði 1970 að friðsamleg mótmæli þingeyskra bænda, sem óku á dráttarvélum sínum í mótmælaakstri gegn drekkingu Laxárdals myndu enda með því að þeir sprengdu upp stíflu við upptök Laxár.
Fáa grunaði að 13-15 þúsund manns myndu fara í mótmælagöngu í Reykjavík gegn Kárahnjúkavirkjun í september 2006.
Fáa hefði grunað að litlir mótmælafundir á Austurvelli ættu eftir að fara sístækkandi uns Búsáhaldabyltingin velti stjórn Fjármálaeftirlits, Seðlabanka og ríkisstjórninni.
Forsvarsmenn Kaupþings vanmátu réttláta kröfu almennings um upplýsingar sem vörðuðu hagsmuni hans.
Nú hafa þeir látið undan og sjá vafalaust eftir því að hafa stofnað til hinna brjóstumkennanlegu lögbannskröfu, sem misbauð réttlætiskennd fjöldans.
Allt of oft er skákað í því skjóli að hægt sé að treysta á andvaraleysi og sinnuleysi almennings.
"Fólk er fífl" voru ummæli á einum funda olíufélaganna um samráð sem urðu fleyg. Þau áttu eftir að koma þeim í koll sem þau sögðu.
Það kann að vera að Ragnar Reykás sé eins og vindhani sem snýst í hringi.
En það er þó einn kosturinn við vinhanann, sem hann hefur fram yfir þann sem stendur staðfastlega kyrr.
Einu sinni í hverjum hring snýr vindhaninn þó í rétta átt. Það skyldi enginn vanmeta.
Falla frá lögbanni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Hlálegt að íslenskir stjórnmálamenn skuli vanmeta og vantreysta almenningi. Traust til þeirra fyrrnefndu er nákvæmlega ekki neitt, og það með réttu.
www.kjosa.is
Rómverji (IP-tala skráð) 4.8.2009 kl. 10:56
Á þeim tímum meðan verið var að blása fjármálaloftbóluna upp og hún hélt enn loftinu- þá var mikill fælingamáttur fólginn í hótun um lögsók- vogaði sér einhver að efast um snilldina. Nú eru breytti tímar. Fólk hefur uppgötvað að " Með lögum skal land byggja" hefur gengi verulega á svig við almenning í landinu. Það voru nefnilega búin til svona einskonar "Fjármálaloftbólulög" fyrir þessa tæru snilld. Og að auki var allt eftirlit með þessum toppfígurum, þarna - afnumið eða ekki sinnt. Þeir , af þessari fjármálaloftbólukynslóð bankanna , hafa ekki áttað sig á gjörbreyttu almenningsáliti og því fór sem fór fyrir Kaupþingi .
Nú þarf nýtt fólk - óspillt- í allar lykilstöður bankanna okkar
Sævar Helgason, 4.8.2009 kl. 11:28
Það sem þarf er ,,gömul og sígild" siðferðisgildi í hvert og eitt okkar. Þá lagast þetta hægt og rólega, ekki fyrr. Við ,,kaupum" okkur ekki út úr þessum vanda ,,með lánum".
Jón Baldur Lorange, 4.8.2009 kl. 13:46
Já frændi.
Ég óttast haustið, þegar rennur út tímabundna bannið við því, að krefjast nauðungarsölu. Ekki af ástæðulausu, að Félagsmálaráðherra skipaði í síðustu viku, nefnd til að fara yfir virkni aðgerða ríkisstjórnarinnar, fram að þessu. Eins gott að þessi vika, í forsæti Kristrúnar frænku, vinni hratt og vel.
Lokatækifæri ríkisstjórnarinnar, til að koma ímsum hlutum í verk, er fram í einhvers staðar í miðjum september, grunar mig.
Ef ekki tekst, að koma fram með lausnir, sem fólk getur með einhverjum hætti lifað við, má búast við nýrri hrinu mótmæla-aðgera.
---------------------------------------
Síðan má ekki heldur gleyma bönkunun, ef þ.s. rétt að þeir séu reknir með 8 milljarða halla á mánuði. Halli, af því tagi, étur upp eigð fé með hraði - ekki síst í ljósi þess, að miklar afskriftir lána eru einnig framundan.
Mig grunar, að 300 milljarða a.m.k. muni vanta inn í bankana, um mitt næsta ár, til að þeir standist reglur um eiginfjárhlutfall.
Kv.
Einar Björn Bjarnason, 4.8.2009 kl. 15:01
Góð eru dæmi þín, Ómar, og þrátt fyrir endalausa þolinmælði fréttamanna við brek þins flokks, Samfylkingarinnar, þá skaltu ekki ímynda þér, að þolinmæði amennings verði endalaus. Menn geta líka spurt sig: Hvernig hefði því verið tekið, ef það hefði verið Davíð Oddsson sem hér hefði setið í ríkisstjórn, með Árna Mathiesen sem fjármálaráðherra og að þeir tveir hefðu skipað Hannes Gissurarson sem formann samninganefndar um ICESAVE-málið og að hann hefði síðan setið á vinalegum fundum með impónerandi Bretum og Hollendingum, þangað til hann hefði ekki nennt að standa lengur í essu og komið svo til baka með samning sem væri nákvæmlega eins og sá, semSvavar Gestsson flutti hingað heim – HVERNIG HEFÐI ÞVÍ VERIÐ TEKIÐ? Og hvað fær þig til að halda, að Samfylkingin komist þá upp með það að láta þjóðina borga vegna slíks svikasamnigs?
Og hvernig hefði þjóðinni orðið við, ef uppvíst hefði orðið um bera þvingun við samvizku þingmanna samstarfsflokks í ríkisstjórn undir forystu Sjálfstæðisflokksins? Hefðum við umborið það lengi?
Ímyndaðu þér ekki, að við ætlum að samþykkja Icesave-svikin!
Jón Valur Jensson, 4.8.2009 kl. 16:19
Kæri Ómar.
Heldur hljótt er í stjórnaráðinu líka núna. Eva Joly skrifar stórbrotna grein í 4 löndum þar sem hún gerir tilraun til að bera hönd fyrir höfuð íslenskrar þjóðar. Ótal möguleikar opnuðust til að fylgja þessu eftir, en hvað er gert ?
Hrannar B. Arnarson ræðst á Joly. Og Jóhann situr þögul og staðfestir stuðning sinn við Hrannar.
Þessi blinda ESB-manía getur tæplega við réttlætanleg fyri jafn vel skyni borinn mann eins og þig Ómar.
Ég hreinlega trúi því ekki upp á þig að vilja þarna inn, með öllum þeim fórum sem til þarf að kosta...
Haraldur Baldursson, 4.8.2009 kl. 16:40
Algjör óþarfi Jón Valur að vera með strangar vangaveltur um það, hvað hefði verið ef Davíð, ef Árni, ef Hannes hefðu setið og skipað. Staðreyndin er sú að Davíð og Árni SÁTU í ríksstjórn með Hannes kálfinn sem ráðgjafa og árangur er það sem blasir við öllum í dag. Ertu enn ekki farinn að átta þig á þessu, stráksi?
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 4.8.2009 kl. 20:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.