Standa allir jeppar og jepplingar undir nafni?

Í ferðalagi í dag með útlendingum um slóðir norðan Mývatns hefur svarið við ofangreindri spurningu verið nei. Þeir standa ekki nema takmarkað undir nafni. 

Skilgreiningin á torfærugetu þessara bíla er mjög ónákvæm og meira að segja ágætustu bílablaðamenn hjá erlendum bílablöðum hafa flaskað á þessu.

Ástæðan er sú að framleiðendur þessara bíla auglýsa ákveðna veghæð þeirra sem miðast við tóman bíl. Oft er um að ræða tölu í kringum 20 sentimetra, en á venjulegum fólksbílum er sama hæð í kringum 15 sentimetra.

En þessi veghæð miðast ekki við bílana hlaðna.

Í gamla daga var hægt að treysta því að jeppi, sem var auglýstur með 20 sm veghæð væri ekki með minni veghæð en það.

Volkswagen Bjallan var auglýst með 15 sm veghæð hlaðin.

Þá voru heilir öxlar á milli hjóla og lægsti punktur bílanna voru drifkúlurnar sem ævinlega héldu sinni hæð yfir veginum af því að öxlarnir og þær fjöðruðu sjálfur ekkert upp og niður miðað við veginn undir þeim.

 Hæð undir kvið þessara bíla var yfirleitt ekki lægri en 25 sm, (Rússajeppinn og Broncoinn með 37 sm hæð undir kvið) og þó að þeir væru hlaðnir sigu þeir aldrei meira niður en svo að lægsti punktur hélt áfram að vera meira 20 sm.

Öðru máli gegnir um jeppana og jepplingana nú. Þeir eru yfirleitt með sjálfstæða fjöðrun að framan og oft einnig að aftan.

Þegar þeir eru hlaðnir síga þeir svo niður að veghæðin getur verið allt niður í 13-14 sentimetrar og þá eru þeir orðnir lægri á veginum en óhlaðinn venjulegur fólksbíll.

Á elsta Ford Explorer, þá vinsælasta jeppa Bandaríkjanna, voru aðeins 18 sm undir bensíngeyminn, og þegar bíllinn var hlaðinn var geymirinn orðinn lægsti punktur bílsins, aðeins 13 sm yfir veginum.

Ég hef lesið um það í bandarísku jeppablaði að nýjasta gerðin af Suzuki Grand Vitara hafi góða utanvega- og torfærueiginleika. Ein ástæða þessa dóms er að hann er bæði með hátt og lágt drif og að sjálfsögðu er það mikill kostur.  

Viðkomandi bílablaðamaður hefur vafalaust prófað bílinn óhlaðinn. En bíll af þessari gerð sem var á ferðalagi í fylgd með mér í dag var með fjóra innanborðs og talsverðan farangur.

Ég ók á eftir honum frá Akureyri til Lauga og þegar hann fór yfir ójöfnur á veginum og fjaðraði upp og niður voru stundum varla nema 10 sm undir hann!

Ferðamenn sem eru margir í bíl eru oft með mikinn farangur á löngum ferðum. Í slíkum tilfellum eru svonefndir jepplingar á borð við RAV4, Hyondai Tucson og Honda CRV í raun ónothæfir til ferða á grófum hálendisvegum og jeppaslóðum.

Fólk tekur þessa bíla á leigu í góðri trú og lendir síðan í vandræðum.

Vegna þess að Suzuki Grand Vitara af nýjustu gerðinni er með hátt og lágt drif vilja sumir skilgreina hann sem "alvöru jeppa."

Í dag varð fólkið sem ég var samferða, að skilja bílinn fljótlega eftir og verða mér samferða á 43 ára gömlum rússajeppa.

Rétt er að geta þess að Suzuki umboðið býður upp á hækkun á bílnum upp á nokkra sentimetra með því að lyfta fjöðruninni og setja á stærri dekk og er það til fyrirmyndar.  

Þá er þetta strax orðinn miklu betri torfæru- og jeppaslóðabíll.

En langflestir bílarnir sem eru í umferð virðast vera óbreyttir, svo sem bílaleigubílarnir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sverrir Páll Erlendsson

Sæll Ómar.

Hvernig kemur Kia Sorrento út í þessu efni? Ég hef verið svolítið spenntur fyrir svoleiðis bíl í staðinn fyrir Honda CRV, aðallega út af vetrarakstri. Mér skilst að Sorrento sé jeppi, með aðskilin drif hátt og lágt.

Kveðja
svp

Sverrir Páll Erlendsson, 5.8.2009 kl. 07:42

2 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Sko Ómar minn ljúfi.

Mikið er hvað ÖKUMAÐURINN ER ÚTSJÓNASAMUR.

Sonur minn, fór með mig og portugalskann frænda okkar (systursonur minn) upp að Langjökli UPP FYRIR ,,Klaka" og alveg að jökulröndinni á Mercedes Bens E420 four-matic station.

Tók ekki niðri en stundum þurfti að vanda sig.

ÉG fór á mínum sokkabands oft yfir Kjöl og raunar Sprengisand líka á VW bjöllu.  Stundum þurfti að vanda sig og stundum sæta lagi og stundum lesa árnar en gaman  var ævinlega að mæta trukkunum og augnagotunum.

Iss þetta rifjar upp margar ánægjustundir, með dekk í fangi og bótasettið á þúfu við hlið sér.

Þá voru troðningarnir ,,betri" til leikja.  Nú eru flestir troðningar vegir sem þola þjösnaferð.

Takk fyrir upprifjunina

Miðbæjaríhaldið

Á bilaðan Patrol 1999 sem fær bráðum umönnun.

Bjarni Kjartansson, 5.8.2009 kl. 09:25

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Kia Sorrento er með meiri veghæð en jepplingarnir, en þó þarf að gæta þess þegar bíllinn er hlaðinn, að bensíngeymirinn, sem er vinstra megin, rétt fyrir framan aftuöxul, er frekar lágur og getur líklega sigið niður í 16-17 sm frá jörðu.

En þessi jeppi á hærri dekkjum svo og upphækkaður Suzuki Grand Vitara eiga að geta skilað eigandanum um flestar slóðir.

Flestir ökumenn eru óvanir torfæruakstri en ótrúlega langt er hægt að komast ef réttum aðferðum er beitt.

Ég hef farið á næstminnsta bíl landsins, Fiat 126 um slóðirnar á norðausturhálendinu, jafnvel Álftadalsleið sem sem hreinræktuð, stórgrýtt jeppaslóð.

Þegar nýjasta gerðin af Suzuki Grand Vitara kom til landsins, reyndi ég hann á bröttu jeppaslóðinni sem liggur upp á Úlfarsfell.

Bíllinn var óbreyttur og í ljós kom að hin nýja sjálfstæða fjöðrun hans var mun styttri en fjöðrunin á eldri bílnum, sem var hreinræktaður Suzuki með heilum afturöxli.

Ég varð að hverfa frá brattasta og grófasta kaflanum til þess að skemma ekki bílinn.

Síðan ók ég þessa leið upp á Fiat 126 bílnum mínum en þurfti að vísu á allri minni reynslu að halda.

Góður, vel með farinn Suzuki Grand Vitara frá fyrri hluta þessa áratugar er prýðilegur kostur með tiltölulega litlum breytingum sem felast í upphækkun sem umboðið býður.

Síðan má setja undir hann dekk af stærðinni 225/75-16 og þá er veghæðin orðin 23 sm óhlaðinn.

Ómar Ragnarsson, 5.8.2009 kl. 10:36

4 identicon

Eftir að hafa hossast um fjöll og torfæri áratugum saman eru nokkrir jeppar og jepplingar sem að mínu mati skara framúr.

Suzuki Fox 413, kominn á stærri dekk fór hann allt

Rússajeppinn, frábær fjöðrun og góður í snjó

Eldri gerðir af RangeRover, mjúkur og léttur

Willys, léttur og með stórum hjólum óstöðvandi

Cherokee og þá sérstaklega Grand með gorma að framan og aftan

Land Rover Defender

Toyota Hilux, sterkur og seigur en hastari en gömul bikkja

Merkilegt nokk, allt bílar með heila öxla!

Jóhann F Kristjánsson (IP-tala skráð) 5.8.2009 kl. 10:37

5 Smámynd: Offari

Jeppar eru bara til á Íslandi.(kannski til einn í Finnlandi) Ég vill meina að jepparnir séu með heilum öxlum en jepplingarnir á sjálfstæðri fjörðun. Vissulega eru til jeppar á sjálfstæðei fjöðrun en þeir kallast slyddujeppar.

Offari, 5.8.2009 kl. 11:59

6 identicon

Góð ábending hjá þér, Ómar. Þegar farið var að reyna að fá fram einhvern milliveg milli torfæru bíla með hasta fjöðrun og fólksbíla með mjúka fjöðrun, fóru menn að fórna hluta af torfærueiginleikum bílanna, fyrst með sjálfstæðri fjöðrun að fram og svo að aftan. Nú eru jafnvel þokkalega stórir jeppar eins og t.d. Pajero orðinir þannig, að þetta eru bara fjórhjóladrifnir fólksbílar. Alls ekki hæfir til að fara út af malbiki. Enn heldur Toyota LandCruiser 120 í heila afturásinn, en talið að hann hverfi innan tíðar. Það eru tiltölulega fáir bílar, sem hægt er að fá flutta inn hingað, sem kallast geta jeppar. Fyrst er þar að telja Defender, síðan Patrol og Jeep Wrangler. Rússajeppar fást ekki lengur og LandCruiser 70 typuna megum við ekki flytja inn vegna einhverrar sérvisku í Brussell. En það var spurt þarna að ofan um Kia Sorento. Flestir þeirra, sem fluttir hafa verið hingað, eru með sjálfvirkum millikassa. Það þýðir að framdrifið tengist bara sjálfvirkt - alveg án tilverknaðar ökumannsins, og til þess að hann tengist þurfa afturhjólin að "spóla". Þetta gerir það að verkum, að framdrifið veitir ekkert akstursöryggi á hálum vegi, það virkar hreinlega ekki til að gera bílinn stöðugri, því til þess að afturhjólin fari að spóla nægilega mikið til að framdrifið tengist, er ástandið orðið þannig að bíllinn gæti sem hægast verið kominn þversum á veginum. Að öðru leyti er Kia bíllinn alveg frambærilegur og hann er með heilum afturás. Ódýrasta typan er hinsvegar með "gamaldags" millikassa og þar setur ökumaður hann í lága drifið og framdrifið með svipuðum hætti og gamla Willys.

Sjóðríkur seiðkarl (IP-tala skráð) 5.8.2009 kl. 12:46

7 Smámynd: Soffía Sigurðardóttir

Í störfum mínum og ferðum á hálendinu hef ég séð marga jepplinga frá bílaleigunum. Þeir eru oft þugt hlaðnir, bæði af farþegum og farangri. Alltof margir þessara bíla mættu með réttu kallast fjórhjóladrifnir götusópar, þegar þeir eru komnir á fjallvegi, þarf ekki torfæruvegi til.

"I have a fourwheel!" er samheiti yfir þessa bíla, haft eftir svörum túristanna sem svara því til á hvernig bíl þeir séu. Þegar túristar voru að spyrja mig til vegar, spurði ég þá alltaf um farkostinn áður en ég svaraði til um vegina.

Ég hundskammaði stundum bílaleigufyrirtækin sem leigðu mönnum vísvitandi "jepplinga" til farar yfir Sprengisand, jeppling sem var ekkert annað en stuttur fólksbíll. Greinilega útgerð sem gerir út á háa sjálfsábyrgð leigutakans.

Soffía Sigurðardóttir, 5.8.2009 kl. 13:53

8 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það eru ekki allir jeppar með sjálfstæða fjöðrun litlir torfærubílar. Mér sýnist til dæmis nýjasta gerðin af Pajero vera býsna há undir miðjuna og auðvelt að hækka hann upp.

Hins vegar hefur það alltaf verið ókostur við Pajero hvað hann er hlutfallslega þungur að aftan.

Það kemur sér illa á leið upp brekkur þar sem þungamiðjan færist aftar í bílinn og afturhjólin grafa sig niður úr förunum eftir framhjólin.

Gamla gerðin af Cherokkee er létt að aftan og auk þess með sérlega hagstætt hlutfall á lága drifinu, 1:2,7.

Gamli litli Toyota pallbíllinn minn er 1000 kíló á framás en aðeins 650 á afturás. Passaði mig að hækka körfuna ekki upp á grindinni til að halda þyngdarpunktinum sem lægstum.

Fyrir bragðið er þetta fullboðlegur jöklabíll þótt hann sé á 35 tommu dekkjum.

Ómar Ragnarsson, 5.8.2009 kl. 14:14

9 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Fór rangt með staðsetningu bensíngeymis í Kia Sorento. Hann er hægra megin rétt fyrir framan afturöxul og að horfa aftan á þennan jeppa og leiðir hugann að manni sem er með kúkinn neðst í annarri skálminni.

Ómar Ragnarsson, 5.8.2009 kl. 16:21

10 Smámynd: Ellert Júlíusson

Nýbúinn að renna yfir kjöl á corollu 1998 skutbíll. Lítið eignatjón nema einn týndur hjólkoppur :)

Fullhlaðinn efa ég að hann nái þessum umræddu 13cm en dæmi hver fyrir sig http://naglinn.blog.is/album/nytt_album/image/889680/ !

Hefði samt alveg verið til í að vera á aðeins veglegri bíl, þrátt fyrir að rollan hafi aldrei tekið niðri né slegið feilpúst alveg sama hversu mikill djöfulgangurinn var.

Ellert Júlíusson, 5.8.2009 kl. 21:20

11 Smámynd: Ívar Pálsson

Þarfur fróðleikur hjá ykkur. Dýrustu jepparnir eru ansi lágir, t.d. Range Rover með sinn þverbita í lítilli hæð á milli hjóla að hann hlýtur að taka stöðugt niðri. Nú er ég á Volvo X70 Cross Country skutbíl og með hleðslujöfnun (optional) ætti sá nýrri að halda ansi góðri hæð (18cm?). En fæstir með viti fara á dýrum bíl í torfærur, amk. ekki eftir að þeir hafa einu sinni fengið viðgerðarreikninginn! Eitt grjót undir 8-12 milljón króna bíl kostar alltaf hundruð þúsunda.

Ívar Pálsson, 5.8.2009 kl. 21:56

12 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þótt Vegagerðin flokki Kjalveg sem hálendisveg tel ég hann í raun vera venjulegan þjóðveg og færan öllum bílum. Hann er oft mjög holóttur en það eru líka sumir svipaðir malarvegir í byggð.

Ómar Ragnarsson, 5.8.2009 kl. 21:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband