6.8.2009 | 19:31
Góðan flugrekstur og hreinsað borð, takk !
Hannes Smárason sagði frá því í viðtali við tímaritið Króniku einu og hálfu ári fyrir hrun að hann hefði ekkert vit og engan áhuga á flugi, flugvélum né flugrekstri enda hafi það ekki skipt máli þegar hann tók flugrekstur upp á arma sína, sem hafði barist í bökkum í áratugi, stundum á barmi gjaldþrots.
Aðalatriðið væri, sagði Hannes, að breyta félaginu í fjárfestingarfélag. Hannes sagði að hann og félagar hans keyptu helst fyrirtæki, sem væru "hæfilega skuldsett." Síðan færi hann og fengi nóg mikil lán hjá bönkunum til þess að borga skuldirnar upp og eiga drjúgan afgang eftir.
Hann kvaðst jafnvel kaupa fyrirtæki og skuldsetja þau áður en hann léki þessar kúnstir.
Fyrirtækið væri síðan selt með miklum hagnaði eða sameinað öðrum og úr yrði hringekja kaupa fyrirtækja á hlutafé hvert í öðru þar sem svonefnd "viðskiptavild" upp á tugi milljarða yrði til við þessa gerninga.
Auðvitað voru þeir peningar aldrei til og hafi þessi ósköp verið lögleg, þá voru þau siðlaus og brýnt að koma í veg fyrir að svona lagað geti gerst aftur.
Hannse kvaðst hafa séð til þess að rúmlega 44 milljarða gróði yrði á rekstri fyrirtækisins á árinu 2006, - fyrirtækis sem áður hafði árum saman sýnt rauðar tölur.
Aðspurður um tekjuskatt af þessu hlutafjárbraski kvaðst hann geta haldið þessum leik áfram út í hið óendanlega án þess að borga krónu. Orðrétt sagði hann: "Þannig get ég haldið áfram út í hið óendanlega og þarf aldrei að borga skatt".
Ég hef heimildir fyrir því sem hafa gengið fjöllunum hærra að í upphafi hafi Sigurður Helgason ásamt öðrum fengið því framgengt að tíu milljarðar yrðu lagðir til hliðar sem varasjóður sem aðeins mætti snerta í neyð.
Í fyllingu tímans rak síðan einhver augun í það að þessir peningar voru horfnir. Í ljós kom, eftir því sem mér hefur verið sagt, að Hannes hafði tekið þetta fé traustataki án þess að spyrja neinn og notað til að kaupa Sterling flugfélagið sem hann setti síðan á hausinn.
Sigurður og fleiri hafi þá sagt sig úr stjórninni, en á þeim tíma var aldrei gefið upp af hverju.
Ég tel að þessi mál þurfi að hreinsa og að Sigurður eigi að gangast fyrir því að gera það. Allt upp á borðið.
Það er kominn tími til að upplýsa allt um ástæður þess að hann og aðrir gengu úr stjórninni að mínu mati.
Það þarf að sjá til þess að aftur verði tekinn upp eðlilegur og siðlegur rekstur í stað þeirrar sápukúlu blekkinga og sjónhverfinga sem Hannes Smárason og félagar hans blésu upp og sprakk síðan framan í okkur öll.
Athugasemdir
Hvers vegna var ekkert gert ef þetta var allt vitað fyrir hrun? Ég veit að mér líkaði ekki við Flugleiðir eins og fyrirtækið var orðið. Hefur reyndar aldrei líkað það. Það hefur alla tíð okrað á íslendingum meðan útlendingar hafa flogið á útsöluverði yfir Atlantshafið.
Við fjölskyldan vildum koma í heimsókn til íslands, en verðin (í evrum) eru komin yfir það sem fólk er að borga fyrir ameríku- og asíuflugin héðan frá Hollandi. Réttast væri að þetta glæpafyrirtæki, sem Icelandair er orðið, færi á hausinn svo við fengjum alvöru samkeppni.
Villi Asgeirsson, 6.8.2009 kl. 20:49
Góð færsla hjá Ómari.
Ég veit ekkert um svona mál. En hitt veit ég að Flugleiðir voru almenningshlutafélag í eigu þúsunda.
Þar á meðal mín.
Stjórn félagsins situr í umboði hluthafana.
Þegar svona mál, eins og það sem Ómar reyfar hér, kemur upp eiga þá fulltrúar eigenda í stjórninni ekki að upplýsa umbjóðendur sína um það.
Var ekki og er ekki rétt að Inga Jóna og Sigurður Helgason upplýsi hluthafana um þetta og bar þeim ekki skilda til þess að gera það þegar þessir atburðir voru að eiga sér stað?
Þarna var ekki einkafyritæki á ferð og þetta voru ekki peningar stjórnarmanna.
Af hverju er þetta að koma fram núna?
Hvar eru endurskoðendurnir?
Hvar og hver er ábyrgð stjórnarmanna?
Spyr sá sem ekki veit.
S.H (IP-tala skráð) 7.8.2009 kl. 12:06
Mjög athyglisverður pistill Ómar. Takk fyrir hann.
Ég gerði það að gamni mínu að fletta upp í skriflegum nótum sem ég átti frá Ferðamálaþingi árið 2006 en þá kom einmitt fram í máli Hannesar að hann sæi nýtt hlutverk fyrirtækisins fyrst og fremst sem fjárfestingarfyrirtækis þar sem einn liður í starfseminni væri flugrekstur. Það fór ekki á milli mála að hann hafði engann áhuga á flugrekstri og vissi ekkert um slíkt þó hann slægi um sig með tölum um hversu magnaðir flugflutningar gætu orðið á vegum íslenskra aðila.
Anna Karlsdóttir, 7.8.2009 kl. 13:36
"But that success boomeranged. Seeing the industry's vulnerability to shocks, Mr. Helgason decided to salt away a fat kitty to ride out possible future crises. In 2004, cash at about 25% of revenue attracted an aggressive young local investor, Hannes Smárason, who led a buyout of Icelandair and loaded it with debt."
http://online.wsj.com/article/SB122394146844030883.html
KE (IP-tala skráð) 7.8.2009 kl. 14:18
Á haustmánuðum 2002 hittust Hannes Smárason og félagar í stjórnarherberginu í aðalstöðvum Íslenskrar erfðagreiningar og lögðu á ráðin um kaup á Flugleiðum til að skipta félaginu upp. Tekið skal fram að Kári Stefánsson átti ekki þátt í þessu ráðabruggi. Kaupin gengu eftir fyrri part árs 2003, skrælt var utan af flugrekstri fjárfestingarinnar, hann skilinn eftir skuldum vafinn og síðan fleytt á hlutabréfamarkaði við allt of háu verði. Mér er sagt að Hannes hafi kallað sig umbreytingafjárfesti upp úr þessu.
Fleira í þessum dúr hefur átt sér stað í íslensku viðskiptalífi á liðnum árum, þar sem vel rekin fyrirtæki hafa verið veðsett og síðan skilin eftir á berangri eða fyrirtæki fléttuð saman og síðan skilin sundur þannig að skuldir hafa fylgt verðlausum einingum og lánardrottnar þannig í raun féflettir. Þá erum við að tala um raunverulegan þjófnað fyrir opnum tjöldum.
Sigurbjörn Sveinsson, 7.8.2009 kl. 15:00
Villi Ásgeirsson er á villigötum ef hann heldur að samkeppni aukist ef Icelandair fari á hausinn. Samkeppni frá hverjum? Þá væri Iceland Express Pálma Haraldssonar eftir, er það ævintýri þess fjárglæframanns rekið á bresku flugrekstrarleyfi Astraeus sem menn vilja sjá? Hverjir eru svona líklegir til aukinnar samkeppni um flug til og frá Íslandi? Enginn. Ef norður atlantshafsflug Icelandair um Ísland leggst af, kemur ekkert í staðinn. Önnur félög verða fljót að grípa flutningana beint framhjá Íslandi og ferðamöguleikum Íslendinga myndi snarfækka. Þá fyndum við fyrir einangrun og kreppu. Það dygðu á veturna ca 5 ferðir á viku til Kaupmannahafnar og London og eitt vikulegt flug til New York.
Hvumpinn, 7.8.2009 kl. 18:30
Ef ég hefði verið spurður um merkilegstu atburði ársins 2003 hefði sú samkeppni í millilandaflugi, sem þá var tekin upp, orðið númer tvö á eftir Kárahnjúkavirkjun.
Það má ekki gerast nú, þegar við þurfum á öllu okkar að halda, að þessi samkeppni leggist af.
Það yrði einhver mesta afturför sem hugsast getur í málefnum okkar.
Ómar Ragnarsson, 7.8.2009 kl. 20:38
Ertu svo viss, Hvumpinn? Mer skilst að nokkur flugfélög hafi reynt við flug til Íslands en hætt vegna þess að Icelandair hafði allt í vasanum í Keflavík. Þeir höfðu einkarétt á flugvallarþjónustu og gerðu öðrum erfitt fyrir.
Það fóru fjórar milljónir farþega um Keflavík á ári síðast þegar ég gáði, sem var þó fyrir hrun. Það eru 20-25.000 737 og 757 flugvélar. Það þarf enginn að segja mér að þessi markaður yrði látinn eiga sig ef Icelandair félli frá.
Iceland Express er ekki alvöru samkeppni við Icelandair, að mér skilst. Einokun er aldrei góð fyrir þá sem þurfa á þjónustunni að halda.
Villi Asgeirsson, 7.8.2009 kl. 20:47
Farþegafjöldi um KEF var 1.990 þús. árið 2008 (www.flugstodir.is), fækkun á þessu ári er talin verða á bilinu 15-20% þ.e. það verði kannski 1.600 þús á þessu ári. Það er engin hætta á að neinn hafi áhuga á slíkum markaði þegar félög eiga nóg með samdrátt á sínum aðalmörkuðum sem þó er yfirleitt undir 10%, þó sums staðar meiri. 3 aðilar geta afgreitt flugvélar á KEF, og þangað fljúga, aðallega yfir sumarið til að fleyta rjómann um 10 flugfélög (www.kefairport.is) Af því að þú gefur upp að þú sért í Hollandi, myndi ég ætla að hlutdeild KLM í Amsterdam (a.m.t. dótturfélögum) sé talsvert meiri en hlutdeild Icelandair í KEF.
Hvumpinn, 8.8.2009 kl. 13:01
Ef satt reynist með miljarðana tíu þá er ábyrgð fyrrum stjórnar mikil með þögn sinni og útgöngu. Magnað ef Sigurður Helgason væntanlega vitorðsmaður þessara gerninga sé að taka við stjórnartaumunum aftur ? fékk hann ekki 150 millur fyrir að þegja?
Þjóðin á allt undir að góðar samgöngur séu við landið og viðkvæmur flugrekstur þolir ekki litla kalla með of stórt egó
Huckabee, 9.8.2009 kl. 20:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.