12.8.2009 | 23:37
Leirhnjúkur og Gjástykki eru ein heild.
Jónína Bjartmarz, þáverandi utanríkisráðherra, og Jón Sigurðsson, þáverandi iðnaðarráðherra og formaður Framsóknarflokksins, héldu fjölmiðlafund skömmu fyrir kosningar 2007 og sýnd þar meðal annars þá tillögu sína að ekki yrði hróflað við neinu á Leirhnjúks-Gjástykkissvæðinu nema að undangenginni ítarlegri og vandaðri rannsókn og sérstakri atkvæðagreiðslu um málið á Alþingi.
Tveimur dögum fyrir kosningar (nógu seint til þess að enginn frétti það fyrr en eftir kosningar) gaf Jón Sigurðsson dæmalaust leyfi fyrir könnunarborunum í Gjástykki og nú má sjá þar þrjár holur með tilheyrandi raski og langri vatnsleiðslu.
Myndin hér við hliðina var tekin í Gjástykki í fyrrasumar.
Ég hef margsinnis bloggað um þetta mál og sýnt fram á að nýjustu borholur Landsvirkjunar rétt hjá Leirhnjúki og fyrirætlanir um að fara inn með eldvirka svæðinu úr Kröflueldum í svonefndan Vítismó eru upphafið á harðri sókn Landsvirkjunar inn á þetta svæði, sem getur gefið ósnortið af sér miklu meiri tekjur og heiður fyrir þjóðina af sér heldur en með tvísýnni nýtingu sem í besta falli skapaði sárafá störf í álveri á Bakka.
(Sjá neðstu myndina hér á síðunni)
Ævinlega er talað um Gjástykki eitt í þessu máli, en Leirhnjúkur og Gjástykki eru órofa heild hrauna, gíga og sprungna sem mynduðust í Kröflueldum líkt og Lakagígar eru ein heild, þótt helmingur þeirra sé sunnan við fjallið Laka og hinn helmingurinn fyrir norðan það og að ekki hafi gosið á sama tima á báðum endum.
Á neðstu myndinni sést hvernig sótt er áfram inn á milli hins magnaða sprengigígs Vítis og Leirhnjúks, en hinum megin við Víti er líka sótt fram og ætlunin að umkringja það algerlega inni í miðju iðnaðarsvæði.
Þetta var aðferð vélaherdeildanna í heimsstyrjöldinni sem sóttu fram og mynduðu tangarsókn sem sem skapaði þeim sigur með því að lokað stóra heri inni og eyða þeim.
Landvernd vill friða Gjástykki | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ertu búinn að sjá þetta, Ómar?
Lára Hanna Einarsdóttir, 13.8.2009 kl. 00:51
Ó, já. Þetta er þó aðeins brot af því sem um ræðir. Svæðið allt er heimsundur og nyrsti hluti þess á engan keppinaut meðan það verður ósnortið.
Ég er búinn að fara margar ferðir um það allt og vinn hörðum höndum að þvi a gera 60-90 mínútna heimildarmynd um þetta mál.
Hið senn gjaldþrota fyrirtæki Landsvirkjun ætlar að vinna þetta með leifturstríði, vílar ekki fyrir sér að eyða milljarði sem útlendingar áttu þátt í að búa til í því skyni að gera tilraun með djúpboranir, í að bora holu sem næst Leirhnjúki og eyðileggja tilraunina í stað þess að bora þessa holu á Nesjavöllum eða skaplegri, eðlilegri og áhættuminni stað.
Ég hef heimildir fyrir því að við borun þessarar holu hafi verið brotnar allar meginreglur sem gilda um slíkar boranir.
Ég var við Víti fyrir viku og þar djöflast vélaherdeildirnar rétt fyrir ofan gíginn sem aldrei fyrr.
Aðferð Landsvirkjunar er aðferð hundsins, sem merkir sér svæði hvar sem hann getur því við komið.
Ómar Ragnarsson, 13.8.2009 kl. 01:42
Jónína Bjartmarz, þáverandi umhverfisráðherra, en ekki utanríkisráðherra.
Þorsteinn Briem, 13.8.2009 kl. 04:04
"Hið senn gjaldþrota fyrirtæki Landsvirkjun"
Þetta er óskhyggja. Landsvirkjun hefur, er og verða mun fjöregg þjóðarinnar.
Við erum rík þjóð og það er stórkostlegt að eiga þetta svæði, Gjástykki-Leirhnúkur, og geta nýtt það á sem fjölbreyttasta hátt. Þeir sem fara í kerfi yfir því að einhver mannvirki sjáist á svæðinu, verða að fá viðeigandi meðferð við hinum svokallaða "Vistkvíða", sem nýlega er orðinn viðurkenndur sjúkdómur af Alþjóða heilbrigðismálastofnuninni.
Gunnar Th. Gunnarsson, 13.8.2009 kl. 07:25
Var að horfa á myndbandið hans Kjartans.
Það er óskiljanlegt að mývetningarnir ætli að leyfa að þetta verði eyðilagt.
Hef ég þá í huga fornan orðstí þeirra er varðar náttúruvernd.
Eftir að virkjanir, gufulagnir og háspennulínur verða komnar, a la Hellisheiði, þá verður svæðið einskis virði til að njóta svona stórkostlegrar náttúru.
einsi (IP-tala skráð) 13.8.2009 kl. 19:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.