14.8.2009 | 10:11
Lengi lifi besta eftirherma sem við höfum átt !
Við erum lánsöm þjóð, Íslendingar, að tveir af okkar fremstu gleðigjöfum, Jóhannes Kristjánsson og Hermann Gunnarsson skuli hafa verið úr helju heimtir eftir að hafa "dáið" hjartadauða.
Ég á sterkar taugar til beggja. Ég "vígði" Jóhannes sjö ára gamlan á skemmtun vestur á Núpi árið 1966 með því að skvetta óvart á hann úr koppi sem ég notaði í einu af atriðunum mínum þar sem ég lék Einar Olgeirsson að tala upp úr svefni.
Í lokaþættinum "Á líðandi stundu" var Steingrímur Hermannsson, þáverandi forsætisráðherra, aðalgestur, og þá sá ég mér leik á borði að fá Jóhannes til að herma eftir Steingrími.
Þarna sá þjóðin fyrst Jóhannes Kristjánsson fara á kostum þegar hann ekki aðeins hermdi eftir Steingrími, látbragði hans og rödd, heldur stældi líka undirskrift hans !
Þar gaf hann tóninn um það sem koma skyldi, því að aðall Jóhannesar hefur alltaf verið að lifa sig svo nákvæmlega og vel inn í þá sem hann er að túlka, að öllum hefur fundist að þeir væru þarna komnir sjálfir.
Jóhannes þarf aldrei að nota nein gervi, hann verður í smæstu smáatriðum að þeim sem hann hermir eftir.
Það er erfitt að velja úr ef ætti að nefna þá persónu sem Jóhannes hefur náð best, svo vel hefur hann tekið fjöldamarga þekkta Íslendinga.
Ég get þó ekki stillt mig um að nefna það hvernig Jóhannes breytist bókstaflega í Alfreð Þorsteinsson þegar hann bregður sér í gervi hans án þess að nota nokkkuð annað en sig sjálfan.
Ég hef stundum sagt að hann er betri heldur en Alfreð sjálfur !
Og ógleymanlegt er hvernig hann hermdi eftir Aðalheiði Bjarnfreðsdóttur á sínum tíma.
Halldór Blöndal, Guðni Ágústsson, Ólafur Ragnar Grímsson, - þannig væri hægt að halda lengi áfram upp að telja, slíkur er fjöldinn sem Jóhannes hefur túlkað af snilld.
Ég hef unnið með mörgum eftirhermum um tíðina, Allt frá Karli Guðmundssyni á sjötta áratugnum og Karli Einarssyni á þeim sjöunda. Karl Einarsson var gríðarlega góður og líkast til besta eftirherma sem við höfðum átt fram að því.
En ég hygg að á engann sé hallað þótt ég segi að Jóhannes Kristjánsson hafi lyft þessari listgrein hærra en dæmi eru um. Því segi ég:
Jóhannes Kristjánsson, - besta eftirherma sem við höfum átt, - hann lengi lifi, húrra ! Húrra ! Húrra !
Heppinn að vera á lífi eftir hjartaáfall | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Tek undir þetta með þér Ómar. Hann er snillingur hann Jóhannes.
Jói er einmitt úr sömu sveit og pabbi minn og hann hermir alveg svakalega vel eftir afa mínum, göngulagið og allt saman!
Og það er einmitt til á VHS spólu heima hjá foreldrum mínum, þessi þáttur Á líðandi stundu, þar sem Jóhannes skrifar eins og Steingrímur :)
hann lengi lifi! húrra! :)
Linda Björk Pétursdóttir (IP-tala skráð) 14.8.2009 kl. 13:12
Tek undir þetta, Jóhannes er ættaður frá Brekku á Ingjaldssandi og á ég ættir mínar einnig að rekja til Ingjaldssands. Ég var þeirri gæfu aðnjótandi að hafa hann sem vistarvörð að héraðsskólanum á Núpi og það þarf ekki að taka fram að þar var oft glatt á hjalla. Jóhannes eða Jói Sandari eins og hann er kallaður fyrir vestan er góður strákur og óska ég honum alls hins besta og góðs bata. Ég vona að við eigum eftir að njóta eftirherma hans um ókomin ár.
Rafn Gíslason, 14.8.2009 kl. 15:23
Segi það mér þér, jóhannes á að vera miklu lengur á meðal vor.. einn skemmtilegasti gaur íslands
DoctorE (IP-tala skráð) 14.8.2009 kl. 15:58
Sæll Ómar.
Ég tek undir það með þér að Jóhannes hefur engum verið líkur í þessari listgrein.
Atriðið með Aðalheiði var óborganlegt og lifir sterkt í minningunni.
Ég má til að bæta hér við skemmtilegri uppákomu í minningunni sem henti mig eitt sinn þegar ég var bílasali hjá Halldóri, heitnum, Snorrasyni á Aðalbílasölunni. Hún var reyndar erfið á meðan á henni stóð.
Þannig er að Jóhannes kom inn á bílasöluna og settist fyrir framan skrifborð mitt og bauð vinalega góðan daginn og spurði mig um bíl sem var á planinu. Þegar ég leit á Jóhannes sá ég Aðalheiði og allar hina kostulegu karakterana og sprakk úr hlátri og ég hló og hló. Vitanlega fór ég afsíðis en aldrei ætlaði ég að geta hætt að hlæja.
Ég bað Jóhannes afsökunar á þessu framferði mínu og tók hann því létt, sagði þetta hafa komið fyrir áður.
Bestu kveðjur frá Kalla Tomm úr Mosó.
Karl Tómasson, 14.8.2009 kl. 16:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.