24.8.2009 | 12:41
Furðuleg hugmynd.
Þegar Egyptar og Sýrlendingar voru hvað ákveðnastir í að knésetja Ísrael héldu þeir að það væri árangursríkast að mynda ríkjabandalag þessara tveggja Arabalanda. Þessi tilraun mistókst algerlega.'
Winston Churchill bauð Frökkum þegar þeir voru að bugast fyrir Þjóðverjum í júní 1940 að Bretland og Frakkland gengju í ríkjabandalag með gagnkvæmum ríkisborgararétt. Þessu höfnuðu Frakkar þótt þeir væru á heljarþröm á barmi mesta ósigurs í sögu landsins og hernáms sinna verstu fjenda.
Í ofannefndum tilfellum var nokkurt jafnræði á milli ríkjanna í ríkjabandalaginu. Norðmenn eru hins vegar 15 sinnum fleiri en Íslendingar.
Mér finnst það varla taka því að blogga um þessa hugmynd, svo fráleit finnst mér hún og lítið útfærð.
Neyð okkar nú er hvergi nærri hin sama og var 1262 þegar við gátum ekki lengur annast grunnsamgöngur við önnur lönd og hér ríkti styrjaldarástand og algert stjórnleysi með tilheyrandi mannfalli og hörmungum.
Að vísu liggur ekki fyrir hve langt menn vilja ganga í þessu hugsanlega ríkjabandalagi við Noreg.
Sé það svipað samband og var milli Danmerkur og Íslands 1918-44 finnst mér vandséð hvaða akkur er í því samanborið við þá hneisu að ómerkja lýðveldisstofnunina 1944.
Áður en Íslendingar gengu Noregskonungi á hönd 1262 hafði komið fram beiðni frá forvera hans um að Íslendingar gæfu honum Grímsey. Því höfnuðu Íslendingar. Eigum við kannski að athuga núna hvað við fáum í staðinn fyrir það að gefa Norðmönnum Grímsey?
Eða er kannski nærtækara að athuga það hvort við eigum ekki að fara beina leið til baka til að byrja með og ganga í ríkjabandalag með Dönum, svo að Margrét Þórhildur geti talað um Danmörku og Ísland sem "löndin sín tvö" líkt og langafi hennar, Friðrik áttundi gerði í ræðu við Kolviðarhól 1907 ?
Síðan gætum við fikrað okkur til baka aftur til fjórtándu aldar þegar Noregskonungur ríkti hér og Björgvin var höfuðstaður Íslands.
Þverrandi áhugi á ríkjabandalagi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Hann talaði reyndar um „ríkin sín tvö“ og fékk heldur bágt fyrir!
Þorvaldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 24.8.2009 kl. 13:40
Rétt skal vera rétt. "Ríkin mín tvö" sagði þessi mesti Íslandsvinur danskra kónga.
Ómar Ragnarsson, 24.8.2009 kl. 14:08
Alveg hárrétt, hugmyndin er alveg fráleit.
Enda sýnist mér að hún sé sett fram eingöngu til að afvegaleiða umræðuna um mögulega aðild að Evrópusambandinu. Það er sjálfsagt að taka þá umræðu bara beint, en alveg óþarfi að rugla fólk með jafn óskýrum og ómarkvissum hugmyndum einsog þessari.
Bestu kveðjur annars!
Þorfinnur (IP-tala skráð) 24.8.2009 kl. 15:37
Þetta er ein besta hugmynd sem komið hefur fram til þess að tryggja íslenskri alþýðu mannsæmadni kjör.. íslenskir stjórnarhættir hafa tryggt það að hér mun ekki vera jöfnuður eða hagsæld í framtíðinni !
Verði ykkur að góðu.. ég mun yfirgefa skerið eftir viku..
Óskar Þorkelsson, 24.8.2009 kl. 19:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.