Ekki rétt ljósmynd.

LJósmyndin sem birt er með þessari frétt er ekki tekin á réttum stað, heldur á stað sem nú er kominn á kaf í aur Hálslóns.

Vísa til bloggsíðu minnar um þetta efni og athugasemda við bloggfærsluna þar.

Fyrr í sumar birti ég mynd af vellinum eins og hann kemur undan vetri og bað menn um að giska á hvorum megin við merkinguna völlurinn væri, því að engan merkjanlegan mun er hægt að sjá á því fyrr en búið er að valta.

Þessi staður er einn af þeim fyrstu sem Agnar Koefoed-Hansen fann í leit sinni að flugvallarstæðum 1939. Flugvöllurinn var þá merktur eins og enn má sjá ummerki um.

Ég hef aðeins endurvakið flugvöllinn vegna þess að vegna stærðar sinnar getur hann nýst sem öryggisflugvöllur fyrir vélar á borð við Fokker 50 og Hercules.

Lendingarstöðum á hálendinu hefur fækkað mikið á undanförnum árum og nú er aðeins einn slíkur á hálendinu norðan Vatnajökuls, við Herðubreiðarlindir.

Hann er ónothæfur þegar sterkur vindur stendur af fjallinu, aðeins ein braut og miklu styttri en löngu brautirnar á Sauðárflugvelli.

Hann er auk þess svo nálægt umbrotasvæðinu, sem þarna er, að vafasamt er að hann geti nýst ef þar kemur upp jarðeldur og þarf að grípa til flutninga í lofti.

Í slíku tilfelli myndi Sauðárflugvöllur hins vegar nýtast vel.  

Ég er ekki einn um það að endurvekja gamalt flugvallarstæði. Í sumar hafa áhugamenn endurvakið gömlu flugbrautina sem notuð var fram eftir síðustu öld við Hornafjarðarós í flugi til Hornafjarðar.

Hún er nákvæmlega sama eðlis og Sauðárflugvöllur. Þeir völtu melinn, merktu og settu upp vindpoka.

Eini flugvöllurinn á hálendinu sem notuð hafa verið stórvirkar vélar við er á Auðkúluheiði, en Landsvirkjun byggði hann upp og malbikaði.

Ein flugbraut hafði verið á Kárahnjúkasvæðinu um langa hríð áður en framkvæmdir hófust. Hún var við afleggjarann suður í Snæfell en Landsvirkjun umturnaði honum í malargryfjugerð og hefur skilið svæðið öldótt og annars útlits en það var áður en þessar framkvæmdir hófust.


mbl.is Ómar bætir hálendisflugvöll
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Sæll Ómar

Afi minn Sigurður á Stafafelli skrifaði í greinaflokk´(Ljósir blettir á liðinni ævi) sem að hann birti upp úr 1960 að það væri tilvalið að setja upp flugvöll á svonefndum Söndum upp á Kollumúla skammt frá Tröllakrókum. Þar eru sléttir melar en þyrfti trúlega eitthvað lítillega að lagfæra fyrir braut.

Það fara margir í vörn þegar svona hugmynd er sett fram. Telja slíkt í þágu tæknihyggju og andstætt náttúruvernd. Göngufólk sem að ég fer með um þetta svæði er þó oftast búið að keyra 6 klukkutíma úr Reykjavík og austur í Lón og þarf rútuferð inn á Illakamb.

Það væri mjög umhverfisvænt að taka klukkutíma flug austur og ganga síðan nokkura daga göngu niður með Jökulsá í Lóni -Náttúrugarðinn Stafafelli - eitt fjölbreytilegasta þversnið íslenskrar náttúru sem spannar um 40 km leið. 

Ég á eftir að skoða staðsetningu þessa vallar á korti, en geri ráð fyrir að þetta sé önnur Sauðá heldur en liggur frá Sauðárvatni og er norðaustan Marköldu. Þangað er kominn malbikaður vegur langleiðina í tengslum v. Hraunaveitu. Mbk, G 

Gunnlaugur B Ólafsson, 25.8.2009 kl. 23:50

2 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ef þarna er raunhæft að lenda Fokker flugvél í neyð, þá er þetta hið besta mál.

Gunnar Th. Gunnarsson, 26.8.2009 kl. 09:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband