Birtingarmynd óstjórnar og ranglætis.

Maður, sem var fyrrum sparisjóðsstjóri í einum af sparisjóðunum á Vestfjörðum sagði mér á dögunum sanna sögu af bónda í sveitinni sem lagði allt féð, sem hann hafði önglað saman með ærinni fyrirhöfn, inn á sparisjóðsbók.

Þetta var ein milljón króna sem var mikið fé í þá daga. Þetta var á verðbólgutímum, þegar sífelld vandræði voru með krónuna og verið að fella hana æ ofan í æ, og á næsta áratug varð þessi ævisparnaður mannsins að nær því engu.

Einhver reiknaði það út að á þessum árum hefðu skuldarar fengið að sama skapi lán sín að mestu gefins, ef þau voru til nógu langs tíma, og að húsbyggjendur hefðu að meðaltali fengið 30-40% húsa sinna gefins.Þeir, sem gáfu, voru meðal annars líknarsjóðir og eldri borgarar.

Á núvirði voru líkast til nokkur hundruð milljarðar króna færðir til á siðlausan hátt á þessum árum frá sparifjáreigendum til skuldara.

Þetta var óréttlæti sem Vilmundur Gylfason barðist gegn eins og mörgu öðru sem aflaga fór í okkar þjóðfélagi og hann kenndi réttilega stjórnmálamönnum um þetta.

En þegar þetta var loks leiðrétt með svonefndum Ólafslögum á útmánuðum 1979 tók við annað ranglæti, sem einnig var sprottið af óstjórn í landinu, og bitnaði fyrst á svonefndum Sigtúnshópi, en það var fólk sem var nýbyrjað að byggja, skuldaði því mikið, og hafði tekið sín lán á allt öðrum forsendum en upp voru komnar og það hafði ekki getað séð fyrir.

Nú hefur þetta nýja ranglæti, sem skuldarar landsins blæða fyrir, náð nýjum hæðum og enn er það stjórnleysið sem birtist í hrikalegri gengisfellingu krónunnar, sem á sök á þessu.  

Íslendingar hafa allt frá því að íslenska krónan var losuð úr tengslum við dönsku krónuna viðhaldið ranglæti, sem byggist á rangri skráningu hennar, sem er birtingarmynd af landlægri óstjórn.

Stjórnvöld hafa notað sér krónuna til þess að skekkja fjárhagsgrundvöll landsins og koma sér undan nauðsynlegum aðgerðum til þess að viðhalda stöðugleika.  

 Undanskilja má aðeins lítinn hluta þessa tímabils, þar sem jafnvægi ríkti nokkurn veginn, eða síðari hluta tíunda áratugsins og byrjun þessarar aldar.

Árin 2002 og 2003 var síðan byrjað að kynda það bál þenslu og tilheyrandi rangrar skráningar krónunnar sem endaði með því að þjóðfélagið varð alelda og sprakk upp í hruninu 2008.

Nú stendur yfir sársaukafull rústabjörgun þar sem margir eiga um sárt að binda og enn er gengi krónunnar birtingarmyndin, sem við okkur blasir.  


mbl.is Krónan of lágt skráð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Ómar. 

Frá ágúst 1982 til ágúst 1983, hækkaði vísitalan um 103%, en það þýðir að verðlag ríflega tvöfaldaðist á tólf mánuðum!

Á þessu eina ári rýrnaði peningaeign manns um helming. Sá sem átti peningaseðil í ágúst 1982 gat keypt helmingi minna fyrir hann í ágúst 1983.   1000 krónur urðu á einu ári jafn verðmætar og 500 krónur áður.  Það var ekki auðvelt að standa í húsbyggingum þá.   Að sjálfsögðu töpuðu margir gríðarlega miklu. Þeir sem höfðu t.d. nýlega selt íbúðarhúsnæði og voru að byggja eða kaupa nýtt töpuðu miklu. Jafnvel öllu eigin fé......  [Sjá hér].

Ágúst H Bjarnason, 26.8.2009 kl. 13:38

2 Smámynd: Benedikt V. Warén

....og ekki nóg með það Ágúst, launavísitalav var tekin úr sambandi þannig að launin héldu krónutölu á meðan allt annað hækkaði. 

Á þessum tíma var ég að byggja og eini bréfavinur minn, var Sýslumaðurinn á Eskifirði, sem ég hefði alveg viljað vera laus við.  Endalausar kröfur um að greiða það, sem ekki var fræðilegur möguleiki miðað við gefnar forsendur að standa við.

Þess vegna hræðist maður Icesave reikningana, að lenda í sama feninu aftur, sem nánast ógerningur er að vinna sig út úr.

Benedikt V. Warén, 26.8.2009 kl. 16:10

3 identicon

Mjög góður pistill Ómar.

Ein spurning: Var ekki íslenska krónan jafnverðmæt þeirri dönsku í bernsku sinni?

Guðgeir (IP-tala skráð) 26.8.2009 kl. 18:45

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ójú, hún var það en hefur rýrnað samtals meira en tvöþúsund falt síðan !

Ómar Ragnarsson, 26.8.2009 kl. 19:17

5 identicon

Ómar þakka þér frábæran pistil,orð í tíma töluð.

magnús steinar (IP-tala skráð) 26.8.2009 kl. 19:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband