Friðun Leirhnjúks, Vítismós og Gjástykkis.

DSC00196

Svæðið frá brekkubrúninni fyrir norðan Kröfluvirkjun og norður um Leirhnjúk, Vítismó og Gjástykki þar sem gaus í 9 eldgosum 1975-84 með tilheyrandi gjósandi sprungum og gígum er ein órofa heild, og hana verður að friða alla. 

P1010039

Á myndinni hér við hliðina er borsvæði Landsvirkjunar í forgrunni, rétt við hinn magnaða sprengigíg Víti, sem tekur nafna sínum í Öskju fram um það að vera tvöfaldur eins og sést. 

Fjær eru Vítismór og Leirhnjúkur, en það er suðurendi svæðisins sem gaus á í Kröflueldum.

Ég hygg að engum myndi detta í hug að leyfa svona umhverfisspjöll við Kerið í Grímsnesi, sem stenst þó engan samjöfnuð við Vítin í Kröflu og Öskju. 

 

Síðan þessi mynd var tekin eyðilagði Landsvirkjun milljarðs króna fjárveitingu til djúborana með því að bora í Vítismó mili Vítis og Leirhnjúks að því er virtist eingöngu tll þess að sækja með bora sína norður Vítismó í hernaðinum gegn Leirhnjúk og Gjástykki. 

Á mynd nr. 2 er horft af barmi Vítis yfir nýju borholuna sem var boruð svo nálægt eldstöðinni frá 1975 að borinn kom auðvitað niður á bráðna kviku!

Næstu borholur eiga síðana að koma í röð meðfram eldgosasvæðinu.  

Auðvitað hefði átt að bora þessa holu, sem gat gefið grundvöll fyrir þúsunda milljarða króna framförum, á öruggari stað, t. d. við Nesjavelli eða á Reykjanesi.

DSC00191

Hvergi í heiminum er hægt að finna svæði í líkingu við þetta.

Á mynd nr. 3 er horft yfir Leirhnjúk, en á mynd nr. 4 er horft yfir svæði við Sandmúla sem Alþjóðasamtök áhugafólks um ferðir til mars hefur valið sér sem æfingasvæði fyrir marsfarana, líkt og Askja varð fyrir valinu fyrir tunglfarana 1967.  

Tunglfararnir og það, að mörgum finnst þeir komast í snertingu við sköpun jarðar í Öskju, skapar aðdráttarafl hennar.

DSC00205DSCF0591

Svæðið Leirhnjúkur-Gjástykki skapar jafnvel enn sterkari upplifun, vegna þess að á einum stað, sem ég vil kalla Nýja-Ísland, er hægt að ganga eftir sprungu, sem er tveggja mannhæða djúp, þar sem Ameríka rifnaði frá Evrópu 1984 og upp úr sprungunni gaus eins og í gosbrunni hraun sem breiddist um landið og rann jafnvel niður í sprunguna og upp úr henni á víxl. 

 

 

 

Í Öskju liggja ekki fyrir neinir vitnisburðir eða myndir um það sem gerðist þar.

 

 

 

Af atburðunum í Kröflueldum er þetta hins vegar fyrir hendi og getur skapað grundvöll að stofnun miðstöðvar svipaða Skógareldasetrinu i Yellowstone, þar sem er safn og bíóhús helgað skógareldunum miklu 1988. 

Það auðveldar ferðamönnum að fara á vettvang og upplifa eldana og afleiðingar þeirra.

Safnið gæti borið nafnið "Sköpun jarðarinnar og ferðir til mars."

Fagna ber því að umhverfisráðherra hafi farið í Gjástykki þótt hún virðist hafa getað fengið betra veður.

Hvort hún hefur gengið norður að sprungunni neðstu myndinni er óvíst. Ég hef ekki enn hitt neinn sem hefur gengið þangað nema með mér í ferðum mínum í sumar.  

Það á ekki að leyfa Landsvirkjun að fara lengra með bora sína. Þeir geta vel efnt loforð sín hér um árið að hægt sé að skábora inn undir svona svæði.  

 

 

 

 

 

 



mbl.is Gaumgæfir friðun Gjástykkis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurjón

Sæll Ómar og takk fyrir fallegar myndir og áhugaverðan pistil.  Ég er hræddur um að LV hafi lofað upp í ermina á sér varðandi skáboranir undir þessi svæði.  Hefðbundnar skáboranir ná u.þ.b. 2000 metrum frá borstað í láréttu plani í allra mesta lagi.

Sigurjón, 10.9.2009 kl. 17:33

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það eru einmitt um tveir kílómetrar frá brekkubrún inn undir nyrðri hluta Vítismós.

Ómar Ragnarsson, 10.9.2009 kl. 17:54

3 Smámynd: Ingólfur Ásgeir Jóhannesson

Takk fyrir blogg og kveðjur

Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 10.9.2009 kl. 21:57

4 Smámynd: Sigurjón

Sæll aftur Ómar.

Það er rétt, en það þýðir ekki að það sé nóg til að nálgast jarðlögin sem þarf til að holan skili árangri.  Þar fyrir utan er varla hægt að ryðja borteig við brekkubrúnina.

Sigurjón, 10.9.2009 kl. 23:53

5 identicon

Þarna á að virkja allt í klessu, þetta eru steindauð svæði og engum til gangs. Þarna tapast ekkert land, það er ekkert nema gott mál. Þið friðunnarsinnar eruð svo ýktir, það má ekki neitt neinstaðar. Hvar á að virkja ef ekki á svona stöðum sem eru steindauðir. Það er ekkert hægt að gera við hraun, þar sprettur ekkert.

E.S. Það á að virkja eins mikið af gufuaflsvirkjunum og hægt er.

Pálmi Reyr Þorsteinsson (IP-tala skráð) 11.9.2009 kl. 02:07

6 Smámynd: Sigurjón  Benediktsson

Þetta eru öfgar og snobb og á ekkert skylt við umhverfisvernd. Það er rætt um að nýta 2 ferkílometra af tæpim tuttugu þ.e. sem eru undir nýju hrauni. Á yfirborði er rask á nokkur hundruð fermetrum. Af hverju þessa forsjárhyggjufrekju? Hvaða eyðilegging hlýst af nytsömum umhverfisvænum mannanna verkum? Fer þessum ofsóknum og stofnanafíkn ekki að linna? Ert þú ekki með bók í smiðum um svæðið? 'Okst þú ekki slóðann sem Þeistareykir ehf gerðu færan, veg sem snobbið heimtaði í umhverfismat? Hvað villjið þið eiginlega sitjandi við tölvur ykkar langt langt í burtu?

Sigurjón Benediktsson, 11.9.2009 kl. 06:49

7 Smámynd: Stefán Helgi Valsson

Sem leiðsögumaður ferðamanna sl. 22 ár verð ég að segja að framkvæmdirnar við Leirhnjúk koma við sálina. Fyrir mér er svæðið ónýtt sem viðkomustaður ferðamanna.

Sumir vilja meina að ferðamenn komi til landsins til að skoða sundurgrafið hraun, gufu- og vatnslagnir og stöðvarhús með kynningarmyndi eins og á Hellisheiði.

Landið sjálft er skrifstofan mín og mér finnst hafa verið vaðið þar inn á skítugum skónum.

Jú, jú, auðvitað þarf að nýta náttúruauðlindirnar, en af skynsemi þó.

Stefán Helgi Valsson, 11.9.2009 kl. 09:11

8 identicon

Það er ekkert skrítið að tannlæknirinn vilji bora allt sundur og saman og það sem fyrst, því að það er það sem gefur skjótfenginn gróða, á meðan að fyrirbyggjandi aðgerðir eru það, sem þegar upp er staðið, er hagkvæmast fyrir þjóðarbúið

Hjalti Finnsson (IP-tala skráð) 11.9.2009 kl. 09:20

9 Smámynd: Stefán Stefánsson

Furðulegt sem Stefán Helgi Valsson segir að fyrir sér sé svæðið ónýtt sem viðkomustaður ferðamanna....... öfgar á háu stigi.

Ferðamannastraumurinn á Leirhnjúk er alltaf að aukast og framkvæmdirnar þarna í nágrenninu hafa engin áhrif þar á.

Skynsamleg nýting er góð og á rétt á sér og þarna á þessu svæði er ekki verið að leggja neitt í rúst.

Stefán Stefánsson, 12.9.2009 kl. 21:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband