14.9.2009 | 10:57
Björt framtíð ef...
Ég hef lengi haldið því fram að sé rétt haldið á spilum eigi Íslendingar bjartari framtíð fyrir sér en flestar aðrar þjóðir, - geti til dæmis orðið fyrsta þjóðin sem knýr bíla- og skipaflota sinn með endurnýjanlegum, hreinum orkugjöfum.
Einum þeirra kynntist ég fyrr í sumar, en það er metan.
Hingað til hefur það verið ágiskun að hægt væri að knýja 10% íslenska bílaflotans á metani með góðu móti. Þessi notkun hefur þann stóra kost að hægt er að byrja strax, án þess að búið sé að koma upp neti metanáfyllinga um landið, vegna þess að metanbílarnir geta líka gengið fyrir bensíni.
Það er þegar hægt að flytja inn metanknúða bíla, sem eru með tvískiptum eldsneytisgeymum fyrir metan og bensín, sem taka lítið meira rými en bensíngeymarnir nú.
Á slíkum bíl er í dag hægt að skjótast til Akureyrar í snögga ferð og skipta yfir á bensín þegar bensínið þrýtur í upphafi ferðarinnar til baka.
Um leið og komnar eru upp áfyllingarstöðvar nógu víða getur metan notkunin orðið nær einráð.
Útreikningar sýna að aukakostnaðurinn við að hafa bílinn metanknúinn vinnst upp að meðaltali á tveimur árum og upp frá því getur gróði eigandans farið að hlaupa á milljónum.
Gróðinn fyrir samfélagið með því að spara sér innflutning á eldsneyti hleypur þá fljótlega á milljörðum.
Mér kemur á óvart ef það er rétt að hægt yrði að knýja allan íslenska bílaflotann á metani og þörungum eins og rætt erum nú. Ekki væri það nú amalegt.
En kannski mun þetta reynast nauðsynlegt þegar menn vakna upp við vondan draum við það að risaálverin hafa tekið til sín mestalla eða alla jarðvarmaorku og vatnsorku landsins með fráleitu tjóni á mestu verðmætum þess, einstæðri náttúru.
Ef hér væri einhver framsýni myndu menn þegar taka frá þau orkusvæði, sem við viljum hafa tiltæk fyrir rafbíla okkar.
Það hefur legið fyrir að álverið í Helguvík muni krefjast allrar orku, sem fáanleg er á suðvesturlandi, og það sem verra er, - mest af orku jarðvarmasvæða þess landshluta verður uppurin eftir nokkra áratugi vegna þess að miklu meira er pumpað upp en svæðin standa undir.
Að kalla slíkt "sjálfbæra" orkunýtingu er argasta öfugmæli og okkur til háborinnar skammar að ljúga því að okkur sjálfum og útlendingum að svo sé.
Sjálfbært Ísland í bílaeldsneyti | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Stefna orkufyrirtækjanna er að jarðvarminn sé endunnýjanllegujr og sjálfbær.
Annars er metanið spennandi kostur. Einhver mengun er samt af brennslu þess, er það ekki?
Gunnar Th. Gunnarsson, 14.9.2009 kl. 13:00
Eitt er stefna, sem er sett fram á pappír, og annað er framkvæmd.
Menn fara miklu hraðar í nýtinguna en samræmist varúðarreglum, sem helstu fræðimenn og kunnáttumenn okkar á þessu sviði hafa formað í 30 ár, Guðmundur Pálmason, Sveinbjörn Björnsson, Bragi Árnason, Jóhannes Zoega, Stefán Arnórsson og fleiri.
Látið er nægja að orkan endist í afskriftartíma virkjana og verksmiðja, ca 40 ár, og farið af stað með hugarfari kolanámueiganda, sem lætur sér nægja að náman endist í 40 ár.
Það er reginmunur á því og til dæmis neðri tveimur Sogsvirkjununum, sem skapa sannanlega endurnýjanlega og sjálfbæra orku og geta talist eilífðarvélar, engin set í litlum inntakslónum og engin uppgufun gróðurhúsalofttegunda úr þeim (eins og til dæmis er úr Hálslóni)
Hvaða kynslóð sem er, getur lagt þessar virkjanir niður og fengið Sogið aftur í upprunalegri mynd.
Ég nefni ekki efstu virkjunina vegna þess að vafi leikur á því hvort hægt sé að fá Þinvallaurriðann aftur í upprunalegri mynd.
Minni á skilgreininguna á sjálfbærri þróun: (Þróun=nýting, starfsemi, framkvæmdir): Sjálfbær þróun er þróun sem kemur ekki í veg fyrir að komandi kynslóðir geti valið sér sína þróun.
Útreikningurinn á kolefnisjöfnuði metanvinnslu byggist á því að ef úrgangurinn, sem notaður er til metanframleiðslu, er ekki nýttur, fer meira af gróðurhúsalofttegundum út í andrúmsloftið en ef engin vinnsla væri.
Sumar af þessum lofttegundum hafa miklu verri áhrif en co2. Metan telst því sannanlega vera vistvænn orkugjafi.
Ómar Ragnarsson, 14.9.2009 kl. 13:31
Við erum enn að slíta barnsskónum í jarðvarmavirkjunum en förum götuna fram eftir veg. Tækni fleygir fram og þetta verður allt undir control.
Ekki svona svartsýnn, Ómar.
Gunnar Th. Gunnarsson, 14.9.2009 kl. 13:39
Við brennslu á t.d. 16 tonnum af methan myndast 44 tonn af CO2 (koldíoxíd). Útkoman er eitthvað umhverfisvænni en við brennslu á bensíni, en munurinn er ekki mikill. Við framleiðslu á methan er alltaf hætta á því að það leki út í andrúmsloftið, en methan er miklu meira mengandi efni en koldíoxíd.
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 14.9.2009 kl. 15:21
“Hvaða kynslóð sem er, getur lagt þessar virkjanir niður og fengið Sogið aftur í upprunalegri mynd.”skrifar Ómar.
132. löggjafarþing — 89. fundur, 20. mar. 2006. Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):
"..... Það er oft þannig, virðulegi forseti, að einmitt virkjanaframkvæmdir hafa að einhverju leyti bitnað á möguleikum villtra fiskstofna til að halda sínu í ferskvatnsvistkerfum sem hafa verið virkjuð. Má tína til margar röksemdir til að styðja það, kannski skýrasta og þá sem mér finnst alltaf sárust örlög Þingvallaurriðans sem ég hef oft rætt um hér áður.
Steingrímsstöð í Sogi sem gerð var á sínum tíma eyðilagði að mjög stórum hluta möguleika þessa stórkostlega fiskstofns, urriðans í Þingvallavatni, til að tímgast. Ég hef sjálfur viðrað hugmyndir, og jafnvel verið með mál inni á þingi, um að þetta yrði lagfært, að Steingrímsstöð yrði breytt, stíflan fjarlægð þannig að urriðinn endurheimti riðstöðvar sínar til hrygninga og næði þannig vopnum sínum á nýjan leik.
Ég hygg að einmitt þessi urriðastofn sé ákaflega merkilegur og mjög dýrmætur og ef Sogið yrði aftur fært til fyrri vegar mundi þar skapast stórkostleg náttúruauðlind sem gæfi af sér miklar tekjur. Þar endurynnum við á nýjan leik stærsta útfall af fersku vatni sem finnst á Íslandi. Þetta var stórkostleg náttúruperla áður en þessi virkjun var sett niður. Það er vel hægt að endurheimta þetta á nýjan leik og ef stíflan yrði fjarlægð yrði það dæmi um hvernig hægt er að fara út í það sem getum kallað afturkræfar virkjunarframkvæmdir.
Stöðvarhúsið mætti síðan nota í eitthvað annað, til að mynda sem eins konar sýningarglugga fyrir lífríkið í Þingvallavatni og umhverfis vatnið, eins konar safn eða miðstöð fyrir ferðamenn til að kynna sér það stórkostlega náttúruundur sem vistkerfið Þingvallavatn er og Sogið þar með......"
Svo mörg voru þau orð Magnúsar, en ....grípum aðeins niður í færslu Össurar Skarphéðinssonar um sama mál:
http://www.ossur.hexia.net/faces/blog/entry.do?id=7871&entry=68062&calendardate=200905
"Þingvallanefnd stefnir að því að taka upp viðræður við Landsvirkjun um að opna ísaldarurriðanum í Þingvallvatni farveg niður á sín gömlu óðul í Efra-Sogi. Þar voru áður mestu hrygningarstöðvar stærsta urriðastofnsins í Þingvallavatni. Þeirri gönguleið urriðans var lokað þegar Steingrímsstöð var byggð og girt var fyrir útfall Þingvallavatns í Efra-Sog árið 1959....
..... Hér er ekki verið að leggja til að stíflan fyrir mynni Efra-Sogs verði fjarlægð, heldur einungis að rauf verði gerð í hana, eða vatn látið renna til hliðar við hana, og greiðfæru rennsli komið aftur á niður farveginn í þeirri von að urriði úr vatninu leiti á hinar fornu slóðir, og taki að hrygna þar aftur. Ég á fastlega von því að það takist.
Ég slæ þó varnagla. Urriðinn þarf möl af réttum grófleika til að hrygna í, auk straums. Árið 1959 - á sjálfan þjóðhátíðardaginn - gerði aftakaveður og þá brast bráðabirgðastífla sem reist var frammi fyrir mynni Efra-Sogs. Hrygningarmölin sem var í djúpum breiðum framan við mynnið og niður í ána, sogaðist í svelginn og fór veg allrar veraldar niður Sogið og niður í Úlfljótsvatn.....
....Þingvallavatns, dygði að mínu viti til að skapa nægilegt vatnsstreymi til að mynda nýjar hrygningarstöðvar fyrir urriðann. Það er því ekki verið að taka neitt vatn - í bili - frá raforkuframleiðslu í Steingrímsstöð.
Á málinu er þó hængur. Bitmý lifir í straumvatni. Sveitarstjórnin á svæðinu sendi þingmönnum Suðurlands bréf þann 14. mars árið 2005 þar sem lagst er gegn öllum aðgerðum sem geti aukið mýbit á svæðinu!”
Svo er einnig spurningin um vatnshæðina í Þingvallavatni, raskast hún eitthvað við að rjúfa stífluna og hverjar verða afleiðingarnar við það líf sem er í vatninu nú?
Eins og áður, það er ekki bæði sleppt og haldið.
Svo eitt að lokum. Reykjavíkurborg eignaði sér Sogsvirkjanir, sem byggt var fyrir fé til allrar þjóðarinnar frá Marshall-hjálpinni. Reykjavíkurborg notaði síðan virkjanirnar sem skiptimint til að eignast hlut i Landsvirkjun, sem einnig er eign þjóðarinnar.
Þetta var löngu fyrir tíð útrásarvíkinganna. Þarna er ef til vill komin fyrirmynd þeirra að svínaríinu. Er ekki eitthvað bogið við hvorutveggja??
Benedikt V. Warén, 14.9.2009 kl. 15:53
Rétt athugað hjá þér, Benedikt. Ég nefni aðeins tvær neðri virkjanirnar sem dæmi um sjálfbæra þróun.
Verður þó að geta þess að áhrif þeirra skilst mér að hafi verið mikil á laxinn í Soginu, en ég hef ekki kynnt mér það mál.
En efsta virkjun Sogsins er örugglega ekki á mínum lista yfir sjálfbæra þróun, eins og þú sérð á bloggi mínu, einmitt vegna þeirra hugsanlega óafturkræfu, neikvæðu umhverfisáhrifa, sem virkjunin hafði.
Þótt nú sé verið að velta vöngum yfir hugsanlegum breytingum, sýnist mér augljóst, að í þessu efni hefði náttúran átt að vera látin njóta vafans á sínum tíma.
Ómar Ragnarsson, 14.9.2009 kl. 16:38
Haukur, það er rétt hjá þér að Metan er mun agressívari gróðurhúsalofttegund en koltvísýringur, oft talað um að metan sé um það bil 20 sinnum kraftmeira en CO2. Málið er hinsvegar að þetta metan sem um ræðir er að langmestu leyti metan sem hvort eð er berst út í andrúmsloftið við rotnun og uppgufun, þannig að ef við getum unnið það m.a. úr kúamykju eða af sorphaugum og nýtt það til brennslu á bílana okkar þá erum við í raun að tala um "mengunarlausan" orkugjafa.
Hjalti FInnsson (IP-tala skráð) 14.9.2009 kl. 21:51
Það má bæta því við athugasemd Hjalta að metanvél skilar ca. 90% minni koltvísýringi út í andrúmsloftið en hefðbundin bensínvél, sbr. http://www.hekla.is/Pages/19?NewsID=392
Einnig skilar metanvél mun minna magni af kolmónoxíði, köfnunarefnisoxíðum, sóti og öðrum mengandi efnum út í andrúmsloftið.
Það er svo alveg rétt hjá Hjalta að vinnsla á metangasi til eldsneytis minnkar magn gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu.
Það er því ekki rétt og beinlínis kolrangt að segja að notkun á metaneldsneyti sé ekki mikið umhverfisvænni en notkun á bensíni.
Sigurður Steindórsson (IP-tala skráð) 15.9.2009 kl. 11:04
Þetta eru allt saman brýnar pælingar og ekki verða framfarir nema spáð sé og spekúlerað. Eitt er það við methane sem eldsneyti, sem hefur vafist fyrir mér og mínum ferkantaða haus. Það er spurningin með eldsneytistanka, sem óhjákvæmilega fylgja notkun þess á farartæki. Þeir þurfa að vera sterkir og þar af leiðandi þungir. Það kostar því talsverða orku að flytja geyminn sem slíkan með sér. Þar að auki kemur svo sprengihætta, t.d. við árekstra og að maður tali nú ekki um ef eldur kemur upp í ökutækjum. Þessi vankantur yrði öðru vísi í laginu í vinnuvélum sem og í fiskiskipum. Þetta eru auðvitað bara verkefni til að leysa, en eins og málin standa í dag er ekki búið að því. Það má auðvitað líka segja um rafbíla, að þeim fylgja líka vankantar, t.d. eru oft ansi vandmeðfarnir þungmálmar notaðar í rafgeymana, sem þyrfti sérstaka aðgæslu við að koma fyrir þegar notkunartíma þeirra lýkur.
Langhundur (IP-tala skráð) 15.9.2009 kl. 11:32
Langhundur kemur inn á áhugaverðan punkt með endurvinnslu. Margar "grænar" lausnir eru ekki eins "grænar" þegar kafað er dýpra í þær og þær lausnir skoðaðar ofan í kjölinn. Rafgeymaframleiðsla er t.d. mjög meingandi og einnig er bio-olian ekki eins góð og af var látið í upphafi, vegna vandamála sem komu upp samfara framleiðslu hennar, t.d. fella skóg til að búa til akra undir framleiðsluna og auk þess var veruleg hækkun á vörunni til manneldis.
Á síðu minni fjallaði ég um glóperuna, sem hefur nú verið gerð útlæg í Evrópu, og styttist í dauðadóm hennar á Íslandi einnig. Er hún eins slæm og af er látið? Eru "bírokratar" að fara fram úr sjálfum sér? Eru framleiðendur að markaðssetja vöru sína á fölskum forsendum??
Sjá nánar: http://pelli.blog.is/blog/pelli/entry/938393/
Benedikt V. Warén, 15.9.2009 kl. 13:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.