15.9.2009 | 09:41
Margföld dramatík.
Lát Patrick Swayse felur í sér margfalda dramatík. Hann var keðjureykingamaður og líkurnar á því að slíkir fái krabbamein svo ungir eru miklar og mun meiri en hjá þeim sem ekki reykja.
Lát hans er enn ein áminningin um grimmdarlega skaðsemi versta fíkniefnis veraldar, nikótínið.
Það er hastarlegt að svo frábærlega vel gerður maður falli frá um aldur fram.
Á sínum tíma fór ég í bíó með konu minni og dætrum á myndina Dirty Dancing.
Ég minnist þess æ síðan hvernig ég sökk æ dýpra niður í sætið í vaxandi minnimáttarkennd eftir því sem leið á myndina. Hvílíkur gaur var þessi maður og skelfing var maður nú eitthvað lítilfjörlegur í samanburðinum !
Ekki var hann síður heillandi í myndinni Ghost og æ síðan hef ég haft sérstakt dálæti á glæsileik þessa manns, sem seint verður þó talinn hafa verið snoppufríður.
Ég var í gær að skoða nokkur myndskeið á YouTube af Michael Jordan og dást af yfirburðasnilli og baráttugleði þessa einstæða afreksmanns.
Mæli með þessum myndskeiðum fyrir hvern sem er sem og að fóstra vel minninguna um Patrick Swayse og glæsileik hans.
Hann vekur auk þess til umhugsunar um tóbakið og að því leyti verður lát hans vonandi ekki til einskis.
Patrick Swayze látinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Já, þessi frábæri leikar er fallin frá fyrir aldur fram. Ég á eftir að sakna þessa leikar, en hann var einn af mínum uppáhaldsleikurum. Svo mikið er víst að tóbakið verður alltof mörgum aldurtila og seint verður hamrað of oft á því hversu mikill skaðvaldur það er. Ég var sjálf stórreykingarmanneskja fyrir ríflega 13 árum og tókst að hætta þeim ósóma enda einkenni út frá reykingunum farin að gera vart við sig. Þó dregist hafi saman neysla á reyktóbaki, þá vona ég svo innilega að þeim fjölgi örar sem hætta því. Það drepur mun fleiri en fólk gerir sér grein fyrir.
Sigurlaug B. Gröndal, 15.9.2009 kl. 12:24
Skildi ekki hvernig Michael Jordan tengist Patrick Swayze, en gaman (samt ekkert gaman) að segja að Michael Jordan hefur margoft sést með vindil í kjaftinum.
Annars leiðinlegt hvernig fór fyrir Patrick, mjög góður leikari þar á ferð.
Einar Freyr (IP-tala skráð) 15.9.2009 kl. 14:38
Svakalega svalur,
úr sóti dó sá halur,
nagla saug hann nikótín,
og nú er sorgmædd baugalín.
Þorsteinn Briem, 15.9.2009 kl. 16:06
Það eru engin bein tengsl á milli Patrick Swayze og Michael Jordan önnur en þauð glæsimennskan og hæfileikarnir.
Hvað mig snertir í blogginu var þó það, að ég sá fréttina um Swayze beint í kjölfar þess að hafa verið að dást að Michael Jordan og fékk sams konar minnimáttarkennd við það og þegar ég horfði á Swayze dansa í Dirty dancing, því ég er líklegast einhver lélegasti körfuboltamaður sem uppi hefur verið.
Ómar Ragnarsson, 16.9.2009 kl. 01:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.