Skugga-Sveinn fær ekki að vera í friði.

Marardalur er einn af frábærum náttúrufyrirbærum sem finna má í nágrenni Reykjavíkur. Þetta er grasi gróinn dalur, umluktur bröttum brekkum á alla vegu undir vesturhlíð Hengilsins.

Á einum stað er hægt er ganga upp með litlum læk um hamrahlið inn í dalinn úr suðurátt og opnast hann þá göngufólki á afar áhrifaríkan hátt.

Gönguferð frá Nesjavallavegi suður með dalnum og síðan upp með læknum fyrrnefnda getur verið aldeilis frábær náttúrunautnar- og sagnaferð, því að ímyndunaraflið fær vængi við inngang í svona magnaðan sagnasýningarsal, eins og sérvalinn fyrir töku á vestra.

Sagt er að Matthías Jochumsson hafi haft Marardal í huga sem aðsetur Skugga-Sveins þegar hann skrifaði leikritið Útilegumennina, sem er brautryðjendaverk á Íslandi og fyrirrennari íslenskra leikrta og kvikmynda.

Ég var að vona að Marardalur lægi ekki svo beint við fyrir hugsununarlausasta vélhjóladellufólkið að það færi líka þangað inn til að spæna upp jörðina.

En það er misjafn sauður í mörgu fé, einnig meðal þess fjölmenna hóps, sem hefur yndi af vélhjólum af öllum stærðum og gerðum.

Það særir stolt mitt sem Snigill númer 200 að innan raða vélhjólafólks sé að finna menn sem ég hef sjálfur séð að hafa farið hamförum á ótal gönguleiðum í nágrenni Reykjavíkur, þeirra á meðal leiðinni suður með Henglinum að vestanverðu.

Sumum er ekkert heilagt.

Halldór Blöndal spólar hugsanlegu virkjanlegu afli í Gjástykki úr 30 megavöttum upp í 50 í Morgunblaðsgrein í dag og sér ekkert annað merkilegt eða áhugavert við það svæði.

Umhverfisspillar á hjólum sjá Marardal og gervallt landið aðeins sem æfingasvæði fyrir sig.

Hvorki heimsundrið Gjástykki né Skugga-Sveinn fá að vera í friði.  


mbl.is Ekið utan vega í Marardal
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristján B. Jónasson

Mig undrar að þetta skuli fyrst núna koma í fréttirnar. Torfæruhjól eru búin að vera í yfir áratug að spæna upp Marardal. Norðurhlíðin þar sem brött brekka liggur upp úr dalnum hefur stundum verið nánast eitt flag. Hins vegar bregst ekki að um leið og vélhjólafólk er gagnrýnt, til dæmis fyrir að eyðileggja svæðið í kringum Vífilfell, þá er því haldið fram að þetta sé vegna þess að það "vanti aðstöðu". Nú er búið að koma upp aðstöðu við Draugahlíðar en auðvitað breytir það ekki neinu.

Kristján B. Jónasson, 19.9.2009 kl. 15:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband