11.10.2009 | 21:02
Hin raunverulega neyð.
Stór orð eru notuð um kreppuástandið á Íslandi. Þau verða máttlaus og næstum marklaus þegar ástandið á okkar landi er borið saman við það sem stór hluti mannkyns verður að búa við í þróunarlöndunum og ætlunin er að minna okkur á með HREYSI í Smáralind.
Í þremur ferðum mínum til Eþíópíu og Mosambík blasti við slík neyð og fátækt að orða varð vant.
Efsta myndin sýnir dæmigerðan húsakost í þorpunum í Eþíópíu þar sem meðaltekjur á mann eru 200 sinnum minni en á Íslandi.
Tvær ferðirnar voru farnar um Eþíópíó um svipaðar slóðir til að fá samanburð á milli tveggja ferða.
Á svæði nálægt landamærunm að Sómalíu þora vestrænir menn ekki að vera á ferli vegna hættu af völdum ræningja frá Sómalíu sem herja inn í Eþíópíu.
En ég var þarna á ferð með íslenska trúboðanum Helga Hróbjartssyni, sem nýtur svo fádæma mikillar virðingar, að þótt hann sé kristinn þá er hann nánast í guða tölu meðal múslima.
Hjá þeim eru tignarröðin svona: Allah, Múhammed, Helgi Hróbjartsson.
Og ég var fullvissaður um að svo lengi sem ég væri á ferð með Helga myndu engir stigamenn svo mikið sem hreyfa hár á höfði okkar.
Sem var reyndar ómögulegt hvað mig varðaði.
Leið okkar lá framhjá hræjum af dýrum sem höfðu drepist úr þorsta og hungri í miklum þurrkum sem geysuðu þarna.
Við fórum þessa síðari ferð vegna gjafar frá Akureyringum til fólks í litlu þorpi í El-Kere héraði og fólst í lítilli vélknúinni kornmyllu, sem færir þeim, sem hana hafa, byltingu hvað snertir mölun korns, sem allt líf fólksins þarna snýst um.
Í El-Kere heimsóttum við sömu fjölskyldur og fyrir tveimur og hálfu ári og gengum að grafreitum barna, sem við höfðum heilsað upp á í fyrri ferðinni.
Það var átakanlegt eins og svo margt annað sem þarna blasti við.
Á mynd hér við hliðana sjáum við eina af fjölskyldunum, sem höfðu mist börn síðan ég var þarna síðast, við hliðina á húsakynnum sínum og þar fyrir neðan mynd af einum grafreitnum.
Og samt var fólkið glaðlegt og brosandi.
Í báðum Eþíópíuferðunum flugum við Helgi yfir stóran hluta landsins.
Við blöstu gríðarlegir möguleikar til virkjunar vatnsafls á stórum svæðum.
Það minnti mig á þá staðreynd að í þróunarlöndum heims er óbeisluð hundrað sinnum meiri vatnsorka en nemur allri orku Íslands og að í landi eins og Eþíópíu vegur hver dollar sem kemur inn í landið hundrað sinnum meira, miðað við tekjumismun þjóðanna.
Valið stendur nefnilega ekki á milli jarðvarma- og vatnsaflsvirkjana hér á landi og kolaorkuvera þar heldur á mili sambærilegra virkjana þar og hér.
Ég gerði fréttapistla um þessar ferðir en eitt af þeim verkefnum, sem ég er byrjaður á en á eftir að fullvinna er að gera tvo heimildarþætti fyrir sjónvarpið um þær.
Amnesty reisir hreysi í Smáralind | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
þetta eru hinar raunverulegu hættur sem stafa af óvandaðri umgengni við náttúruöflin og misskiptingu efnahagslegra gæða á okkar plánetu. Það þarf annan hugsunarhátt og vandaðri umgengni í sátt við náttúruna og lífið allt. Virðingu fólks er ofboðið ! við sjáum efnahagshrunið á Íslandi, rætur þess eru ótakmörkuð græðgi og óvirðing við náttúruna ! Snúum við áður enn það verður um seinan !
Vestarr Lúðvíksson, 11.10.2009 kl. 23:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.