12.10.2009 | 11:25
Sérkennileg nafngift.
"Djúpvegur" um Arnkötludal eru fyrstu þrjú orðin í frétt á mbl.is um opnun hins nýja vegar um Arnkötludal.
Ofangreind setning var byrjun á bloggi mínu í morgun þar sem í framhaldinu ályktaði ég sem svo að þessi nafngift væri frá blaðamanni Morgunblaðsins komin.
En síðan náði ég sambandi við Vegagerðina og fékk þær upplýsingar að þetta væri hennar nafngift og að á undan þessari skilgreiningu hefði orðið "Djúpvegur" verið notað um alla leiðina til Ísafjarðar frá Hrútafjarðarbotni.
Hvað um það, ég verð að lýsa mig óssamála þessari nafngift.
Mér finnst einfaldlega rangt að kalla þennan veg "Djúpveg". Vegurinn liggur milli Gautsdals og Geiradals í Reykhólasveit og yfir í Arnkötludal við Steingrímsfjörð.
Hann liggur samsíða veginum um Tröllatunguheiði sem enginn hefur kallað Djúpveg svo ég viti.
Hvorki vegurinn um Tröllatunguheiði né Arnkötludal koma nærri Ísafjarðardjúpi, þótt þeir liggi samsíða innsta hluta þess. Bein loftlína frá veginum um Arnkötludal þvert um hálendið til Ísafjarðardjúps er um 40 kílómetrar, álíka löng og loftlína frá Mosfellsheiðarvegi yfir að Suðurströndinni.
Á myndinni sem birt er á mbl.is er horft til suðvesturs eftir veginumum niður að mynni Gilsfjarðar.
Ef birt hefði verið mynd þar sem horft var í hina áttina hefði sést til norðausturs eftir veginum niður í Steingrímsfjörð.
Alveg eins væri hægt að segja "Suðurstrandarvegur" um Mosfellsheiði eða "Djúpvegur" yfir Gilsfjörð.
Eða "Djúpvegur" yfir Gemlufallsheiði.
Það lengsta sem hægt er að teygja hugtakið "Djúpveg" ef menn endilega vilja færa það hugtak sem víðast út er að hann endi að austanverðu við vegamót vegarins yfir Steingrímsfjarðarheiði í botni Steingrímsfjarðar.
Frá þeim vegamótum að vegamótum hins nýja vegar í Arnkötludal eru 17 kílómetrar.
Frá vegamótum Arnkötludalsvegar í Reykhólasveit að vegamótum Þorskafjarðarheiðarvegar eru 24 kílómetrar.
Lítið þið bara á kort og sjáið þetta sjálf.
Ástæðan sem ég fékk uppgefna hjá Vegagerðinni nú, rétt í þessu, voru þörfin á að aðgreina skilmerkilega tvær mismunandi aðalleiðir til Ísafjarðar. Þannig hafa þeir hjá Vegagerðinni syðri leiðina "Vestfjarðaveg" og nyrðri leiðina Djúpveg, sem áður byrjaðivið vegamótin við Hringveginn í Hrútafirði (!) en byrjar hér eftir við vegamót Vestfjarðavegar og nýjar vegarins um Arnkötludal.
Í þessu er ekki samræmi.
Annað hvort ætti þá Vestfjarðavegur að heita Barðastrandarvegur og Djúpvegurinn nýi að halda sínu nafni, eða, - það sem ég legg til, - hinn nýi Djúpvegur að heita "Vestfjarðavegur nyrðri" svipað og talað er um Fjallabaksvegi syðri og nyrðri.
Ef nafn veganna þarf að miðast við það svæði sem fjærst liggur, væri samræmi í þessu.
Eftir sem áður gætu menn talað líka um að fara um Djúpið eða að fara um Barðaströndina.
Formleg opnun á föstudag | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þetta Djúpvegar-rugl kemur beint frá Vegagerðinni. Mér er málið nokkuð kunnugt!
Hlynur Þór Magnússon (IP-tala skráð) 12.10.2009 kl. 11:46
Fyrir þá sem eru á leið norður Strandir er nafngiftin náttúrulega út í hött.
einsi (IP-tala skráð) 12.10.2009 kl. 11:55
Ég er viss að ég fer um Tröllatungu þegar ég fer norður á Drangsnes og gera það örugglega fleiri.
Heimir Gíslason (IP-tala skráð) 12.10.2009 kl. 12:42
Vegagerðin kallar veginn á milli Akureyrar og Dalvíkur Ólafsfjarðarveg en Dalvíkingar segjast aldrei aka þann veg.
Vegur númer 82, Ólafsfjarðarvegur
Þorsteinn Briem, 12.10.2009 kl. 18:32
22.09.2009: "Nýi vegurinn um Gautsdal í Reykhólasveit yfir í Arnkötludal í Steingrímsfirði verður hluti af Djúpvegi með vegnúmerið 61. Þetta kemur fram Í Framkvæmdafréttum Vegagerðarinnar og á vefnum strandir.is.
Vegur 61, Djúpvegur, hefur hingað til náð úr Hrútafirði, um Strandir og Steingrímsfjarðarheiði, Ísafjarðardjúp og til Bolungarvíkur. Nú mun vegurinn suður Strandir frá Steingrímsfirði í Hrútafjörð fá nýtt númer og heita Hólmavíkurvegur nr. 68."
Djúpvegur númer 61 "lengdur í annan endann"
"Þjóðvegur 61 Djúpvegur: Af Hringvegi vestan Hrútafjarðarár út með Hrútafirði yfir Stikuháls, fyrir Bitrufjörð um Ennisháls, Kollafjörð, inn með Steingrímsfirði, ofan Hólmavíkur, um Staðardal, Steingrímsfjarðarheiði og Lágadal, fyrir Ísafjörð, um Eyrarfjall og Ögur, fyrir Skötufjörð, Hestfjörð og Álftafjörð, um Súðavík, Ísafjörð og Óshlíð, um Aðalstræti og Brimbrjótsgötu í Bolungarvík, að höfn."
Ýmsar vegalengdir - Vestfirðir
Djúpvegur - Kort
Þorsteinn Briem, 12.10.2009 kl. 19:04
Framkvæmdafréttir Vegagerðarinnar 17. tbl. 2009, sjá kort á bls. 5
Þorsteinn Briem, 12.10.2009 kl. 19:27
Það er meira en umhugsunar og umræðu virði að fjalla um örnefnanotkun Vegagerðarinnar. Þeim háu herrum hefur til þessa liðist að gefa svæðum, ám og lækjum, fjöllum og fellum nöfn, sem eru algjörlega úr takti við það sem fólk hefur notað um aldir. Nefni t.d. Reitgilið í Giljareit ("Öxnadalsheiði") sem á skilti þar heitir Reiðgil. Giljareiturinn er hinsvegar ekki Öxnadalsheiði, þeir sem þarna eru kunnugastir fullyrða að það heiti eigi eingöngu við hálsinn ofan við Bakkasel, vestur að Grjótá, sem var á sýslumörkum meðan sýslur voru til. Svona má lengi áfram halda, en verkfræðingum Vegagerðarinn kemur það ekki nokkurn skapaðan hlut við, þótt örnefni séu flutt til, afbökuð og rangfærð. Þeirra er mátturinn og dýrðin. - Varðandi Djúpveg, þá man ég eftir að það var umferðarslys eða óhapp á veginum í vestanverðum Hrútafirði. Þetta var nærri verslunarmannahelginni svokölluðu, þegar hysterían er sem mest hjá fjölmiðlafólki sem hefur talið sér og öðrum trú um að öll þjóðvegaumferð eigi sér stað þá einu helgi. Jæja, þegar fjölmiðlar fóru að segja frá, einkum ljósvakamiðlarnir svokölluðu, hét þetta að slysið hefði orðið á Djúpvegi, skammt frá Ísafirði. Ekki var nú landafræðiþekkingin meiri en þetta, en eftir þessum blessaða Djúpvegi voru ansi margir kílómetrar til Ísafjarðar, eða líklega um það bil 4ra klst. akstur miðað við löglegan hraða.
Rosabaugur (IP-tala skráð) 13.10.2009 kl. 20:37
"Eimskip hefur ákveðið að lækka verðskrá sína fyrir flutninga til og frá Vestfjörðum um 8% í tilefni af því, að nýr og endurbættur vegur um Arnkötludal á milli Steingrímsfjarðar og Króksfjarðar verður formlega tekinn í notkun á morgun."
Eimskip lækkar verðskrá á Vestfjörðum
Þorsteinn Briem, 13.10.2009 kl. 20:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.