Hrunið - Stalíngrad - Demyansk.

Ég hef sem dellukarl í öllu sem snertir Seinni heimsstyrjöldina verið að horfa á ágætar og lærdómsríkar heimildarmyndir á YouTube um hershöf'ðingja Hitlers. 

Í myndunum eru notuð síðustu tækifærin sem gefast til að ræða við aldraða afkomendur hershöfðingjanna og menn sem voru í innsta hring herjanna sem börðust til þess að varpa nýju og betra ljósi á þá og það sem gerðist. 

Margt í þessum myndum minnir á íslenska Hrunið og "hernaðinn gegn landinu" sem Laxness skrifaði svo frábæra blaðagrein um. 

Flestir hershöfðingjar Hitlers litu niður á "austurríska liðþjálfann" sem taldi sig standa jafnfætis þeim þrautreyndu og lærðu hernaðarsnillingum sem herhöfðingjarnir voru flestir.

En þeir urðu að beygja sig undir ægivald hans og verða leiksoppar þess hvernig hann notaði það til að ítrasta hvað þeir voru metnaðargjarnir og skylduræknir. Hann spilaði á það að setja þá í ónáð' á víxl, einn og einn, ef þeir mökkuðu ekki rétt, en ónáð eins þýddi að annar var í leiðinni hækkaður í tign.  

Þetta þrennt, metnaðargirni, skyldurækni og blind hlýðni getur verið baneitruð blanda og reyndist það í hernaði Þriðja ríkisins.  

Hernaður Þjóðverja varð "Hrun" eftir að þýski herinn hafði farið einstæðar sigurfarir í útrás, líkt og íslenska "Útrásin"

Leiftursóknin um Ardennafjöll í maí 1940 var fífldjarft en snillarlegt herbragð Von Mansteins sem byggðist á "element of surprise", að koma á óvart og nýta sér að því leyti fáfræði óvinarins um það sem var að gerast. 

Þetta var hliðstætt því hvernig bankabólan byggðist á því að þjóðin uggði ekki að sér eða því hvernig virkjana- og stóriðjuæðið byggist á því að þjóðin viti sem minnst um allar hliðar þess máls, einkum þá sem snýr að náttúruverðmætunum sem fórnað er.  

Á ferðum mínum síðasta áratug hef ég talað við marga ágætismenn, sem sögðu mér frá því trúnaði að þeir gerðu sér vel grein fyrir eðli þeirra framkvæmda sem þeir voru þátttakendur í en þeir "væru bara að vinna vinnuna sína, nýta menntun sína og hæfileika". 

Hershöfðingjar Hitlers hlutu margir átakanleg örlög. Hitler lét drepa Rommel og átakanleg voru líka örlög Von Paulusar sem þorði ekki að óhlýðnast Hitler og bjarga 6. hernum út úr herkvínni í Stalíngrad meðan það var enn hægtt, heldur héldu hann og hans menn í nýjar og nýjar gyllivonir og loforð um hjálp að utan. 

Minnir það ekki svolítið á það hvernig okkur Íslendingum sýndist inngripið frá Quatar og fleiri aðgerðir rétt fyrir Hrunið vera hjálp að utan sem gæti bjargað málum?

Gyllivon Von Paulusar byggðist á því að Þjóðverjum hafði tekist að halda uppi 110 þúsund manna innilokuðum her í fjóra mánuði fyrr á árinu við Demyansk milli Moskvu og Pétursborgar á ævintýralegan hátt og bjarga honum síðan úr herkvínni. 

Í staðinn innsiglaði Von Paulus dauða nær allra þeirra 300 þúsund hermanna sem voru í 6. hernum.

Rommel, Guderian, Manstein og fleiri sáu að leikurinn var tapaður vorið 1943 en samt þjónuðu þeir Hitler af fremsta megni eins lengi og þeir mögulega gátu, - þorðu ekki að rugga bátnum fremur en íslenskir ráðamenn síðasta hálfa árið fyrir íslenska Hrunið.  

Fræðimönnum ber saman um Þjóðverjar hefðu getað komist mun betur út úr hildarleiknum ef þeir hefðu komist hjá afdrifaríkum mistökum Hitlers eða óhlýðnast honum.

Íslendingar hefðu líktast til líka geta komist betur af ef brugðist hefði verið fyrr við því tryllta æði á fjármálasviðinu sem við súpum nú seyðið af.  

 

 

 


mbl.is Málin að komast á lokastig
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sævar Helgason

Og nú bíðum við eftir okkar "Nurnberg " - þó með mildari útfærslu-væntanlega.

Uppgjörið eftir Hrunið verður að fara fram - svo Ísland verði endurreist.

Sævar Helgason, 14.10.2009 kl. 10:46

2 identicon

Guderian var nú ágætur "framkvæmdastjóri" í sókninni um Ardennafjöll, enda var þar, líkt og í Noregsinnrás skömmu fyrr teflt mjög djarft.

En "skákin" þoldi ekki of langan tíma. Og þótt að herfang og svæði þriðja ríkisins væri gífurlegt, þá var það ekki nóg...

Það klikkuðu líka nokkrir "leikir" eða kannski heldur spár, því að ekki vildu Bretar hætta 1940, og ekki tókst heldur að ofna Miðjarðarhaf fyrir sjóflutning, þess vegna að hjarta þess svæðis sem barist var um sem harðast allar götur til 1944. Og þó að loftbrúin frá Demyansk héldi, þá var Stalingrad of mikið þegar N-Afríka bættist ofaná, - ekkisens Bretar aftur að verki!

Er það ekki hið eina sem við lærum af sögunni, að við lærum EKKI af sögunni?

p.s. Ég hitti einn af hinum gömlu stríðsmönnum, Gen.Lt Gunther Rall á heimili hans núna um miðjan September. Hann lést svo þann 4 október. Skal senda þér nokkra punkta frá kallinum.

Kv.

Jón Logi

Jón Logi (IP-tala skráð) 14.10.2009 kl. 11:22

3 Smámynd: Brynjar Hólm Bjarnason

Eins og Þjóðverjar, sem ekki tóku þátt í stríðinu, en voru leiksoppur heima þurftu að borga stríðsskaðabæturnar, þurfum við íslendingar lika að borga herkostnaðinn af þeim glæfraferðum sem farnar voru í nafni gróða og auðsöfnunar.

Brynjar Hólm Bjarnason, 14.10.2009 kl. 12:59

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Herinn í Stalingrad var næstum þrefalt stærri en herinn í Demyansk og lofther Rússa orðinn öflugri.

Listi yfir mistök Hitlers, sem voru sem betur fer nógu mörg:

1. Stöðvaði Guderian í tvo dýrmæta sólarhringa eftir Ardennasóknina. Fannst hann vera með stöðu kattarins gegn músinni og þyrfti ekki að ganga frá henni strax heldur ætti möguleika á að bjóða Bretum bandalag.

2. Réðist ekki strax inn í Bretland heldur gældi við þá draumsýn að Bretar héldu heimsveldi sínu samhliða bandalagi við Þjóðverja sem færði þeim líka heimsveldi.

Ómar Ragnarsson, 14.10.2009 kl. 13:00

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég fór óvart út úr athugasemdinni hér á undan en hér er framhaldið af axarsköftum Hitlers og Mussolinis:

3. Beindi loftárásum frá flugvöllum og ratsjárstöðvum að borgum Englands síðari hluta Orrustunnar um Bretland.

4. Reitti Mussolini til reiði með því að hafa hann ekki með í ráðum svo að Mussolini hefndi fyrir það með því algerlega misheppnaða uppátæki að að ráðast á Grikki án samráðs við Hitler.

5. Hélt sig ekki við áætlunina Barbarossa um innrás í Sovétríkin 15.maí 1941 heldur seinkaði henni um fimm vikur til að refsa Júgóslövum og hjálpa Ítölum.

6. Lét SS-sveitirnar koma í kjölfar herjanna í innrásinni í Sovétríkin og breytti þannig vinsamlegu viðmóti Úkraínumanna í hatur.

7. Tók ekki Moskvu, hjarta og miðpunkt als Sovétkerfinsins strax, heldur sóaði fimm vikum í herför (að vísu glæsilega) suður til Úkraínu og gerði Pétursborg að takmarki ásamt Moskvu.

8. Hrakti úr landi marga af bestu vísindamönnum Þjóðverja, sem margir voru af Gyðingaættum,og eyðilagði þannig möguleikana á að koma sér upp kjarnorkuvopnum.

Síðari hluta stríðsins, þegar það var hvort eð er tapað, hélt hann áfram að gera mistök:

9. Leyfði Paulusi ekki að hörfa með 6. herinn í tíma til baka frá Stalíngrad.

10. Var heltekinn af þeirri meinloku að Messerschmitt 262 þotan ætti að verða sprengjuþota í stað þess að nota þessa langbestu yfirburðaorrustuvél stríðsins sem "interceptor" gegn sprengjuflugvélum Bandamanna og fylgdarvélum þeirra og setja framleiðslu 262 í forgang í stað þróunar flugskeyta sem litlu breyttu.

Guði sé lof að "austurríski liðþjálfinn" ofmat getu sína og gróf sér eigin gröf.

Ómar Ragnarsson, 14.10.2009 kl. 13:17

6 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Þú þreytist seint á að læða áróðri gegn því að nýta orku landsins, eins og í þessum annars ágæta pistli þínum um Seinni heimstyrjöldina. En stundum finnst mér þú leggjast ansi lágt í viðleitni þinni til að "vernda landið". 

Það er voðalega þægilegt þegar vitnað er í annað fólk máli sínu til stuðnings, að viðkomandi hafi sagt sér eitthvað í trúnaði. Með þessa taktik að leiðarljósi er hægt að segja hvað sem er og aldrei verður hægt að rukka ÞIG um áræðanleika frásagnarinnar. En fullyrðingin stendur keik og kinnroðalaus, meitluð í steininn.

"Á ferðum mínum síðasta áratug hef ég talað við marga ágætismenn, sem sögðu mér frá því trúnaði að þeir gerðu sér vel grein fyrir eðli þeirra framkvæmda sem þeir voru þátttakendur í en þeir "væru bara að vinna vinnuna sína, nýta menntun sína og hæfileika".  (Undirstrikun mín)

Gunnar Th. Gunnarsson, 14.10.2009 kl. 13:20

7 identicon

Takk fyrir fróðlegan pistil, hef sjálfur mikinn áhuga á þessu tímabili og atburðum. Áhugaverðasti vinkillinn á Seinni heimsstyrjöldinni fyrir mína parta er þó fjármögnun vígvæðingar Nasista og aðkoma frægra iðnjöfra og alþjóðlegra bankamanna með fjárstuðningi og lánafyrigreiðslu til þeirra, margir sem græddu vel á öllu saman án þess að hlut þeirra og smán hafi verið haldið á lofti sem skyldi. Ford, Rockefeller, Do Point, Prescott Bush og svo mætti lengi telja upp siðlausa skúrka sem mötuðu krókin öll stríðsárin og styrktu veldi sín purkunarlaust án alvarlegra eftirmála, Bush var að vísu ákærður, (trading with the enemy act), en slapp nokkuð vel.

Inside Bilderberg (IP-tala skráð) 14.10.2009 kl. 13:47

8 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ríkir gyðingar fjármögnuðu stríðsvél Hitlers að 3/4

Gunnar Th. Gunnarsson, 14.10.2009 kl. 14:01

9 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Viðkomandi sögðu mér þetta í trúnaði af ótta við að missa vinnuna. Ástandinu, sem ríkti á þeim tíma sem þetta gerðist, kynntist nógu stór hluti þjóðarinnar til að vita, að svona var þetta.

Ómar Ragnarsson, 14.10.2009 kl. 14:12

10 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Lítið dæmi: Í meira en hálfa öld voru öxlarnir á rússnesku UAZ-jeppunum hinnar sömu gerðar og Henry Ford lét þeim í té á fjórða áratug síðustu aldar.

Í Fyrri heimsstyrjöldinni fjármögnuðu auðjöfrar stóran hluta stríðsreksturinn á víxl handan víglínunnar.

Úr nútímanum höfum við dæmi um að hinir hlutlausu og friðelskandi Svíar hafi grætt á því að selja hergögn til stríðandi fylkinga.

Ómar Ragnarsson, 14.10.2009 kl. 14:17

11 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Peningar hafa ekki landamæri og enga skoðun

Gunnar Th. Gunnarsson, 14.10.2009 kl. 14:33

12 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

10-20% þjóðarinnar eru á sömu skoðun og þú hvað þetta varðar, Ómar. Þau munu öll vitna með þér og eflaust segja þér eitthvað í trúnaði.

Gunnar Th. Gunnarsson, 14.10.2009 kl. 14:36

13 identicon

Ómar:

"2. Réðist ekki strax inn í Bretland heldur gældi við þá draumsýn að Bretar héldu heimsveldi sínu samhliða bandalagi við Þjóðverja sem færði þeim líka heimsveldi."

Hann var nú ekki alveg klár að skoppa yfir sundið beint á hælana á þeim. Og svo var draumsýnin kannski ekki alvitlaus. Í sínu "appeal to reason" hefði hann kannski átt að bjóða bolabítnum eitthvert bein. T.d. endurlausn Frakklands og Niðurlanda í áföngum.....gegn t.d. afléttingu á hafnbanni og ceise-fire...???

"5. Hélt sig ekki við áætlunina Barbarossa um innrás í Sovétríkin 15.maí 1941 heldur seinkaði henni um fimm vikur til að refsa Júgóslövum og hjálpa Ítölum."

Þetta er umdeilt atriði, þar sem það var enn illfært á norðurslóð og margt vanbúið í maí. En að byrja að sunnanverðu hefði kannski verið vinkill á þetta.

" 6. Lét SS-sveitirnar koma í kjölfar herjanna í innrásinni í Sovétríkin og breytti þannig vinsamlegu viðmóti Úkraínumanna í hatur."

Mikið rétt, "Einsatzgruppen" urðu nú ekki til mikilla vinsælda. Og ekki heldur heildarplanið, "Kesselschacht", sem miðaði að því að umkringja og EYÐA rauða hernum frekar en að sigra hann. Sama og í Póllandi, "Einsatzgruppen" hófu störf á fyrsta degi og gengu fram af þvílíkum djöfulskap að yfirmanni þýsku leyniþjónustunnar var misboðið, og snerist hann gegn Hitler fyrir vikið!

"7. Tók ekki Moskvu, hjarta og miðpunkt als Sovétkerfinsins strax, heldur sóaði fimm vikum í herför (að vísu glæsilega) suður til Úkraínu og gerði Pétursborg að takmarki ásamt Moskvu."

Sammála. Fyrir það fyrsta, þá hefði Moskva líklega fallið, og þegar höfuðborg fellur er ballið venjulega búið. Ef svo hefði ekki verið, þá eru suðurlendur Rússlands og Úkraínu allt upp í mánuði seinni inn í veturinn, þannig að með Moskvu að baki hefði ekki allt verið frosið fast enn. Og nógu nálægt Moskvu voru þjóðverjar vissulega þrátt fyrir allt klúðrið.

"9. Leyfði Paulusi ekki að hörfa með 6. herinn í tíma til baka frá Stalíngrad." 

Og tryggði þannig eyðingu heils hers, og mun hraðari breytingar á framlínunni.

"10. Var heltekinn af þeirri meinloku að Messerschmitt 262 þotan ætti að verða sprengjuþota í stað þess að nota þessa langbestu yfirburðaorrustuvél stríðsins sem "interceptor" gegn sprengjuflugvélum Bandamanna og fylgdarvélum þeirra og setja framleiðslu 262 í forgang í stað þróunar flugskeyta sem litlu breyttu."

 Þetta er umdeilt, því það voru ferleg vandræði með hreyflana, og voru enn í stríðslok. Sumir ganga það langt að  fullyrða að þetta hafi einfaldlega verið hálmstrá sem afsökun syrir seinkun. Og góð sem slík.

Flugskeytabullið tók svo gífurlegan framleiðslupart til sín og skiluðu litlu.

Það má bæta við einu...

* Samdi ekki við Franko um að fá Gíbraltar í Þýskar hendur. Franko vildi semja, en var með svo fáránlegar kröfur að ekki var hægt að standa við þær til frambúðar. En hey! Hitler sveik nú svo marga samninga.......munar svo um einn enn???

Þetta hefði opnað fyrir hann inn á Miðjarðarhaf, og lokað Breta þar inni, birgðarflutningalausa með öllu, jafnframt því að opna fyrir sjóleiðina inn á Svartahaf þar sem hægt er að komast í dauðafæri við aðalauðlindir Sovésku stríðsvélarinnar. ATH að slagurinn um Stalingrad snerist að hluta um að loka fyrir vatnaleiðina til norðurs.

En sem betur fer gerði þessi skeggjaði stubbur fullt af vitleysum.

Jón Logi (IP-tala skráð) 14.10.2009 kl. 14:56

14 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Góðar athugasemdir, Jón Logi, einkum hvað varðar Gíbraltar.

Með því að ná syðri hluta Volgu var hægt að trufla verulega birgðaflutninga Bandaríkjamanna um Persíu.

Ég nefni ekki eitt atriði, sem Hitler var raunar ekki fullkunnugt um, en það var möguleikinn á að taka Ísland í september 1940 og halda því með því að tryggja tafarlaus yfirráð í lofti yfir landinu.

Og enn einn möguleikinn, sem menn hafa nefnt og rætt um:

Meginhluti þýska hersins og nær allar brynsveitir hans brunuðu í austurátt í september 1939. Til eru fræðimenn sem benda á að Bandamenn höfðu enga áætlun tilbúna um að ráðast úr vestri inn í Þýskaland heldur höfðu miðað allt við að verjast.

Bandamenn skorti stórar sprengjuflugvélar vegna þess að í friðþægingarskyni höfðu þeir ekki framleitt þær þá, heldur aðeins flugvélar til varnar.

Ef Hitler hefði látið hersveitir sínar bruna áfram í austurátt 1939 átti hann mikla möguleika á góðu gengi vegna þess að Rauði herinn var lamaður vegna hreinsana Stalíns og fjöldaframleiðsla á úrslitavopninu, T-34 skriðdrekanum og fleiri vígvélum var ekki hafin.

Fresturinn frá ágúst 1939 til júníloka 1941 kom sér miklu betur fyrir Sovétmenn en Þjóðverja.

Ómar Ragnarsson, 14.10.2009 kl. 15:27

15 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Frankó spilaði hárrétt úr sínum spilum. Gætti þess að láta vinsamlega við Hitler og þykjast vilja semja við hann en gætti þess líka að setja nógu erfið skilyrði til þess að ekki næðustu samningar.

Frankó hélt dyrunum opnum fyrir því að land hans færi sem skást út úr ófriðnum, hvort sem Þjóðverjar eða Bandamenn ynnu, enda hélt hann völdum í fjóra áratugi allt til dauðadags eftir fundinn með Hitler.  

Ómar Ragnarsson, 14.10.2009 kl. 15:48

16 identicon

Já Franco kallinn reyndist Hitler erfiður ljár í þúfu og setti fram einhverjar fáheyrðar kröfur, - annaðhvort með alvöru í huga, eða til þess að ekkert yrði úr samningum. Og Hitler fór því fýluferð og var fúll, - orðaði það sem svo að heldur vildi hann láta draga úr sér jaxl heldur en að eiga annan fund með Franco. En þarna tók Franco líka smá sjéns, því Hitler hefði getað samið, - og svikið svo. Það má nefna að Hitler þurfti á samstarfi við Franco að halda út af liðsflutningum landmegin, - ekki síst vegna þess að Spánverjar voru með aðra sporvídd á járnbrautum en Þjóðverjar. Sama var uppi á teningnum í Rússlandi.

En hvað um það, hann var í viðræðum út af Gíbraltar út af einmitt þessum möguleika, - að þjarma að Bretum á Miðjarðarhafi og opna Svartahafsleiðina. En þar sem kallinn var nú frekar mikill landkrabbi, þá skildi hann e.t.v. ekki hveru mikilvægt þetta hefði getað orðið. Þjóðverjar hefðu núllað út Breska miðjarðarhafsflotann og svipt þá öllum möguleika til að halda nýlendum sínum styrktum í N-Afríku. Og Tyrkir, þótt hlutlausir væru, voru Þjóðverjum frekar hliðhollir, - nauðsynlegt til að komast um Bosphorus. Orrustan mikla um Gallipoli snerist nú einmitt bara um þetta atriði, - flutningsleiðina inn á Svartahaf. Og hvað hefðu Tyrkir svo sem sagt með Þjóðverja allt í kring um sig og óvininn (USSR) að aftan?

 Og fresturinn góði,  - hann geta því Sovétmenn þakkað þrjóskunni í Bretum. Hún kom svo m.a. að hluta til út af algeru vantrausti á Þjóðverjum vegna samningssvika þeirra, glæpaverkum þeirra í Póllandi og víðar, og svo svona penu ofmati á sinni eigin Bresku getu....

Sovétmenn fengu ekki bara frest, heldur bandamann sem njörvaði niður hellíngs lið á mörg þúsund kílómetra línum, og svo má ekki meta þann skaða sem Þjóðverjar urðu fyrir af hendi Breta frá Júní 1940 til 1941, - Þarna er flugvélatjónið eitt  ekki langt frá öllum þeim flugvélastyrk sem notaður var í Barbarossa, og svo annað eins bundið á vesturslóð. Svo varð ofansjávar-floti þeirra að mestu að vera í felum og nýttist því ekki.

Veit ekki hvort þú ert sammála, en ég leyfi mér að taka undir þá kenningu að ef að Bretar hefðu samið við Þjóðverja 1940 (td. aflétting hafnbanns og opnun á Miðjarðarhaf gegn lausn V-Evrópsku ríkjanna að mestu og/eða í áföngum), þá hefðu Sovétríkin heyrt sögunni til rúmu ári síðar.

Annað Barbarossa, sem hefði hafist að sunnan hugsanlega, og með mun sterkari sókn, tvöföldum flugflota, styrk af sjóflutningum, styrk af birgðum frá USA (Þjóðverjar máttu versla þar til 1941, gátu bara lítið sótt) , það hefði hafist fyrr, kannski í Mars, og norðursvæðið, sem ófært er þar snemma vors vegna þíðu hefði strax einangrast og verið svelt af birgðum.

En, svo fór ekki. Gaman að heyra álit á því þó.

Jón Logi (IP-tala skráð) 14.10.2009 kl. 16:37

17 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það hefur komið fram að nokkrir áhrifamenn Breta voru ekki fráhverfir því að leita samninga við Hitler, sem lýsti því yfir þegar hann talaði um að "höfða til skynseminnar", að Þjóðverjar myndu "tortíma þeim sem myndu vilja brjóta niður breska heimsveldið."

En sem betur fór réði ferðinni sú aldagamla og ófrávíkjanlega utanríkisstefna Breta að koma í veg fyrir að nokkurt eitt stórveldi yrði of öflugt á meginlandinu. 

Þessi stefna var svo rótföst, ekki hvað síst hjá heimsveldismanni eins og Churchill, að ég held að fráhvarf frá henni hafi aldrei komið raunverulega til greina. 

Auk þess var Hitler búinn að svíkja þá samninga sem hann hafði gert við Breta og niðurlægja þá með því. 

Ómar Ragnarsson, 14.10.2009 kl. 18:28

18 identicon

Smá leiðrétting varðandi Rommel.  Hitler lét ekki drepa hann.

Þegar upp komst að Rommel hafði ekki verið fráhverfur stuðningi við samsærismennina

20 júlí 1944, Þá setti Hitler Rommel þá afarkosti að annaðhvort yrði réttað yfir honum

sem landráðamanni og með tilheyrandi niðurlægingu og jafnvel fangelsun fjölskyldu hans.  Eða hann fremdi sjálfsmorð sem Rommel og gerði til að bjarga fjölskyldu sinni.

Egill Þorfinnsson (IP-tala skráð) 14.10.2009 kl. 20:39

19 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Svokölluð "réttarhöld" yfir Valkyrjumönnum og vitorðsmönnum með tilheyrandi pyndingum og kvalafullum aftökum gátu ekki gefið Rommel von um að tekið yrði á neinum silkihönskum á honum fremur en öðrum.

Rommel átti í raun ekki um neitt að velja, þetta jafngilti auðvitað dauðadómi yfir honum.

Af klókindum gaf Hitler honum kost á sjálfsmorði sem olli minni skaða hjá báðum aðilum.

Ég stend því við það sem ég segi: "Hitler lét drepa Rommel" og kom því svo fyrir að Rommel ynni verkið sjálfur.

Ómar Ragnarsson, 14.10.2009 kl. 22:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband