23.10.2009 | 01:11
Hættu við sitt LSD.
Við hjónin, Helga og ég höfum farið margar ferðir um gervallan Noreg vegna gerðar myndanna "Á meðan land byggist" og "In memoriam?"
Geirangursfjörður var toppurinn í þessum ferðum.
Það er einkum í myndinni "In memoriam" sem afrakstur þessara ferðalaga sést.
Ég varð fyrir áfalli eftir fyrstu ferðirnar þangað og til Ameríku á þjóðgarða- og virkjanaslóðir þegar ég áttaði mig á því að hér á landi voru umræðan og athafnirnar á svipuðu stigi og í Noregi fyrir aldarfjórðungi og í Ameríku fyrir 40-50 árum.
Það var ekki fyrr en í áttundu ferðinni sem ég komst að því að á sínum tíma voru Norðmenn með tilbúna hliðstæða áætlun og hin svonefnda LSD-áætlun Íslendinga, (skammstöfun fyrir "Lang-Stærsti-Draumurinn)
Eins og á Íslandi byggðust áformin á því að tengja saman öll vatnsföll á norska hálendinu og steypa þeim niður á einum eða tveimur stöðum í fallgöngum úr meira en 1000 metra fallhæð niður að sjó.
Ekkert varð af þessu og síðan hafa Norðmenn skammast sín fyrir þessa hugmynd og er hvergi minnst á hana. Ég rakst þó fyrir tilviljun í smáa letrinu í bók sem ég keypti í þessari ferð minni.
Með þessu björguðu Norðmenn ótal fossum í ám sem falla ofan af hálendinu og létu sér nægja nokkrar virkjanir sem komnar voru en skiluðu aðeins broti af því afli sem stóra LSD-risavirkjunin með öllum sínum stíflum og göngum átti að skila.
Við fundum þrjár slíkar virkjanir á ferðum um Jötunheima og Harðangursheiðarhálendið, í Tyssedal, Sysevirkjun og eina litla í Jötunheimum.
Fyrir bragðið er álíka mikið óvirkjað af vatnsafli að magni til í Noregi og á Íslandi.
Fyrir 20 árum voru uppi áform um að virkja lítið vatn í nágrenni við Jóstedalsjökul, sem þó sást ekki frá jöklinum og jökullinn ekki frá vatninu. Aðeins stóð til að stækka vatnið en ekki að búa til nýtt vatn.
Fallhæðin hefði orðið 1200 metra og þetta því "dýrmætustu vatnsdropar á Norðurlöndum" eins og Jakob Björnsson hefði orðað það.
Hætt var við þetta vegna þess skaða sem þetta hefði á ímynd Jóstedalsjökuls, stærsta jökuls á meginlandi Evrópu. Er hann þó aðeins 5% af stærð Vatnajökuls.
Um þetta er fjallað í myndinni "In memoriam?".
Hér á landi fóru menn hins vegar létt með að framkvæma 2/3 af LSD-áætluninni og búa til stórt vatn þar sem ekkert vatn var áður og sker öræfin norðan Vatnajökuls í tvennt.
Er þá sleppt að nefna öll hin gríðarlegu óafturkræfu umhverfisspjöll Kárahnjúkavirkjunar sem eiga sér enga hliðstæðu í Evrópu.
Hringferð um Jóstedalsjökul er lærdómsrík fyrir Íslending. Þar má sjá hvernig ná má sátt milli allra sem hlut eiga að máli ef þekking á náttúruverðmætunum og þeim möguleikum sem þau gefa, og lagni í mannlegum samskiptum er í fyrrirúmi.
Ég hef enn ekki hitt neina aðra Íslendinga en okkur hjónin, sem hafa haft fyrir því að fara á þessar slóðir til að læra af reynslu Norðmanna.
Í þessum efnum virðist stundun gilda svipað og hjá Viðskiptaráði þegar það fullyrti í "gróðærinu" að til Norðurlandanna hefðum við ekkert að sækja, - við stæðum svo langt framar þeim.
Norsku firðirnir og hinn eldvirki hluti Íslands eru einu svæðin í Evrópu sem komast á lista yfir 40 merkilegustu náttúrverðmæti heims.
Íslensku firðirnir eru ekki á listanum og heldur ekki norska hálendið. Samt hafa Norðmenn ákveðið að láta hálendi sitt í friði.
Norsku firðirnir besti áfangastaðurinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þú talar eins og að ALLIR Norðmenn séu sama sinnis og ÞÚ.
Það er ekki rétt hjá þér. Ég hef talað við Norðmenn sem skammast sín fyrir að öfgakenndar skoðanir náttúruverndarsinna skuli ráða svona miklu í Noregi.
Gunnar Th. Gunnarsson, 23.10.2009 kl. 01:56
Ef Norðmenn hefðu ekki olíuna, væri ekki hlustað á háværar raddir öfgasinnana
Gunnar Th. Gunnarsson, 23.10.2009 kl. 01:59
Ég hef nú búið í Noregi, farið á Josterdalsbreen, ferðast mikið um sognfjörð, búið þar, skoðað Geirangursfjörðinn eins og flet á þessu svæði, á systur og móður þarna og fjögur yndisleg systurbörn. Ég get tekið heilshugar undir að þessi náttúrumeðvitnund er ríkjandi þarna, enda er ferðamennska einn af stæstu tekjupóstum landsins.Maður systur minnar og fjölskylda hans eiga stórt og fallegt hótel í Balestrand og ég þekki viðhorfin í þeim bransa.
Þetta er því alger fyrirsláttur og ósannindi hjá Gunnari, hérna að ofan. Það veit ég að eigin raun.
Jón Steinar Ragnarsson, 23.10.2009 kl. 02:12
Nú! Þú fullyrðir það semsagt að náttúruverndarsjónarmið séu óumdeild í Noregi?
Gunnar Th. Gunnarsson, 23.10.2009 kl. 02:19
Nei, Gunnar. Það er ekkert óumdeilt í þessum heimi. Það þarf ekki nema einn til gegn fjöldanum, að það verði staðreynd. Ég tek hinsvegar fyllilega undir orð Ómars hér og þótt þú þykist hafa hitt einhverja norðmenn, sem eru annars sinnis, þá get ég fullyrt það að það álit er sjaldgæft. Ég hef raunar aldrei rekist á það.
Jón Steinar Ragnarsson, 23.10.2009 kl. 02:30
Gunnar
Leiðrétting nr.1: Ómar talar aldrei um að allir Norðmenn séu sama sinnis og hann.
Leiðrétting nr.2: Jón Steinar fullyrðir hvergi að náttúruverndarsjónarmið séu óumdeild í Noregi.
Leiðrétting nr.3: Það að þú hafir talað við Norðmenn sem eru sammála þér þarf ekki að vera þínar skoðanir séu ríkjandi í Noregi.
Leiðrétting nr.4: Hver er þín skilgreining á Öfgasinna? Getur verið að þín skilgreining á öfgasinna sé einhver sem hefur ólíkar skoðanir og þú sjálfur?
Skv. íslenskri orðabók eru Öfgar: 1 ýkjur, of sterkt orðalag um e-ð. 2 það stærsta, mesta sem til greina kemur (oft fjarstætt og í rauninni óhugsandi)
Sé ekki betur en skilningur þinn á orðum Ómars og Gunnar sé hinsvegar öfgakenndur. Þú ýkir og afbakar málflutning þeirra - málar hann verstu mögulegu litum.
Skammastu þín!
Kristinn (IP-tala skráð) 23.10.2009 kl. 02:43
Ég tek undir með Ómari og Jóni Steinari. ég hef búið í noregi árum saman og er fluttur þangað aftur eftir smá hlé.. norðmenn almennt eru mjög umhverfissinnaðir þótt finna megi norðmenn sem ekki eru þannig þenkjandi. hér gengur umræðan ekki út á hvernig má kreista fleiri kw út úr náttúrunni heldur hvernig geta norðmenn dregið úr orkunotkuninni svo ekki þurfi að ganga frekar á náttúruna.
Ég er sannfærður um að ef noregur yrði var við orkuskort þá mundu þeir samt ekki virkja sína fossa og fallvötn heldur fara að dæmi dana og virkja vindinn.. og þeir mundu heldur ekki fara út í að nýta sitt gas til þess að framleiða orku nema sem síðasta hálmstrá.
Óskar Þorkelsson, 23.10.2009 kl. 07:20
Við Íslendingar höfum nú næstum jafn miklar tekjur af ferðaþjónustu og áli og kísiljárni, um 150 milljarða króna í ár, og skammt er í að ferðaþjónustan skapi hér mestu gjaldeyrisstekjurnar.
Flutt var út ál og kísiljárn fyrir um 114 milljarða króna fyrstu átta mánuðina í ár. (Sjá vef Hagstofu Íslands.) Útflutningsverðmæti áls og kísiljárns verður því trúlega um 170 milljarðar króna í ár.
Fluttar voru út sjávarafurðir fyrir um 133 milljarðar króna fyrstu átta mánuðina í ár og útflutningsverðmæti þeirra gæti því orðið um 200 milljarðar króna í ár, um 10% meira en í fyrra.
Verðmæti alls útflutnings fyrstu átta mánuðina í ár var 298 milljarðar króna, þannig að heildarverðmætið gæti orðið um 447 milljarðar króna í ár. Gjaldeyristekjur af útflutningi og ferðaþjónustu gætu því orðið alls um 600 milljarðar króna á þessu ári, um tvær milljónir króna á hvern Íslending.
"Árið 2009 er fyrir fjöldamörg fyrirtæki í ferðaþjónustu eitt besta rekstrarár í langan tíma og má gera ráð fyrir að erlendir ferðamenn komi með u.þ.b. 150 milljarða króna í erlendum gjaldeyri inn í landið – en það gera u.þ.b. 400 milljónir á dag að meðaltali."
Ferðaþjónustan: 150 milljarðar króna í erlendum gjaldeyri á þessu ári, 2009
Í fyrra, árið 2008, nam verðmæti útflutningsframleiðslu sjávarafurða 181 milljarði króna og verðmætið jókst um 42,3% frá árinu 2007.
Af heildarútflutningi sjávarafurða fóru í fyrra 79% til Evrópska efnahagssvæðisins, 5,6% til Asíu og 3,4% til Norður-Ameríku.
Útflutningur sjávarafurða 2008
Um 183 krónur fást nú fyrir evruna og 122 krónur fyrir bandaríkjadal, tvöfalt meira en í árslok 2007, en þá fékkst 91 króna fyrir evruna og 62 krónur fyrir bandaríkjadal.
Eigendur erlendrar stóriðju greiða því hér nú um tvöfalt lægri laun í erlendum gjaldeyri en árið 2007.
Þorsteinn Briem, 23.10.2009 kl. 08:03
Ég velti fyrir mér hvers vegna Ísland er ekki á listanum.
Annars tek ég undir vardandi Noreg - vid gætum lært margt af Nordmönnum.
Jóhann (IP-tala skráð) 23.10.2009 kl. 08:50
Ég skil ekki þennan Gunnar sem heldur að þorp geti ekki lifað án þess að nota 1000% meiri raforku en meðalþorp á vesturlöndum og kallar alla öfgamenn sem eru ósammála og er ekki enn viss um að hann sé til í alvöru. Það er fyndið að maðurinn haldi að orkuframleiðsla Íslands hafi verið tvöfölduð vegna þess að einhverjum þótti svo vænt um hann. Það eru aðrir hagsmunir sem ráða ferðinni - og alls ekki þjóðarhagsmunir - annars væru þeir ekki að tvöfalda S02 skammtinn til að tryggja að byggðin haldist láglaunasvæði. Þessi Gunnar er eins og kallarnir á svölunum í prúðuleikurunum sem púuðu alltaf á sýninguna. Mér finnst nauðsynlegt að hugsa það þegar ég les færslurnar hans vegna þess að þá verð ég glaður. Annars langar mig að fara út og sparka í ketti. Annars fór ég um Lýsufjörð í Noregi um daginn og tók þetta myndband sem sjá mér hér. Þar má sjá að norðmenn spara hvergi við sig þegar kemur að því að láta ferðamenn verða fyrir áhrifum. Kær kveðja til þín og þinna Ómar.
Hér er færslan:
http://www.andrisnaer.is/2009/09/i-ofur-noregi/
andri Snær Magnason (IP-tala skráð) 23.10.2009 kl. 09:56
Andri Snær, Gunnar er til í alvöru..svona fólk finnst hér og þar..
Óskar Þorkelsson, 23.10.2009 kl. 10:47
Október 2009: Ferðaþjónusta á Íslandi í tölum
Þorsteinn Briem, 23.10.2009 kl. 10:55
Og hér er önnur athyglisverð frétt frá Noregi um raflínur, svona í samhengi við nýjustu þætti umræðunnar á Íslandi um þau mál.
Matthías
Ár & síð, 23.10.2009 kl. 11:23
Það er alltaf jafn gaman að lesa bloggin hjá Ómari og alla spekingana sem eru sammála honum.
Nú mætti halda að Norðmenn af umhverfisástæðum noti bara pínulítið af rafmagni og það sé allt unnið af álfum úr loftinu.
Staðreyndin er að í Noregi eru framleiddar 137,8 Twh af rafmagni og af því koma 97,8% úr vatnsorku. Það er alveg ljóst að þar hafa horfið 1 eða 2 norskir fossar. Til samanburðar eru framleiddar á Íslandi 6,5 Twh alls. Rafmagnsframleiðsla Norðmanna er 21 sinnum meiri en Íslendinga en Norðmenn eru samt aðeins 15 sinnum fleiri.
Sér er nú hver umhverfisvitundin !!
Magnús Birgisson (IP-tala skráð) 23.10.2009 kl. 12:36
Ómar, ert þú búin að kynna þér hvað eru mörg álver í norsku fjörðunum ?
Þau eru nokkuð mörg, á gríðarlega fallegum stöðum. Einnig má þar finna kísilverksmiðjur og ýmsa aðra stóriðju.
Þetta þykir norðmönnum ekki vera umhverfisvandamál, enda hefur það ekki haft áhrif á aðdráttarafl þessa landshluta í noregi.
Má nefna að Sosialistisk Venstreparti, systurflokkur VG í noregi, er hlynntur þessum iðnaði, og vill auknar ívilnanir til að halda honum þar sem hann er. Rafkerfi Noregs er tengt evrópu og hefur hærra orkuverð skert samkeppnisstöðu þessa iðnaðar þar.
Það er mjög mikil umhverfismeðvitund í Noregi, og við íslendingar getum lært af því. Sú vitund er mun heilbrigðari en sú íslenska.
Guðrún S (IP-tala skráð) 23.10.2009 kl. 13:07
Kristinn, #6
Gunnar Th. Gunnarsson, 23.10.2009 kl. 13:51
Ég er orðinn svolítið þreyttur á þessu öfgafulla og ómálefnalega málflutningi Gunnars Th. Gunnarssonar. Ég segi bara, ef þú hefur ekkert viturlegra að segja skaltu frekar þegja.
kv
Már
Már Halldórsson (IP-tala skráð) 23.10.2009 kl. 14:26
Sæll Ómar og takk fyri góðan pistil.
En og aftur er komið að því að fara að reisa álver á Bakka. Mér þætti vænt um að þú gerðir athugun á landinu þar sem álverið á að rísa en við vitum það báðir jafnvel að þarna er mikið sprungusvæði og gengur ein stærsta sprungan í gegnum Húsavík. Jarðvísindamenn eru búnir að segja að það sé ekki spurning um hvort, heldur hvenær stór jarðskjálfti kemur þarna ( 6,5 - 7 á Richter). Skv. upplýsingum sem komu fram í fréttum fyrir um rúmu ári síðan þá eru sprungur á því svæði sem ákveðið er að byggja á. Burtséð frá öllum öðrum vandamálum væri þá ekki vert á að byrja á að athuga hvort að það sé gerlegt að byggja álver á þessum stað??????????????
Enginn (IP-tala skráð) 23.10.2009 kl. 14:44
Þetta er staðreyn: Fyrir u.þ.b. fimm árum var því lýst yfir í Noregi að tími nýrra vatnsaflsvirkjana væri liðinn. Það þýðir að í Noregi er ósnortið álíka mikið vatnsafl að magni til og á Íslandi.
Það segir ekkert um það hvort allir Norðmenn séu sammála þessu og enginn heldur því fram.
Ómar Ragnarsson, 23.10.2009 kl. 14:45
Raforkuvinnsla hér á Íslandi í fyrra, árið 2008, var 16,467 GWh og hafði þá aukist frá árinu áður um 37,5%. Og notkunin á íbúa jókst úr 38,5 MWh í 51,6 MWh.
Árið 2002 varð raforkunotkunin hér sú mesta í heiminum á mann en áður hafði hún verið mest í Noregi.
Með Fjarðaáli jókst raforkunotkun stóriðju verulega í fyrra og hlutur hennar fór þá í 77% af heildarnotkuninni.
Jarðvarmavirkjanir framleiddu um 30% af raforkunni hér árið 2007.
Raforkunotkun á Íslandi 2008
Raforkuspá fyrir tímabilið 2008–2030
Noregur er um fjórum sinnum stærri en Ísland og þar búa einnig fjórum sinnum fleiri íbúar á hvern ferkílómetra en hér. Bæði löndin eru mjög strjálbýl og Noregur er þar í 211. sæti í heiminum en Ísland í 231. sæti.
Röð landa eftir þéttleika byggðar
Þorsteinn Briem, 23.10.2009 kl. 14:54
Það er gaman hvað bæði Ómar og Gunnar Th eru staðfastir á sinni skoðun. Tel staðfestu til dyggða.
Ég velti fyrir mér hvaða orku er best að nota í framtíðinni?
Meginmálið hlýtur að hver þjóð nýti sína orku sem er aðgengileg og sé ekki að flytja orkugjafa heimsálfa á milli. Þannig hlýtur heimagerð raforka á íslandi spila mikilvægt hlutverk í orkuöflun landsins um ófyrirsjáanlega framtíð. Þar hýtur að vera lykilatriði að sátt náist um hvað megi virkja í nútíð og framtíð. Núverandi vatnaflsvirkjanir verða gullmyllur fyrir börnin og barnabörnin okkar.
Gísli Gíslason, 23.10.2009 kl. 15:15
"Ef Norðmenn hefðu ekki olíuna væri ekki hlustað á háværar raddir ÖFGASINNA".
ÖFGAR Norðmanna felast sem sé í því að þyrma örlitlu broti af vatnsafli Evrópu.
HÓFSEMDARMENN eru hins vegar þeir sem vilja virkja ALLT.
Orwell hefði elskað þetta orðfæri.
Ómar Ragnarsson, 23.10.2009 kl. 15:24
Hvenær hef ég sagst vilja virkja ALLT?
Gunnar Th. Gunnarsson, 23.10.2009 kl. 16:01
Framleiðslugeta vatnsorkuveranna í Noregi er 113 TWh/a, um 60% af þeirri vatnsorku sem þar væri hægt að virkja.
Og framleiðsla vatnsorkuveranna hefur lítið aukist frá árinu 1990, samkvæmt skýrslu sem Þorkell Helgason skrifaði fyrir forsætisráðuneytið um skattlagningu orkufyrirtækja í Noregi.
Þorsteinn Briem, 23.10.2009 kl. 16:22
Norðmenn nota gas til að hita upp Bergen
Gunnar Th. Gunnarsson, 23.10.2009 kl. 17:54
Nei Gunnar, gasveitan i Bergen var lögð niður fyrir mörgum áratugum.
Kjartan Ólafsson (IP-tala skráð) 23.10.2009 kl. 21:36
Þetta er ekki rétt hjá þér Kjartan
Gunnar Th. Gunnarsson, 23.10.2009 kl. 22:32
Sæll Ómar.
Að allt öðru en menn hér að framan hafa verið uppteknir af. Við Tynesar komum frá þessum landshluta. Stórbrotnir eins og landslagið, eða hvað? Frá Tynes til Hellesylt í mynni Geiranger er ca. 40. min. akstur.
Að náttúruverndarmálum þar þá eru nú deilur um lagningu rafstrengja um landssvæðið. Ferðamannaiðnaðurinn og náttúruverndarfólk telur að leggja eigi strengi í jörð og í sjó yfir firði. Það sé dýrt sem stendur en fyllilega réttlætanlegt.
Fyrsta ferðalag mitt á þessum slóðum var 1954. Þá fór ég með systur minni og mági í Fiat 700 að mig minnir. Hann var örlítið stærri en þinn Fiat.
kv,JAT
Jón Arvid Tynes, 23.10.2009 kl. 22:53
Langtímaskuldir Landsvirkjunar í árslok 2008 voru um þrír milljarðar bandaríkjadala, eða 370 milljarðar króna, andvirði þriggja Kárahnjúkavirkjana.
Vaxtagjöld Landsvirkjunar í fyrra voru 178 milljónir bandaríkjadala, um 20 milljarðar króna.
Og Landsvirkjun tapaði í fyrra 344,5 milljónum bandaríkjadala, um 40 milljörðum króna.
Landsvirkjun er sameignarfyrirtæki, ríkissjóður á 99,9% í fyrirtækinu og í desember síðastliðnum gaf matsfyrirtækið Moody's Landsvirkjun langtímaeinkunnina Baa1/negative.
Þorsteinn Briem, 23.10.2009 kl. 22:57
Ég held að ég þekki töluvert betur til í Bergen enn þú þar sem ég bý í bænum. Megnið af íbúðarhúsnæði hér er hitað upp beint með rafmagnsþilofnum og varmadælum.
Kjartan Ólafsson (IP-tala skráð) 23.10.2009 kl. 22:58
Er ég kannski að rugla saman bæjum þarna? Það má vera, einhver bær á Bergen-svæðinu er hitaður upp með gasi.... minnti að það hefði verið Bergen
Gunnar Th. Gunnarsson, 23.10.2009 kl. 23:26
þett er ekki í fyrsta sinn sem Gunnar Th kemur með bullið um upphitun í Bergen.. hann tuðar út í eitt og hefur ekki hundsvit á nokkrum sköpuðum hlut nema leigubílaakstri á Reyðarfirði..
Óskar Þorkelsson, 24.10.2009 kl. 08:23
hérna gunnar TH.. eftir þennan lestur þá kannski hættiru að bulla um gasupphitun í noregi.
það voru gefin út 3 leifi til þess að byggja gasskraftverk í noregi í ríkisstjórn Bondevik á árinu 2001.. Stoltenberg hefur staðfest leifin en einungis eitt hefur verið byggt í Kårstø árið 2007.. það hefur EKKI ENN VERIÐ TEKIÐ Í NOTKUN VEGNA ÞESS AÐ ÞAÐ ER EKKI EFNAHAGSLEGA HAGSTÆTT .. hin 2 gasverkin verða sennilegast aldrei byggð vegna mótmæla íbúana á þeim stöðum sem upphaflega var ákveðið að byggja þau.. að byggja þau annarstaðar en upphaflega var áætlað er ekki aktuelt þótt íslendingar mundu eflaust redda málinu þannig.. í noregi gengur þetta ekki þannig fyrir sig. leifið er gefið út fyrir viðkomandi stað punktur.. ef færa á þessi gasskraftverk eitthvert annað þá þarf að fara í gegnum allan pakkan aftur.. umhverfismat, kynningar og þess háttar stjórnunarferli ( sem íslendingar hafa einstaka hæfileika til þess að hundsa)..
http://no.wikipedia.org/wiki/K%C3%A5rst%C3%B8
Þú getur fundið fleiri heimildir ef þú nennir því gunnar.. en vinsamlegast ekki koma með þetta bull aftur því það er greinilegt að þú veist ekki neitt um noreg eða norskt samfélag..
Óskar Þorkelsson, 24.10.2009 kl. 08:31
Gas Gas!
Þó svo að Bergen hiti eða hiti ekki upp með gasi, þá eru Norsarar að leggja pípu frá Noregi 1200 km langa til Bretlands þar sem þeir munu útvega þeim 20% af öllu því gasi sem þeir munu þurfa. Fréttina má sjá hér.
kveðja
Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 24.10.2009 kl. 10:37
Óskar, ert þú orðinn ritstjóri í athugasemdarkerfinu hjá Ómari?
Rafn, hún er stundum hlægileg, "umhverfisvitundin" ... þegar hún snýst um
"Not my own backyard"
Gunnar Th. Gunnarsson, 24.10.2009 kl. 12:43
nei Gunnar, en mér finnst í lagi að troða vitleysunni uppi þig aftur. þú ert kjaftaskur með enga innistæðu fyrir því sem þú bullar hér á blogginu.
Óskar Þorkelsson, 24.10.2009 kl. 14:52
Þú ert óheflaður og kannt ekki mannasiði.
Gunnar Th. Gunnarsson, 24.10.2009 kl. 16:18
LSD - Lang Stærsti Draumurinn?
Fyrir okkur íslendinga snýr LSD ekki að virkjunum heldur miklu stærra máli sem er umbreyting alls þjóðfélagsins úr einsleitu friðsælu þjóðfélagi í margklofið fjölmenningarþjóðfélag með sínum óróleika, vantrausti og átökum. Það er sannarlega Lang Stærsti Draumurinn sem marga dreymir um þar á meðal þú Ómar ef ég skil ummæli þín og bloggfærslur rétt. Það er skrítið að maður sem ber hag íslenskrar náttúru svo fyrir brjósti skuli þegar kemur að verndun og viðhaldi þjóðarinnar sjálfrar vera algjör "virkjunarsinni"(fjölmenningarsinni). Mögulegt er fyrir okkur að rífa gamlar virkjanir til að leiðrétta(að hluta) mistök liðins tíma en einsleitnina(og þ.a.l. meiri samheldnari og friðsemd) og sérstöðu íslensku þjóðarinnar sem við erum að glata hratt þessa dagana mun vera ómögulegt að fá aftur þegar það er horfið.
kalli (IP-tala skráð) 24.10.2009 kl. 21:13
Kalli. Útlendingar fluttu hingað í stórum stíl vegna Kárahnjúkavirkjunar og byggingaæðisins á höfuðborgarsvæðinu.
Áður höfðu útlendingar, aðallega Pólverjar, flutt hingað til að vinna störf sem Íslendingar vildu ekki vinna, til dæmis í fiskvinnslu og ræstingum.
Mörg þúsund Pólverjar vinna nú í fiskvinnslu í flestum eða öllum sjávarbyggðum landsins og skapa því mestu gjaldeyristekjurnar hérlendis.
Þar að auki lána nú Pólverjar okkur Íslendingum háa fjárhæð á mjög góðum kjörum vegna okkar eigin klúðurs.
Þorsteinn Briem, 24.10.2009 kl. 23:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.