23.10.2009 | 14:26
Kostir og ókostir sjálfvirkninnar.
Í fluginu takast sífellt á tvenns konar sjónarmið varðandi sjálfvirknina annars vegar og stjórn flugliðanna hins vegar, stundum lýst með orðunum að "handflljúga".
Í frétt af flugmönnunum sem gleymdu sér koma ókostir mannlegra mistaka vel fram.
Hvort tveggja hefur sína kosti og ókosti og í stuttu máli eru ókostirnir svipaðar við báðar aðstæður, sem sé þeir, að ekkert það sem gert er eða búið til af mönnum getur verið fullkomlega óskeikult eða laust við bilanir.
Flugslys hafa orðið, bæði vegna of mikillar sjálfvirknig og vegna mannlegra mistaka sem sjálfvirkni hefði getað afstýrt.
Flugvélin Piper Arrow kom fram um miðjan sjöunda áratuginn og var þannig um hnúta búið að útilokað átti að vera að hægt væri að lenda henni án þess að setja lendingarhjólin niður og hún tók líka hjólin upp ef flugmennirnir gleymdu því.
Þó fór það svo að slys urðu vegna þess að sérstakur nemi, sem mældi lofthraðann, gat truflast vegna ísingar og óhreininda og auk þess kom í ljós að engin flugvél er fullkomnari en flugmaðurinn sem flýgur henni.
Hið skondna var að íslenskt flugatvik sýndi einna best að rétt væri hætta við að auglýsa þessa vél sem "óskeikula."
Þannig var málum háttað, að færi flughraðinn niður fyrir ákveðinn hraða fóru hjólin sjálfkrafa niður ef flugmaðurinn gleymdi að setja þau niður.
En í aðflugi að Reykjavíkurflugvelli á svona flugvél, þegar vélin var mjög þung og flugmaðurinn reyndi því í fyrstu að halda uppi góðum hraða en kom of lágt inn, svo að hann gaf henni nær fullt afl til að koma í veg fyrir að hún missti of mikla hæð.
Það var í nógu að snúast fyrir flugmanninn og því gleymdi hann að setja hjólin sjálfur niður.
Við það að nota svona mikið afl jókst lofthraðinn svo mjög í gegnum nemann, sem mældi hann, að hann fór ekki niður fyrir tilskilin mörk fyrr en vélin var að snerta.
Þá byrjaði sjálfvirki búnaðurinn að setja hljólin niður en það var of seint, - hjólin böggluðust aftur upp þegar þungi vélarinnar settist á þau og úr varð magalending.
Þetta atvik var eitt af þeim atvikum þar sem sjálfvirkni getur virkað öfugt við það sem til er ætlast.
Hugsanlega gleymdi flugmaðurinn að setja hjólin niður vegna þess að við síendurtekinn áróður um það að vélin gerði það sjálf slaknaði smám saman á vitundinni um að flugmaðurinn yrði ævinlega að vera handviss um þetta atriði.
Þess má svo að lokum geta að fyrir allmörgum árum sofnaði ferjuflugmaður á leið til Íslands við stýrið og var herþota send frá Keflavíkurflugvelli til að vekja hann með því að fljúga fyrir framan hann og skapa ókyrrð.
Flugmennirnir gleymdu sér | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
„Í frétt af flugmönnunum sem gleymdu sér koma ókostir mannlegra mistaka vel fram.“
Þú kannski skýrir þá út fyrir okkur í hverju kostir mannlegra mistaka felast einkum?
Þorvaldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 23.10.2009 kl. 16:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.