23.10.2009 | 15:39
Mótsagnirnar varðandi eignarhald.
Mismunandi eignarhald hefur kosti og ókosti. Kárahnjúkavirkjun er dæmi um þann ókost opinbers rekstrar að hneigjast til að fara út í áhættusöm, dýr og tiltölulega lítt arðbær verkefni í sovéskum stíl sem engin einkafyrirtæki myndu þora að gera.
Hinir mörgu og stóru áhættuþættir Kárahnjúkavirkjunar, sem lögfræðingur fyrirtækisins lýsti svo vel á sínum tíma til að berja niður væntingar heimamanna um greiðslur fyrir vatnsréttindi, hefðu fælt öll einkafyrirtæki frá að fara út í þessa framkvæmd, þar sem áhættunni var velt yfir á þjóðina.
"Gróðærið" sýndi hins vegar fádæma áhættufíkn óhefts kapítalisma sem hreif með sér stjórnvöld og stóran hluta almennings þegar hæst lét.
Stærsta hættan sem nú steðjar að er fólgin í því að auðlindirnar og fyrirtækin sem yfir þeim ráða, lendi í höndum annarra þjóða.
Miðað við áframhaldandi stóriðju- og virkjanaæði Landsvirkjunar finnst mér hins vegar hart ef fara á í fjárhættuspil og áframkeyrslu þessarar stefnu með lífeyrisgreiðslur okkar sem höfum byggt upp lífeyrissjóðina á langri starfsævi og héldum í barnaskap okkar að með því værum við að forða okkur frá því ævikvöldi fátæktar sem annars yrði hlutskipti margra okkar.
En kannski verður það nú líka viðeigandi framhald á æði skammgróðans sem enn virðist lifa góðu lífi á sumum sviðum.
Landsvirkjun ekki föl | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Það vafðist ekki fyrir þjóðníðingum og landsölulýð að afhenda Magma hlut í HS Orku. Hvað ætli þessir sömu aðilar segi þegar Magma fer að skammta sér arð úr því fyrirtæki og hækka verð á vatni og heitu vatni til húshitunar
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 23.10.2009 kl. 16:10
Langtímaskuldir Landsvirkjunar í árslok 2008 voru um þrír milljarðar bandaríkjadala, eða 370 milljarðar króna, andvirði þriggja Kárahnjúkavirkjana.
Vaxtagjöld Landsvirkjunar í fyrra voru 178 milljónir bandaríkjadala, um 20 milljarðar króna.
Og Landsvirkjun tapaði í fyrra 345 milljónum bandaríkjadala, um 40 milljörðum króna.
Landsvirkjun er sameignarfyrirtæki, ríkissjóður á 99,9% í fyrirtækinu, og í desember síðastliðnum gaf matsfyrirtækið Moody's Landsvirkjun langtímaeinkunnina Baa1/negative.
Þorsteinn Briem, 23.10.2009 kl. 22:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.