Davíð byrjaður að blogga ?

Margir telja sig sjá fingraför Davíðs Oddssonar á ýmsum stöðum í Morgunblaðinu. Hann er ekki fyrsti ritstjórinn sem hefur svo sterkan stíl að hann sker sig úr.

Það var oft unun að lesa skrif Magnúsar Kjartanssonar, ritstjóra Þjóðviljans, á sínum tíma þótt maður væri oftar en ekki ósammála skoðunum hans og ekki var Jónas Jónsson frá Hriflu neinn aukvisi á ritvellinum þótt ekki væri maður heldur alltaf sammála honum og hann væri ekki alltaf vandur að meðulum. 

Davíð minnir að þessu leyti á þessa tvo aðsópsmiklu ritstjóra.   

Á bloggsíðunni "Morgunblaðið" eru síðustu tveir pistlarnir annars vegar um Kára Stefánsson og hins vegar um þá sem voguðu sér að syngja "Fram þjáðir menn í þúsund löndum" með krepptan hnefa.

Þessir pistlar sverja sig mjög í Davíðsætt, enda Kári Stefánsson vinur hans allt frá skólaárum.

Og ég get svo sem tekið heilshugar undir hvert orð í pistlinum um Kára.

Þarf ekki annað en að nefna að var á sínum tíma valinn af tímaritinu Time í hóp hundrað áhrifamestu og merkustu læknavísindamanna heims og er það fágæt viðurkenning.

Helstu einkenni Davíðs skína líka í gegn um háðskum pistlinum um þá Össur Skarphéðinsson og Árna Pál Árnason sem syngja Internationalinn.

Fullyrt er að þeir rétti handleggi beint á loft upp og til hægri án þess að séð verði af myndunum annað en að handleggirnir séu bognir og vísi beint fram.

Það er því fulllangt gengið að líkja þessu við það þegar nasistar og fasistar réttu handleggi beint upp og til hægri með útréttum lófa. En kannski átti Davíð við þá Stalín og Maó. 

Þeir fyrirlitu hins vegar krata sem svikara og auvirðileg handbendi heimskapítalismans og það er því býsna bíræfið að bendla Össur og Árna Pál við þá.  

Og hvernig væri nú að dæma lagið og ljóðið í Nallanum út af fyrir sig en ekki út frá því hverjir hafi sungið það? Eða eru menn yfir það hafnir að kynna sér það sem þeir fimbulfamba um ? 

Í Fyrri heimsstyrjöldinni sungu hermenn oft "Áfram kristmenn krossmenn" um "æskuherinn sem fram í stríðið" stefnir áður en þeir fóru til að drepa menn og verða sjálfir drepnir.

Ég söng þetta í KFUM og Kaldárseli og áskil mér rétt til að syngja það hvenær sem er án þess að ég sé bendlaður við manndráp og blóðsúthellingar og tilgangsleysi Fyrri heimsstyrjaldarinnar. 

Nasistar létu syngja "Deutschland, Deutschland uber alles" við öll möguleg tækifæri og eigum við þess vegna að fordæma það að þetta sé enn í dag þjóðsöngur Þýskalands ?  

Ritfærni Davíðs nýtur sín vel á nýum vettvangi og þótt hann skorti faglega reynslu koma aðrir kostir til greina við ritstjórnarstörf.

Borgarstjórinn í Reykjavík þarf að hafa mikla yfirsýn og þekkingu á smáu og stóru í borgarkerfinu og borgarlífinu og það að hafa gegnt slíku starfi, eins og Davíð gerði með glæsibrag í níu ár, getur komið sér vel í ritstjórastarfi að ekki sé talað um að vera vel ritfær.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Ómar.

Ekki bregst þér "innsæið" ! Góðir punktar.

Kveðja.

Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 24.10.2009 kl. 01:17

2 Smámynd: Sólveig Þóra Jónsdóttir

Þótt fyrr hefði verið.

Sólveig Þóra Jónsdóttir, 24.10.2009 kl. 02:08

3 identicon

Vona að þetta hafi verið kaldhæðni hjá þér að mæra viðurkenningu kára í time magazina á meðan oddson fær þessa viðukennungu hjá þeim:

http://www.time.com/time/specials/packages/article/0,28804,1877351_1877350_1877340,00.html

Annars er þetta flott

Joi (IP-tala skráð) 24.10.2009 kl. 05:13

4 identicon

Þessi skrif minna mig á menn sem hafa aldrei vaxið upp úr Menntaskólanum í Reykjavík og eru í rauninni enn að skrifa í skólablaðið á gamals aldri.

Egill (IP-tala skráð) 24.10.2009 kl. 05:31

5 identicon

Er bloggsíðan "Morgunblaðið" nokkuð bloggsíða?  Er hún ekki bara notuð til að birta Staksteina, leiðara og hugsanlega Reykjavíkurbréfin?

Tómas Örn Sigurbjörnsson (IP-tala skráð) 24.10.2009 kl. 07:52

6 Smámynd: Jón Baldur Lorange

Góður pistill Ómar að vanda. 

Það er orðinn fastur liður að lesa leiðara Moggans og Staksteina á hverum morgni með rjúkandi kaffibollanum. Það rýkur úr þessu öllu og fýkur örugglega í margan manninn við þennan lestur.

Jón Baldur Lorange, 24.10.2009 kl. 11:19

7 identicon

Jón Baldur..... kaffi er óholt og Mogginn líka. Hugsaðu um heilsuna maður.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 24.10.2009 kl. 11:35

8 identicon

Morgunblaðið hefur batnað verulega eftir að nýju ritstjórnarnir tóku við. Skrifin orðin hressilegri en líka mikið af jákvæðum fréttum úr hversdagslífinu inn á milli. Ekki veitir af á þessum síðustu og verstu.

Guðrún (IP-tala skráð) 24.10.2009 kl. 12:03

9 Smámynd: Eiður Svanberg Guðnason

Rifjaðu nú upp , gamli félagi,  svo ég geti  staglað í göt  minnar lélegu sögukunnáttu. Gekk  ekki flokkur íslenskra þjóðernissinna nánast í í heilu lagi inn í  annan  stjórnmálaflokk á  sínum tíma ?  Hvaða flokkur var það nú aftur ?

Eiður Svanberg Guðnason, 24.10.2009 kl. 14:50

10 Smámynd: Eiður Svanberg Guðnason

Ekki vantar í Morgunblaðið jákvæðar fréttir af stærstu eigendum blaðsins. Því ber að fagna.Gott er að frétta af fólki sem selur hlutabréfin sín fimm mínútum fyrir hrun. Það hlýtur að eiga góða að. Þetta er stíll, sem Agnes sagði að tíðkaðist bara í þeim miðlum ,sem hún kallar „Baugsmiðla“. Hef ekki enn ekki séð hana tjá sig um þessa nýju „blaðamennsku“ Moggans . Hún hlýtur að gera það áður en langt um líður. Agnes hefur skoðanir á öllu og oft er ég henni sammála, - ekki þó alltaf.

Eiður Svanberg Guðnason, 24.10.2009 kl. 14:56

11 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þú áttir kollgátuna, Eiður, að þjóðernissinnar gengu að mestu í björg Sjálfstæðisflokksins, enda hafði blaðið kallað þá "unga menn með hreinar hugsanir."

Seinna varð einn þeirra lögreglustjóri í Reykjavík og annar einn af máttárstólpum flokksins og hafði þá snúist til betri vegar. Myndi sá snúa sér við í gröf sinni ef hann sæi hvert flokkurinn stefnir hinn síðari ár.

Í ljósi aðildar íslenskra nasista að Sjálfstæðisflokknum á sínum tíma kemur það úr gömlu glerhúsi að hæðast að þeim, sem rétta handleggi teinrétta upp til hægri.

Ég tel að ekki eigi að hamast á því síðar meir sem ungir menn gera á þeim árum þar sem þeim svellur hugur til breytinga og byltinga.

Væri það eitt notað sem mælikvarði væri til dæmis Páll postuli ekki með það viðurnefni, heldur hefði honum aldrei verið fyrirgefið að vera fremstur í flokki þeirra sem ofsóttu kristna menn.

Þess vegna finnst mér pistillinn með Davíðs-heilkennunum, þar sem vígfimi á ritvelli er látinn réttlæta að höggva mann og annan fyrir rangar sakir, út í hött.

Ómar Ragnarsson, 24.10.2009 kl. 17:02

13 Smámynd: Þorsteinn Briem

There once was a fabulous monitor,
who became a rather good editor,
good with coffee,
a very big toffee,
but in Time he didn't get high score.

Þorsteinn Briem, 24.10.2009 kl. 17:25

14 identicon

Þetta er áhugaverður pistill með góðum sögulegum dæmum. Eftir að fjaraði undan Jónasi frá Hriflu innan vébanda Framsóknarflokksins skrifaði hann mikið í sitt eigið blað, Ófeig og seinna Mánudagsblað Agnars Bogasonar. Hins vegar var Jónas frá Hriflu aldrei ritstjóri á dagbaði, enda þótt hann stofnaði bæði Akureyrarblaðið Dag og Tímann, um líkt leyti. Aftur á móti skrifaði hann kynstrin öll í blaðið árum saman og varð þannig meðal þeirra manna sem mest mótuðu íslenskt samfélag á sinnum tíma. Bæði fer þar saman góð almenn þekking en einnig að stílleikni Jónasar frá töframætti líkust. Kveðja, -sbs

Sigurður Bogi Sævarsson (IP-tala skráð) 25.10.2009 kl. 10:14

15 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Það eru leyfðar athugasemdir við Moggaskrifin á netnu en hins vegar standa þeir sem skrifa leiðarana ekki í neinum umræðum við þá sem gera athugasemdir. Þetta er því bara hálfgert svindl. Eintal, ekki samræða.

Sigurður Þór Guðjónsson, 26.10.2009 kl. 00:36

16 identicon

Rétt að halda því til haga að texta þýska þjóðsöngsins var breytt. Þeir syngja ekki lengur, Deutschland Deutschland uber alles, en lagið er það sama.

Jakob Ólafsson (IP-tala skráð) 30.10.2009 kl. 15:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband