"Sjoppunum lokað" - Örkin til byggða.

Í fyrrakvöld kom ég til Reykjavíkur úr framhaldi ferðalags um síðustu helgi vegna vetrarkomu fyrir innan Kárahnjúka.

P1010404P1010418

Þá tók fulltrúi Flugmálastjórnar, Guðjón Atlason, Sauðárflugvöll út í síðustu sumarflugferðinni þangað og mér tókst að losa kerruna, sem hefur verið undir bátnum Örkinni, úr festu við búðir Suðurvers við Kárahnjúka. Varð að fresta framhaldinu og skunda til Reykjavíkur.

Síðasliðinn fimmtudag skaust ég með Flugfélaginu til Egilsstaða og fór þaðan með Þórhalli Þorsteinssyni á jöklabíl hans upp á Sauðárflugvöll á Brúaröræfum.

Þórhallur er frábær jöklafari, einn sá þrautreyndasti sem völ er á og bíll hans eins og verkstæði á hjólum.

P1010419

 

 Það kom sér vel þegar ná þurfti framhjólunum undan gamla Econoline-húsbílnum sem þjónar sem flugstöð, flugturn, birgðastöð, flughótel og ráðstefnusalur.

Á næstefstu myndinni má sjá hann bogra við hægra framhjólið.  

Vegna fjárskorts verð ég að selja hjólbarðana, sem hafa verið undir bílnum að framan og setja slitna undir hann í staðinn næsta sumar. Bíllinn hefur fyrst og fremst verið bækistöð á flugvellinum síðan 2005 og þetta eru nær ónotuð 35 tommu dekk af gerðinni Durango, sem eru til sölu.

P1010964

 

 Einnig kemur til greina hjá mér að selja heilan dekkjagang, 4 ókeyrð 35 tommu dekk af gerðinni Wildcat.  

Tekin voru númer af Feroza-bíl, sem ég hef notað þegar ég hef lent með mig og aðra á flugvellinum. 

Dekkin og fleira sett upp á gamla Toyota-pallbílinn, sem hefur verið þarna í sumar.

Sauðárflugvallarr"sjoppunni" þar með lokað þar til í júní næsta sumar. 

Næst lá fyrir að koma kerrunni með Örkinni aftan í Arkar-bílinn og draga hana niður í byggð.

P1010966

Báturinn hefur verið fyrir innan Kárahnjúka síðan í apríl 2003.

Gera þarf við hann og bátakerruna og selja hvort tveggja.


Þó þyrfti að vera hægt að sigla henni í síðustu siglingarnar á Kelduárlóni og Hálslóni næsta sumar ef fjárhagur leyfir og ljúka þar með myndatökum fyrir heimildarmyndina um Örkina. 

 Niðri á Egilsstöðum var gamli útslitni Samuraikvikindið kvaddur í bili, en hann er aldeilis ótrúlegur nagli, sá gamli og slitni skrjóður, og dugði vel á árunum 2002-2007 sem vinnutæki og gististaður. 

P1010973

Varð hann blaðamönnum tímaritsins National Geographic að umfjöllunarefni í grein þeirra um Kárahnjúkavirkjun.

 

 

 

 

Á leiðinni til Reykjavíkur var litið á ástandið við Leirhnjúk.

 

P1010976

 

Niðri í þorpinu aðstoðaði Karl Viðar Pálsson mig við að taka vatn og númer af gamla Rússajeppanum, sem ég hef notað í kvikmyndagerð á virkjanasvæðum við Leirhnjúk og Gjástykki.  

P1010427
 
 
Þar með var hægt að "loka Mývatnssjoppunni" þar til næsta sumar. 
P1010439
 
P1010445

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Offari

Rússinn er flottur. Minn fyrsti jeppi var svona rússi og mig hefur alltaf langað að fá mér svoleiðis bíl aftur.

Offari, 25.10.2009 kl. 00:53

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þýskir sjónvarpsmenn sem voru hér á ferð í sumar féllu alveg fyrir honum. Ég notaði hann til að fara með þá inn í Gjástykki vegna þess að jepplingurinn, sem þeir leigðu, komst ekki nema nokkur hundruð metra.

Í för með okkur slóst síðar í ferðinni nýlegur lúxusjeppi en fjöðrunin á 43ja ára gömlum Rússanum gaf nýjustu gormafjörðrun ekkert eftir.

Ómar Ragnarsson, 25.10.2009 kl. 01:15

3 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Vonandi tekst þér að klára myndina þína, Ómar. Ég vona einnig að hún verði "sanngjörn".

En það er greinilega enginn barnaleikur að ferðast um þetta svæði á þessum árstíma, sem rennir stoðum undir það sem ég hef lengi sagt, sem andsvar við fullyrðingum verndunarsinna um "óþrjótandi möguleika" á að græða á þessu svæði með ferðaþjónustu.

Það er algjörlega óraunhæft nema nokkra daga á ári. 

Gunnar Th. Gunnarsson, 25.10.2009 kl. 13:34

4 Smámynd: Offari

Sæll Gunnar þótt ég hafi líka litla trú á þeim óþrjótandi möguleika á að græða á ónýttum landsvæðum með öðru en virkjunum. Treysti ég mér ekki til að fullyrða að slíkt sé ekki hægt. Því finnst mér gott að verndunarsinnar skuli vera að leita að þeim leiðum því ef þær finnast þá er það bara gott mál.

Það á aldrei að drepa hugmyndir í fæðingu, Það má vel benda á gallana líkt og verndunarsinnar hafa verið að benda á þá galla sem þeir finna við strórvirkjanir. Ég held tildæmis að það séu ekki óþrjótandi virkjunarkostir en er samt á því að það ætti að nýta þá kosti sem gefast.

Meðan Ómar og aðrir verndunarsinnar benda réttilega á að með því að þurrausa allar orkulindir landsins skiljum við ekkert eftir handa þeim kynslóðum sem taka við án nokkura vaxtarmöguleika. Ég treysti mér ekki til að gagnrýna menn fyrir að huga að komandi kynslóðum.

En samt vill ég fleiri álver og annað góðæri til að losa okkur undan kreppuni en veit vel að það er bara frestun á vandanum. Því vill ég ekki drepa hugmyndir í fæðingu (þótt mér finnist þær stundum vera galnar).

Offari, 25.10.2009 kl. 14:39

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Eftirfarandi staðreyndir blasa við, Gunnar: Undanfarin fjögur ár hefur Sauðárflugvöllur opnast í kringum 10. júní og lokast um 20. október. Þetta eru fjórir mánuðir, ekki "nokkrir dagar."

Brúaröræfi eru smöluð um mánaðamótin september-október eða um hálfum mánuði SEINNA en flestir aðrir afréttir.

Ómar Ragnarsson, 25.10.2009 kl. 17:30

6 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Offari Ég er alveg sammála því að það á alls ekki að drepa neinar hugmyndir niður, en verndunarsinnarnir notuðu þessi rök sem "eitthvað annað".

Ómar þú veist vel að yfir sumartíman geta veðráttan þarna verið óbjóðandi ferðafólki. Þoka, kuldi og rok. En vissulega geta verið þarna líka miklar veðurblíður.

Þú markaðsetur ekki ferðir þarna fyrir fólk sem kemur yfir hálfan hnöttin og ætlar að skoða útsýnið þann 10. júlí árið 2010. Og það er óraunhæft að byggja upp dýra aðstöðu fyrir ferðamenn, fyrir "nokkra daga á ári" (e.t.v 50 daga)

Gunnar Th. Gunnarsson, 25.10.2009 kl. 17:57

7 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Auk þess hefði þurft að byggja samgöngumannvirki á svæðinu fyrir peninga úr ríkissjóði, fyrir miljarða. Hinir góðu vegir sem þarna eru í dag, voru ekki borgaðir úr almannasjóðum.

Gunnar Th. Gunnarsson, 25.10.2009 kl. 18:02

8 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Samgöngumannvirkin hefðu ekki þurft að kosta neina milljarða og auk þess eru slík mannvirki í þjóðgörðum heimsins byggð með langtímanýtingu í huga sem borgar þau upp.

Á vesturströnd Noregs er mesta regnsvæði í Evrópu, þokur og tvöfalt meiri rigning en í Reykjavík en samt er það svæði talið besta ferðamannasvæði heims.

Í Krepputungu og á Brúaröræfum er minnsta úrkoma á Íslandi og líkast til 5-6 minni en á vesturströnd Noregs.

Hjalladalur var dýpsti og skjólsælasti staðurinn á norðurhálendinu.

Suður-Evrópubúar koma ekki til Íslands til að komast í logn, sólskin og hita. Af slíku hafa þeir nóg í sínum löndum og fara því til vesturstrandar Írlands og Noregs.

Móðir mín heitin sagði mér, að það besta sem hún hefði lært eftir verslunarpróf og hjá vinnuveitanda sínum hefði verið "viðskiptavinurinn hefur alltaf rétt fyrir sér."

Þetta virðast margir eiga erfitt með að skilja.

Ómar Ragnarsson, 25.10.2009 kl. 19:50

9 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ef fólk sækist eftir því að sjá ekki handa sinna skil í vosbúð, þá þarf það ekki að leggja á sig langt og dýrt ferðalag, alla leið hingað til þess. Eins og þú bentir á er Noregur alveg kjörinn í þess háttar túrisma. Helmingi styttra þangað frá helstu markaðssvæðum Evrópu.

Við yrðum undir í samkeppni við þá

Gunnar Th. Gunnarsson, 25.10.2009 kl. 22:22

10 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Er það svona ferðamennska sem við eigum að græða á?

http://mbl.is/mm/frettir/innlent/2009/10/25/ferdamenn_fastir_vid_hekluraetur/

Gunnar Th. Gunnarsson, 25.10.2009 kl. 22:31

11 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þú hefur greinilega aldrei heyrt talað um Lonely Planet, ævintýraferðamennsku eða upplifunarferðamennsku.

Upphafið á veldinu "Lonely planet" var það að nýgift par fór til Ástralíu í brúðkaupsferð en varð fjárvana. Þau skrifuðu metsölubók um baslið í ferðalaginu og síðan hefur þetta undið upp á sig með heilum flokki ferðabóka og ég veit ekki hvað og þau urðu milljarðamæringar með því að fitja upp á ævintýraferðum sem fólkið sæi sjálft um að fara.

Hingað kom bandarískur ferðaprófessor fyrir tæpum tíu árum og upplýsti að sá markaðshópur ferðamanna sem stækkaði mest í heiminum gerði það undir þessu kjörorði: "Get your feet wet and hands dirty."

Til Lapplands hefur tekist að lokka fleiri ferðamenn á veturna en allt árið á íslandi og ég hef áður lýst því hve miklu meira Ísland hefur upp á að bjóða en Lappland því að hér er ekki bara kuldi, myrkur, þögn og ósnortin náttúra með sléttu snævi þöktu landi og frosnum vötnum eins og selt er í Lapplandi, heldur líka gígar, eldfjöll og hverasvæði.

Það er lengra til Lapplands frá helstu markaðssvæðum vestanverðrar Evrópu heldur en til Íslands.

Grunnmúruð andstaða og andúð ykkar stóriðjusinnanna á möguleikum ferðaþjónustu á Íslandi er með ólíkindum.

Ómar Ragnarsson, 25.10.2009 kl. 23:17

12 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Vil bæta því við að fyrir 15 árum kölluðu þínir líkar hugmyndir um hvalaskoðun á Íslandi "geimóra."

Miklu lengra hingað en til samkeppnislanda og allt það,

Ómar Ragnarsson, 25.10.2009 kl. 23:19

13 Smámynd: Arnór Baldvinsson

Sæll Ómar,

Ég vildi nú bara benda gömlum sveitunga mínum, Gunnari Th. á að sú skoðun hans að "Þoka, kuldi og rok." séu ekki boðleg ferðamönnum er nú frekar þröngsýn. Það er mikill fjölda ferðamanna sem fara út um allan heim og láta veður engin áhrif hafa á áætlanir sínar.  Vegir og gönguleiðir þurfa hinsvegar að vera í góðu lagi og merkingar sérstaklega þurfa að vera góðar og skilmerkilegar.  Það hefur verið mikil brotalöm á því víða á landinu.  Það er afskaplega slæmur buisness að setja öll eggin í sömu körfuna.  Því fjölbreyttara sem atvinnulífið er því betra.  Engin þjóð hefur komist betur að því en íslendingar eftir að nánast öll fjöregg þjóðarinnar voru sett í fjármálakerfi sem skildi ekkert eftir sig nema brunarústir. 

Kveðja,

Arnór Baldvinsson, 26.10.2009 kl. 07:34

14 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ég er margbúinn að segja að ég hef ekki andúð á neinni atvinnuuppbyggingu. Er bara að benda á að ég tel óraunhæft að beina ferðamönnum í stórum stíl inná hálendið. Í fyrsta lagi, ef okkur tekst það, þá er það DÝRT fyrir okkur og í öðru lagi.... hvað verður um þetta "ómetanlega ósnortna víðerni", ef við gerum það?

Gunnar Th. Gunnarsson, 26.10.2009 kl. 12:40

15 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það verður það sama og í ótal erlendum þjóðgörðum þar sem umferðinni er stýrt þannig að á ákveðnum svæðum eru kyrrð, friður og fegurð tryggð.

Ekkert af því er tryggt með hvæsandi borholum, gufuleiðslum, háspennulínum og stöðvarhúsum eins og til stendur að gera við Leirhnjúk og Gjástykki og hefur allt í einu verið upplýst að sé forsenda fyrir álveri á Bakka.

Ómar Ragnarsson, 26.10.2009 kl. 13:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband