25.10.2009 | 19:08
Allt er fertugum fært.
Landvernd hélt upp á 40 ára afmæli sitt í Iðnó í dag með afmælisþingi þar sem margt fróðlegt kom fram.
Upphaflega var félagið hugsað sem nokkurs konar regnhlífarsamtök fjölmargra félaga og á þeim tíma var bágt ástand gróðurs og jarðvegs á Íslandi höfuðverkefnið, þótt 1969 og 70 geysuðu hatrammar deilur um ótrúlega stórkarlalegar framkvæmdir í virkjanamálum á Norðausturlandi og í Þjórsárverum.
Á þeim slaknaði í bili og fimm árum síðar náðist mikilsverður árangur með þjóðargjöfinni svonefndu á 50 ára afmæli lýðveldisins 1974, enda veitti ekki af því að á þessum áratugum var gríðarlegt álag á mörgum afréttum landsins og uppblástur mikill.
Á síðustu árum hafa deilur um stórbrotnar framkvæmdir, einkum á hálendinu, orðið stærri hluti af starfi og baráttu Landverndar. Var notað um það orðið nauðvörn á fundinum í dag og mynd úr Gjástykki sem tróndi yfir sviðinu í Iðnó undirstrikaði það.
Þessi mikla barátta og fjölbreytt kynningarstarf í kringum hana hefur orðið til þess að yfirskyggja gróðurverndarbaráttuna og er ljóst að mikil verkefni bíða á því sviði þótt dregið hafi úr beitarálagi með fækkandi sauðfé.
Enn eru beittir afréttir á stórum hluta hálendisins sem ekki eru beitarhæfir.
Bjartsýni ríkti þó á afmælisþinginu í dag. Þekking og menntun í þessum málum hefur fleygt mjög fram og því óhætt að segja að allt eigi að vera fertugum fært, þrátt fyrir fjárskort og erfið viðfangsefni.
Athugasemdir
Er þetta gígurinn Hófur þarna í baksýn Ómar?
Ari (IP-tala skráð) 25.10.2009 kl. 22:32
Gígurinn Hófur er talsvert sunnar í gígaröðinni. Það eru Éthólar og gígur þar sem sjá má í bakgrunni þessarar myndar.
Ómar Ragnarsson, 26.10.2009 kl. 08:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.