3.11.2009 | 13:08
Hornreka í umræðunni.
Í kreppunni hefur ferðaþjónusta dregist saman víða um lönd. Á sama tíma eykst hún hér.
Það væri fróðlegt fyrir þá, sem kunna að lesa tíðaranda með orðatalningu úr fréttum, að sjá hvaða sess ferðaþjónustan hefur hjá ráðandi öflum í þjóðfélaginu.
Ef farið væri í gegnum helstu fréttir og upphrópanir í þeim undanfarna mánuði myndu orðin stóriðja og virkjanaframkvæmdir líklega hafa verið nefnd mörg hundruð sinnum og stundum sem aðal áhersluatriði í helstu fréttum dag eftir dag.
Á sama tíma minnist ég þess ekki að orðið ferðaþjónusta hafi nokkurn tíma verið nefnt.
Áhersluatriðin hjá ráðandi öflum eru skýr. Það er búið að skipta atvinnulífinu í tvennt:
Annars vegar stóriðja og virkjanaframkvæmdir. Um það snýst allt. Það er forsenda fyrir stöðugleikasáttmála og lífi í landinu. "Við verðum að geta lifað í þessu landi!" er hrópað og síðan þarf ekki að rökstyðja það nánar.
Aldrei er minnst á það að í öllum þeim álverum sem hægt er að reisa hér og nota myndu alla fáanlega orku með stórfelldri eyðileggingu á mesta verðmætinu, einstæðri náttúru, muni aðeins 2% vinnuaflsins í mesta lagi fá vinnu. 8% vinnuaflsins ef við teljum með svonefnd "afleidd störf."
Hins vegar er "eitthvað annað". Undir það fellur ferðaþjónustan og geldur þess. Þess er aldrei getið að þegar búið verður að reisa öll möguleg álver muni 98% landsmanna vinna við "eitthvað annað."
Þess er aldrei getið að nein önnur starfsemi en stóriðja skapi afleidd störf. Enda eins gott því að ef það yrði gert yrðu afleiddu störfin verða samtals um 700 þúsund manns !
Jafnvel ef við gefum stóriðjunni átta prósentin sem hún telur sig eiga, myndu 92% þjóðarinnar vinna við "eitthvað annað."
Þetta "eitthvað annað er einskis virði í umræðunni, - stóriðjan er allt.
Stefnir í metár í ferðaþjónustu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Hins vegar er "eitthvað annað". Undir það fellur ferðaþjónustan og geldur þess.
Hvers nákvæmlega geldur ferðaþjónustan, Ómar? Að hún eykst ár frá ári?
Þess má geta að Náttúruverndarsamtök Íslands ályktuðu, að fengnu "sérfræðiáliti" fagaðila úr ferðaþjónustunni, um hversu alvarlegar afleiðingar Kárahnjúkaframkvæmdin hefði á ferðamannastraum til Íslands, vegna skaðaðrar ímyndar landsins. Niðurstöður "sérfræðinganna" voru sláandi. Ferðamönnum á Austurlandi myndi fækka um 50% og um 30% á landinu öllu.
Náttúruverndarsamtökin hljóta að hafa valið "vitlausa sérfræðinga"
Gunnar Th. Gunnarsson, 3.11.2009 kl. 13:30
Erlendir ferðamenn koma til landsins allt árið og hlutur ferðaþjónustunnar hefur aukist hér mikið undanfarið á sama tíma og verð á áli hefur lækkað.
Á Alþingi var í gær rætt um að reiknað væri með einni milljón ferðamanna til landsins eftir einungis átta ár og við þyrftum að sjá svo um að hingað kæmu aðallega ríkustu ferðamennirnir í heiminum.
Í fyrsta lagi getum við almennt ekki valið hvaða ferðamenn koma til landsins, frekar en hvers konar fiskur kemur á miðin hér, og í öðru lagi koma ríkustu ferðamenn heimsins hingað nú þegar, bæði með flugi og skemmtiferðaskipum.
Meðalaldur erlendra ferðamanna hér árið 2007 var 41 ár og 91% þeirra var með í meðallagi háar eða enn hærri tekjur. Því er beinlíns rangt að halda því fram að hingað komi aðallega skólafólk og bakpokaferðalangar, sem geta hins vegar verið áberandi á þjóðvegunum.
Aftur á móti er hægt að stjórna aðgangi ferðamanna að viðkvæmum svæðum hér með því að hleypa einungis ákveðnum fjölda þeirra inn á þau á hverjum klukkutíma og hverjum degi.
Og hér er hægt að skapa mikla vinnu skólafólks á sumrin við til að mynda nauðsynlega lagningu göngustíga, merkingar, hreinsun, leiðsögn, eftirlit, sýningar, veitingar og miðasölu.
Tekjur okkar af ferðaþjónustunni standa að sjálfsögðu undir þessum kostnaði, svo og nauðsynlegri vegagerð um allt land, sem kemur öllum landsmönnum til góða.
Október 2009: Ferðaþjónustan á Íslandi í tölum
Þorsteinn Briem, 3.11.2009 kl. 14:07
Þingsályktunartillaga um landnýtingaráætlun fyrir ferðaþjónustu á Miðhálendinu fær góðan hljómgrunn á Alþingi og verður að öllum líkindum samþykkt í þessum mánuði
Þorsteinn Briem, 3.11.2009 kl. 14:22
Í þau skipti sem ég fór til útlanda til þess að kynna mynd mína um Kárahnjúkavirkjun var ég spurður aftur og aftur: Hvernig stendur á því að við fengum aldrei að vita neitt um þessa virkjun?
Mér vitanlega voru aldrei sendar fréttamyndir af þessu til erlendra sjónvarpsstöðva.
Á kvikmyndahátíð í Helsingborg sýndi maður frá Discovery Channel í Hollandi áhuga á myndinni til að byrja með en síðan sendi Discovery hóp til Íslands sem gerði mynd um hið mikla verkfræðilega afrek, sem virkjunin væri þar sem umhverfisáhrifanna var að engu getið og hollenska stöðin sýndi hana.
Þýskir sjónvarpsáhorfendur fengu fyrstir manna í veröldinni tækifæri fyrir nokkrum dögum til að sjá hið markverðasta sem Gjástykki býður upp á. Íslendingar ekki og gamla trixið á að virka, að þá fyrst verði keðjan tekin, sem lokar leiðinni þangað frá Kröflu, þegar búið verður að virkja allt og Landsvirkjun hefur "skapað aðgengi að svæðinu" sem annars var ekki fyrir hendi.
Stefnan er skýr: Stanslaus söngur Íslendinga, allt frá forsetanum og niður úr um það hve mikil forystuþjóð við séum í umhverfismálum heldur áfram einhliða í gegnum gróðæri, hrun og kreppu.
Alveg eins og í kreppunni gengur þetta allt saman svo óskaplega vel. Útlendingarnir fá aðeins að sja og heyra um glansmyndina rétt eins og þeir fengu aðeins að sjá glansmyndina af íslenska efnahagsundrinu.
Nú er það orðið trúaratriði að engu skipti hve illa við munum fara með náttúruundur landsins, útlendingar muni aldrei fá að vita af því og þess vegna muni þeir halda áfram að koma hingað til að dást að náttúrunni.
Ómar Ragnarsson, 3.11.2009 kl. 14:25
Launakönnun VR 2009 - Grunnlaun, heildarlaun og vinnutími á hótelum, veitingahúsum, ferðaskrifstofum, í samgöngum á sjó og landi, flutningaþjónustu og flugsamgöngum - Sjá bls. 23-25
Félagssvæði VR nær yfir lögsagnarumdæmi Reykjavíkur, Kópavogs, Hafnarfjarðar, Garðabæjar, Seltjarnarness, Mosfellsbæjar, Álftaness, Kjósarhrepps, Akraness og nágrennis, Húnaþings vestra, alls Austurlands og Vestmannaeyja.
Þorsteinn Briem, 3.11.2009 kl. 14:31
Náttúruverndarsamtök, listamenn o.fl. reyndu allt hvað af tók að sverta ímynd Íslands vegna Kárahnjúka. Haldnar voru ljósmyndasýningar, t.d. í Þýskalandi, þaar sem sýndar voru ýmsar náttúruperlur af landinu og fullyrt að allt sem sæist á myndunum yrði eyðilagt. Það var auðvitað erfitt fyrir ókunnuga að rengja þetta en staðreyndin var sú að slatti var látin fylgja með til þess að gera þetta enn meira krassandi.
Svoleiðis vinnubrögð flokka ég undir landráð.
Náttúruverndarsamtök með Árna Finnsson í farabroddi hótuðu öllu illu, þ.e.a.s að fá erlend náttúruverndarsamtök í lið með sér til að "upplýsa" almenning í útlöndum um hin meintu voðaverk sem hér var verið að fremja á nánast landinu öllu.
Þessir "landvinir" þínir gerðu allt sem í þeirra valdi stóð til þess að skemma fyrir íslenskri ferðaþjónustu með ýkju og bull-áróðri. En þeim tókst það ekki, vegna þess að svona öfgasamtök eru líka til annarsstaðar í heiminum og aðilar sem vilja láta taka sig alvarlega, gleypa ekki við hverju sem er að óathuguðu máli.
Reyndar er ég hissa að Discovery Channel skyldi ekki vilja kaupa myndina þína. Þeir kaupa áróðursmyndir af "Hr. Watson" hjá Greenpeace! Ég horfði á nokkrar slíkar um daginn, sem heita að mig minnir "Whale War". Annað eins rakalaust bull hef ég ekki séð frá þessari, að ég hélt, virtu fræðslustöð.
Gunnar Th. Gunnarsson, 3.11.2009 kl. 14:58
Ég er sammála þér Steini, að það þarf að stjórna aðgangi ferðamanna og ekki síst Íslendinga sjálfra að okkar viðkvæmu náttúruperlum. Hraunið og mosann er auðvelt að eyðileggja, og þótt að Ísland sé stórbrotið, þá er líka afar viðkvæm náttúran hér.
Við megum ekki láta einbera græðgina ráða -- það þarf að huga vel að landvernd í leiðinni.
Vigdís Ágústsdóttir (IP-tala skráð) 3.11.2009 kl. 15:12
Við Hafrahvammagljúfur hefur verið þessi áletrun á skilti, sem Landsvirkjun setti upp: "Akið ekki eða gangið utan merktra slóða. Hróflið ekki við gróðri, steinum eða náttúruminjum. Munum að ósnortin náttúra er auðlind Íslands!"
Lengi vel stóðu stór skilti við innkeyrslur á svæðið með þessari áletrun: "Kárahnjúkavirkjun er forsenda fyrir stofnun þjóðgarðs á þessu svæði."
Þjóðgarðar felast í varðveislu ósnortinnar náttúru, en aðilinn sem stóð að mestu hugsanlegu spjöllum á þessu svæði taldi sig skapa forsendu fyrir varðveislunni sem þjóðgarðurinn byggðist á!
Þetta skilti var sett upp rétt utan við 25 kílómetra langan dal, sem sama fyrirtæki drekkti í drullu vegna framkvæmdar sem hafði í för með sér mestu umhverfisspjöll Íslandssögunnar.
Ég fór á ljósmyndasýninguna sem þú talar um og var haldin í Berlín. Það er víst ekkert mark takandi á mér þrátt fyrir að enginn maður hefur skoðað þetta svæði betur á landi, vatni eða úr lofti, en ég tel mig geta fullyrt að engin myndanna á þeirr sýningu var "fölsuð". Skoðaðir þú þessa sýningu?
Nú veit ég að í þínum augum var þessi sýning landráð og ég því landráðamaður.
Sýninguna í Berlín sáu um 0,0001% þýsku þjóðarinnar.
'
Myndin sem ég berst nú fyrir við illan leik að fullgera um möguleikana sem ferðaþjónustan á á Leirhnjúks-Gjástykkis-svæðinu er í þínum huga það að ég "berjist með kjafti og klóm fyrir því að skemma fyrir íslenskri ferðaþjónustu með ýkju- og bulláróðri."
Sjálfur hafa þú og þín skoðanasystkin allt á hornum ykkar varðandi það að þarna séu möguleikar á að skapa miklu fleiri störf við ferðaþjónustu í tengslum við náttúruundrin á hinu ósnortna svæði heldur en þau störf sem fást í álverinu í 70 km fjarlægð.
Það kallar þú líklega mikla baráttu þína fyrir ferðaþjónustunni gegn "skemmdarvarginum" gagnvart henni sem ég er.
Mikil er trú þín.
Ómar Ragnarsson, 3.11.2009 kl. 15:36
Ég sá ekki sýninguna í Berlín en ég sá myndir sem Náttúruverndarsamtök Íslands (eða Landvernd) setti upp á netinu vegna Kárahnjúka, undir enskum textum. Þar stóð "Land that will be destroyed". Þar voru m.a. myndir af Eyjabökkum og Snæfelli. En það er auðvitað eyðilagt að ykkar mati "Hin heildræna mynd", o.s.f.v. Enda sagði í áróðri náttúruverndarsamtaka að hálendi Íslands lægi undir og svo birti Saving Iceland hópurinn þessa mynd sem sjá má HÉR
Þú talar um eitthver brotabrot af þýsku þjóðinni sem sá sýninguna. Fréttir af sýningunni og innihald hennar kom í þýskum fjölmiðlum. Hvað heldurðu að margir hafi séð þá frétt og myndað sér skoðun út frá henni?
Möguleikar á ferðaþjónustu verða ekki minni á Leirhnjúks-Gjástykkis-svæðinu, með tilkomu virkjana, hugsanlega meiri, eins og dæmin sanna.
En eflaust munu "öðruvísi" ferðamenn heimsækja svæðið með virkjunum.... en við græðum jafnmikið á þeim.
Gunnar Th. Gunnarsson, 3.11.2009 kl. 16:09
Um 70% erlendra ferðamanna komu hingað árið 2007 til að njóta náttúru landsins og 40% nefndu íslenska menningu og sögu en einungis 10%, eða færri, aðra þætti.
Október 2009: Ferðaþjónustan á Íslandi í tölum - Sjá bls. 12
Þorsteinn Briem, 3.11.2009 kl. 16:50
Ef möguleikar á ferðaþjónustu munu aukast með því að virkja á Leirhnjúks-Gjástykkissvæðinu munu þeir líka aukast í Öskju og Kverkfjöllum, Kerlingarfjöllum og við Landmannalaugar ef virkjað er á þessum svæðum.
Glæsilegt! Virkjum allt ! Það er besta leiðin til þess að auka ferðamannastrauminn !
Ferðamennirnir sem spurðir hafa verið um hvað hafi dregið þá til Íslands hafa að miklum meirihluta svarað því til að þeir hefðu komið til Íslands vegna hinnar einstæðu ósnortnu náttúru landsins.
Nú skulum við hins vegar finna fleiri ferðamenn sem munu vilja fara virkjana á milli alla leið frá Reykjanesi norður í Gjástykki vegna þess að þeir vilja aðeins skoða gufuleiðslur, borholur, háspennulínur og stöðvarhús.
Hinir vitleysingarnir geta bara vel farið til Yellowstone til þess að skoða ósnortin jarðvarmasvæði.
Ómar Ragnarsson, 3.11.2009 kl. 20:24
Eitthvað fallegasta vatn sem ég hef komið á heitir Lake Powell sem er á landamærum Arizona og Utah, en það myndaðist þegar að stíflan við Glen Canyon var byggð árið 1963. Það tók síðan 14 ár að fylla lónið og nú er strandlínan orðin 1986 mílur að lengd. Þarna sigldi ég um vatnið klukkutímum saman um þrönga kanala eins og milljónir annarra ferðamanna sem koma þangað ár hvert. Reyndi meira að segja að renna fyrir fisk þar en því miður kom ég með öngul í rass í það skipti. Þetta hefði ég ekki getað gert frekar en hinir milljón ferðamennirnir . En það eru til öfl þarna líka sem vilja þurrka upp vatnið en með því myndu þeir taka frá yfir 100milljónir Dollara frá Navaho Generation Station og útiloka alla möguleika á vinnu fyrir Navaho frumbyggjanna sem búa þarna í bænum Page og útiloka alla skólagöngu barna þeirra. En um það má lesa hér
Það væri gaman að fá tölur frá Landsvirkjun um fjölda þeirra ferðamanna sem koma í heimsókn til þeirra.
Mér finnst þetta tvennt fara ákaflega vel saman.
kveðja
Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 3.11.2009 kl. 20:49
Ómar, þú ferð alltaf með virkjanir út um víðan völl!
Bláa Lónið, Nesjavellir, Kárahnjúkar og Krafla er gott dæmi um virkjanir sem laða að sér ferðamenn. Finnst þér ekki jákvætt að erlendir og innlendir ferðamenn skuli hafa áhuga á að skoða þessa staði? Eða ferðu í manngreiningarálit hvað ferðamenn varðar?
Athyglisverð athugasemd hjá þér, Rafn.
Gunnar Th. Gunnarsson, 3.11.2009 kl. 21:52
Ég hef áður talið upp tugi virkjana á Íslandi sem mér finnst áhugaverðar vegna ferðamennsku og ég hef stutt.
En ég get ekki samþykkt að þannig eigi að fara með alla þá staði sem eftir eru. Ég er ekki í hópi þeirra "hófsemdarmanna" sem vilja virkja allt og get nefnt og hef nefnt mörg dæmi erlendis frá um það að virkjanir og ósnortin náttúra geta ekki farið saman.
Ég hef líka skoðað Powell-vatnið og siglt á því og veit hvað Rafn er að tala um.
En ég hef líka siglt eftir krókótu Glengjúfrinu fyrir neðan stífluna og af því má ráða hvernig það hefði verið ef gljúfrin fyrir ofan stíflu hefðu verið látin í friði.
Það stóð til að taka hluta gljúfranna fyrir neðan stífluna undir virkjun á stærð við Kárahnjúkavirkjun.
Hætt var við þá virkjun og réði úrslitum auglýsing þar sem sýnt var hvernig ferðamenn sigldu um í hálffylltri Sixtínsku kapellunni í Róm og spurt var: Væri ekki rétt að hálffylla Sixtínsku kapelluna af vatni svo að ferðamenn geti skoðað listaverkin í lofti hennar betur?
Ef gerð væri há stífla fyrir ofan Landmannalaugar í þröngu gljúfrinu í mynni Jökulgils yrði til langflottasta fjallavatn á Íslandi þar sem hægt yrði að sigla inn í öll hin mögnuðu gil sem liggja niður í Jökulgil.
Í rökræðu við Halldór Ásgrímsson á sínum tíma benti ég honum á að til væru áætlanir sem miðuðu að því að leiða vatnið úr jökulsánum tveimur á Dal og í Fljótsdal austur í Jökulsá í Lóni, gera mikla stíflu þar í gljúfrunum austan við Illakamb og mynda frábærlega fallegt fjallavatn þar fyrir innan.
Ertu brjálaður? hrópaði Halldór. Að eyðileggja sjálf Lónsöræfi!
"Það myndi valda minni umhverfisspjöllum en stíflurnar og lónið við Kárahnjúka" svaraði ég.
"Það þekkir nú enginn það svæði nema þú" sagði Halldór.
Hann þekkti Lónsöræfi en ekki Kárahnjúkasvæðið og það réði afstöðu hans.
Þetta var ekki einkaviðtal okkar. Í þessu samtali okkar hellti Halldór sér yfir mig að viðstöddum kvikmyndatökumanni Sjónvarpsins.
Það væri líka hægt að hækka stífluna við suðurenda Þingvallavatns og tvöfaldað afl Steingrímsstöðvar.
Við það myndi verða til alveg meiriháttar siglingaleið inn í Almannagjá !
Ómar Ragnarsson, 3.11.2009 kl. 22:19
Ómar sæll. Það verður seint hægt að sætta þessi sjónarmið, vernda ósnortna náttúru eða nýta hana til að bæta lífskjör okkar. Til að setja verðmæti í samhengi er gott að setja verðmiða á t.d. fossa í jökulám sem eru okkar helstu verðmæti (auðlindir) og hafa skapað okkur allnokkra velsæld ásamt varmaorkunni. Fyrir mína parta er fegurð fossa í jökulám takmörkuð. Tilkomumiklir að vísu og oft ógnvekjandi en ekki fallegir miðað við fossa í bergvatnsám. Ég tek sem dæmi mjög gróflega ef Dettifoss sem er nærri fjórfalt aflmeiri en Urriðafoss í Þjórsá, yrði virkjaður. Unnt væri samt sem áður að halda í honum góðu rennsli eins og gert er með Niagara fossa sem eru löngu virkjaðir. Þá væri unnt að selja orkuna miðað við 4000 krónur á kw st á ári, á um 80 milljónir á sólarhring. Þetta eru nokkuð margir milljarðar á ári eða nálægt 30. Siðan er það kostnaður við framkvæmdina og samningsverð á rafmagninu sem skæri úr um hagkvæmi virkjunarinnar. Orkan yrði nýtt í héraði og ekkert endilega fyrir álver.Er ekki synd að láta fallvötnin renna óvirkjuð til sjávar? Þetta er auðvitað tabú en ég læt það samt flakka og vona að ég fái ekki fyrir allt of mikla skömm í hattinn.
Sigurður Ingólfsson, 3.11.2009 kl. 22:33
Við Íslendingar seljum EKKI ál og kísiljárn, heldur rafmagn til stóriðju.
Langtímaskuldir Landsvirkjunar í árslok 2008 voru um þrír milljarðar bandaríkjadala, eða 370 milljarðar króna, andvirði þriggja Kárahnjúkavirkjana.
Vaxtagjöld Landsvirkjunar í fyrra voru 178 milljónir bandaríkjadala, um 20 milljarðar króna.
Og Landsvirkjun tapaði í fyrra 345 milljónum bandaríkjadala, um 40 milljörðum króna.
Landsvirkjun er sameignarfyrirtæki, ríkissjóður á 99,9% í fyrirtækinu, og í desember síðastliðnum gaf matsfyrirtækið Moody's Landsvirkjun langtímaeinkunnina Baa1/negative.
Þorsteinn Briem, 3.11.2009 kl. 23:55
Á bak við skuldir LV liggja gríðarlegar fasteignir. Fjárfestingar hjá LV hafa sennilega verið meiri en hjá nokkru öðru orkufyrirtæki í heiminum, miðað við stærð, sl. 40 ár.
Skuldir LV vegna Kárahnjúka verða horfnar eftir ca. 20 ár.
Gunnar Th. Gunnarsson, 4.11.2009 kl. 00:36
Það væri nú ekki gáfulegt ef íslenskt ríkisfyrirtæki, sem skuldar andvirði þriggja Kárahnjúkavirkjana, setti sig í enn meiri skuldir vegna stóriðju.
Það er ekki hægt að reisa stóriðjuver í hverjum firði og við getum selt raforku til gagnavera í til að mynda Þorlákshöfn, á Ásbrú í Reykjanesbæ, í Fjallabyggð og Þingeyjarsveit.
Orkan hér er ekki endalaus og raforkunotkun almennings eykst um 2% á ári.
1.10.2009: Grein Sigmundar Einarssonar jarðfræðings með töflum og korti:
Hinar miklu orkulindir Íslands- Getum við virkjað endalaust?
29.10.2009: "Tap Century Aluminum, móðurfélags Norðuráls, fyrstu sex mánuði ársins nam 181,6 milljónum bandaríkjadala, andvirði 22,5 milljarða króna. Þetta er aðeins minna tap en á sama tíma í fyrra en þá var það 201,6 milljónir dala.Mjög hefur dregið úr söluhagnaði fyrirtækisins og sölutekjur á fyrstu níu mánuðum þessa árs námu 642,4 milljónum dala en á sama tímabili í fyrra 1.568,6 milljónum dala."
Móðurfélag Norðuráls tapaði 22,5 milljörðum króna fyrri helming ársins
Norðurál - Störf í stóriðju geta verið mjög hættuleg og krefjandi
14.10.2009: Alvarlegt vinnuslys í álveri Alcoa í Reyðarfirði
Gagnaver Verne Global á Ásbrú við Keflavíkurflugvöll þarf fullbúið allt að 150 MW og skapar hundruð starfa, segir Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar.
Viðtal við Árna Sigfússon um gagnaver Verne Global á Ásbrú - Myndband
Verne Global í viðræðum við IBM um gagnaver
Iðnaðarráðherra leggur fram frumvarp til laga vegna Verne Global
14.3.2009: "Orkufyrirtækin sáu sér hag í því að fá þessa starfsemi til landsins og lögðu fram tæplega 1,5 milljarða kr. í hlutafé í Farice og ríkið lagði fram tæpar 400 milljónir kr.
Í fjárlögum þessa árs er síðan heimild fyrir ríkið að ábyrgjast 5 milljarða króna lán vegna sæstrengsins og hefur það auðveldað fjármögnun."
Fréttaskýring Morgunblaðsins: Tekjur af sæstrengnum Danice
18.4.2008: "Þann 2. apríl sl. var skrifað undir viljayfirlýsingu í Hollandi milli Greenstone ehf. og LV [Landsvirkjunar] um sölu á raforku til netþjónabúa.
Helstu ákvæði viljayfirlýsingarinnar milli Greenstone og LV eru að fyrirtækin hyggjast ganga frá samningi um sölu á 50 MW af rafmagni sem ætlunin er að fari til tveggja búa sem taka um 25 MW hvort.
Greenstone hefur enn fremur til skoðunar að reisa tvö eða fleiri hátæknivædd netþjónabú til viðbótar hér á landi á næstu 3-5 árum og má áætla að heildarfjárfesting vegna þeirra geti numið allt að 50 milljörðum kr."
Viljayfirlýsing Greenstone og Farice um gagnaflutninga og sveitarfélagsins Ölfuss um netþjónabú í Þorlákshöfn
25.8.2009: "Fleiri fyrirtæki en Greenstone vilja reisa gagnaver á Íslandi. Á meðal þeirra eru Verne Holding og Titan Global. [...]
Greenstone ehf. er í eigu íslenskra, bandarískra og hollenskra aðila. Sveinn [Óskar Sigurðsson, talsmaður Greenstone hérlendis] segir að fyrirtækið hafi byggt yfir 700 byggingar í Bandaríkjunum sem tengist gagnaversiðnaðinum með einum eða öðrum hætti."
Um 120 störf í gagnaveri Greenstone á Blönduósi
Um 20 störf í netþjónabúi Greenstone í Fjallabyggð
Gagnaver í Þingeyjarsveit
Sveitarfélagið Þingeyjarsveit - Kort
Sveitarfélagið Norðurþing - Kort
Stefnt er að um 120 störfum í gagnaveri Greenstone á Blönduósi en í lok september síðastliðins voru 15 atvinnulausir í Þingeyjarsveit, þar af 7 karlar, og 77 í Norðurþingi, þar af 30 karlar, samkvæmt tölum frá Vinnumálastofnun.
Atvinnuleysi á Vestfjörðum og Norðurlandi vestra var aðeins 1,8% og einungis 2,3% á Austfjörðum í september síðastliðnum en atvinnuleysi hérlendis hefur ekki farið niður fyrir 1-2% undanfarin ár.
25.8.2009: "Fleiri fyrirtæki en Greenstone vilja reisa gagnaver á Íslandi. Á meðal þeirra eru Verne Holding og Titan Global."
Og laun í stóriðju eru ekki hærri en í ferðaþjónustunni hér.
Kauptaxtar Norðuráls frá 1.1.2009
Kauptaxtar Íslenska járnblendifélagsins frá 1.12.2008
Launakönnun VR 2009 - Grunnlaun, heildarlaun og vinnutími á hótelum, veitingahúsum, ferðaskrifstofum, í samgöngum á sjó og landi, flutningaþjónustu og flugsamgöngum - Sjá bls. 23-25
1. nóvember síðastliðinn hækkuðu kauptaxtar verkafólks um 6.750 krónur á mánuði og iðnaðarmanna um 8.750 krónur. Einnig er gert ráð fyrir grunnhækkun launa um 3,5% en frá henni dragast launahækkanir frá og með 1. janúar 2009 til og með 1. nóvember, þar með talið vegna hækkunar kauptaxta.
1. júní 2010 hækka laun um 2,5% en hækki laun meira vegna sérstakrar hækkunar kauptaxta, gildir sú hækkun.
Þorsteinn Briem, 4.11.2009 kl. 02:48
Þegar álverið á Bakka er komið á koppinn, þá verð ég ánægður. Gagnaverin eru að sjálfsögðu velkomin líka.
En varðandi strípaða kauptaxta, þá segja þeir ekki allt. Vaktaálag og árangurstengdir kaupaukar og fríðindi geta breytt myndinni mikið. Þannig geta óbreyttir starfsmenn á verksmiðjugólfi Alcoa, haft mjög góð laun, þó grunntaxtinn sé e.t.v. ekki ýkja hár.
Gunnar Th. Gunnarsson, 4.11.2009 kl. 03:49
Mbl.is 12. 6.2008: "Á vefsíðu Fjarðaáls kemur fram að meðallaun framleiðslustarfsmanna eru tæpar 336.000 krónur á mánuði, með innifalinni yfirvinnu, vaktaálagi og fleiru.
Gera má ráð fyrir að það taki starfsmanninn 18-36 mánuði að fá tilskilda þjálfun og réttindi sem liggja að baki fyrrgreindum launum."
Samkvæmt launakönnun VR, sem gerð var í ársbyrjun 2009 og tæplega ellefu þúsund manns svöruðu, voru heildarmánaðarlaun á hótelum, veitingahúsum og ferðaskrifstofum 362 þúsund krónur, í samgöngum á sjó og landi og flutningaþjónustu 377 þúsund krónur og flugsamgöngum 391 þúsund krónur.
(Og í matvæla- og drykkjariðnaði voru heildarmánaðarlaunin 391 þúsund krónur, lyfjaiðnaði 411 þúsund krónur, ýmsum iðnaði og byggingastarfsemi 441 þúsund krónur, byggingavöruverslunum 363 þúsund krónur og stórmörkuðum, matvöruverslunum og söluturnum 352 þúsund krónur.)
Félagssvæði VR nær yfir lögsagnarumdæmi Reykjavíkur, Kópavogs, Hafnarfjarðar, Garðabæjar, Seltjarnarness, Mosfellsbæjar, Álftaness, Kjósarhrepps, Akraness og nágrennis, Húnaþings vestra, alls Austurlands og Vestmannaeyja.
Launakönnun VR 2009 - Grunnlaun, heildarlaun og vinnutími á hótelum, veitingahúsum, ferðaskrifstofum, í samgöngum á sjó og landi, flutningaþjónustu og flugsamgöngum - Sjá bls. 23-25
Þorsteinn Briem, 4.11.2009 kl. 06:07
Þú ert með gamlar tölur, Steini.
"Þegar framleiðslustarfsmaður hefur fengið þjálfun og vottun til að vinna sjálfstætt á tilskildum fjölda starfsstöðva eru viðmiðunarlaun yfir árið í kringum 4.475.000 kr." (Um 373.000 á mán. eftir 18-36 mán) sjá HÉR
Þessar tölur miða við "ófaglærða" starfsmenn í framleiðslustörfum á verksmiðjugólfi.
Í Launakönnun VR eru starfsmenn á hótelum, veitingahúsum og ferðaskrifstofum, spurðir um laun sín. Hvað svaraði hátt hlutfall starfsmanna þessum spurningum VR? Hvert var hlutfall menntaðra/ómenntaðra? Undir/yfirmanna?
Svöruðu thailensku og pólsku ræstingarkonurnar spurningunni? Fengu þær spurningarnar á móðurmálinu? Fengu unglingar í sumarafleysingum að svara, eða nenntu þeir því yfir höfuð?
Gunnar Th. Gunnarsson, 4.11.2009 kl. 14:22
Gleymdi að setja inn að starfsmenn Alcoa frá frítt fæði og fríar ferðir til og frá vinnu
Gunnar Th. Gunnarsson, 4.11.2009 kl. 14:29
Enda þótt meðallaun framleiðslustarfsmanna Fjarðaáls í Reyðarfirði séu 373 þúsund krónur á mánuði, með orlofs- og desemberuppbót, eru þau ekki hærri en meðallaunin í ferðaþjónustunni, eins og fram kemur hér að ofan, og laun hafa almennt lítið hækkað í þjóðfélaginu síðastliðið ár.
Um 1.600 íslenskir flugmenn, flugfreyjur, flugþjónar, flugvirkjar og flugumferðarstjórar starfa hér í ferðaþjónustunni við innanlandsflugið og millilandaflugið. Þeirra laun hafa ekki verið tekin hér með í reikninginn og þau hækka að sjálfsögðu meðallaunin töluvert í ferðaþjónustunni.
Rúmlega 600 eru í Félagi atvinnuflugmanna (FÍA), rúmlega sjö hundruð í Félagi flugfreyja. um 200 flugvirkjar vinna hjá Icelandair og Flugfélagi Íslands og um 100 flugumferðarstjórar starfa hér.
Meðallaun flugmanna virðast vera um ein milljón króna á mánuði, samkvæmt Tekjublaði Frjálsrar verslunar 2009 og þar má finna flugfreyjur með 400 og 500 þúsund krónur á mánuði, flugvirkja með 400 og 700 þúsund krónur á mánuði og flugumferðarstjóra með um eina milljón króna á mánuði.
Félag Íslenskra Atvinnuflugmanna
Flugfreyjufélag Íslands
Flugvirkjafélag Íslands
Flugumferðarstjórar í BSRB
Ræstingafólk vinnur í öllum fyrirtækjum, bæði í þjónustu- og framleiðslufyrirtækjum, álverum sem ferðaþjónustu.
Herbergisþernur vinna á hótelum og sumarið 2008 voru 300 hótel og gistiheimili á landinu, misjafnlega stór að sjálfsögðu. Og á móti þeirra launum koma mun hærri laun flugmanna, flugfreyja, flugþjóna, flugvirkja og flugumferðarstjóra.
Um 200 þeirra sem starfa á hótelum, veitingahúsum og ferðaskrifstofum tóku þátt í launakönnun VR í ársbyrjun 2009. Einnig um 200 þeirra sem starfa í flugsamgöngum og um 400 þeirra sem vinna við flutningaþjónustu og samgöngur á sjó og landi, sem ætti að vera marktækt úrtak, enda ólíklegt að eingöngu þeir sem hæst höfðu launin hafi svarað könnuninni.
Þorsteinn Briem, 5.11.2009 kl. 13:36
Það er ekkert ólíklegt að þeir sem skilja ekki íslensku, hafi ekki svarað könnuninni. Afhverju var þetta könnun? Afhverju voru tekjur þessa fólks ekki bara skoðaðar.
Ekki er gerð "könnun" þegar laun í áliðnaðinum eru skoðuð
Gunnar Th. Gunnarsson, 5.11.2009 kl. 14:38
VR getur ekki skoðað skattframtöl. VR hefur gert þessar launakannanir árlega síðastliðin tíu ár og þær sýna launahækkanir sem eru í samræmi við aðrar launahækkanir í þjóðfélaginu.
Þorsteinn Briem, 5.11.2009 kl. 16:04
Skattframtöl eru opinber gögn, öllum aðgengileg og þarf ekki sérstakt leyfi til skoðunnar.
Gunnar Th. Gunnarsson, 5.11.2009 kl. 16:26
Álagning skattstjóra er aðgengileg í skamman tíma árlega í ágúst en VR færi nú ekki að skoða álagningu þeirra sem greitt hafa félagsgjöld til VR.
Þorsteinn Briem, 5.11.2009 kl. 16:53
Verkalýðsfélag Akraness 30.10.2009:
"Ekki er ólíklegt að lögð verði mikil áhersla á launaliðinn í komandi viðræðum og mun Verkalýðsfélag Akraness leggja ofuráherslu á að launakjör Norðuráls verði með sambærilegum hætti og annarra fyrirtækja í samskonar iðnaði. Við annað er alls ekki hægt að una."
Verkalýðsfélag Akraness
Þorsteinn Briem, 5.11.2009 kl. 18:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.