Rómverjar, Fönikíumenn og Gallar.

Fornleifafræðilega eru meiri líkur á því að Rómverjar hafi komið fyrstir til Íslands heldur en Írar eða Norðmenn. Ástæðan er fólgin í því að engar áþreifanlegar minjar hafa fundist um veru Íra hér þótt Landnámabók tilgreini þá. Hins vegar minjar um Rómerja. 

Landnámabók tilgreinir að Írar hafi komið á undan Norðmönnum vegna þess að ekki var hægt að sneiða fram hjá hinum mikla innflutningi fólks af Bretlandseyjum til landsins.

Dýrð landnámsins er hins vegar öll eignuð Norðmönnum og sagt að Írarnir hafi verið einsetumenn sem ekki fjölguðu sér. Það er hæpin alhæfing og þegar litið er til þeirra laga, sem talin voru gilda um landnám, sést að Norðmönnum hefur verið mikið í mun að sanna að þeir ættu lagalegan rétt til landsins og engir aðrir.

Sagan af öndvegissúlunum sýnir að landnámið varð líka að vera trúarlega pottþétt því að í öndvegissúlunum fólust heimilisguðir Ingólfs sem friðmæltust við landvættina.  

Langafi minn, Runólfur Bjarnason hómópati í Hólmi í Landbroti mun hafa greint frá því í viðtali í Ísafold og Verði eða í Tímanum snemma á síðustu öld að í sandi þar í grenndinni hafi fundist siglutré úr óvenjulega harðri trjátegund.

Hvers vegna var siglutré grafið þar í sandi, langt frá sjó?  

Jú, líkur eru á því að hægt hafi verið að sigla langleiðina upp á Síðufjöllum fyrir 2000 árum áður en stórgos og sandflutningar færðu ströndina út, og því ekki óhugsandi að þar hafi strandað rómverskt eða jafnvel skip þjóðflokks í Gallíu (Frakkalandi) sem bjó yfir bestu siglingatækni þess tíma og notaði mjög harða trjátegund í skip sín.  

Fyrstu menn sigldu vafalaust til Íslands fyrir Krists burð og fyrstu Norðmennirnir vafalaust löngu fyrir þann tíma sem landnám Ingólfs er talið hafa átt sér stað.

Nú sem fyrr gilda orð Ara fróða: "Hvatki es missagt er í fræðum þessum, þá er skylt að hafa það er sannara reynist.

Spurningin er hvort vopnaviðskipti Hjörleifs við þræla hans eru endurómur af því að norsku víkingarnir þurftu að berjast við þá sem voru fyrir í landinu til þess að ná því undir sig.

DSCF0171

Munnlegir vitnisburðir eru hæpnir. Dæmi: Það er almennt haldið að fyrsti bíllinn minn, sem ég átti í rúm þrjú ár, hafi verið þriggja hjóla bíll.

Þessi vitleysa er orðin svo sterk að meira að segja einstaka bekkjarfélagar mínir úr M.R. hafa verið farnir að halda þetta.

Hér á síðunni er mynd af sams konar bíl og ég átti, NSU Prinz, þessi svarti, og hjólin eru ekki aðeins fjögur, heldur yst úti í hornum bílsins.

DSCF0174

Um þetta hef ég sagt: "Ég er bíladellukarl. Ef ég væri mikill kvennamaður myndi ég áreiðanlega muna eftir því hve margir fætur voru undir fyrstu kærustunni minni."

Fóturinn fyrir þessari furðulegu sögu er að í fyrsta áramótaskaupi Sjónvarpsins var ég látinn koma akandi inn í stúdíó á Messerschmitt þriggja hjóla bíl, stíga út úr honum og syngja eitthvað sem ég man ekki lengur hvað var, enda skaupið týnt og tröllum gefið.

Þessi bíll var gerólíkur Prinzinum, miklu mjórri og aðeins einn sat frammi í og einn afturí.

Sem sagt: Eins og yfirbyggt vélhjól. 

Þetta var í eina skiptið á ævinni sem ég settist upp í slíkan bíl en ók um daglega á Prinzinum í þrjú og hálft ár.  

 

 


mbl.is Var Ísland numið 670?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Offari

Og hversvegna óx Njáli og synum eigi skegg?   Var Njáll kannski af indjánakyni? Ég held að áður hafi fundist fornleifar sem telja mætti fyrir landnámsöld. En í þá daga fóru menn eftir landnámssöguni svo allt sem ekki stemdi við söguna var útilokað.

Offari, 4.11.2009 kl. 15:20

2 Smámynd: Jakob Orri Jónsson

Þetta er athyglisverð sýn. Minnir mig nokkuð á það sem ég hef lesið eftir Árna Ól um hið svokallaða "landnám fyrir landnám." Vissulega áttu nokkuð góðan punkt með sögusagnir, þær breytast hratt í munnum manna og þeir er rita söguna gjöra slíkt ávalt með einhverja hagsmuni í huga.

 Vandamálið er hinsvegar að það hafa ekki fundist neinar haldbærar fornleifafræðilegar sannanir fyrir nokkurri mannabyggð á Íslandi fyrir um 870 e.Kr. Það gæti hinsvegar allt eins verið vegna fæðar fornleifarannsókna á þessu sviði. Almennt tala fornleifafræðingar samt um að landnám hafi líklegast hafist einhverntíma milli 800 og 900 e.Kr. 

Jakob Orri Jónsson, 4.11.2009 kl. 15:38

3 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Ég hef lengi verið með þá kenningu, að eina ástæða Landnámubókar og Íslendingasögu hafi verið til að tryggja eignarrétt manna á jörðum.  Einnig eins og þu segir, Ómar, að norrænir menn hafi þurft að berjast við heimamenn um jarðnæði hér.  Leiðin sem hafi verið farin, hafi verið að drepa nær allan karlpening en slá eign sinni á kvenfólk og land.  Mér hefur fundist hún ótrúleg sú skýring, að 2/3 - 3/4 alls kvenfólks á tíma landnáms hafi verið sóttur til Bretlandseyja sem herfang.  Miklu nær sé að það hafi búið hér á landi, þegar norrænir menn komu hingað.  Með fullri virðingu fyrir siglingaþekkingu víkinganna og bardagahæfni, þá er þetta gríðarlega mikil fjöldi kvenna sem þannig átti að hafa verið tekinn og þær þurfti að flytja langan veg.  Mér finnst það nærtækari skýring, að hér var góð byggð kelta, fjölskyldufólks, en ekki einsetumanna.  Ekki má heldur gleyma því, að til eru heimildir á Bretlandseyjum um fólksflótta úr norðri um svipað leiti og Ísland var numið norrænum mönnum.

Marinó G. Njálsson, 4.11.2009 kl. 16:26

4 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Mig minir að það hafi fundist Rómversk mynt í Herjólfsdalnum og einnig á Arnarhóli og í Hvítárholti.  Þessar myntir var frá á bilinu ca. 250-300 AD.  Þær væru þá ríflega hálft árþúsund að aldri á tímum meints landnáms. Hreinustu forngripir. Hvernig fá menn þetta heim og saman? Vega skáldögur sagnaritara á 13. öld, þyngra en þessar staðreyndir?

Jón Steinar Ragnarsson, 4.11.2009 kl. 16:27

5 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Þetta átti náttúrulega að vera Íslendingabók ekki Íslendingasögur.

Marinó G. Njálsson, 4.11.2009 kl. 16:39

6 Smámynd: Jakob Orri Jónsson

Jú, það hafa fundist einhverjar fjórar eða fimm rómverskar myndir á Íslandi en sannar það að tilvist rómverja á Íslandi? Mættir eins spyrja hvort að tilvist íslenskra lopapeysa á Arabísku heimili tákni að þeir séu í raun Íslendingar. Er ekki eins líklegt að Arabarnir hafi farið til Íslands og keypt þær eða fengið peysurnar sendar sem gjöf? Rómverskir peningar voru algengir minjagripir um ferðir suður til Evrópu. Það má ekki gleyma öllum þeim fjölda manns sem gekk til Rómar til að sína trú sína á tímum Kaþólskunar á Íslandi.

Jakob Orri Jónsson, 4.11.2009 kl. 16:46

7 Smámynd: Guðmundur Benediktsson

Þessi rómverska mynt segir ekkert um komu rómverja hingað. Slík mynt hefur dreifst með mönnum um Evrópu í aldanna rás og það er líklegra að þessir peningar  hafi borist hingað eftir landnám. Það er nóg til af henni ennþá og hægt að fá fyrir lítið í safnarabúðum og á ebay.

Það er hins vegar ekkert útilokað í þessum málum.

Guðmundur Benediktsson, 4.11.2009 kl. 16:57

8 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Í Íslendingasögu Jón Jóhannessonar greinir höfundur frá nokkrum atriðum varðandi vitneskju manna um Ísland.  Fyrst bendir hann á frásögn Pýþeasar um land, sem hann nefnir Thule, sex daga siglingu norður frá Bretlandi.  Svo segir Jón:

En ekki verður betur séð annað en Thule það, sem Pýþeas nefndi, hafi verið byggt land, og kemur Ísland þá ekki til greina, því að ekki eru minnstu líkur til, að það hafi verið byggt svo snemma.

Næst minnist Jón á rómversku koparpeningana frá árunum 270 - 305 e. Kr.  Peningarnir fundust í Hamarsfirði og í Lóni.  Dregur hann þá ályktun að hingað hafi rómverskt far hrakist á 4. öld.

Þá eru það paparnir.  Jón vitnar til Dicuilusar, írsks munks, sem samdi um 825 ritið De mensura orbis terrar (um mælingu jarðkringlunnar).  Þar lýsir Dicuilus eyjum fyrir norðan Bretlandseyjar, líklega Færeyjum, og síðan eyjunni Thule.  En Dicuilus var ekki einn um nefna Thule.  Það gerði líka Beda prestur (dáinn 735), en hann segir í riti sínu In libros regum quæstionum xxx liber, "að menn þeir, sem búi á eynni Thule..sjái sólina allan sólarhringinn nokkra daga á sumrin".  Hvort Thule er Ísland er ekki óyggjandi, en ef svo er, þá hafa írskir menn sest þar að ekki mikið síðar en í Færeyjum.

Jón Jóhannesson vísar þarna í þrjú ritverk sem nefna Thule og tvö þeirra tala um að menn hafi dvalið á Thule einhvern hluta árs, þeir fyrstu um eða fyrir 700 e.Kr. (Beda prestur) og síðan seint á 8. öld (Dicuilus).  Hvort þetta dugi til að skilja eftir sig þær mannvistarleyfar sem Páll talar um í sini grein er aftur annað mál.

Annars skil ég ekki þá hræðslu við að skoða þenn möguleika að Landnáma og Íslendingabók skauti yfir tilteknar staðreyndir.  Það breytir líklegast ekki þeirri staðreynd, að landnám norrænna manna hófst hér upp úr miðri 9. öld land var fullnumið snemma á þeirri 10.

Marinó G. Njálsson, 4.11.2009 kl. 18:07

9 Smámynd: Offari

Offari, 4.11.2009 kl. 18:23

10 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Íslenskir alþýðusagnritarar á borð við Árna Óla og Benedikt frá Hofteigi töldu að hér hefði verið landnám fyrir landnám.

Í ritinu Grúsk : greinar um þjóðleg fræði, I.bindi, 1964 segir Árni Óla frá frásögn um að Brendan hafi komið hingað 548 og vísar til enskrar bókar „Brendan the navigator“ eftir dr. George A. Little en hún kom út 1945. Í ritdómi segir George Holtker í svissnesku tímariti: „Það er sannarlega leiðinlegt, ef þessi bók skyldi fara fram hjá vísindamönnum utan Írlands“. Sjá nánar rit Árna bls.7 og áfram, einkum 20-28.

Benedikt ritaði heila bók um landnám Íslands sem hann nefndi Íslenda : bók um fornízlensk fræði.

Sjálfsagt hafa mun fleiri fræðimenn fjallað um þennan forvitnilega kafla Íslands sögunnar en ljóst er að Íslendingabók er rituð undir ritskoðun byskupa. Landnáma bók á sér engan líka um víða veröld og hafa verið vangaveltur um tilgang þeirrar stóru bókar. Var það kannski viðleitni höfðingastéttarinnar íslensku að treysta betur völd sín og jarðeignir vegna Staðamálanna? Þau hófust fyrst undir lok 12. aldar og voru ekki til lykta leidd fyrr en tæpri öld síðar með Staðamálunum síðari.

Um þetta allt fjallar Benedikt. Því miður voru þessir alþýðufræðimenn ekki alltaf litnir viðlits. Sagnfræðingar vilja eðlilega sannanir en ekki getgátur eða verið sé að geta í eyðurnar.

Mosi

Guðjón Sigþór Jensson, 4.11.2009 kl. 19:04

11 Smámynd: Óskar Þorkelsson

rómverskir peningar eru léleg heimild um veru rómverja , aðallega vegna þess að rómverskir peningar voru notaðir öldum saman sem skiptimynt í norðanverðri evrópu löngu eftir að vest rómverska ríkið leið undir lok.. svona myntir finnast alloft á norðurlöndum í víkingagröfum td.

Ég er hinsvegar sammála Marinó í hans skoðun á landnámi fyrir landnám...og á landnámabók.

Óskar Þorkelsson, 4.11.2009 kl. 21:16

12 Smámynd: Þorsteinn Briem

Allt var gott í MR,
í Ómars munnlegri geymd,
en þar nú viskan þverr,
og Þalía sér bara eymd.

Þorsteinn Briem, 4.11.2009 kl. 22:35

13 identicon

Það merkilegasta sem kemur fram í þessu bloggi er að fyrsta áramótaskaup sjónvarpsins er hvergi varðveitt. Er engin opinber stefna í þessum málum? Þetta eru menningarverðmæti sem leitt er að glata.

Lárus Viðar Lárusson (IP-tala skráð) 5.11.2009 kl. 06:51

14 identicon

Rómversk mynt var notuð í árhundruðir eftir fall Rómaveldis.

Og siglutré voru yfirleitt úr mjög sterkum viði. Gamalli eik til að mynda. Og viður sem er virkilega gamall er alveg glerharður. Get nefnt sem dæmi, að kunningi minn var að flytja inn timbur og húsaeiningar. Þetta var í einhvers konar yfirstaðli, allt timbur úr a.m.k. 100 ára gömlum trjám o.s.frv. Gert fyrir japanska jarðskjálftastaðla og fyrir ýtrustu staðla vegna fúa. Nema hvað, það er varla hægt að negla í þetta, - það er nánast eins og að negla í kvist. Önnur hver fírtomma í hreinan 1 1/2 tommu þykkan við hefur það ekki heldur bognar!

 En hvað um það,ég velkist ekki í vafa um að menn hafa siglt meira og lengra en talið er í dag. Í raun finnst mér fornleifafræðingar/sagnfræðingar margir hverjir einum of íhaldssamir, því að einhvern veginn dreifðist jú mannkynið um alla kúluna. Það er nefnilega alveg magnað hversu langt maður getur komist á sjó á ótrúlega stuttum tíma. Og enn eru menn að uppgötva að siglingarfræði fornaldar var furðu þróuð, - líkt og margt annað. Það má ekki falla í þá gryfju að halda að allt fyrir miðaldir hafi verið frumstæðara en á miðöldum. Siglingar víkinga voru til dæmis með ólíkindum, og þeir voru bæði öruggari og fljótari í ferðum en títt var mörg hundruð árum seinna. Hvernig þeir rötuðu svo vel er til dæmis óleyst gáta.

Þá má nefna siglingar á Miðjarðarhafi, sem voru á tíma Rómverja, forn-Grikkja og Föníkumanna verulega miklar. Og sumt hefur verið dregið úr sjó á Miðjarðarhafi sem á sér enga hliðstæðu, og er þar helst að nefna tæki nokkuð sem sýndi gang himintungla, smíðað af þvílíkri kúnst að það var ca 2000 árum á undan hliðstæðum úrverkum.

En Paparnir greyin. Landnámið fyrir landnám.  Þetta hefur alltaf verið mjög sérstök staðhæfing að þeir hafi bara verið munkar/einsetumenn. Því að þá hefði þurft að vera verulegur straumur af þeim hingað til endurnýjunar. Mér hefur alltaf fundist þetta mjög ólíklegt og frekar talið að þetta hafi verið einhverskonar þyrpingar af trúuðu fólki.  Svona sambræðingur af keltneskum þyrpingum og klausturhaldi. Það er annars synd að þetta sé ekki skoðað betur, Rangárvallasýsla er m.a. gott dæmi um búsetu papanna, en lítið hefur verið leitað eftir þeim menjum,  -þær eru bara enn að finnast fyrir tilviljun. Á Hellu hefur verið töluverð byggð þeirra, enda skilyrðin fín, Vatn, engjar, skjól og móklöpp.Í Hvolhreppi eru einnig menjar, og hefur verið rætt um að gera eitthvað í þeim málum, - t.d. merkja o.s.frv.

Einhvern daginn vitum við svo vonandi meira ;)

Jón Logi (IP-tala skráð) 5.11.2009 kl. 10:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband