Líklega röng ákvörðun.

Ég tel mestar líkur á því að ákvörðunin um byggingu nýs Landsspítala á gömlu Landsspítalalóðinni sé röng. 

Margar ástæður liggja til þess.

Í fyrsta lagi hefur það gefist illa erlendis að vera með "bútasaum" við svona byggingar. Á sínum tíma fór ég til Oslóar og Þrándheims til að skoða sjúkrahúsin þar og ræða við íslenska og norska lækna til að fjalla um þetta í sjónvarpsfréttum. 

Sjúkrahúsið í Þrándheimi var gert með "bútasaumi", - með því að bæta við gömlu húsin og tengja þau saman. Það var einróma skoðun læknanna að þetta væru hin verstu mistök sem menn ættu að læra af.

Menn lærðu af þessu í Osló. Þeir fundu nógu stóra auða lóð nálægt þjóðleiðinni í gegnum borgina og hönnuðu aldeilis frábært sjúkrahús frá grunni sem hlotið hefur einróma lof.  

Í öðru lagi liggur nýja Landsspítalabyggingin ekki eins vel við samgöngum og skyldi. Mestu krossgötur landsins eru í kringum Elliðárdal og miðja byggðarinnar er austast í Fossvogsdal. 

Skárra hefði verið að bæta við Borgarspítalann meðan þar var enn rými því að þar var aðeins ein bygging fyrir en margar á Landsspítalalóðinni.

En best hefði verið að hanna nýjan spítala alveg frá grunni innst við Grafarvog nálægt því svæði þar sem nú er tilraunastöðin á Keldum. 

Þess ber að gæta í þessu máli að ákvörðunin um staðarvalið var tekin meðan enn voru meiri möguleikar  á því að finna svæði nálægt krossgötum höfuðborgarsvæðisins.

Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir stjórnsýslufræðingur nefndi Landsspítalamálið sem dæmi um litla og lélega umræðu áður en ákvörðunin um staðarvalið var tekið.

Þegar ég innti borgarfulltrúa eftir því fyrir þremur árum hvenær og hvernig ákvörðunin hefði verið tekið gat enginn svarað mér. Það var orðið svo langt síðan og jafngilti því að sagt væri: Af því bara.   

Hið eina jákvæða við Landsspítalalóðina er nálægðin við flugvöllinn því spítalinn er spítali allra landsmanna og engin leið að komast hjá því að nota flugvélar í sjúkraflugi.

Þess vegna væri það slæmt ef flugvöllurinn yrði lagður niður.  

Nær allt sjúkraflug hér á landi fer fram með flugvélum af tveimur ástæðum: Það er margfalt ódýrara að nota flugvélar en þyrlur og ekki er hægt að fljúga þyrlum í jafn slæmum skilyrðum og flugvélum, svo sem í ísingarskilyrðum eða ofan skýja.   

 


mbl.is Nýtt upphaf markað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Þyrlur eru notaðar hér nú þegar í miklum mæli, til dæmis til að sækja slasaða menn langt út á haf, og það oft í slæmum veðrum. Einnig upp á hálendið og ekki eru nú margir flugvellir uppi á hálendinu eða í hverjum dal allt í kringum landið.

Ef maður slasast til dæmis alvarlega í Skíðadal í Dalvíkurbyggð, sem hefur nú komið fyrir, yrði hann sóttur þangað á þyrlu en ekki flugvél, og þyrlum mun fjölga hér með aukinni velmegun á næstu áratugum, eins og ætlunin hefur verið undanfarin ár.

Rúmlega 70% þjóðarinnar búa við sunnanverðan Faxaflóa
, frá Akranesi að Garði, og þurfi að flytja fólk á Landspítalann er það flutt þangað með sjúkrabíl eða þyrlu en ekki flugvél. Og margt slasað fólk hefur verið flutt á Landspítalann af Suðurlandi með þyrlu en ekki flugvél, til dæmis fólk sem slasast hefur í umferðarslysum.

Við þurfum því engan veginn heilan flugvöll við Landspítalann. Þar er nóg að hafa þyrlupall, líkt og þann sem er við Landspítalann í Fossvogi, áður Borgarsjúkrahúsið.

Þorsteinn Briem, 4.11.2009 kl. 22:57

2 Smámynd: Sturla Snorrason

Nýtt sjúkrahús verður stærsti vinnustaðurinn í borginni, þannig að eini raunhæfi kosturinn er að byggja það í miðri borginni og ættu Sundabraut, Samgöngumiðstöð og Háskólasjúkrahúsið að hannast í einum pakka, þannig mun það virka best í allar áttir.

Í leiðinni yrði öll óraunhæfa jarðgangagerðin í borginni óþörf.

Sturla Snorrason, 4.11.2009 kl. 23:24

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þyrlur eru notaðar svo sjaldan í sjúkraflugi að oftast er sagt frá því í fréttum en hinsvegar þykir flug með sjúkarflugvélum ekki fréttnæmt nema um slys hafi verið að ræða. Ég er ekki með nákvæmar tölur á hraðbergi en það er ljóst að margfalt oftar er flogið með fólk í flugvélum en þyrlum.

Þannig verður það áfram því að þrátt fyrir allar vonir manna um að þyrlur geti orðið algengari eru það enn sama þumalputtaregla og hefur ríkt í áratugi að kostnaður við þyrlu er 4-5 sinnum meiri en við sömu stærð af flugvél og þyrlur eyða líka miklu lengri tíma á jörðu niðri vegna skoðana.

Ómar Ragnarsson, 4.11.2009 kl. 23:27

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Munurinn á spítala og öðrum stofnunum og fyrirtækjum er sá að viðskiptavinirnir, sjúklingarnir, eru fastir inni, ferðast ekkert um og skapa nánast enga atvinnu eða þjónustu í næsta nágrenni spítalans á þeim tíma sem athafnalíf og verslun eru líflegust.

Aðeins kirkjugarðarnir gefa minna athafnalíf af sér miðað við mannfjöldann sem þeir eru ætlaðir að geyma.

Ómar Ragnarsson, 4.11.2009 kl. 23:32

5 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Tek undir þetta hjá þér Ómar. Þetta er ein af þessu stóru ákvörðunum sem menn samþykkja án nægjanlega gagnrýnnar hugsunar. E.t.v. stafar þetta af einhverskonar vanmáttarkennd.

Sigurður Þorsteinsson, 4.11.2009 kl. 23:47

6 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Algerlega á móti því, að nota peninga lífeyrissjóða, til að byggja nýjan spítala.

Sannarlega veit ég ekki, hvernig er planlagt, að losa fé til þessa - og annarra framvkvæmda sem eru á óskalista ríkisstjórnarinnar. 

Vitað er, að sjóðirnir liggja ekki með slíka peninga, sem lausafé.

Möguleikarnir, eru því að selja eignir, sem ekki er góð leið akkúrat núna, þegar verð á hlutabréfum er enn "depressed" - og, að fá fram fjármagn, með því að skera niður greiðslur til lífeyrisþega.

Mig grunar, að seinni leiðin verði farin. Í því ljósi, má ef til vill skoða, tilraunir til að endurskoða greiðslur til hópa lífeyrisþega, til lækkunar, sem hafa verið í gangi undanfarna mánuðu, en hafa mætt andstöðu samtaka eldri borgara.

--------------------------------------

Þ.s. við þurfum að hafa í huga, er að fé lífeyrissjóða, er ævisparnaður Íslendinga. Alls ekki má sóa því fé. Ef eitthvað á að gera fyrir hluta þess, verður arðsemiskrafan að vera há, eða, að ríkið verður að láta eitthvað á móti, er hefur mikla arðsemi.

Fréttir hafa borist um, að sjóðirnir hafi viljað eignast Landsvirkjun, en ríkið hafi hafnað því, en boðið skuldabréf á móti, sem sjóðirnir hafi hafnað.

Ég vil ekki eyða í nokkuð annað, en þ.s. hefur umtalsverða þjóðhagslega hagkvæmni, þannig að ekki sé í reynd verið að hætta þessu fé.

Virkjun, getur - út frá arðsemissjónarmiði - komið til greina. 

En, helst vildi ég, að slíkt fjármagn, yrði notað til að efla Nýsköpunarsjóð, þ.e. að öflugt átak yrði gert í því, að efla nýsköpun.

Ég myndi þá, hafa áherslu á útflutnings-iðnað, hverskonar - eða nánar tiltekið, gjaldeyrisaflandi iðju, hverskonar.

Ein leið, væri að nýsköpunar aðili, er kæmi fram í gegnum slíkt prógramm, myndi að auki, fá afslátt af sköttum og skyldum, t.d. í 10 ár.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 5.11.2009 kl. 00:02

7 Smámynd: Þorsteinn Briem

Þúsundir manna fá störf á næstu árum við að hanna og byggja nýja Landspítalann og samgöngumiðstöðina, arkitektar, verkfræðingar, tæknifræðingar, iðnaðarmenn og byggingaverkamenn, í stað þess að vera á atvinnuleysisbótum.

Húsnæði Landspítalans í Fossvogi er hægt selja og nota undir aðra starfsemi, til dæmis sem hótel. Árið 2002 var talið að hægt væri að selja eignir Landspítalans fyrir allt að átta milljarða króna.

Og Landspítalinn við Hringbraut er engan veginn á slæmum stað
, því hann þarf að vera þar sem mesta þéttbýlið er á landinu, þar sem flestir búa og starfa.

Nokkrir tugir þúsunda búa og starfa í kringum Landspítalann, sem er um fjögur þúsund manna vinnustaður, og byggð mun enn aukast á næstu árum í Vatnsmýrinni. Þar er nú verið að reisa nokkur þúsund manna háskóla, Háskólann í Reykjavík, atvinnustarfsemi mun aukast mikið á næstunni í Vatnsmýrinni og þar verður reist stór íbúðabyggð.

Og ætlunin er að jarðgöng komi undir Öskjuhlíðina.

Einnig er mikið hagræði af því að hafa sjúkrahúsið nálægt Háskóla Íslands, sem er fimmtán þúsund manna vinnustaður, því kennsla í læknisfræði og hjúkrunarfræði fer fram bæði í háskólanum og á sjúkrahúsinu.

Við Reykjavíkurflugvöll verður reist samgöngumiðstöð fyrir innanlandsflugið, rútur, leigubíla og strætisvagna, og samgöngumiðstöðin getur að sjálfsögðu einnig nýst mjög vel enda þótt Reykjavíkurflugvöllur verði fluttur upp á Hólmsheiði eða suður á Miðnesheiði.

Hlíðarfótur til bráðabirgða


Nýtt Háskólasjúkrahús - Vefur stjórnvalda

Þorsteinn Briem, 5.11.2009 kl. 00:25

8 Smámynd: Gísli Gíslason

Mjög góð grein og þörf.  Ómar minnist á Sjúkrahúsið í Þrándheimi.  Eins má minnast á Háskólann þar sem er bútasaumur víða um bæinn.  Eins má nefna Tromsö til samanburðar.  Háskólasjúkrahúsið og Háskólinn var byggt fyrir norðan bæinn. Háskólinn þar er ungur, stofnaður 1968.  Við stofnun var rætt um að byggja í miðbænum, til að styrkja miðbæinn en horfið frá því.  Það var farsæl langtíma ákvörðun.

Gísli Gíslason, 5.11.2009 kl. 08:06

9 Smámynd: Þorsteinn Briem

Að sjálfsögðu geta þyrlur sinnt öllu sjúkraflugi hérlendis.

Því er algjörlega ástæðulaust að vera með flugvöll við Landspítalann.

"Þegar veður er slæmt eða aðstæður erfiðar er leitað til þyrluþjónustu Landhelgisgæslunnar en hún þjónar auk þess Suður- og Vesturlandi."

Svar þáverandi heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra um sjúkraflug


"Fastur kostnaður flugsviðs [Landhelgisgæslunnar] er u.þ.b. 80-85% af árlegum rekstrarkostnaði sviðsins og er að mestu óháður því hversu margar flugstundir loftfaranna eru. Þetta þýðir m.a. að fækkun eða fjölgun flugtímanna fer ekki að hafa áhrif fyrr en hún er orðin veruleg."

Árið 2003 fóru TF-LIF og TF-SIF, þyrlur Landhelgisgæslunnar, í 54 sjúkraflug en 43 leitar- og björgunarflug. Alls fluttu þær og björguðu 83 mönnum en 36 af útköllunum komu frá héraðslæknum.

En TF-SYN, flugvél Gæslunnar, flaug þrisvar með þyrlunni TF-LIF vegna slasaðra sjómanna á tveimur skipum á Reykjaneshrygg, djúpt suður af Ingólfshöfða, en þau voru meira en 150 sjómílur frá næsta eldsneytistanki.

Ársskýrsla Landhelgisgæslunnar 2003 - Sjá bls. 9-10


Árið 2003
lentu flugvélar 251 sinni með sjúklinga á Reykjavíkurflugvelli.

"Flugvél frá Mýflugi sem átti að flytja sjúkling frá Hornafirði til Reykjavíkur var snúið við á leið frá Akureyri til Hornafjarðar vegna gruns um bilun. Önnur vél frá Mýflugi var send eftir sjúklingnum og hefur hann verið fluttur á sjúkrahús."

Sjúkraflug Mýflugs frá Hornafirði til Reykjavíkur tafðist


Sjúkraflugvél Mýflugs er staðsett á Akureyri.

Sjúkraflug Mýflugs

Mýflug hefur sinnt sjúkraflugsþjónustu á Norðursvæði frá ársbyrjun 2006 en svæðið "afmarkast af beinni línu sem er dregin frá botni Þorskafjarðar að botni Hrútafjarðar, síðan að Hveravöllum, þá að Nýjadal og þar næst að Höfn í Hornafirði og allt svæðið fyrir norðan þá línu er norðursvæði, þar með talin Höfn í Hornafirði."

Samningur Mýflugs og Flugstoða

Þorsteinn Briem, 5.11.2009 kl. 08:09

10 Smámynd: Hörður Halldórsson

Þessi nýja bygging á að  leysa gamla Borgarspítalann af  og gæti verið með slysa og bráða móttöku.Semsagt slysadeildin færist aftur í miðbæinn.Vondur staður,Vogurinn Vífilstaðir og ýmsir aðrir hefðu verið miklu betri.Landsspítalinn er stærsti vinnustaður landsins,Sem Breiðhylting sárnar mér að sjá öllum verðmætustu projektum troðið nálægt 101.Rúmfatalagera mega svo vera austan megin og Bauhaus verslanir.Fyrir utan dreifingu umferðar sem verður alltaf afleit sé öllu troðið vestureftir og þarf ekki lærðan skipulagsfræðing að sjá það.

Hörður Halldórsson, 5.11.2009 kl. 08:29

11 identicon

Um það leiti sem ákvörðunin var tekin um staðsetningu á þessum nýja skúkrahúsi var tekin, þurfti sonur minn á því að halda að fljúga með sjúkraflugi frá Akureyri. Það var flug upp á líf og dauða. Þá kom sér vel að hafa flugvöllinn þar sem hann er núna og eins var sjúkraflugvélin stödd á Akueyri.

Ég spurði þá lækni sem hafði verið í nefndinni sem ákvað staðsetningu, hversvega þessi staðsetning.

Hann sagði að það hefði ekki verið hlustað á þau rök hans að nóg landrými væri í Fossvogi og þessvegna væri óþarfi að óþarfi að breyta heilu borgarskipulagi. Ákvörðunin var því eingöngu pólitísk.

Var það ekki Davíð Oddsson sem kom með þessa stórkoslegu hugmynd eftir að hann þurfti að leggjast undir hnífinn.

Svo hefur það alltaf truflað mig að þarna átti að rísa "Hátækni-sjúkrahús".

Hver er munurinn á hátækni-sjúkrahúsi og venjulegu sjúkrahúsi sem er vel tækjum búið? (Er starfsliðið þá róbótar?)

Davíð Kristjánsson (IP-tala skráð) 5.11.2009 kl. 09:33

12 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Steini skrifar því miður um sjúkraflugið á þann hátt að taka það sérstaklega fram að 70% þjóðarinnar búi á suðvesturhorninu og sjónarhorn hans virðist mér of litað af því að hin 30% séu minna virði.

Akureyri liggur meira miðsvæðis á landinu en Reykjavík ef litið er til þeirra 30% þjóðarinnar sem er það fjarri Reykjavík að sjúkraflug þurfi.

Það er út í hött að taka eina bilun í flugvél sem alhæfingu um það að flugvélar séu óáreiðanlegri kostur en þyrla. Komið hefur fyrir að þyrlur hafi bilað og orðið að hætta við eða snúa við og eins og nú háttar um flugkost Landhelgisgæslunnar er gert ráð fyrir að nokkra daga á ári verði líkur á að ENGIN tiltæk þyrla sé til flutninga.

Ég minni á fjöldaslysið í Hólsselskíl þegar það var 19 manna flugvél frá Akureyri sem notuð var vegna þess að þyrla komst ekki norður.

Engin þyrla komst norður en ég komst norður á flugvél og flugvél hefði getað flutt slasaða suður ef þurft hefði.

Eins og sést á upptalingu Steina flugu flugvélar þrefalt oftar með sjúklinga en þyrlur.

Einn dýrasti og tímafrekasti kostnaðurliður vegna útgerðar á þyrlum er vegna skoðana og viðhalds.

Um leið og flugið eykst um ákveðna prósentu veður viðhalds- og viðgerðakostnaðurinn upp.

Ég held að ég viti um hvað ég er að tala hafandi rekið flugvél sjálfur í 40 ár.

Ómar Ragnarsson, 5.11.2009 kl. 09:55

13 Smámynd: Guðmundur Benediktsson

þegar horft er á Landsspítalann sést að hann er endalausir ranghalar dreifðir um stórt svæði. Og nú vilja þeir byggja fleiri ranghala. Mér finnst rökrétt að sjúkrahús sé á sem minnstum fermetrafjölda lands og það ætti að byggja upp en ekki út á við. Þá er hægt að koma turninum í Borgartúni í brúk.

Guðmundur Benediktsson, 5.11.2009 kl. 10:12

14 Smámynd: Sumarliði Einar Daðason

Það er eitt sem mér finnst hafa alvarlega vantað í umræðuna um staðsetningu sjúkrahússins - það er nánast við enda flugbrautar! Þetta verður eina sjúkrahúsið sem getur tekið á móti alvarlegu hópslysi. Það vita það allir að stór hluti flugslysa verður í flugtaki og lendingu. Hvað mun gerast ef stór fjölmenn þota hlekkist á og lendir beint á sjúkrahúsið? Verða þá allir fluttir með sjúkraflugi til Akureyrar? Eða erlendis?

Mér finnst alltof mikið gert úr því að nauðsynlegt sé að hafa sjúkrahúsið upp við flugvöllinn. Nær væri að færa hann meira miðsvæðið eins og aðrir benda hér á.

Hvar eru símapeningarnir sem áttu að fjármagna þetta? Verða til peningar til þess að reka þetta sjúkrahús?

Sumarliði Einar Daðason, 5.11.2009 kl. 10:48

15 Smámynd: Jón Magnússon

Mjög góð færsla hjá þér. Algjörlega sammála.

Jón Magnússon, 5.11.2009 kl. 10:55

16 identicon

Vel mælt Ómar!

Veit ekki betur en Svíar ætli að feta í fótspor Norðmanna og byggja nýtt háskólssjúkrahús í Stokkhólmi - frá grunni. Skrítið ef við getum ekki lært betur af reynslu annarra.

Konráð S. Konráðsson (IP-tala skráð) 5.11.2009 kl. 11:13

17 identicon

Allt góð og gild rök hjá þér Ómar um sjúkraflugið...  enda maður með reynslu!  :-)

Skil ekki hvað þarf að fara oft í gegnum eðli sjúkraflugs á Íslandi áður en menn átta sig á mikilvægi flugvéla í því sambandi, sjálfur skrifað 2 greinar í Morgunblaðið um þessi mál auk fjölda annarra sem hafa skrifað um þessi mál

Allar tölur um fjölda sjúkrafluga á Íslandi liggja fyrir hjá Fjórðungssjúkrahúsi Akureyrar, sem hefur komið að rekstri læknavaktar sem hefur mannað sjúkraflugið síðustu árin, þar er líka sundurliðað hvers konar sjúklinga var verið að flytja og hvaða meðferð þurfti að veita í flutningi.   Við erum líka að tala um nýbura/fyrirbura í súrefniskössum, alvarlega veika gjörgæslusjúklinga í öndunarvélum og konur í hótandi fyrirburafæðingum, auk fjölda annarra sjúklinga þar sem jafnþrýstibúnaður og styttri flugtími flugvéla samanborðið við þyrlur hefur bjargað mannslífum.  Sjálfur verið í þeirri aðstöðu að fara í sjúkraflug þar sem allt annað flug yfir Íslandi lág niðri vegna vonskuveðurs og ekki var kostur á að nota þyrlu.

Þessi grein í Læknablaðinu varpar fram merkilegum tölum...   en auk þess fjallað um hugsanleg mikilvægi þess að staðsetja eina þyrlu fyrir Norðan m.a. til að stytta viðbragðstíma frá Reykjavík  http://www.laeknabladid.is/2007/04/nr/2765

Theódór Skúli Sigurðsson

Fyrrverandi umsjónarlæknir sjúkraflugs FSA, í framhaldsnámi í svæfingum- og gjörgæslulækningum á Háskólasjúkrahúsinu í Lundi

Theódór Skúli Sigurðsson (IP-tala skráð) 5.11.2009 kl. 11:13

18 identicon

Mig langar að benda á að hér í Vestmannaeyjum á alltaf að vera til taks sjúkraflugvél .Margoft hafa komið upp aðstæður þar sem er kolvitlaust veður hér en flugvél kemst alltaf á loft .Þeir hafa jafnvel notað stórvirkar vinnuvélar til að draga vélina út á brautarenda í veðurhamnum.Í þessum tilfellum hefur ekki verið vinnandi vegur fyrir þyrlu að fljúga  hingað eða lenda hér. Sem betur fer er þetta ekki algengt en hefur þó gerst í nokkur skipti og í einu tilfelli var um að ræða fæðandi konu sem átti barnið löngu fyrir tímann en sem betur fer þá endaði allt vel og drengurinn komst strax undir læknishendur í RVK og er stór og sterkur í dag

Ragna Birgisdóttir (IP-tala skráð) 5.11.2009 kl. 11:33

19 identicon

Áður en þessi ákvörðun var tekin á sínum tíma voru fengnir danskir sérfræðingar til þess að taka út 3 kosti sem voru nýbygging við Vífilstaði, önnur svipað stór bygging og er fyrir í Fossvogi og svo áframhaldandi uppbygging við hringbraut. niðurstaða þessara skýrslu hefur aldrei verið gerð opinber svo ég viti en hún var eftirfarandi: Kostur 1 og sá sem var talinn bestur nýbygging á lóð Landspítalans við Vífilstaði, helstu rök hægt að hanna sjúkrahúsið frá grunni með þarfir sjúklinga og starfsmanna í huga eins er talinn upp sá kostur að þarna verður miðja höfuðborgarsvæðisins í framtíðinni. Kostur 2 og sá ódýrasti byggja annað hús í fossvogi, helstu rök það fer betur með sjúklinga að ferðast í lyftum en eftir göngum, betra að vera i tveimur stórum húsum en mörgum smáum og að lokum nálægt miðju höfuðborgarsvæðisins í íbúum talið. 3 og sísti kosturinn áframhaldandi uppbygging við Hringbraut helsti kostur hægt að selja lóðirnar við Vífilstaði og Fossvog.

Fyrrverandi starfsmaður LSH (IP-tala skráð) 5.11.2009 kl. 13:06

20 identicon

A einum akjosanlegasta stadnum a höfudborgarsvaedinu ma finna tvaer nylegar risabyggingar. Önnur stendur onotud hin er full af onaudsynlegum storverslunum. Thessar byggingar er odyrt og audvelt ad innretta og byggja eitthvad vid og.... hokus pokus, vid erum komin med flotta lausn a vandanum. Ekki nog med thad. Innrettingarnar er haegt ad hafa thannig add alltaf se audvelt ad breyta og adlaga thvi spitalastarfsemi er alltaf i endurnyjun og breytingum.

Nu halda eflaust margir thvi fram ad thessar byggingar henti ekki. Thad er bara bull. Thaer duga svo sannarlega med litlum breytingum. Thad er bara ad hafa almennilegt hugmyndaflug og utsjonarsemi.

Nog plass i kring, godar samgöngur, nalaegd vid thungamidju byggdarinnar, fritt adflug thyrlu. Bein thjodleid fra flugvellinum....

Eftir thvi sem efnahaguyr vaenkast ma svo koma byuggingunum i fullkomnara horf eftir thvi sem vid a.

LSH-laeknir (IP-tala skráð) 5.11.2009 kl. 13:35

21 Smámynd: Þorsteinn Briem

Dæmi í kynningarbæklingi Landhelgisgæslunnar:

Klukkan 14:36
: Neyðarlínan fær símhringingu frá vegfarendum sem komu að bílslysi í Gilsfirði. Ökumaðurinn er fastur í bílnum en með meðvitund. Hjúkrunarfræðingur búsettur í nágrenninu er kallaður út og hlúir að manninum þar til sjúkrabíll, læknir og lögregla koma á slysstað.

Vaktstöð siglinga/stjórnstöð Landhelgisgæslunnar setur björgunarþyrluna TF-LIF í viðbragðsstöðu. Óskað er eftir mannskap frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins með klippur og annan búnað til að fara með þyrlunni á vettvang.

Kl. 15:15: Læknir er kominn á slysstað og í ljós kemur að ökumaðurinn er mikið slasaður. Læknirinn óskar eftir þyrlu Landhelgisgæslunnar sem leggur þegar af stað.

Kl. 16:06
: TF-LIF kemur á vettvang, slökkviliðsmennirnir klippa bílinn í sundur til að ná manninum úr bílnum og þyrlan flytur hann til Reykjavíkur.

Kl. 17:32
: TF-LIF lendir með hinn slasaða við Landspítala-Háskólasjúkrahús í Fossvogi.

Kynningarbæklingur Landhelgisgæslunnar (10,9 MB)

Þorsteinn Briem, 5.11.2009 kl. 14:38

22 Smámynd: Þorsteinn Briem

Það þarf engan veginn að vera flugvöllur við Landspítalann, enda þótt flogið væri með sjúklinga í örfáum undantekningartilfellum með flugvélum til Reykjavíkur. Það eru engin rök fyrir heilum flugvelli við Landspítalann. Flugvöllurinn gæti því allt eins verið uppi á Hólmsheiði.

Og 75-80% þjóðarinnar er nú þegar sinnt eingöngu með þyrlum og sjúkrabílum.


"Þegar veður er slæmt eða aðstæður erfiðar er leitað til þyrluþjónustu Landhelgisgæslunnar en hún þjónar auk þess Suður- og Vesturlandi."

Svar þáverandi heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra um sjúkraflug


"Fastur kostnaður flugsviðs [Landhelgisgæslunnar] er u.þ.b. 80-85% af árlegum rekstrarkostnaði sviðsins og er að mestu óháður því hversu margar flugstundir loftfaranna eru. Þetta þýðir m.a. að fækkun eða fjölgun flugtímanna fer ekki að hafa áhrif fyrr en hún er orðin veruleg."

Ársskýrsla Landhelgisgæslunnar 2003 - Sjá bls. 9-10

Þorsteinn Briem, 5.11.2009 kl. 15:18

23 identicon

Sæll Ómar.

Það eru þrjú sjúkrahús sem hafa verið byggð frá grunni í Noregi á síðustu árum. Í Ósló er það Rikshospitalet við Gaustad í útkanti Óslóar og þangað var starfsemin flutt í 2001-2002 það er elst og þar eru allir líffæraflutningar og allar erfiðari hjartaaðgerðir auk fleirri sérhæfðra læknisverka.  Það er búið að slá því saman við Ullevål sykhehus, Aker sykehus og Radiumhospitalet sem eru staðsettir á öðrum stöðum í Ósló. Heitir þetta Oslo Universitetssykehus með langt yfir 20.000 starfsmenn. http://www.oslouniversitetssykehus.no/modules/module_123/proxy.asp?D=2&C=1080&I=22970&mids=a816a

Nýjasta sjúkrahús Noregs er AHUS sem er  Akershus Universitetssykehus er um 15 km frá miðborg Óslóar í Lørenskog ekki langt frá Lillistöm. http://www.ahus.no/modules/module_123/proxy.asp?D=2&C=1050&I=17142&mids=a2650a Það er álitið fullkomnasta sjúkrahús í Norður Evrópu þar vinna nærri 4800 manns og þar hefur verið lagt allt til að spara fólki sporin.  Deildirnar eru byggðar upp eins og eggjabikarar með vaktherbergi í miðjunni og síðan rúmið frá því.  Þar er reynt að fullnýta starfsfólk þannig að sumir hafi of lítið að gera meðan aðrir hafi of mikið að gera.  Það eru róbotar sem koma með matarvagna og keyra fólk í rannsóknir og töflurnar koma strikamerktar frá risastórum lager.  Þeir hafa átt í talsverðum byrjunarörðugleikum með tæknina en þetta er allt að koma hjá þeim.  Þarna er allt glænýtt úr kassanum öll röntgentæki ofl.  Þetta sjúkrahús kostaði milli 9 og 10 miljarða norskra sem gerir yfir 200 miljarða íslenskra króna á núgengi og voru það ekki 30 miljarðar sem byggingarnar á Landspítalanum kosta?  Þetta sjúkrahús er að mörgu sambærilegt við Landspítalann og þá stærð sem þyrfti fyrir allt landið sem í raun fæli þá í sig að það væri hægt að leggja niður öll þess litlu sjúkrahús eins og Keflavík, Akranes, Selfoss og St. Jóseps. allar vaktir yrðu þá sameinaðar, væri hægt að lækka stjórnunarkostnað og viðhald bygginga og það myndi bæði auka gæði þjónustunnar og gera hana miklu ódýrari með að minnka bakvaktakostnað og hindra að fólk væri á vöktum yfir hálftómum deildum. Landspítalalóðin verður byggingarreitur á næstu árum með flutningum fram og til baka, bráðabirgðalausnum ásamt hrikalegum niðurskurði.  Búnaður Landspítalans er orðinn lúinn og það er ekkert fé til tækjakaupa næstu árin því að allt það fé fer í að greiða af kaupleigugreiðslum í erlendri mynt.  Góðærið kom aldrei til Landspítalans og þeir finna fyrst fyrir niðurskurðnum. Nefni til gamans að Ahus fær um 3.8 miljarða Nkr í fjárframlög á ári sem gerir 83 miljarða Íkr á núverandi krónugengi.  Það er rándýrt að vera fátækur og byggja af vanefndum.

Þetta er ekki rétt sem þú segir um St. Olavs Hospital í Þrándheimi.  Þetta er einstaklega glæsilegt sjúkrahús þegar það er fullbúið en þeir hafa byggt það upp á annan hátt með að búa til mörg lítil sjúkrahús/einingar sem eru lauslega tengdar saman.  Þetta gerir það að samnýtingin á stoðdeildum verður miklu minni, sjúklingar og starfsfólk þurfa að fara yfir miklu stærra svæði sem gerir það að nýtingin verður minni auk þess þarf fleirra fólk í flutninga auk þess sem það er geysilega dýrt að kynda þetta auk þess kemur til viðhaldskostnaður ofl.  Þetta módel er klárlega miklu dýrara og verra þegar til lengdar lætur auk þess er byggingarkostnaðurinn miklu hærri.  Kosturinn er að þetta getur þú byggt við í áföngum eins og menn ætla sér á Íslandi. Sjá http://www.stolav.no/templates/StandardMaster____83731.aspx?epslanguage=NO

Gunnr (IP-tala skráð) 5.11.2009 kl. 15:43

24 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég þakka Gunnari fyrir sérlega upplýsandi og gott innlegg í þessa umræðu. Þrátt fyrir að sumt haf því sem hann upplýsir um sé kannski alveg það sama og ég var að reyna að segja, segja tvær setningar í pistli hans þó aðalatriðin:

"Landsspítalalóðin verður byggingarreitur...með flutningum fram og til baka, bráðabirgðalausnum ásamt hrikalegum niðurskurði..."...."Það er rándýrt að vera fátækur og byggja af vanefnum."

Um Þrándheimssjúkrahúsið: "...glæsilegt sjúkrahús þegar það er fullbúið...", en - "...Þetta módel er klárlega miklu dýrara og verra þegar til lengdar lætur auk þess sem byggingarkostnaðurinn er miklu hærri..."

Fróðlegt hefði verið að sjá hvernig Gunnar metur þann möguleika sem var fyrir hendi við sjúkrahúsið í Fossvogi þótt það sé nú orðið of seint. Þar var bara ein bygging fyrir og þurfti því ekki að tengja saman margar byggingar, sem þar að auki voru byggðar á mismunandi tímum.

Ómar Ragnarsson, 5.11.2009 kl. 20:13

25 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Nýr samningur um þyrluvakt lækna hefur verið undirritaður og samkvæmt honum hefur Landspítali - háskólasjúkrahús með höndum umsjón og stjórn þyrluvaktar lækna og tryggir sólarhringsvakt sérþjálfaðra lækna fyrir sjúkra- og björgunarflug með þyrlum og flugvél á vegum Landhelgisgæslunnar."

Samningur um þyrluvakt lækna


Tæknideild Flugdeildar Landhelgisgæslunnar
við Nauthólsvík:

"Fjórir flugvirkjar ganga reglubundnar bakvaktir og eru þar af leiðandi reiðubúnir útkalli 24 tíma á sólarhring, því ávallt er þörf á flugvirkjum til að halda flughæfi flugvéla eða þyrlna í gildi. Flugvirki gegnir einnig spilmannsstarfi á bakvakt sinni."

Þyrlan TF-GNA
:

Áhöfn: Tveir flugmenn, 1 sigmaður, 1 spilmaður og 1 læknir, alls 5.

Getur tekið tvo farþega og
tvennar til þrennar sjúkrabörur.

Hámarkshraði: 150 sjóm/klst. (270 km/klst).
Hagkvæmur hraði: 125 sjóm/klst. (225 km/klst).
Leitarhraði: 90 sjóm/klst. (162 km/klst).
Hámarks flugdrægi: 570 sjóm. (1.125 km).
Hámarks flugþol: 4:45 klst.

Sérútbúnaður: Afísingarbúnaður (sem gerir kleift að fljúga í ísingu).

Tvöfalt björgunarspil
(annað rafmagnsdrifið og eitt vökvadrifið til vara), hitamyndavél, leitarljós og vörukrók undir vélinni og er mesta lyftigeta um 2,7 tonn við bestu aðstæður. Einnig er þyrlan útbúin utanáliggjandi neyðarflotum sem blásast upp við nauðlendingu í sjó.


Þyrlan TF-EIR
:

Áhöfn: Tveir flugmenn, 1 sigmaður, 1 spilmaður og 1 læknir, alls 5.

Getur tekið átta farþega og
einar sjúkrabörur.

Hámarkshraði: 175 sjóm/klst. (324 km/klst).
Hagkvæmur hraði: 130 sjóm/klst. (240 km/klst).
Leitarhraði: 75 sjóm/klst (139 km/klst).
Hámarks flugdrægi: 400 sjóm (720 km).
Hámarks flugþol: 3:15 klst.

Sérútbúnaður: Eldsneytistæming á flugi.


Þyrlan er einnig útbúin utanáliggjandi neyðarflotum sem blásast upp við nauðlendingu í sjó.

Þyrlan TF--LIF:

Áhöfn: Tveir flugmenn, 1 sigmaður, 1 spilmaður og 1 læknir, alls 5.

Getur tekið 20 farþega
og 6-9 sjúkrabörur.

Hámarkshraði: 150 sjóm/klst. (270 km/klst).
Hagkvæmur hraði: 125 sjóm/klst. (225 km/klst).
Leitarhraði: 90 sjóm/klst. (162 km/klst).
Hámarks flugdrægi: 625 sjóm. (1.125 km).
Hámarks flugþol: 5 klst.

Sérútbúnaður: Afísingarbúnaður (sem gerir kleift að fljúga í ísingu).

Tvöfalt björgunarspil
(annað vökvadrifið og eitt rafmagnsdrifið til vara), hitamyndavél, leitarljós og vörukrók undir vélinni og er mesta lyftigeta um 2,7 tonn við bestu aðstæður. Einnig er þyrlan útbúin utanáliggjandi neyðarflotum sem blásast upp við nauðlendingu í sjó.

Flugfloti Landhelgisgæslunnar

Fréttir af þyrlum Landhelgisgæslunnar

Þorsteinn Briem, 5.11.2009 kl. 20:27

26 identicon

Þessi ákvörðun um byggingu nýs spítala á gömlu lóðinn er hörmuleg skammsýni enda í ætt við margt af því sem komið hefur frá stjórnmálaelítunni undanfarin ár.  Tel að besti staðurinn hefði verið við Vífilstaði enda nægt pláss þar til að byggja sjúkrahús sem væri sérsniðið eftir nútímakröfum t.d. um sem stystar vegalengdir innan byggingarinnar o.s.frv.  Varðandi nálægð við flugvöll mætti einfaldlega fara með mestu bráðatilfellin sem kæmu með sjúkraflugi í þyrlu(frá flugvellinum) upp í nýtt sjúkrahús á Vífilstöðum.  Slíkt tæki væntanlega ekki nema nokkrar mínútur í flugtíma og þá þyrfti ekki að fara með sjúklinginn í sjúkrabifreið sem annars þyrfti.

kalli (IP-tala skráð) 5.11.2009 kl. 20:50

27 Smámynd: Þorsteinn Briem

Mbl.is 5.11.2009 (í dag): "Karl og kona, sem slösuðust í bílveltu í Langadal í kvöld, eru nú á leið með þyrlu Landhelgisgæslunnar á bráðamóttöku Landspítalans. Jeppi þeirra valt við bæinn Auðólfsstaði í Langadal í Húnavatnssýslu um kl. 19.00. Ekki voru fleiri en þau tvö í jeppanum. Fljúgandi hálka er nú á slysstaðnum.

Vegagerðin varaði við hálkumyndun norðanlands í kvöld.

Samkvæmt tilkynningu Landhelgisgæslunnar í kvöld barst stjórnstöð LHG beiðni frá Neyðarlínunni kl. 18:58 um aðstoð þyrlu Landhelgisgæslunnar vegna alvarlegs bílslyss í Langadal í Húnavatnssýslu.

Líf, þyrla Landhelgisgæslunnar fór í loftið kl. 19:16 [myrkur í Reykjavík kl. 17:53] og lenti á slysstað kl. 20:10. Þyrlan fór að nýju í loftið kl. 20:30 með hina slösuðu og var áætlað að hún lenti við Landspítalann í Fossvogi kl. 21:20."

Flutt slösuð úr Langadal með þyrlu Landhelgisgæslunnar í kvöld


Þyrlan TF-LIF getur tekið 20 farþega
og 6-9 sjúkrabörur.

Áhöfn: Tveir flugmenn, 1 sigmaður, 1 spilmaður og 1 læknir, alls 5.

Hámarkshraði: 150 sjóm/klst. (270 km/klst).
Hámarks flugdrægi: 625 sjóm. (1.125 km).
Hámarks flugþol: 5 klst.

Beechcraft Kingair 200
, sjúkraflugvél Mýflugs, sem staðsett er á Akureyri:

Sjúkraflug: Fjórir sitjandi og tveir sjúklingar á börum.


Farflugshraði: 280 hnútar (518 km/klst).

Langidalur er á því svæði þar sem Mýflug á að sinna sjúkraflugi, samkvæmt samningi.


Mikill sparnaður fengist með því að leggja niður sjúkraflug Mýflugs og hann væri hægt að nota til að sinna sjúkrafluginu alfarið með þyrlum og flugvél Landhelgisgæslunnar.

Þorsteinn Briem, 5.11.2009 kl. 23:08

28 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Dálítið undarlegt, að rífast um hvort þyrla eða flugvél, er heppilegri.

Fer dálítið eftir aðstæðum. 

Sjálfsagt kostur, ef staðsetning býður upp á báða valkosti.

-----------------------------

Ég ítreka, þ.s. ég sagði fyrst. Tel ekki að bygging þessa tiltekna sjúkrahúss, sé nægilega arðsöm framkvæmd, til þess að það sé þess virði, að nota í hana fjármagn lífeyrissjóða.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 6.11.2009 kl. 02:09

29 Smámynd: Þorsteinn Briem

Í sumum tilfellum nægir að nota flugvélar til sjúkraflugs til Reykjavíkur en þá gætu þær að sjálfsögðu lent á flugvelli á Hólmsheiði en þyrftu engan veginn að lenda í Vatnsmýrinni, þar sem Reykjavíkurflugvöllur er nú. Og 75-80% landsmanna er nú þegar eingöngu sinnt með sjúkrabílum og þyrlum.

Í árslok 1994, þegar Þyrluvaktin hafði starfað hér í einungis átta ár og bjargað lífum á annað hundrað manna
:

"Útköll yfir landi eru 55% af heildarútköllum. [...] Í 15-20% tilvika hefur veður meðan á flugi stendur verið mjög vont, sem þýðir að vindhraði er meiri en 40 hnútar og skyggnið mjög lítið, stundum ísing, oft í myrkri og staðhættir erfiðir, eða flogið um misvindabelti eða nærri fjallshlíðum og -tindum eða jöklum.

Langflestir þeirra sem fluttir hafa verið, eru karlmenn á aldrinum 20 til 40 ára og algengasta ástæða fyrir flutningi er slys af einhverjum toga. Læknarnir hafa þurft að síga niður úr þyrlunni á jökla, fjöll og í skip í tæpum 20% ferðanna."

Árið 1994: Þyrluvakt lækna í 8 ár - Hafa bjargað lífum á annað hundrað manna


Nú, fimmtán árum síðar, eru þyrlur og flugvél Landhelgisgæslunnar hins vegar mun fullkomnari. 1. júlí síðastliðinn fékk Gæslan nýja flugvél, TF-SIF, af gerðinni Dash 8 Q300 og flugvélin sérhönnuð til eftirlits-, leitar-, björgunar- og sjúkraflugs.

"Vélar af tegundinni Dash 8 Q300 eru þekktar fyrir að geta athafnað sig á mjög stuttum flugbrautum, ennfremur þola þær talsverðan hliðarvind eða um 36 hnúta. Flugdrægi vélarinnar er um 2100 NM, auk 45 mínútna varaeldsneytis. [...] Möguleikar til leitar- og björgunar munu aukast gríðarlega, sérstaklega á hafi úti en einnig á landi. [...]

Notkunarmöguleikar flugvélarinnar til öryggis- og löggæslu, eftirlits, leitar og björgunar sem og sjúkraflugs eru nánast ótakmarkaðir. [...] Meðal annars býr vélin yfir öflugri infrarauðri myndavél sem bæði getur tekið myndir frá hlið og beint fram, jafnt að nóttu sem degi."

Sumarið 2000 var enginn samningur í gildi um sjúkraflug á landinu, nema á Vestfjörðum, og því ekkert formlegt skipulag á því. Þá var kostnaður við hefðbundið sjúkraflug innanlands með flugvél á bilinu 145-170 þúsund krónur og greiddist í flestum tilfellum af Tryggingastofnun.

Árið 2005 lentu flugvélar 284 sinnum með sjúklinga á Reykjavíkurflugvelli og heildarkostnaðurinn við þetta flug á núvirði væri um 80 milljónir króna, miðað við 158 þúsund krónur fyrir hvert flug árið 2000.

Flugvöllur á Hólmsheiði yrði einungis í 15 kílómetra fjarlægð frá Gamla miðbænum í Reykjavík og áætlaður ferðatími þangað frá flugvellinum er 15 mínútur, samkvæmt skýrslu frá september 2006 um framtíðarflugvallarstæði í Reykjavík. Hæð yfir sjó yrði 135 metrar, en Keflavíkurflugvöllur er í 52ja metra hæð, og aðalbraut lægi AV en þverbraut NS.

Blindaðflug yrði mögulegt úr austri og vestri og Hólmsheiði fær góða eða þokkalega einkunn fyrir alla flugstarfsemi, þar með talið sjúkraflug, sem fær þokkalega einkunn.

Heildarkostnaður við flugvöllinn yrði um tíu milljarðar króna en frá þeirri upphæð dregst andvirði verðmætasta byggingarlandsins í Reykjavík, 135 hektarar innan girðingar í Vatnsmýrinni, og Samtök um betri byggð töldu árið 2001 að það byggingarland væri að minnsta kosti fjörutíu milljarða króna virði.

Þorsteinn Briem, 6.11.2009 kl. 09:06

31 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Ég held, að Hólmsheiði, sé alveg úti í hött, sem flugvallar stæði.

Hæð yfir sjávarmáli, og vindafar - myndi gera slíkan flugvöll miklu mun minna notadrjúgan, en núverandi flugvöll.

Mun skárri flugvöllur, miðað við þær forsendur, væri flugvöllur byggður úti á sjó, milli skerja. En, sá er nokkur dýr, og einnig, er hann talin valda umhverfisspjöllum.

Viðkomandi flugvöllur, verður einfaldlega að vera hér áfram. 

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 6.11.2009 kl. 12:13

32 identicon

Er ekki verið að skemma þessa umræðu með flugvallarkjaftæði?

Guðmundur Bjarnason (IP-tala skráð) 6.11.2009 kl. 13:14

33 Smámynd: Þorsteinn Briem

Flugvöllur á Lönguskerjum yrði allt að tvöfalt dýrari en flugvöllur á Hólmsheiði. Frá Lönguskerjum yrðu fjórir kílómetrar og fjögurra mínútna ferðatími að Lækjartorgi, einungis 11 mínútna skemmri tími en af Hólmsheiðinni.

Flugvöllurinn á Lönguskerjum yrði á landfyllingum og hæð yfir sjó fimm metrar. Aðalflugbraut yrði AV en NS þverbraut. Áhrif á umhverfið yrðu mikil þar sem búa þyrfti til allt að 136 hektara land, sem yrði tvöfalt stærra en Örfirisey og taka þannig allt að 13 milljónir rúmmetra úr sjávarbotninum.

Þegar hvasst er getur verið særok á þessu svæði og því þyrfti að gera þar mikla sjóvarnagarða og reisa flugskýli fyrir sem flestar vélar.

Flugumferð fylgir einnig hávaði og þar með truflun fyrir þá sem búa og starfa nálægt flugvelli.

Samgöngumiðstöð
norðan við Hótel Loftleiðir er af vinnuhópi talin mjög brýn, enda þótt flugvöllurinn færi síðar úr Vatnsmýrinni.

Ný skýrsla um veðurfar við Reykjavíkurhöfn


Hagfræðistofnun reiknaði árið 2007 með 38 milljarða þjóðhagslegum ábata af flugvelli á Hólmsheiði og 18 milljarða hagnaði ríkissjóðs, 26 milljarða hagnaði borgarsjóðs og 11,5 milljarða hagnaði íbúa höfuðborgarsvæðisins.


Hins vegar yrði töluvert minni ábati af flugvelli á Lönguskerjum.

Apríl 2007: Úttekt á framtíðarstaðsetningu Reykjavíkurflugvallar - Sjá bls. 87


Á Hólmsheiði er nægt rými fyrir alhliða innanlandsflugvöll, kennsluflug, einkaflug og flugsvið Landhelgisgæslunnar.


Þar var að meðaltali 79,8% loftraki árin 2006 og 2007 en 75,3% í Vatnsmýrinni.

Meðalvindhraði
á Hólmsheiðinni á þessu tímabili var 6,6 m/s en í Vatnsmýrinni 5,4 m/s og tíðni vindátta var áþekk.

Og á Hólmsheiðinni var meðalhitinn 4,5 gráður, eða 1,1 gráðu lægri en á Reykjavíkurflugvelli og Keflavíkurflugvelli.

Veðurmælingar á Hólmsheiði, Reykjavíkurflugvelli og Keflavíkurflugvelli


Hins vegar var meðalhitinn á Hólmsheiðinni árin 2006 og 2007 trúlega eins og hann var á Reykjavíkurflugvelli árið 1975.

Hlýnað hefur hérlendis um 0,35°C á áratug frá árinu 1975, um 1,1 gráðu, sem er nokkru meira en hnattræn hlýnun á sama tímabili.

Veðurstofa Íslands - Loftslagsbreytingar


Meðalhiti eftir mánuðum í Reykjavík á árunum 1961-1990 var á bilinu 0-10°C, kaldast í desember og janúar, þegar meðalhitinn fór rétt niður fyrir frostmark, en heitast í júlí og ágúst.

Og búast má við áframhaldandi hlýnun í Reykjavík næstu áratugina.


Veðurstofa Íslands - Hnattrænar breytingar loftslags og áhrif þeirra á Íslandi - Sjá bls. 17


Þannig reiknar Verkfræðistofa Sigurðar Thoroddsen með að sjávarstaðan við Reykjavík hafi hækkað um 80 sentímetra árið 2100 og 205 sentímetra árið 2200 vegna landsigs og gróðurhúsaáhrifa.

Sjávarstaðan hækkar því mikið við Löngusker á næstu áratugum og færir þau í kaf. Og væntanlega þarf að hækka sjóvarnargarða í Reykjavík.

Austurhöfnin - Minnisblað VST um sjávarstöðu í Reykjavík - Sjá bls. 19

Þorsteinn Briem, 7.11.2009 kl. 00:34

34 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Mælingar fyrir Vatnsmýrina ná yfir miklu lengra tímabil, svo þær er betra á að treysta.

------------------------

Verðmæti byggingalands, er sennilega stórlega ofmetið. En, það mat kemur frá því tímabili er engin endamörk virtust vera á útþenslu Reykavíkur, út eftir ströndinni. En fullljóst er, að mörg ár eru í að, landverð nái nokkuð nálægt því þeim hæðum er það var í, á umliðnum áratug.

Best, að gefa "healthy discount" á þau verðviðmið, er eru í þeirri skýrslu.

--------------------------

Á sama tíma, er kostnaður við framkvæmdir nálægt óbreyttur.

---------------------------

Umhverfisáhrif, af framræstingu Vatnsmýrar, hafa ekki verið metin en eru veruleg.

---------------------------

Ergo - ég hef enga tiltrú á þeirri skýrslu, er þú vitnar í.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 7.11.2009 kl. 02:30

35 Smámynd: Þorsteinn Briem

Einar Björn.

Mér er nákvæmlega sama hverju þú trúir. Mínar skoðanir byggjast ekki á trúarbrögðum, hvorki í þessum efnum né öðrum. Skoða verður allar staðreyndir á sem flestum sviðum í hverju máli fyrir sig og mynda sér að lokum skoðun út frá þeim staðreyndum sem fyrir liggja, en vera tilbúinnbreyta skoðuninni, og jafnvel skipta um skoðun, ef nýjar staðreyndir koma fram í málinu.

Því miður breyta hins vegar margir aldrei um skoðun á nokkru máli, sjá svart þar sem hvítt er fyrir framan þá, og sjá aldrei lengra fram fyrir sig en nef þeirra nær, enda flestir með Gosanef. Þeir hugsa aldrei um hag þjóðarinnar, eingöngu um sjálfa sig og að hygla sínum vinum og kunningjum á kostnað heildarinnar. Því er nú illa komið fyrir þjóðinni.

Og það er afar sjaldgæft að karlmenn komnir yfir fimmtugt skipti um skoðun á nokkrum sköpuðum hlut. Þess vegna var ég nú ekki að setja þessar upplýsingar saman hér fyrir þig persónulega, elsku kallinn minn.

Þorsteinn Briem, 7.11.2009 kl. 04:20

36 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Ánæglujegt að heyra það - en þ.e. full ástæða að ætla, að verð á landi í höfuðborginni, verði umtalsvert lægri næstu 15 árin, en 15 árin á undan.

Síðan, veit ég ekki til þess, og sennilega ekki þú heldur, að nokkur rannsókn hafi verið gerð á því, hvaða hliðaráhrif þurrkun Vatnsmýrar hefur.

  • Vatnsmýrin, er uppspretta vatns - sem rennur þaðan í Tjörnina, og síðan þaðan eftir Læknum - sem enn er til staðar, þó ekki á yfirborði.
  • Varpland fugla, er hafast við á Tjörninni hverfur.
  • Reikna má með að yfirborð grunnvatns, á svæðum nálægt Vatnsmýrinni, lækki.
  • Reynsla er af því erlendis, að þegar grunnvatsnborð lækkar - þ.s. jarðvegur er þikkur, en hann er það í Vatnsmýrinni og víða í næsta nágrenni, þá skreppi hann nokkuð saman - sem getur valdir skemmdum á mannvirkjum sem annað af tveggja, eru byggða ofan á slíkum jarðvegi eða liggja yfir slík svæði.
  • Málið hefur einfaldlega ekki verið vel unnið, fram að þessu. Vantar heilmikið upp á, að raunkostnaður sé í reynd, vitaður.

Persónulega, vil ég alls ekki hafa þarna íbúabyggð. Ef, á að nota svæðið í e-h annað, held ég að gott tækifæri gæti verið, að umbreyta þessu svæði í vatna og náttúruparadís, þ.e. vinna vatnasvæðið þarna að fullu til baka á ný.

Þarna gæti myndast, mjög áhugavert svæði, bæði fyrir ferðamenn og Reykvíkinga.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 7.11.2009 kl. 18:53

37 Smámynd: Þorsteinn Briem

Þyrlur Landhelgisgæslunnar fljúga á um fimm kílómetra hraða á mínútu, þannig að það tæki þær um þrjár mínútur að fljúga með sjúkling af flugvelli á Hólmsheiðinni á þyrlupall við Landspítalann við Hringbraut, ef á þyrfti að halda, svipaðan tíma og tekur að aka sjúklingi af Reykjavíkurflugvelli í Vatnsmýrinni á Landspítalann.

Fjórar mínútur
tæki að aka frá flugvelli á Lönguskerjum að Lækjartorgi, einungis 11 mínútum skemur en 15 kílómetra leið af flugvelli á Hólmsheiði, þar sem flugsvið Landhelgisgæslunnar yrði staðsett.

Í ársbyrjun 2006 var markaðsvirði byggingaréttar á 123 hekturum í Vatnsmýrinni 74,5 milljarðar króna án gatnagerðargjalda, rúmlega 600 milljónir króna á hektara, og um 37 þúsund krónum hærra á fermetra en í útjaðri borgarinnar.

Apríl 2007: Úttekt á framtíðarstaðsetningu Reykjavíkurflugvallar, bls. 64-65


Verðið hefur væntanlega lækkað töluvert frá þessum tíma en það hækkar að sjálfsögðu aftur.

Best er að flestir búi sem næst sínum vinnustað og mikilvægt
er að þétta byggðina í Reykjavík.

Bílaeign Reykvíkinga jókst um þriðjung frá árinu 1995 til 2004, þegar Reykjavík varð áþekk bandarískum bílaborgum. Árið 2004 var 591 einkabíll á hverja eitt þúsund íbúa í Reykjavík, sem er svipað og í Bandaríkjunum, og 76% allra ferða íbúa á höfuðborgarsvæðinu voru þá farnar í einkabíl. 

Byggt land á höfuðborgarsvæðinu var um 6.500 hektarar árið 2004 og þá bjuggu þar einungis 28,8 íbúar á hektara, svipað og í bandarískum borgum. Og þar af var byggt land í Reykjavík um 3.500 hektarar.

Reykjavíkurborg í febrúar 2006: Samgönguskipulag í Reykjavík


Sjálf Vatnsmýrin er einungis lítill hluti af Vatnsmýrarsvæðinu, sem er "svæði í Reykjavík fyrir austan Melana og Grímsstaðaholt, sunnan við Tjörnina, vestan Öskjuhlíðar og norðan Nauthólsvíkur."

Vatnsmýrin á milli Hringbrautar, Norræna hússins og Háskólavallar
, sem nú er bílastæði, hefur verið friðuð. Og þegar færa átti Njarðargötu á 650 metra löngum kafla frá Hringbraut til suðvesturs að Eggertsgötu, taldi Skipulagsstofnun að hægt yrði að tryggja vatnsrennsli til Tjarnarinnar og aðkomuleiðir fyrir fugla inn á þetta svæði.

Ný bensínstöð ESSO við Hringbraut, skammt frá Tjörninni, var opnuð í ársbyrjun 2007 og þá kom fram að "vegna nálægðar við viðkvæm svæði lúti frágangur stöðvarinnar ströngustu umhverfisskilyrðum sem gerð hafi verið um slíkan rekstur á landinu til þessa."

Í Vatnsmýrinni er flugvöllur, þar sem flugvélaeldsneyti er geymt í tönkum og fjöldinn allur af flugvélum tekur eldsneyti. Og væntanlega er meiri mengunarhætta af flugvallarstarfsemi en íbúðabyggð.

Staðsetning eldsneytistanka á Reykjavíkurflugvelli, sjá bls. 91


Í verðlaunatillögu frá 14. febrúar 2008 um 4.500 manna byggð í Vatnsmýrinni er gert ráð fyrir að þriðjungur hennar verði almenningsgarðar og græn svæði
, þar sem "Hljómskálagarðurinn er stækkaður til suðurs og ný tjörn umkringd fjölda nýrra bygginga gerð að miðpunkti Vatnsmýrarinnar." Um mengunarmál sjá bls. 34-36:

Verðlaunatillaga Graeme Massie, Stuart Dickson, Alan Keane, Tim Ingleby, Edinborg


Skipulagssjá - Smelltu á viðkomandi hverfi til að fá upplýsingar um skipulagið


"Kvosin í Reykjavík liggur mjög lágt og áður fyrr vatnaði oft upp í niðurföll við háa sjávarstöðu. Þegar hafnargarðarnir voru ekki komnir flæddi oft yfir malarkambinn við Hafnarstræti og alla leið inn í Tjörn.

Nú verja hafnargarðarnir fyrir slíkum flóðum og vegna þess að öllum skólpræsum út í Höfnina hefur verið lokað og skólpinu og afrennsli Tjarnarinnar dælt út í sjó annars staðar, flæðir skólp ekki lengur eftir skólpleiðslum upp í niðurföll og inn í kjallara."

Trausti Valsson, prófessor við HÍ: Áhrif sjávarstöðubreytinga á skipulag við strönd

Þorsteinn Briem, 8.11.2009 kl. 14:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband